Starbucks sítrónukaka

Þegar ég bjó í Seattle pantaði ég mér oftar en ekki sneið af Lemon pound cake á Starbucks ef það var ekki Birthday Cake Pop, Bacon Breakfast Sandwich eða Frappucchino :)
Þar sem við erum nokkrar vinkonurnar á leið í húsmæðraorlof þangað í maí fór ég að hugsa um allt sem við þyrftum að gera og borða….já borða! Það er nefnilega æði margt sem ég sakna að geta ekki keypt mér dags daglega, líkt og þessi dásamlega sítrónukaka.

Ég googlaði þessa uppskrift og sá að það eru til æði margar Copycat síður sem bjóða upp á hinar ýmsu Starbucks uppskriftir og þetta líklega bara sú fyrsta sem ég ætla að prófa. Hér er hún að minnsta kosti fyrir ykkur að njóta!

Kakan

 • 3 egg
 • 190 gr sykur
 • 60 gr smjör (við stofuhita)
 • 1 tsk vanilludropar
 • 2 tsk sítrónudropar
 • 3 msk sítrónusafi
 • 210 gr hveiti
 • 1 tsk lyftiduft
 • ½ tsk matarsódi
 • ½ tsk salt
 • 100 ml matarolía (ljós)
 • Rifinn börkur af einni sítrónu
 1. Þeytið saman egg, sykur og smjör þar til létt og ljóst.
 2. Bætið þá vanillu- og sítrónudropum saman við ásamt sítrónusafa.
 3. Því næst fara þurrefnin saman við og blandað rólega saman þar til deigið verður slétt og fallegt.
 4. Að lokum er matarolíunni og sítrónuberkinum blandað saman við og hrært vel.
 5. Smyrjið formkökuform vel eða notið matarolíusprey og bakið í 170°C heitum ofni í 40-45 mínútur eða þar til prjónn kemur út með engri kökumylsnu.

Sítrónuglassúr

 • 250 gr flórsykur
 • 3-4 msk nýmjólk
 • 1 tsk sítónudropar

Blandið öllu saman í skál þar til slétt og hellið/smyrjið yfir kökuna.

Frábærlega flippuð Flipperkaka

Í dag er Öskudagurinn og er skemmtileg hefð hér í Leirvogstunguhverfinu að börnin ganga í hús og syngja fyrir nammi síðdegis. Enginn þarf að fara úr hverfinu sínu og allir koma glaðir heim með fulla poka af góðgæti. Ég verð að segja að hvergi er betra að búa en hér í „sveitinni“ þar sem allir eru alltaf tilbúnir að taka þátt í svona skemmtilegheitum.

Við erum líka nokkrar mömmur sem höfum tekið okkur saman undanfarin ár og boðið öllum stelpunum í bekknum hjá miðjunni minni í Öskudagspartý að loknu nammirölti. Þá koma allar stelpurnar í bekknum saman, fá heimabakaða pizzu ala Lillý, köku og gotterí og horfa síðan á mynd.

Ég hef tekið að mér kökugerð sem kemur kannski ekki á óvart og í dag ákvað ég að prófa eitthvað skemmtilega flippað. Þar sem ég ELSKA Flipper nammi ákvað ég að búa til eitthvað einfalt en óhefðbundið og þetta varð útkoman, svona frábærlega flippuð Flipperkaka!

Kakan er 1 x Betty Crocker Devils Food Cake mix, skipt í 2 x 20 cm form. Súkkulaðismjörkrem er sett á milli og vanillusmjörkrem notað í skreytinguna að utan (hvítt grunnlag og svo alls konar litir dregnir saman yfir grunnlagið).

Ég setti stóru Flipperana á grillprik sem ég síðan braut af og stakk í kökuna. Stelpurnar eru 12 í bekknum og það rétt hafðist að koma 12 Flipperum hringinn. Síðan setti ég minni Flippera hringinn í kringum kökuna og sykurperlu á milli þeirra líkt og þeir væru að leika með bolta.

Já krakkar mínir, það þarf svo sannarlega ekki alltaf að vera flókið, ekki einn einasti sprautustútur notaður og kremið má vera skemmtilega ójafnt og einhvern veginn svo lengi sem það er nógu marglitað :)

Mæli með þið prófið! Þetta sló svo sannarlega í gegn hjá stelpunum í 3ÁF í Varmárskóla í dag :)

 

Bolla bolla

Í síðustu viku sýndi ég hvernig baka ætti vatnsdeigsbollur á Instastory hjá Gott í matinn, matargerðarlínu MS. Ég gerði tvær mismunandi fyllingar, aðra jarðaberja og hina súkkulaði og get ég ekki gert upp á milli hvor mér fannst betri.

Hér fyrir neðan getið þið fundið uppskriftirnar í máli og myndum.

Vatnsdeigsbollur

 • 125 gr smjör frá Gott í matinn
 • 230 ml vatn
 • 150 gr hveiti
 • ½ tsk salt
 • 1 tsk lyftiduft
 • 2 egg
 1. Hitið ofninn 185°C.
 2. Bræðið smjörið í potti og hellið vatninu þá saman við, hitið að suðu og leyfið síðan hitanum að rjúka aðeins úr.
 3. Blandið saman hveiti, lyftidufti og salti og hrærið saman við smjörblönduna með sleif þar til kekkjalaus deigkúla myndast í pottinum..
 4. Pískið saman eggin í skál og leggið til hliðar.
 5. Flytjið deigkúluna yfir í hrærivélarskál með K-inu. Leyfið mesta hitanum að rjúka úr með því að hræra deigið á lægsta hraða stöku sinnum í um 10 mínútur.
 6. Bætið þá eggjablöndunni saman við í litlum skömmtum og skafið niður í milli. Deigið þarf að vera nægilega þykkt til að það leki ekki niður þegar á plötuna er komið svo skiljið frekar smá eftir af eggjablöndunni fremur en að fá of þunnt deig en venjulega er hægt að nota bæði eggin (ekki nema þau séu mjög stór).
 7. Notið skeiðar eða sprautupoka og skiptið niður í 16-18  bollur á 2 bökunarplötum íklæddum bökunarpappír.
 8. Bakið í 20-25 mínútur og alls ekki opna ofninn fyrr en að 15 mínútum liðnum í það minnsta því annars er hætta á að bollurnar falli.
 9. Kælið og útbúið glassúr og fyllingu á meðan. Athugið að nóg er að útbúa aðra hvora fyllinguna fyrir þennan fjölda af bollum eða minnka hvora um sig um helming.

bolla

Jarðaberjafylling

 • 400 ml rjómi frá Gott í matinn
 • 2 msk sykur
 • 250 gr fersk og vel stöppuð jarðaber (eða maukuð í blandara)
 1. Þeytið saman sykur og rjóma.
 2. Vefjið stöppuðum jarðaberjum saman við rjómann og sprautið á hverja bollu.

Súkkulaðifylling

 • 400 ml rjómi frá Gott í matinn
 • 200 gr Heslihnetusmjör
 1. Þeytið rjómann.
 2. Vefjið súkkulaðismjörinu saman við blönduna og sprautið á hverja bollu (leyfið marmaraáferðinni að halda sér svo ekki hræra of mikið).

Súkkulaðiglassúr

 • 100 gr smjör frá Gott í matinn (brætt)
 • 350 gr flórsykur
 • 2 msk bökunarkakó
 • 2 tsk vanilludropar
 • 2 msk kaffi
 • 2 msk vatn

Setjið öll hráefnin saman í skál og pískið saman, smyrjið á bollurnar með skeið/litlum spaða.

aIMG_1931

Gaman að setja kökuskraut, hnetukurl eða annað lítið sælgæti á toppinn til skrauts.

 

Vatnsdeigs-vanillulengjur

Þessar lengjur prófaði ég í fyrra og var svo sein að setja inn fyrir bolludaginn að ég ákvað bara að að geyma uppskriftina. Mig langaði svo að prófa að gera lengjur þar sem það er stundum pínu klaufalegt að borða bollu með rjóma og allt fer út um allt :) Hugsaði  með mér það gæti verið sniðugt að hafa lengjur og það var alveg rétt, mæli klárlega með því!

Myndi reyndar mæla með að gera þær enn mjórri en ég er með þær því þær stækka svo mikið við bakstur.

Vatnsdeigs-vanillulengjur

 • 160 gr smjör
 • 400 ml vatn
 • ½ tsk salt
 • 210 gr hveiti
 • 5 lítil egg (eða 4 stór)
 1. Hitið ofinn 200°C og gerið 2 bökunarplötur með smjörpappír tilbúnar.
 2. Bræðið smjör og hellið vatni út í og hitið að suðu, takið þá pottinn af hellunni og leyfið að rjúka úr blöndunni stutta stund og færið yfir í hrærivélarskál með K-inu.
 3. Setjið öll eggin í skál og pískið saman, setjið til hliðar.
 4. Bætið salti og hveiti saman við smjörblönduna og blandið saman, því næst smá og smá af eggjablöndunni saman við og skafið vel niður á milli.
 5. Setjið deigið í sprautupoka/zip-lock og notist við um 1,5cm stút eða klippið gat á pokann.
 6. Sprautið í lengjur og bakið í um 20-25 mínútur eða þar til lengjurnar eru vel gylltar (ekki opna ofninn á meðan bakað er).

Vanillufylling

 • 1 pk Royal vanillubúðingur blandaður í 400ml mjólk, kældur samkvæmt leiðbeiningum.
 • 500  ml stífþeyttur rjómi

 1. Smyrjið vanillubúðing á hverja lengju og því næst þeyttum rjóma (c.a 2/3 búðingur og 1/3 rjómi á hverri lengju eða eins og þið óskið)

Súkkulaðiglassúr

 • 7 dl flórsykur
 • 4 msk bökunarkakó
 • 3 tsk vanilludropar
 • 3 msk kaffi
 • 2-3 msk vatn
 • 3 msk brætt smjör
 1. Hrærið öllum hráefnunum saman í hrærivélarskálinni þar til slétt og fellt glassúkrem hefur myndast. Smyrjið á hverja lengju að vild.

Sælgætisbitar með piparmöndlum

Sælgætisbitar með piparmöndlum

 • 300 gr suðusúkkulaði
 • 50 gr Til hamingju piparmöndlur
 • 50 gr mini-sykurpúðar
 • 50 gr lakkrískurl

 1. Klæðið um 20 x 20 cm form með bökunarpappír.
 2. Bræðið suðusúkkulaðið og hellið um 2/3 af blöndunni á botninn og sléttið úr.
 3. Saxið piparmöndlurnar niður og stráið yfir súkkulaðiblönduna ásamt lakkrískurlinu og um 30 gr af sykurpúðum.
 4. Hellið þá restinni af súkkulaðinu yfir og sléttið úr eins og mögulegt er og hjúpið þannig nammið og möndlurnar.
 5. Stráið að lokum restinni (um 20 gr) af sykurpúðum ofan á blönduna og ýtið aðeins á eftir þeim til að þeir festist vel.
 6. Frystið/kælið og skerið í litla kubba þegar storknað.

Mmmm þessir molar eru sko nokkrum númerum of góðir :)

Skráning á námskeið á vorönn hafin!

LOKSINS er hægt að skrá sig á námskeið á vorönn, sjá hvað er ég boði hér fyrir neðan og nánari upplýsingar um öll námskeið má finna hér.

NÝTT NÁMSKEIÐ – NAKED CAKE er komið á dagskrá og tilvalið fyrir komandi vor og sumarveislur, þessar kökur passa dásamlega vel með hækkandi sól!

Gulrótar-Naked Cake

Betri helmingurinn varð fertugur á dögunum og þar sem ég eeeeeeeeeelska naked cakes ákvað ég eðlilega að prófa eitthvað nýtt í þeim efnum.

Hér er á ferðinni Betty gulrótarkaka með vanillu smjörkremi á milli, skreytt með hvítu Betty vanilla frosting að utan (til að fá alveg hvítt) og ferskum blómum. Það voru dásamlegal fallegar antik bleikar nellikur í Blómaval þennan daginn svo ég fór frá því að kaupa rósir og yfir í þær.

Kaka

 • 1 x Betty Crocker gulrótarkökublanda
 1. Blandið kökumixinu samkvæmt leiðbeiningum á pakka og skiptið í 3 x 15 cm stór kökuform og kælið botnana.
 2. Skerið ofan af hverjum botni það sem þarf til þess að þeir verði vel sléttir og staflist betur.

Krem

 • 125 gr smjör (við stofuhita)
 • 400 gr flórsykur
 • 2 tsk vanilludropar
 • 2 msk sýróp (pönnukökusýróp)
 1. Setjið öll hráefnin nema flórsykur í hrærivélarskálina og hrærið vel saman. Bætið þá flórsykri saman við í litlum skömmtum, skafið niður á milli og hrærið þar til slétt og fallegt.
 2. Smyrjið góðu lagi af kremi á milli botnanna (2 lög) og þunnu lagi á toppinn til að binda alla kökumylsnu þar.

Skreyting

 • 1 dós Betty Crocker Vanilla Frosting
 • 125 gr flórsykur
 • Fersk blóm að eigin vali
 1. Blandið saman Betty frosting og flórsykri.
 2. Smyrjið þunnu lagi utan um alla kökuna og yfir vanillukremið á toppnum. Þið viljið fá þekjandi og fallega áferð á toppinn en skafa vel af hliðunum svo það sjáist í hliðarnar á kökunni.
 3. Klippið blóm til, plastið endana og stingið í kökuna.

Piparmöndlubitar

aIMG_1196

Súkkulaðibitar með piparmöndlum

 • 250 gr 70% súkkulaði
 • 100 gr mjólkursúkkulaði
 • 150 gr Til hamingju piparmöndlur

aIMG_1203

 1. Bræðið báðar tegundir af súkkulaði í sitthvorri skálinni.
 2. Klæðið um 20 x 20 cm form með bökunarpappír.
 3. Hellið fyrst 70% súkkulaðinu og sléttið úr, dreifið þessu ljósa síðan óreglulega yfir og dragið það saman við þetta dökka með endanum á skeið (með þessu móti myndast marmaraáferð á súkkulaðið).
 4. Saxið piparmöndlurnar niður og stráið yfir súkkulaðiblönduna strax þegar þið hafið blandað ljósa súkkulaðinu saman við það dökka.
 5. Frystið/kælið og brjótið í hæfilega stóra bita þegar storknað.

aIMG_1192

Skírnarterta

Í desember skreytti ég þessa skírnarköku fyrir lítinn vin minn sem fékk nafnið Viktor Breki.

Mamma hans hafði ákveðna hugmynd að skreytingu, litasamsetningu og slíku og fannst okkur takast vel til.

Kakan er á tveimur hæðum, 3 x 20 cm botnar (teknir í tvennt = 6 þynnri botnar) á neðri hæð og 3 x 15 cm botnar (teknir í tvennt = 6 þynnri botnar) á efri hæð (pappaspjald og súlur á milli).Botnarnir eru Betty Crocker, súkkulaðismjörkrem á milli og vanillusmjörkrem í skreytingu utan á. Nákvæmari upplýsingar um magn og aðferð getið þið fundið undir Skírnarveisla hér í annarri færslu síðan í fyrra nema nú var blátt þema en ekki bleikt.

 

Heslihnetu hrískökur

Heslihnetu hrískökur

 • 70 g smjör
 • 200 g suðusúkkulaði
 • 7 msk sýróp
 • 150 g Rice Krispies
 • 100 g hakkaðar möndlur 

 

 1. Hitið saman smjör, suðusúkkulaði og sýróp, hrærið vel í allan tímann.
 2. Þegar bráðið saman er gott að leyfa blöndunni að sjóða í um tvær mínútur og taka af hellunni í framhaldinu.
 3. Bætið Rice Krispies saman við ásamt hökkuðum möndlum (geymið þó nokkrar msk af möndlum til skrauts).
 4. Setjið í lítil pappaform, stráið restinni af möndlunum yfir og kælið.
 5. Blandan gefur um 50 litla bita.