Ostabakki með Havartí piparosti

aIMG_2016

Ég hreinlega elska að útbúa ostabakka. Að dúllast og raða alls konar gúmmelaði á bakka finnst mér alveg svakalega skemmtilegt. Þennan ostabakka útbjó ég á dögunum fyrir Facebook leik hjá Óðalsostum.

Þegar ég var yngri og það komu gestir heim til mömmu og pabba pantaði ég alltaf að fá að útbúa ostabakka og koma með fram fyrir gestina, mamma mín er þessu klárlega til staðfestingar. Ég man ég losaði oft mandarínu og setti vínber eða annað í miðjuna, vínber voru lykilatriði í þá daga, ostar, banani (já banani og ritzkex fara vel saman) og alls konar góðgæti. Ég var meira að segja búin að gleyma þessu með mandarínuna og bananann svo ég mun klárlega prófa það á næsta bakka og upplifa smá nostalgíu!
aIMG_2098

Þessi ostabakki er með Havartí piparosti sem ýmist er búið að skera í sneiðar eða teninga. Ég myndi segja hann sé svona mitt á milli þess að vera eins og Gouda og Piparostur en það er auðvitað bara mitt mat. Hann passar alveg dásamlega sem ostapinnaostur og raðaði ég upp nokkrum pinnum með ólífum, grillaðri papriku, vínberjum og salami.

aIMG_2081

Á bakkanum var ég líka með baguette brauð og kex ásamt pestó, hnetum og alls konar ávöxtum.

aIMG_2002

Mæli með þið skellið í ostabakka um helgina!

aIMG_1994

Túnfisksalat með Vogaídýfu

Því var hvíslað að mér að gott væri að skipta út majonesi eða sýrðum rjóma í túnfisksalati með ídýfu! Ég elska ídýfur og því var ekkert annað í stöðunni en að prófa og drottinn minn hvað þetta var gott! Ídýfusalöt eru því komin til að vera á þessu heimili og þeir sem smökkuðu salatið spurðu ALLIR um uppskrift! Hér kemur hún því fyrir ykkur að njóta. Held ég þurfi síðan nauðsynlega að prófa fleiri tegundir af ídýfusalötum á næstunni og leyfi ykkur að sjálfsögðu að fylgjast með.

Túnfisksalat

 • 1 dós túnfiskur
 • 4 harðsoðin egg
 • ½ rauðlaukur
 • 1 dós Voga ídýfa með kryddblöndu
 • Aromat eftir smekk
 1. Sigtið vatnið frá túnfisknum og saxið rauðlaukinn mjög smátt.
 2. Skerið eggin niður með eggjaskera á tvo vegu svo  þau fari í litla bita.
 3. Blandið öllu saman í skál og smakkið til með Aromat.

Þessi færsla var unnin í samstarfi við Vogabæ

Dalahringur í dulbúningi

Ég hef ekki töluna á því hversu oft þessi réttur hefur verið útbúinn fyrir veislur, saumaklúbba eða kósýkvöld. Það dásamlega við hann er nefnilega það að aðeins þarf að setja ost, sósu og hnetur á disk og skella í ofninn og út kemur dásamlegur heitur ostur.

Dalahringur í dulbúningi

 • 1 stk Dalahringur
 • 1 krukka Mango Chutney sósa
 • Kasjúhnetur að vild (mæli með að hafa meira en minna)

Setjið ostinn í eldfast mót, sósu og hnetur yfir og inn í 180°C heitan ofn í um 15-20 mínútur eða þar til hneturnar brúnast. Njótið með nýbökuðu brauði eða því kexi sem ykkur þykir gott.

Þegar þú byrjar, þá getur þú ekki hætt, svo góð er þessi blanda!

Skautaterta

aIMG_2757

Elsku Elín Heiða mín varð 9 ára í gær þann 19.mars. Þær eru fjórar skotturnar í bekknum sem eiga afmæli á nokkrum dögum í mars og hafa þær haldið sameiginlegt afmæli undanfarin ár fyrir bekkinn. Að þessu sinni var farið á skauta í Egilshöllinni og boðið upp á pizzu og kökur í pásunni.

aIMG_2841

Það var mikið fjör og mikil læti, já og nokkur marin hné eftir daginn en afmælistertan sló heldur betur í gegn og hér fyrir neðan er að finna ítarlegar upplýsingar um gerð hennar fyrir þá sem vilja prófa!

aIMG_2794

Skrautleg og vel sykruð skautaterta

Athugið að uppskriftin dugar í 4x 20 cm botna og 4x 15 cm botna (hver botn endar um það bil 2-3 cm á þykkt) Lítið mál að minnka þessa uppskrift eigi aðeins að baka einfalda köku en ekki á hæðum.

Botnar

 • 870 gr púðursykur
 • 430 gr smjör við stofuhita
 • 7 egg
 • 3 tsk vanilludropar
 • 670 gr hveiti
 • 110 gr bökunarkakó
 • 3 tsk matarsódi
 • 1 ½ tsk lyftiduft
 • 1 tsk salt
 • 470 ml AB mjólk/súrmjólk
 • 310 ml sjóðandi vatn
 1. Blandið hveiti, kakó, matarsóda, lyftidufti og salti saman í skál og leggið til hliðar.
 2. Þeytið saman púðursykur og smjör þar til létt og ljóst.
 3. Bætið eggjunum út í einu í einu og skafið vel niður á milli, þeytið síðan vel í lokin þar til vel „fluffy“.
 4. Því næst fara vanilludropar og AB mjólk saman við blönduna á víxl við þurrefnin.
 5. Þegar búið er að skafa niður og blanda vel fer sjóðandi vatnið saman við að lokum, hrærið þar til slétt og fellt (deigið er frekar þunnt á þessu stigi).
 6. Klippið bökunarpappír í botninn á kökuformunum og spreyið vel af matarolíuspreyi á allar hliðar.
 7. Bakið við 170°C í um 30 mínútur.
 8. Kakan er þétt í sér svo ekki þarf að skera stórar sneiðar, ég myndi segja hún væri mitt á milli þess að vera brownie og skúffukaka hvað áferð og bragð varðar.

Krem á milli botna

 • 250 gr smjör við stofuhita
 • 800 gr flórsykur
 • 4 msk bökunarkakó
 • 5 msk sýróp (pönnukökusýróp)
 1. Þeytið smjörið þar til létt og ljóst.
 2. Bætið því næst restinni af hráefnunum saman við á víxl, skafið vel niður á milli og þeytið þar til slétt og fínt.
 3. Stundum þarf að bæta við smá vatni/flórsykri eftir því hvort þið viljið fá kremið þynnra eða þykkara.
 4. Smyrjið kremi á milli botnanna en ekki á efsta botninn.

Krem til þess að skreyta með

 • 4 dósir Betty Crocker Vanilla Icing
 • 500 gr flórsykur
 1. Þeytið saman Betty og flórsykur þar til hvítt og fallegt.
 2. Byrjið á því að smyrja grunnlagi á báðar kökurnar, athugið að efri kakan (15cm) þarf að vera á pappaspjaldi til að hægt sé að færa hana á stoðir síðar í ferlinu.
 3. Skerið til stoðir og komið fyrir í stærri kökunni (ég var með 3 x hol, sver plaströr frá Allt í köku).
 4. Skiptið kreminu niður í nokkrar skálar og litið að vild (hér notaði ég hvítt, gult, bleikt, fjólublátt, blátt og grænt).
 5. Smyrjið því næst seinna hvíta kremlaginu á minni kökuna, setjið smá liti hér og þar og dragið síðan saman með spaða til þess að fá vatnslitaáferð á kremið. Færið kökuna þá yfir á stoðirnar fyrir miðri stærri kökunni.
 6. Skreytið þá hliðarnar á neðri kökunni með „ölduáferðinni“ með því að gera sex jafn stórar „bollustjörnur“ og draga úr hverri með spaða (muna að þurrka af með rökum klút á milli lita…..og já þetta eru milljón handtök) J
 7. Skreytið síðan toppinn á neðri kökunni, eða það sem stendur eftir af honum og reynið að hafa „öldumynstrið“ þétt upp við minni kökuna til að koma í veg fyrir skil.
 8. Að lokum má setja smá mynstur á toppinn á minni kökunni til að tengja við þá neðri og ekki er verra að hafa fallegt kökuskilti á toppnum! Þetta skilti pantaði ég hjá Hlutprent.

aIMG_2828

Það sem setti klárlega punktinn yfir I-ið fyrir skautadrottningarnar var þessi dásamlegi kökutoppur frá Hlutprent.

aIMG_2763

Litaþema kökunnar var ákveðið í stíl við diskóskrautið sem keypt var fyrir veisluna og hér má sjá afmælistelpurnar þær Elínu Heiðu, Elínu Adriönu, Elísu og Ylfu í Skautahöllinni.

aIMG_2877

Þetta krútt æfir listskauta með Birninum og kom ekki annað til greina en að afmælisdressið væri skautadress þetta skiptið :)

aIMG_2865

Partýpopp

Stundum er allt í lagi að leyfa ímyndunaraflinu og einfaldleikanum að njóta sín!

Frá því ég man eftir mér hef ég elskað að blanda saman poppi, lakkrís og Smarties, það er bara eitthvað við þessa blöndu sem er fáránlega gott :)

Partýpopp

 • 1 poki örbylgjupopp
 • 1 poki lakkrísreimar (klipptar niður)
 • 2 litlir pakkar af Smarties

Throphy Cupcakes – Neopolitan

Seattle-vinkonur mínar komu á ferðafund til mín um daginn fyrir komandi húsmæðraorlof okkar í maí. Það var auðvitað ekkert annað í stöðunni en útbúa eitthvað sem tengir okkur við þennan dásamlega stað svo úr varð að ég prófaði L O K S I N S að baka þessar bollakökur. Ég veit ekki hversu oft við mæðgur kíktum á Trophy Cupcakes í University Village og nældum okkur í eina Neopolitan Cupcake.

Tinna vinkona á bókina frá þeim og fékk ég hana lánaða til að geta útbúið þessa dásemd.

Ég get svo svarið það að þær brögðuðust nákvæmlega eins og í búðinni og þið hreinlega verðið að prófa!

Súkkulaði bollakökur

Uppskriftin gefur um 20-24 bollakökur. Ég notaðist við 1M stút frá Wilton og sprautaði fyrst hvítu smjörkremi á kökuna og því næst bleika jarðaberjasmjörkreminu. Marglitu kökuskrauti er stráð yfir og kirsuber sett á toppinn.

 • 320 gr hveiti
 • 85 gr bökunarkakó
 • 2 ½ tsk lyftiduft
 • 1 ½ tsk matarsódi
 • ¾ tsk salt
 • 3 egg
 • 300 ml bolli mjólk
 • 110 ml matarolía
 • 1 msk vanilludropar
 • 380 gr sykur
 • 200 ml sjóðandi vatn
 1. Hitið ofninn 175°C.
 2. Sigtið saman hveiti, kakó, lyftiduft, matarsóda og salt og leggið til hliðar.
 3. Blandið eggjum, mjólk, olíu og vanillu saman í hrærivélinni.
 4. Bætið þá sykrinum og öllum þurrefnunum saman við. Hrærið á lágum hraða til að byrja með en síðan á meðalhraða í um tvær mínútur eða þar til deigið er orðið slétt og fallegt.
 5. Blandið að lokum sjóðandi vatninu varlega saman við deigið með sleif þar til það verður slétt að nýju. Deigið á að vera þunnt.
 6. Leyfið deiginu að hvíla í 15 mínútur og hrærið þá aðeins upp í því að nýju.
 7. Fyllið ¾ hluta af bollakökuformunum með deigi og bakið þar til prjónn kemur út með smá kökumylsnu (ekki blautu deigi) eða í um 20 mínútur.
 8. Kælið bollakökurnar og útbúið kremið á meðan.

Vanillu- og jarðaberja smjörkrem

 • 500 gr smjör við stofuhita
 • 900 gr flórsykur (sigtaður)
 • 2 tsk vanilludropar
 • ¼ tsk salt
 • 200 gr fersk maukuð jarðaber (eða jarðaberjasulta)
 • Marglitt kökuskraut
 • Niðursoðin kirsuber með stönglum
 1. Þeytið smjörið þar til létt og ljóst.
 2. Bætið flórsykrinum saman við í litlum skömmtum og blandið á lágum hraða.
 3. Að lokum fara vanilludroparnir og saltið saman við blönduna og kremið þeytt í nokkrar mínútur þar til létt og ljóst og skafið nokkrum sinnum niður á milli.
 4. Takið rúmlega 1/3 af vanillukreminu til hliðar og setjið jarðaberjamaukið saman við tæplega 2/3 af kreminu og blandið vel.
 5. Ég notaði stút 1M frá Wilton og byrjaði á því að sprauta jarðaberjakreminu í rúman hring og síðan vanillukreminu þar ofan á. Þá er kökuskrauti stráð yfir og kirsuber sett á toppinn.

Þetta jarðaberjasmjörkrem…..namm! Ég notaði fersk, maukuð jarðaber, held það gefi enn betra bragð en sultan.

Svo er hún svo falleg að ekki skemmir það nú fyrir!

Skólabollur

aIMG_1260
Ég útbjó þessar bollur einn sunnudagsmorguninn í febrúar. Stelpurnar voru mjög hrifnar af þeim og höfðu þær með sér í nesti út vikuna (við settum þær í frystinn og tókum jafnóðum út).

Það er svo auðvelt að baka vel af öllu svona og eiga síðan í frystinum. Við hitum oft aðeins í ofninum aftur og þá verða þær alltaf eins og nýbakaðar og bestar eru þær með smjöri og osti.

Skólabollur

 • 120 gr smjör
 • 3,5 dl mjólk
 • 1 pk þurrger
 • 1 dl púðursykur
 • 640 gr heilhveiti
 • ½ tsk salt
 • 2 dl Til hamingju fimm korna blanda
 • Egg til penslunar
 1. Bræðið smjör við vægan hita og hitið mjólkina út í þar til ylvolgt (passa að hita ekki of mikið til að drepa ekki gerið). Blandið þurrgerinu í volga blönduna og og leyfið að gerjast í nokkrar mínútur.
 2. Setjið öll þurrefnin saman í hrærivélarskálina og hellið mjólkurblöndunni saman við og hnoðið með króknum. Stundum þarf að bæta smá meira af heilhveiti saman við en best er að reyna að vinna deigið eins blautt og hægt er fyrir hefun því þá verður auðveldara að hnoða það í bollur.
 3. Hjúpið skál með matarolíu og veltið deiginu upp úr henni, setjið því næst rakan klút/plastfilmu yfir skálina og leyfið deiginu að hefast í um 45 mínútur.
 4. Hnoðið í bollur (c.a 20-22 stk), raðið á bökunarpappír, setjið klútinn aftur yfir og leyfið að hefast í um 30 mínútur.
 5. Hitið ofninn 220°C, penslið bollurnar með eggi og bakið í um 10 mínútur eða þar til bollurnar verða gylltar.

Brjálæðislega góð brownie

Eins og þið hafið væntanlega tekið eftir þá elska ég að leika mér með kökumix!

Fyrir námskeið um daginn ákvað ég að gera tilraun með Chocolate Fudge Brownie Mix frá Betty Crocker með Caramel súkkulaði og pekanhnetum. Hún heppnaðist mjög vel og rann ljúflega ofan í mannskapinn í kaffinu á námskeiði í nútímalegum kökuskreytingum.

Ég notaði 2 x Brownie Mix, blandað samkvæmt leiðbeiningum á pakka og notaðist við 30 x 40 cm stórt ferkantað kökuform.

Áður en ég hellti því í formið saxaði ég 3 stk Caramel súkkulaðistykki og 100 gr af pekanhnetum og hrærði saman við deigið þegar það var tilbúið. Gott er að klæða formið með bökunarpappír og spreyja á pappírinn með matarolíuspreyi (þá er auðveldara að losa kökuna frá þegar hún er skorin í bita).

Kakan er bökuð samkvæmt leiðbeiningum á pakka en gæti þurft aðeins lengri tíma þar sem um tvöfalda uppskrift er að ræða. Best þykir mér að stinga prjóni í kökuna og þegar það kemur smá kökumylsna á prjóninn en ekki blautt deig þá er kakan tilbúin. Síðan þarf að kæla kökuna vel áður en henni er lyft upp úr forminu og skorin í bita.

Dásamlega fljótleg og bragðgóð lausn á kaffitímanum!

Pekanhnetu bananabrauð

Ég var á vinnustofu í HR um daginn og í kaffinu var boðið upp á dásamlega gott bananabrauð með hnetukurli ofan á. Ég fékk nú ekki uppskriftina en fór beint heim og „gúglaði“ fram og tilbaka og endaði á að finna þessa uppskrift á Tutti Dolci og útfærði með örlitlum breytingum.

Þessi uppskrift er alveg dásamleg og svo gott að finna fyrir hnetumulningnum ofan á brauðinu.

Pekanhnetu bananabrauð

Brauð

 • 225 gr hveiti
 • 40 gr heilhveiti
 • 1 tsk lyftiduft
 • 1 tsk matarsódi
 • ½ tsk salt
 • 1 tsk kanill
 • ¼ tsk negull
 • 2 stappaðir bananar (vel þroskaðir)
 • 50 ml maple sýróp
 • 3 msk púðursykur
 • 30 gr smjör (brætt)
 • 100 ml buttermilk (mjólk látin standa með 1 tsk af sítrónusafa í 5 mínútur)
 • 1 egg
 • 1 tsk vanilludropar

Pekanhnetutoppur

 • 110 gr Til hamingju pekanhnetur (saxaðar gróft niður)
 • 3 msk púðursykur
 • 3 msk hveiti
 • ½ tsk kanill
 • 3 msk bráðið smjör
 1. Blandið báðum tegundum af hveiti, lyftidufti, matarsóda, salti, kanil og negul saman í skál og leggið til hliðar.
 2. Setjið stappaða banana, sýróp, púðursykur, smjör, buttermilk, egg og vanilludropa í hrærivélarskálina og blandið rólega saman.
 3. Því næst fara þurrefnin saman við í litlum skömmtum og gott að skafa vel niður á milli.
 4. Fyrir pekanhnetutoppinn þá eru öll hráefnin sett saman í skál og blandað saman í „kröst“. Þá er blöndunni dreift jafnt yfir deigið.
 5. Smyrjið formkökuform vel og bakið við 175°C í 30 mínútur, setjið þá álpappír yfir (laust) og bakið í um 30 mínútur í viðbót eða þar til prjónn kemur hreinn út.

Ef ykkur vantar eitthvað gott með kaffinu þá mæli ég svo sannarlega með að þið prófið þessa uppskrift!

Blaut bollakaka á mínútu

Ég hef lengi ætlað að prófa svokallaða „Lava cake“ í örbylgjuofninum. Hef hins vegar ekki haft trú á því að hægt sé að baka köku með þessu móti svo góð sé en afsannaði þá kenningu mína klárlega í dag. Þessi kaka galdraðist fram á örfáum mínútum og er algjör snilld ef ykkur langar í eitthvað gómsætt og hafið ekki mikinn tíma. Ég útbjó uppskrift sem hentar í tvo bolla en auðvitað má helminga hana ef ykkur langar bara í einn bolla eða til dæmis tvöfalda hana ef gera á bolla fyrir fjóra.

Blaut bollakaka á mínútu

Þessi uppskrift gefur tvo bolla af dásamlegri blautri súkkulaðiköku

 • 60 gr smjör
 • 80 gr suðusúkkulaði
 • 40 gr sykur
 • 1 egg
 • 40 ml mjólk
 • 40 gr hveiti
 1. Bræðið saman smjör og suðusúkkulaði í litlum skaftpotti eða í örbylgjuofni.
 2. Hrærið sykurinn og eggið saman við með písk eða gaffli þar til vel blandað.
 3. Því næst fer mjólkin saman við og að lokum hveitið, hrærið vel þar til kekkjalaust.
 4. Spreyið tvo bolla með matarolíuspreyi, skiptið deiginu niður og hitið einn bolla í einu í örbylgjuofninum á hæstu stillingu í 1 mínútu og 10 sekúndur.

Ég prófaði nokkrar tilraunir með mismunandi tíma og kökur sem voru 1 mín og 20-30 sek voru líka dásamlegar, mér fannst bara gott að hafa þessa í blautari kantinum. Örbylgjuofnar eru þó misjafnir í styrk svo prófið endilega einn bolla og aukið eða minnkið tímann með seinni bollann ef þið viljið meira eða minna bakaða köku. Kælið kökuna í um 5 mínútur og berið fram með ískúlu og heitri karamellusósu (sjá uppskrift hér að neðan).

Kakan lyftir sér alveg upp á brúnina á bollanum og sígur síðan aðeins aftur þegar hún er tekin úr örbylgjuofninum og skilur þannig akkúrat eftir pláss fyrir eina góða ískúlu og karamellusósu.

Litlu krúttlegu múmínbollarnir mínir fengu semsagt nýtt hlutverk í dag og grunar mig að ég eigi eftir að prófa að baka í þeim aftur síðar. Ég er nefnilega viss um að allt bragðast betur í fallegum bolla!

Karamellusósa

 • 2 karamellur með sjávarsalti frá Konnerup & Co
 • 2 tsk rjómi
 1. Hitið karamellur og rjóma saman í potti við meðalháan hita þar til þykk sósa hefur myndast, bætið örlítið meira af rjóma saman við ef þið viljið þynnri sósu.

Ég hreinlega get ekki mælt nægilega vel með þessum dásamlegu karamellum, þær eru svoooooooo mjúkar og bragðgóðar að ég hef ekki kynnst öðru eins! Ég fékk þær að gjöf en komst að því þær fást í versluninni BAST í Kringlunni og vonandi bráðum í einhverri verslun hér í Mosfellsbænum svo ég þurfi ekki að fara alla leið í Kringluna til að endurnýja birgðirnar :)