Sumarostabakki

Hér er á ferðinni enn einn krúttlegur ostabakki sem ég útbjó fyrir Óðals osta á dögunum. Í þetta skiptið reyndi ég að gera hann eins sumarlegan og ég gat og valdi því suðræna ávexti í björtum litum.

Þessi bakki sló í gegn og eru þessir ostar alveg dásamlegir með áleggi og ávöxtum!

Á bakkanum eru eftirfarandi ostar:

Tindur, Maribo og Havarti krydd í sneiðum, lengjum eða ostapinnum
Til viðbótar er:
Hráskinka og salami (bæði ein og sér og í ostapinnum)
Wasabi snakk
Grillað baguette
Ávextir, bæði berir og í ostapinnum (ananas, kiwi, drekaávöxtur, granatepli, hindber, vínber)
Ostapinna gerði ég á lítil grillprik og þetta fannst krökkunum alveg æðislegt!

Súkkulaði Naked Cake

Þessi kaka er einfaldlega of krúttleg!

Ég var aðeins að æfa mig fyrir komandi „Naked Cake“ námskeið í maí og jeremundur hvað ég hlakka til að vera með það!

Kaka

 • 1 x Betty Crocker Devils Food Cake Mix
 1. Blandið kökumixinu samkvæmt leiðbeiningum á pakka og skiptið í 3 x 15 cm stór kökuform og kælið botnana.
 2. Skerið ofan af hverjum botni það sem þarf til þess að þeir verði vel sléttir og staflist betur.

Krem á milli laga

 • 125 gr smjör (við stofuhita)
 • 400 gr flórsykur
 • 2 tsk vanilludropar
 • 2 msk sýróp (pönnukökusýróp)
 • Smá bökunarkakó (fyrir afgangskremið)
 1. Setjið öll hráefnin nema flórsykur í hrærivélarskálina og hrærið vel saman. Bætið þá flórsykri saman við í litlum skömmtum, skafið niður á milli og hrærið þar til slétt og fallegt.
 2. Smyrjið góðu lagi af kremi á milli botnanna (2 lög) og þunnu lagi á toppinn til að binda alla kökumylsnu þar.
 3. Bætið bökunarkakó saman við afganginn af kreminu og mögulega smá mjólk líka þar til þið fáið þétt og slétt súkkulaðikrem. Þetta krem fer í sprautupoka með stórri stjörnu með þéttum tönnum til að skreyta með í lokin.

Krem til að hjúpa og sprauta rósum og annað skraut

 • 1 dós Betty Crocker Vanilla Frosting
 • 125 gr flórsykur
 • Brúðarslör
 • Hvítt kökuskraut
 • Makkaróna/ur ef vill (má sleppa)
 1. Blandið saman Betty frosting og flórsykri.
 2. Smyrjið þunnu lagi utan um alla kökuna og yfir vanillukremið á toppnum. Þið viljið fá þekjandi og fallega áferð á toppinn en skafa vel af hliðunum svo það sjáist í hliðarnar á kökunni.
 3. Setjið hluta af kreminu í sprautupoka og notið stút 2D frá Wilton til að ná litlum „rósettum“ á toppinn.
 4. Klippið að lokum brúðarslörið til og stingið í kökuna ásamt því að strá smá hvítu kökuskrauti yfir.

Ostabakkahugmynd

Það er fátt skemmtilegra en útbúa ostabakka. Þennan útbjó ég fyrir páskana fyrir Gott í matinn og þessi samsetning sló í gegn hjá ungum sem öldnum á heimilinu!

Á bakkanum eru eftirfarandi ostar:

 • Havarti með pipar
 • Gouda sterkur
 • Cheddar
Skar þá ýmist í teninga, lengjur eða sneiðar

Annað meðlæti er:
 • Kex
 • Salami
 • Hráskinka
 • Ólífur
 • Fíkjur
 • Döðlur
 • Fíkjusulta
 • Melóna
 • Bláber
 • Hnetur

Ostabakkar eiga alltaf við, hvort sem um er að ræða í veislur eða bara fyrir kósýkvöld!

Eggjasalat

Um daginn prufaði ég að gera túnfisksalat með Vogaídýfu. Það sló heldur betur í gegn og því var ekkert annað í stöðunni en að prófa sig áfram í ídýfusalötum. Hér er að finna dúndurgott og ferskt eggjasalat með paprikuídýfu. Ég gæti trúað þetta salat kæmi líka vel út með laukídýfu!

Eggjasalat

 • 6 harðsoðin egg
 • Púrrulaukur
 • ½ rauð paprika
 • ½ – ¾  Voga ídýfa með papriku (þykkt smekksatriði)
 • Aromat
 1. Saxið púrrulauk mjög smátt (um það bil 3 msk eru passlegur skammtur í salatið).
 2. Saxið paprikuna smátt niður.
 3. Skerið eggin niður með eggjaskera á tvo vegu svo  þau fari í litla bita.
 4. Blandið öllu saman í skál og smakkið til með Aromat.

Púðusykurs-Pavloa

Hér kemur hinn fullkomni eftirréttur!

Fyrr í vikunni elduðum við nautasteik og bernaise þar sem allt má í páskafríi. Eftir stóðu fullt af eggjahvítum sem eitthvað þurfti að gera við og þar sem við elskum púðursykursmarengs var ekkert annað en prófa að útbúa slíkar pavlour!

Eftir góðan skíðadag þeytti ég því í marengs á meðan restin af fjölskyldunni fór í heita pottinn.

Marengs

 • 5 eggjahvítur
 • 5 dl púðursykur
 • 500 ml rjómi
 • 2 Snickers
 1. Þeytið eggjahvíturnar þar til þær byrja að freyða og bætið þá sykrinum saman við í nokkrum skömmtum.
 2. Stífþeytið þar til topparnir halda sér og sprautið á bökunarplötu (eða setjið á með tveimur matskeiðum), búið til smá holu í miðjunni með skeið til að betra sé að sprauta rjómanum á eftir bakstur.
 3. Bakið við 110°C í rúma klukkustund og leyfið marengsinum síðan að kólna inn í ofninum í að minnsta kosti klukkutíma áður en rjóminn er settur á (gott að útbúa karamelluna á meðan og leyfa henni aðeins að kólna).
 4. Stífþeytið rjómann og sprautið á hverja pavlou, skerið Snickers í bita og stráið yfir og að lokum má „drissla“ karamellu yfir hverja köku (uppskrift hér að neðan)

Karamella

 • 50 gr smjör
 • 1 1/2 dl púðursykur
 • 3-4 msk rjómi
 1. Bræðið smjörið við lágan hita, bætið þá púðursykri og rjóma saman við og hækkið hitann. Leyfið að bubbla nokkrar mínútur og hrærið stanslaust í á meðan.
 2. Hrærið þar til blandan fer að þykkna aðeins og leyfið þá að standa á meðan rjómi og Snickers er sett á marengsinn.
 3. Hellið vel af karamellu á hverja pavlou.

Þessar voru svooooo góðar að sumir fengu sér tvær, jafnvel þrjár….nefnum engin nöfn!

Páskatertan 2018

Þessi kaka er algjör BOMBA og svo svakalega páskaleg og fín!

Páskatertan 2018

Marengs

 • 100 gr Til hamingju karamellu möndlur með súkkulaði og sjávarsalti
 • 130 gr brætt suðusúkkulaði (kælt niður)
 • 6 eggjahvítur við stofuhita
 • ¼ tsk salt
 • 350 gr sykur
 • 2 tsk vanilludropar
 • ½ tsk möndludropar

Fylling og skraut

 • 700 ml rjómi
 • 30 gr flórsykur
 • 300 gr Til hamingju karamellu möndlur með súkkulaði og sjávarsalti
 • Raspað suðusúkkulaði (um 40 gr)

Aðferð

 1. Hitið ofninn 110°C.
 2. Teiknið 3 x 20cm hringi á bökunarplötur (tveir komast fyrir á annarri og einn á hinni).
 3. Saxið möndlurnar niður og leggið til hliðar.
 4. Bræðið suðusúkkulaði og látið standa á meðan marengsinn er þeyttur.
 5. Þeytið saman eggjahvítur og salt þar til froða myndast og bætið þá sykrinum saman við í litlum skömmtum.
 6. Þeytið á hæstu stillingu þar til topparnir halda sér (nokkrar mínútur).
 7. Bætið þá vanillu- og möndludropum saman við og þeytið saman við.
 8. Hellið söxuðum möndlum í skálina og blandið saman við með sleif.
 9. Að lokum er bræddu suðusúkkulaði hrært varlega saman við með sleif en varist að hræra of mikið, fallegt er að hafa marmaraáferð á marengsinum.
 10. Bakið í 2 ½ klst og slökkvið þá á ofninum og leyfið marengsinum að kólna inn í honum áður en þið takið út.

Fyrir fyllinguna er rjómi og flórsykur þeytt saman og skipt í þrennt, smurt á milli botnanna og ofan á síðasta botninn. Þá er röspuðu súkkulaði og karamellumöndlum stráð yfir toppinn til skrauts

Best er að setja rjómann á milli að minnsta kosti sólahring áður en kökunnar á að njóta, þá verður hún meira djúsí og góð.

Þessar karamellu möndlur eru rugl góðar, hvort sem þær fara á köku eða einar og sér!

 

Ostabakki með Havartí piparosti

aIMG_2016

Ég hreinlega elska að útbúa ostabakka. Að dúllast og raða alls konar gúmmelaði á bakka finnst mér alveg svakalega skemmtilegt. Þennan ostabakka útbjó ég á dögunum fyrir Facebook leik hjá Óðalsostum.

Þegar ég var yngri og það komu gestir heim til mömmu og pabba pantaði ég alltaf að fá að útbúa ostabakka og koma með fram fyrir gestina, mamma mín er þessu klárlega til staðfestingar. Ég man ég losaði oft mandarínu og setti vínber eða annað í miðjuna, vínber voru lykilatriði í þá daga, ostar, banani (já banani og ritzkex fara vel saman) og alls konar góðgæti. Ég var meira að segja búin að gleyma þessu með mandarínuna og bananann svo ég mun klárlega prófa það á næsta bakka og upplifa smá nostalgíu!
aIMG_2098

Þessi ostabakki er með Havartí piparosti sem ýmist er búið að skera í sneiðar eða teninga. Ég myndi segja hann sé svona mitt á milli þess að vera eins og Gouda og Piparostur en það er auðvitað bara mitt mat. Hann passar alveg dásamlega sem ostapinnaostur og raðaði ég upp nokkrum pinnum með ólífum, grillaðri papriku, vínberjum og salami.

aIMG_2081

Á bakkanum var ég líka með baguette brauð og kex ásamt pestó, hnetum og alls konar ávöxtum.

aIMG_2002

Mæli með þið skellið í ostabakka um helgina!

aIMG_1994

Túnfisksalat með Vogaídýfu

Því var hvíslað að mér að gott væri að skipta út majonesi eða sýrðum rjóma í túnfisksalati með ídýfu! Ég elska ídýfur og því var ekkert annað í stöðunni en að prófa og drottinn minn hvað þetta var gott! Ídýfusalöt eru því komin til að vera á þessu heimili og þeir sem smökkuðu salatið spurðu ALLIR um uppskrift! Hér kemur hún því fyrir ykkur að njóta. Held ég þurfi síðan nauðsynlega að prófa fleiri tegundir af ídýfusalötum á næstunni og leyfi ykkur að sjálfsögðu að fylgjast með.

Túnfisksalat

 • 1 dós túnfiskur
 • 4 harðsoðin egg
 • ½ rauðlaukur
 • 1 dós Voga ídýfa með kryddblöndu
 • Aromat eftir smekk
 1. Sigtið vatnið frá túnfisknum og saxið rauðlaukinn mjög smátt.
 2. Skerið eggin niður með eggjaskera á tvo vegu svo  þau fari í litla bita.
 3. Blandið öllu saman í skál og smakkið til með Aromat.

Þessi færsla var unnin í samstarfi við Vogabæ

Dalahringur í dulbúningi

Ég hef ekki töluna á því hversu oft þessi réttur hefur verið útbúinn fyrir veislur, saumaklúbba eða kósýkvöld. Það dásamlega við hann er nefnilega það að aðeins þarf að setja ost, sósu og hnetur á disk og skella í ofninn og út kemur dásamlegur heitur ostur.

Dalahringur í dulbúningi

 • 1 stk Dalahringur
 • 1 krukka Mango Chutney sósa
 • Kasjúhnetur að vild (mæli með að hafa meira en minna)

Setjið ostinn í eldfast mót, sósu og hnetur yfir og inn í 180°C heitan ofn í um 15-20 mínútur eða þar til hneturnar brúnast. Njótið með nýbökuðu brauði eða því kexi sem ykkur þykir gott.

Þegar þú byrjar, þá getur þú ekki hætt, svo góð er þessi blanda!

Skautaterta

aIMG_2757

Elsku Elín Heiða mín varð 9 ára í gær þann 19.mars. Þær eru fjórar skotturnar í bekknum sem eiga afmæli á nokkrum dögum í mars og hafa þær haldið sameiginlegt afmæli undanfarin ár fyrir bekkinn. Að þessu sinni var farið á skauta í Egilshöllinni og boðið upp á pizzu og kökur í pásunni.

aIMG_2841

Það var mikið fjör og mikil læti, já og nokkur marin hné eftir daginn en afmælistertan sló heldur betur í gegn og hér fyrir neðan er að finna ítarlegar upplýsingar um gerð hennar fyrir þá sem vilja prófa!

aIMG_2794

Skrautleg og vel sykruð skautaterta

Athugið að uppskriftin dugar í 4x 20 cm botna og 4x 15 cm botna (hver botn endar um það bil 2-3 cm á þykkt) Lítið mál að minnka þessa uppskrift eigi aðeins að baka einfalda köku en ekki á hæðum.

Botnar

 • 870 gr púðursykur
 • 430 gr smjör við stofuhita
 • 7 egg
 • 3 tsk vanilludropar
 • 670 gr hveiti
 • 110 gr bökunarkakó
 • 3 tsk matarsódi
 • 1 ½ tsk lyftiduft
 • 1 tsk salt
 • 470 ml AB mjólk/súrmjólk
 • 310 ml sjóðandi vatn
 1. Blandið hveiti, kakó, matarsóda, lyftidufti og salti saman í skál og leggið til hliðar.
 2. Þeytið saman púðursykur og smjör þar til létt og ljóst.
 3. Bætið eggjunum út í einu í einu og skafið vel niður á milli, þeytið síðan vel í lokin þar til vel „fluffy“.
 4. Því næst fara vanilludropar og AB mjólk saman við blönduna á víxl við þurrefnin.
 5. Þegar búið er að skafa niður og blanda vel fer sjóðandi vatnið saman við að lokum, hrærið þar til slétt og fellt (deigið er frekar þunnt á þessu stigi).
 6. Klippið bökunarpappír í botninn á kökuformunum og spreyið vel af matarolíuspreyi á allar hliðar.
 7. Bakið við 170°C í um 30 mínútur.
 8. Kakan er þétt í sér svo ekki þarf að skera stórar sneiðar, ég myndi segja hún væri mitt á milli þess að vera brownie og skúffukaka hvað áferð og bragð varðar.

Krem á milli botna

 • 250 gr smjör við stofuhita
 • 800 gr flórsykur
 • 4 msk bökunarkakó
 • 5 msk sýróp (pönnukökusýróp)
 1. Þeytið smjörið þar til létt og ljóst.
 2. Bætið því næst restinni af hráefnunum saman við á víxl, skafið vel niður á milli og þeytið þar til slétt og fínt.
 3. Stundum þarf að bæta við smá vatni/flórsykri eftir því hvort þið viljið fá kremið þynnra eða þykkara.
 4. Smyrjið kremi á milli botnanna en ekki á efsta botninn.

Krem til þess að skreyta með

 • 4 dósir Betty Crocker Vanilla Icing
 • 500 gr flórsykur
 1. Þeytið saman Betty og flórsykur þar til hvítt og fallegt.
 2. Byrjið á því að smyrja grunnlagi á báðar kökurnar, athugið að efri kakan (15cm) þarf að vera á pappaspjaldi til að hægt sé að færa hana á stoðir síðar í ferlinu.
 3. Skerið til stoðir og komið fyrir í stærri kökunni (ég var með 3 x hol, sver plaströr frá Allt í köku).
 4. Skiptið kreminu niður í nokkrar skálar og litið að vild (hér notaði ég hvítt, gult, bleikt, fjólublátt, blátt og grænt).
 5. Smyrjið því næst seinna hvíta kremlaginu á minni kökuna, setjið smá liti hér og þar og dragið síðan saman með spaða til þess að fá vatnslitaáferð á kremið. Færið kökuna þá yfir á stoðirnar fyrir miðri stærri kökunni.
 6. Skreytið þá hliðarnar á neðri kökunni með „ölduáferðinni“ með því að gera sex jafn stórar „bollustjörnur“ og draga úr hverri með spaða (muna að þurrka af með rökum klút á milli lita…..og já þetta eru milljón handtök) J
 7. Skreytið síðan toppinn á neðri kökunni, eða það sem stendur eftir af honum og reynið að hafa „öldumynstrið“ þétt upp við minni kökuna til að koma í veg fyrir skil.
 8. Að lokum má setja smá mynstur á toppinn á minni kökunni til að tengja við þá neðri og ekki er verra að hafa fallegt kökuskilti á toppnum! Þetta skilti pantaði ég hjá Hlutprent.

aIMG_2828

Það sem setti klárlega punktinn yfir I-ið fyrir skautadrottningarnar var þessi dásamlegi kökutoppur frá Hlutprent.

aIMG_2763

Litaþema kökunnar var ákveðið í stíl við diskóskrautið sem keypt var fyrir veisluna og hér má sjá afmælistelpurnar þær Elínu Heiðu, Elínu Adriönu, Elísu og Ylfu í Skautahöllinni.

aIMG_2877

Þetta krútt æfir listskauta með Birninum og kom ekki annað til greina en að afmælisdressið væri skautadress þetta skiptið :)

aIMG_2865