Burritorúllur

Hér eru á ferðinni burritorúllur sem rjúka út á augabragði í hverri einustu veislu!

Samsetningin er einföld og fljótleg og gleður unga sem aldna.

Burritorúllur

 • Burritokökur
 • Skinka
 • Ostur
 • Kál og tómatar
 • Pítusósa

Samsetning

 1. Sneiðið ost og leggið nokkrar sneiðar yfir um það bil hálfa kökuna.
 2. Raðið næst skinkusneiðum ofan á ostinn.
 3. Þá fer pítusósan ofan á og loks kál og þunnt skornir tómatar.
 4. Rúllið þétt upp og skerið í bita, gott að stinga tannstöngli í bitana svo þeir haldist betur þegar þeim er raðað á disk.

Þessi færsla er unnin í samstarfi við Vogabæ

Áfram Ísland ostabakki

Ég setti saman þennan skemmtilega ostabakka um daginn fyrir Óðalsosta. Íslensku fánalitirnir eru ráðandi á bakkanum sem samanstendur af dásamlegum Óðalsostum. Á bakkanum eru eftirfarandi ostar (í teningum og ostapinnum): Búri, Tindur, Gouda sterkur, Havarti pipar, Havarti krydd,. Á bakkanum er að auki að finna salami, eldstafi, jarðaber, bláber, kex og ostapinna (með kjötbollum í hoi sin, papriku eða bláberjum).

Litlu fánarnir fást til dæmis í Tiger en ég hef heyrt þeir fáist víðar og eru skemmtilegir þegar Eurovision, HM eða annað skemmtilegt er í gangi!

Ég setti nöfnin á ostunum á hverja krukku með litlum miða og fannst gestunum þetta æðislegur bakki og vildu ólmir prófa mismunandi osta.

Það er alltaf gaman að gera „ostakúlu“ en þá sker ég melónu til helminga, tæmi innan úr henni og klæði með álpappír, útbý síðan fullt af ostapinnum og sting í hana.

Ó hann var svo fallegur og bragðgóður þessi og mér fannst erfitt að hætta að mynda hann!

Gott er að hafa litla tannstöngla til hliðar í skál til að næla sér í ostateninga.

Havartí krydd er í uppáhaldi á þessu heimili og reyndar líka nýji Havartí pipar en hann má nota í ýmsa matargerð.

Vanillu naked-cake

Hér kemur enn ein útfærslan af Betty „naked cake“ hjá mér, að þessu sinni með vanillubragði!

Kaka

 • 1 x Betty Crocker vanillumix
 1. Blandið kökumixinu samkvæmt leiðbeiningum á pakka og skiptið í 3 x 15 cm stór kökuform og kælið botnana.
 2. Skerið ofan af hverjum botni það sem þarf til þess að þeir verði vel sléttir og staflist betur.

Krem

 • 125 gr smjör (við stofuhita)
 • 400 gr flórsykur
 • 2 tsk vanilludropar
 • 2 msk sýróp (pönnukökusýróp)
 1. Setjið öll hráefnin nema flórsykur í hrærivélarskálina og hrærið vel saman. Bætið þá flórsykri saman við í litlum skömmtum, skafið niður á milli og hrærið þar til slétt og fallegt.
 2. Smyrjið góðu lagi af kremi á milli botnanna (2 lög) og þunnu lagi á toppinn til að binda alla kökumylsnu þar.

Skreyting

 • 1 dós Betty Crocker Vanilla Frosting
 • 125 gr flórsykur
 • Fersk blóm og makkarónur
 1. Blandið saman Betty frosting og flórsykri.
 2. Smyrjið þunnu lagi utan um alla kökuna og yfir vanillukremið á toppnum. Þið viljið fá þekjandi og fallega áferð á toppinn en skafa vel af hliðunum svo það sjáist í hliðarnar á kökunni.
 3. Klippið blóm til, plastið endana og stingið í kökuna ásamt makkarónum.

Mini aspasstykki

Þessi aspasstykki gerði ég um síðustu helgi og hef ekki getað hætt að hugsa um þau síðan!

Ég hef nú oftar en mig langar að vita keypt mér dásemdar aspasstykki í Bakarameistaranum og því ákvað ég að gera smá tilraun með slík hér heima. Hugsaði fyrst að skera rauf í stórt baguette og síðan skera það í bita þegar búið væri að hita (eflaust alveg gott þannig líka) en svo sá ég þessi smábrauð í frystinum í Krónunni og þá var ekki aftur snúið.

Ég held reyndar að allt með Skinkumyrju sé gott, get svo svarið það, skinkuhorn, brauð, hrökkbrauð eða núna aspasstykki!

Þetta væri hægt að útbúa kvöldinu fyrir veislu eða afmæli og síðan bara hita þegar gestirnir eru væntanlegir, skal lofa ykkur að þið eigið eftir að slá í gegn ef þið bjóðið upp á þetta!

Mini aspasstykki

 • 2 x skinkumyrja
 • 1 x skinkubréf
 • 1 niðursoðin dós af aspas
 • 3 msk majones
 • 15 stk smábrauð (baguette)
 • Rifinn ostur
 • Paprikuduft
 1. Afþýðið smábrauðin, skerið vasa í hvert og fjarlægið aðeins innan úr brauðinu til að koma vel af fyllingu fyrir.
 2. Skerið skinkuna í litla bita og hellið safanum af aspasinum.
 3. Blandið því næst skinku, aspas, majonesi og skinkumyrju saman í skál og hrærið vel saman.
 4. Setjið blöndu í hvert smábrauð (um það bil 2 góðar matskeiðar í hvert brauð).
 5. Stráið rifnum osti yfir og kryddið með paprikudufti.
 6. Bakið í um 15 mínútur við 190°C eða þar til brauðið fer að brúnast og osturinn að gyllast.

Jomm nomm!

Partýpizzur

Það er fátt meira spennandi í veislum en mini-pizzur og hvað þá heimabakaðar!

Þessa pizzubotna uppskrift fékk ég hjá Lillý nágranna og hef ekki gert aðra uppskrift síðan. Hana má að sjálfsögðu nota til að útbúa venjulegar pizzur en þá skiptum við deiginu í 3 hluta/pizzur. Að þessu sinni ákváðum við að gera mini pizzur fyrir partý og uppskriftin gaf um 50 pizzur. Restina settum við svo í frystinn til að grípa með í nesti í skólann/tómstundir.

Hér kemur uppskriftin fyrir ykkur!

Partýpizzur

 • 10 dl hveiti
 • 1 poki þurrger
 • 2 tsk salt
 • 4 dl volgt vatn
 • 3 msk matarolía
 • E. Finnsson pizzasósa
 • Ostur og álegg

 1. Þurrefnin hrærð saman og volgu vatni og matarolíu blandað saman við.
 2. Hrært með króknum þar til falleg kúla hefur myndast. Spreyið skál með matarolíu, veltið deiginu upp úr, plastið og leyfið að hefast í 1 klst.
 3. Smyrjið með pizzasósu, stráið osti yfir og að lokum því áleggi sem þið viljið.
 4. Við söxuðum pepperoni á hluta en hluti var bara margarita. Til þess að útbúa hringina notuðum við litla plastskál og þið getið í raun gert þá stærð sem ykkur hentar.

Þessar pizzur slógu rækilega í gegn og mæli ég með því þið prófið!

Þessi færsla var unnin í samstarfi við Vogabæ

 

Gulrótarkaka með pekanhnetum

Um daginn vantaði eitthvað fljótlegt með kaffinu og við ákváðum að hvíla aðeins Devils Betty tilraunirnar okkar og skelltum í eina gulrótar Betty og bættum pekanhnetum saman við. Þetta fór afar vel saman og mæli ég klárlega með því að þið prófið!

Um er að ræða 1 x gulrótar Betty mix, hrært samkvæmt leiðbeiningum á pakka og 70 gr af söxuðum pekanhnetum bætt við í lokin og bakað þar til prjónn kemur hreinn út.

Kremið er síðan 1 x Betty Vanilla Frosting að viðbættum 100 gr af flórsykri og skreytt með söxuðum pekanhnetum…..mmmmm!

Það getur verið áhættusamt að múltítaska með eina litla eins árs á hliðarlínunni og þá getur svona lagað gerst í miðri myndatöku :)

Sem betur fer var ég búin að ná nokkrum myndum svo þetta varð bara að mynda en ekki stöðva.

Sumarostabakki

Hér er á ferðinni enn einn krúttlegur ostabakki sem ég útbjó fyrir Óðals osta á dögunum. Í þetta skiptið reyndi ég að gera hann eins sumarlegan og ég gat og valdi því suðræna ávexti í björtum litum.

Þessi bakki sló í gegn og eru þessir ostar alveg dásamlegir með áleggi og ávöxtum!

Á bakkanum eru eftirfarandi ostar:

Tindur, Maribo og Havarti krydd í sneiðum, lengjum eða ostapinnum
Til viðbótar er:
Hráskinka og salami (bæði ein og sér og í ostapinnum)
Wasabi snakk
Grillað baguette
Ávextir, bæði berir og í ostapinnum (ananas, kiwi, drekaávöxtur, granatepli, hindber, vínber)
Ostapinna gerði ég á lítil grillprik og þetta fannst krökkunum alveg æðislegt!

Súkkulaði Naked Cake

Þessi kaka er einfaldlega of krúttleg!

Ég var aðeins að æfa mig fyrir komandi „Naked Cake“ námskeið í maí og jeremundur hvað ég hlakka til að vera með það!

Kaka

 • 1 x Betty Crocker Devils Food Cake Mix
 1. Blandið kökumixinu samkvæmt leiðbeiningum á pakka og skiptið í 3 x 15 cm stór kökuform og kælið botnana.
 2. Skerið ofan af hverjum botni það sem þarf til þess að þeir verði vel sléttir og staflist betur.

Krem á milli laga

 • 125 gr smjör (við stofuhita)
 • 400 gr flórsykur
 • 2 tsk vanilludropar
 • 2 msk sýróp (pönnukökusýróp)
 • Smá bökunarkakó (fyrir afgangskremið)
 1. Setjið öll hráefnin nema flórsykur í hrærivélarskálina og hrærið vel saman. Bætið þá flórsykri saman við í litlum skömmtum, skafið niður á milli og hrærið þar til slétt og fallegt.
 2. Smyrjið góðu lagi af kremi á milli botnanna (2 lög) og þunnu lagi á toppinn til að binda alla kökumylsnu þar.
 3. Bætið bökunarkakó saman við afganginn af kreminu og mögulega smá mjólk líka þar til þið fáið þétt og slétt súkkulaðikrem. Þetta krem fer í sprautupoka með stórri stjörnu með þéttum tönnum til að skreyta með í lokin.

Krem til að hjúpa og sprauta rósum og annað skraut

 • 1 dós Betty Crocker Vanilla Frosting
 • 125 gr flórsykur
 • Brúðarslör
 • Hvítt kökuskraut
 • Makkaróna/ur ef vill (má sleppa)
 1. Blandið saman Betty frosting og flórsykri.
 2. Smyrjið þunnu lagi utan um alla kökuna og yfir vanillukremið á toppnum. Þið viljið fá þekjandi og fallega áferð á toppinn en skafa vel af hliðunum svo það sjáist í hliðarnar á kökunni.
 3. Setjið hluta af kreminu í sprautupoka og notið stút 2D frá Wilton til að ná litlum „rósettum“ á toppinn.
 4. Klippið að lokum brúðarslörið til og stingið í kökuna ásamt því að strá smá hvítu kökuskrauti yfir.

Ostabakkahugmynd

Það er fátt skemmtilegra en útbúa ostabakka. Þennan útbjó ég fyrir páskana fyrir Gott í matinn og þessi samsetning sló í gegn hjá ungum sem öldnum á heimilinu!

Á bakkanum eru eftirfarandi ostar:

 • Havarti með pipar
 • Gouda sterkur
 • Cheddar
Skar þá ýmist í teninga, lengjur eða sneiðar

Annað meðlæti er:
 • Kex
 • Salami
 • Hráskinka
 • Ólífur
 • Fíkjur
 • Döðlur
 • Fíkjusulta
 • Melóna
 • Bláber
 • Hnetur

Ostabakkar eiga alltaf við, hvort sem um er að ræða í veislur eða bara fyrir kósýkvöld!

Eggjasalat

Um daginn prufaði ég að gera túnfisksalat með Vogaídýfu. Það sló heldur betur í gegn og því var ekkert annað í stöðunni en að prófa sig áfram í ídýfusalötum. Hér er að finna dúndurgott og ferskt eggjasalat með paprikuídýfu. Ég gæti trúað þetta salat kæmi líka vel út með laukídýfu!

Eggjasalat

 • 6 harðsoðin egg
 • Púrrulaukur
 • ½ rauð paprika
 • ½ – ¾  Voga ídýfa með papriku (þykkt smekksatriði)
 • Aromat
 1. Saxið púrrulauk mjög smátt (um það bil 3 msk eru passlegur skammtur í salatið).
 2. Saxið paprikuna smátt niður.
 3. Skerið eggin niður með eggjaskera á tvo vegu svo  þau fari í litla bita.
 4. Blandið öllu saman í skál og smakkið til með Aromat.