Heslihnetu hrískökur

Heslihnetu hrískökur

 • 70 g smjör
 • 200 g suðusúkkulaði
 • 7 msk sýróp
 • 150 g Rice Krispies
 • 100 g hakkaðar möndlur 

 

 1. Hitið saman smjör, suðusúkkulaði og sýróp, hrærið vel í allan tímann.
 2. Þegar bráðið saman er gott að leyfa blöndunni að sjóða í um tvær mínútur og taka af hellunni í framhaldinu.
 3. Bætið Rice Krispies saman við ásamt hökkuðum möndlum (geymið þó nokkrar msk af möndlum til skrauts).
 4. Setjið í lítil pappaform, stráið restinni af möndlunum yfir og kælið.
 5. Blandan gefur um 50 litla bita.

Mini pavlour með lakkrískeim

 

Þessar pavlour útbjó ég á Þrettándanum til að hafa í eftirrétt þegar við fjölskyldan komum saman. Við stelpurnar skelltum okkur á Þrettándabrennu hér í Mosó með Anítu frænku og svo var boðið upp á Pulled Pork með krullufrönskum, beikoni, hrásalati og öllu tilheyrandi enda kærkomin tilbreyting frá hátíðarmatnum!

Þessar sjúklega góðu pavlour voru síðan í eftirrétt og það voru nokkrir lakkrísunnendur í hópnum sem gátu alveg borðað meira en eina sko, nefnum engin nöfn :)

Pavlour

 • 6 eggjahvítur
 • 4 dl sykur
 • ½ msk sítrónusafi
 • 1 tsk vanilludropar
 • 2 msk Hockey Pulver
 1. Þeytið eggjahvítur stutta stund og bætið sykrinum saman við smátt og smátt.
 2. Þegar topparnir halda sér og blandan orðin stífþeytt er sítrónusafa og Hockey Pulver blandað varlega saman við.
 3. Blandan er sett í stóran sprautupoka og notaður er stútur 1M frá Wilton (eða annar sambærilegur) til þess að sprauta Pavlournar á bökunarpappír á bökunarplötu. Fyrst er botninn þakinn og því næst tekinn annar hringur ofan á (í raun tvær hæðir).
 4. Síðan má búa til smá „holu“ í miðjuna til að nóg pláss sé fyrir rjómann.
 5. Stráið smá Hockey Pulver yfir hverja köku áður en hún fer í ofninn (magn er smekksatriði).
 6. Bakið við 110°C í 1 klst og 10 mínútur, slökkvið þá á ofninum og leyfið pavlounum að kólna með ofninum í að minnsta kosti klukkustund (þannig fellur marengsinn síður).

Rjómi og skraut

 • 400 ml rjómi
 • 2 msk sykur
 • Hindber til skrauts
 • Lakrits FIKA með kaffe (um ½ dós)
 1. Þeytið rjómann með sykrinum þar til hann er stífþeyttur.
 2. Setjið í sprautupoka og sprautið ríkulega af rjóma á hverja köku.
 3. Skreytið með hindberjum og lakrits FIKA með kaffe og „drisslið“ síðan lakkríssósu yfir allt (sjá uppskrift hér að neðan).

Lakkríssósa

 • 1 poki Nóa lakkrískúlur (150 gr)
 • ¾ dl rjómi
 1. Setjið kúlur og rjóma í pott og hitið á meðalháum hita þar til bráðið og hrærið vel í allan tímann.
 2. Leyfið að kólna stutta stund (við það þykkist sósan líka) og „drisslið“ síðan ríkulega af sósu  yfir hverja pavlou.

Ég fékk þessa lakkrísmola að gjöf rétt fyrir jólin og það sem þeir voru góðir!

Léttur jógúrtís

Þennan ís útbjó ég á í haust og er tilvalinn núna í janúar fyrir þá sem vilja gíra sig aðeins niður í sætindunum eftir hátíðarnar. Það er nefnilega alveg heilmargt sem er hægt að gera sem er gott en um leið hollara en margt annað.

Botn

 • 120 gr döðlur
 • 90 gr brasilíuhnetur
 • ½ tsk salt
 • 1 tsk vanilludropar
 • 2 msk bökunarkakó
 • 2 msk kókosmjöl
 • 3 tsk vatn

 1. Allt sett saman í matvinnsluvél og unnið þar til þéttur massi.
 2. Setjið um eina matskeið í hvert pappaform og þrýstið yfir botninn.

Jógúrtís

 • 2 x létt vanillujógúrt
 • 1 ½ dl þeyttur rjómi
 • 1 banani
 • 10 fersk jarðaber + meira til skrauts ef þess er óskað

 1. Maukið saman banana og jarðaber í blandara.
 2. Vefjið jógúrti saman við þeyttan rjómann.
 3. Hellið ávaxtamaukinu saman við jógúrtblönduna og vefjið þar til vel blandað.
 4. Skiptið niður í pappaformin með því að hella yfir hrákökubotninn.
 5. Skerið niður jarðaber og setjið á toppinn sé þess óskað, ekki nauðsynlegt
 6. Frystið í nokkrar klukkustundir (yfir nótt) og losið þá úr formunum.
 7. Gott að geyma í boxi í frystinum og ná sér í einn og einn ís þegar gera á vel við sig

Það er æðislegt að eiga molana í frystinum og grípa þegar sykurþörfin kallar. Gott að leyfa ísnum að standa í nokkrar mínútur til að mýkja hann upp áður en hans á að njóta.

Mozzarella snitta með tómötum og basil

aIMG_1124

Þessar snittur eru algjör klassík og henta við ýmis tilefni, hvort sem er sem forréttur eða á smáréttahlaðborð.

Mozzarella snittur

 • 1 stk baguette brauð
 • 1 dós litlar mozzarella kúlur í dós
 • 1 box kirsuberjatómatar
 • Fersk basilika
 • Ólífuolía
 • Hvítlauksduft
 • Gróft salt
 1. Skerið brauðið á ská í sneiðar, penslið með ólífuolíu, stráið hvítlauksdufti og grófu salti yfir. Ristið í um 2 mínútur í ofni við 200°C.
 2. Skerið Mozzarella kúlurnar í tvennt og dreifið yfir hverja sneið (um það bil 3 helmingar á hverri sneið) og setjið aftur í ofninn í um 2 mínútur og leyfið ostinum aðeins að bráðna.
 3. Skerið kirsuberjatómata til helmina og saxið góða lúku af ferskri basiliku, blandið saman í skál með um ½ msk af ólífuolíu.
 4. Dreifið yfir snitturnar og njótið.

aIMG_1108

Rjómaostur með sweet chili

Þetta er mögulega einfaldasti partýréttur aldarinnar! Tekur örfáar mínútur að útbúa og slær alltaf í gegn.

Rjómaostur með sweet chili

 • 1 pakki rjómaostur frá „Gott í matinn“
 • Sweet chili sósa
 • Ferskur kóríander
 • Ritz kex eða annað kex

 1. Hvolfið rjómaostinum á fallegan disk.
 2. Hellið ríkulega af Sweet chili sósu yfir og nóg af kóríander.
 3. Njótið með góðu kexi.

Fylltar beikondöðlur

Þessar dúllur eiga vel við í hvaða veislu sem er!

Fylltar beikondöðlur

 • Um það bil 25 döðlur
 • 5 msk rjómaostur frá „Gott í matinn“
 • 2 msk hnetusmjör
 • 1 pakki beikon

Döðlur

 1. Skerið smá rauf í döðlurnar.
 2. Blandið saman rjómaosti og hnetusmjöri, setjið í zip-lock poka og klippið lítið gat á endann. Sprautið fyllingu í hverja döðlu.
 3. Klippið beikonið í tvennt og vefjið því síðan utan um döðlurnar. Mér finnst gott að miða við að minnsta kosti 1 ½ til 2 hringi af beikoni á hverja.
 4. Hitið í ofni við 200°C þar til beikonið fer að dökkna.

Camenbert snitta með sætri peru

Þessi snitta er guðdómlega góð og falleg á smáréttaborðið!

Camenbert snitta með sætri peru

 • 1 stk baguette brauð
 • 1 ½ Camenbert ostur
 • 1 ½ pera
 • Klettasalat (um ½ poki)
 • Ristaðar furuhnetur (um ½ poki)
 • Ólífuolía
 • Hvítlauksduft
 • Gróft salt
 • Sykur og smjör til að brúna perusneiðarnar

Camenbert snitta

 1. Skerið brauðið á ská í sneiðar, penslið með ólífuolíu, stráið hvítlauksdufti og grófu salti yfir. Ristið í um 3 mínútur í ofni við 200°C.
 2. Kælið brauðið aðeins og setjið klettasalat yfir hverja sneið.
 3. Skerið peruna í sneiðar sem passa brauðstærðinni ykkar (ekki of þykkar).
 4. Stráið sykri á pönnu, hitið þar til hann bráðnar og bætið þá smjörklípu saman við og lækkið hitann.
 5. Brúnið perusneiðarnar á báðum hliðum, þegar þið snúið er Camenbert sneið lögð á hverja perusneið þar til osturinn fer aðeins að bráðna.
 6. Þá er peru/Camenbertsneiðin færð yfir á snittuna, ofan á klettasalatið.
 7. Ristuðum furuhnetum er að lokum stráði yfir

Kókos-Sörur

Þar sem maðurinn minn er mikill aðdáandi alls með kókos prófuðum við þetta árið að gera kókosútfærslu af sörunum ásamt því sem við gerðum líka þessar hefðbundnu.

Þessar eru alveg S V A K A L E G A góðar svo ef ykkur langar að eiga eitthvað gott yfir hátíðarnar þá mæli ég með þessum!

Kökur

 • 90 gr gróft kókosmjöl frá „Til hamingju“
 • 180 gr möndlur frá „Til hamingju“
 • 220 gr flórsykur
 • 4 eggjahvítur
 1. Setjið möndlurnar í matvinnsluvél þar til þær verða að mjöli og blandið þá saman við flórsykurinn.
 2. Stífþeytið eggjahvíturnar og blandið saman við möndlublönduna með sleif.
 3. Vefjið að lokum kókosmjölinu saman við blönduna með sleif.
 4. Setjið kúfaðar teskeiðar með smá millibili á bökunarplötu og bakið við 180°C í um 13-16 mínútur.
 5. Kælið og útbúið kremið á meðan.

Krem

 • 4 eggjarauður
 • 6 msk sýróp
 • 260gr smjör við stofuhita
 • 3 msk bökunarkakó
 • 2 tsk kaffi
 1. Stífþeytið eggjarauðurnar þar til þær eru þykkar og gulleitar.
 2. Velgið sýrópið á meðan og hellið varlega útí þeyttar rauðurnar  í mjórri bunu og þeytið áfram.
 3. Blandið smjörinu saman við blönduna og þeytið áfram þar til létt og ljóst.
 4. Að lokum fer kakóið og kaffið saman við blönduna og þeytt áfram.
 5. Gott er að miða við góða teskeið af kremi á hverja köku og hægt að setja það á með hníf eða sprautupoka. Gott er að setja magnið á miðjuna og draga svo niður að hliðunum til að mynda  nokkurs konar topp með kreminu. Athugið að smyrja kreminu á sléttu hliðina!
 6. Setjið kökurnar í frysti jafnóðum á meðan þið smyrjið og þá verða þær tilbúnar til dýfingar þegar þið eruð búin að setja krem á allar.

Hjúpur

 • Um 300gr af dökku súkkulaði
 1. Bræðið súkkulaðið í lítilli djúpri skál í örbylgjuofni eða vatnsbaði. Ef örbylgjuofninn er notaður er gott að hita súkkulaðið í 20-30 sekúndur í einu og hræra á milli.
 2. Takið um 3-5 kökur úr frystinum í einu og dýfið í súkkulaðihjúpinn. Reynið að ná taki á kökunni fyrir neðan kremið og dýfið nægilega djúpt til að súkkulaðið snerti kökuna sjálfa allan hringinn og kremið verði þannig þakið hjúp.
 3. Leyfið súkkulaðinu að storkna og geymið svo í frysti/kæli og berið fram eftir hentugleika.

Kókostoppar með jólaívafi

Ef ykkur vantar eitthvað fljótlegt, fallegt og gott þá mæli ég með þessum!

Toppar

 • 4 stk eggjahvítur
 • 250 g sykur
 • 100 g gróft kókosmjöl frá “Til hamingju”

Skraut

 • 250 g suðusúkkulaði
 • 2-3 jólastafir

 1. Stífþeytið saman eggjahvítur og sykur þar til topparnir halda sér.
 2. Vefjið kókosmjölinu saman við með sleif.
 3. Sprautið væna toppa með stórum stjörnustút á bökunarplötu.
 4. Bakið í um 30 mínútur við 150°C.
 5. Kælið, bræðið suðusúkkulaðið og myljið jólastafina.
 6. Dýfið botninum á toppunum í súkkulaði og stráið brjóstsykri á hliðarnar, setjið á bökunarpappír og leyfið að storkna.