Brakandi bitar

Hér er á ferðinni  tilraunauppskrift úr sumarfríinu þar sem við mæðgur útfærðum Rice Krispies kökurnar örlítið og bættum Nóa kroppi í uppskriftina, vá hvað það var gott!

Brakandi bitar

 • 75 gr smjör
 • 200 gr suðusúkkulaðidropar
 • 5 msk sýróp
 • 150 gr Rice Krispies
 • 150 gr Nóa kropp + 50 gr til skrauts

 1. Setjið smjör, súkkulaði og sýróp í pott og leyfið suðunni að koma upp og lækkið þá strax niður og hrærið vel í nokkrar mínútur.
 2. Takið súkkulaðiblönduna af hellunni og leyfið að standa í nokkrar mínútur (takið til pappaform á meðan)
 3. Hrærið þá Rice Krispies og Nóa kroppi saman við og skiptið niður í formin.
 4. Setjið nokkur Nóa kropp á hverja köku áður en hún kólnar því þannig næst fallegt útlit á kökurnar.

Grillað góðgæti

Ég er enn að vinna upp myndir og uppskriftir frá því í sumarfríinu og lengra, greinilegt að ég er duglegri að baka og mynda en blogga!!!

Hér eru á ferðinni brjálæðislega góðir grillaðir bananar. Við hreinlega fáum ekki nóg af því að grilla okkur súkkulaðibanana með ýmsum útfærslum og hér kemur enn ein fyrir ykkur að njóta!

Grillaðir bananar

 • Bananar (ekki of þroskaðir)
 • Siríus rjómasúkkulaði með kremkexi
 • Suðusúkkulaðidropar
 1. Skerið endana af hverjum banana og rauf eftir honum miðjum.
 2. Komið vel fyrir á smá „álpappíshreiðri“ svo þeir liggi ekki alveg á grillinu.
 3. Fyllið með báðum tegundum af súkkulaði og reynið að koma eins miklu í hvern og þið komist upp með.
 4. Grillið yfir meðalhita í nokkrar mínútur eða þar til súkkulaðið er bráðið.

Á þessu heimili er grillað allan ársins hring, vetur, sumar, vor og haust svo það er alltaf tilefni til að gera góðan súkkulaðibanana í eftirrétt!

Heimsins bestu vöfflur

Við vorum í sumarbústað í Húsafelli í ágúst og ákvað ég að það væri löngu tímabært að prófa góða vöffluuppskrift. Á heimasíðunni Passion for baking fann ég uppskrift af „Norwegian waffles“ sem mér leist vel á og útfærði örlítið, bæði yfir í það sem ég hélt að kæmi enn betur út og til að aðlaga uppskriftina að tveimur svöngum fimm manna fjölskyldum.

Ég verð að segja að þetta voru bestu vöfflur sem ég hef smakkað! Ég held að galdurinn liggi annars vegar í „buttermilk“ og hins vegar í sigtun á hveiti því svona silkimjúkt deig hef ég ekki áður augum litið.

Heimsins bestu vöfflur

 • 5 egg
 • 225 gr sykur
 • 720 ml mjólk
 • 180 ml „buttermilk“
 • 2 tsk vanilludropar
 • 140 gr bráðið smjör
 • 570 gr hveiti
 • 1 tsk lyftiduft
 • 1 tsk salt
 1. Þeytið saman sykur og egg þar til létt og ljóst.
 2. Bætið því næst mjólk, „buttermilk“, vanilludropum og bræddu smjöri saman við. Til þess að útbúa buttermilk er mjólk hellt í skál og 1-2 tsk sítrónusafi settur saman við og látið standa í um 5 mínútur.
 3. Sigtið hveitið og blandið því ásamt lyftidufti og salti varlega saman við blönduna.
 4. Þetta voru alveg um 25+ vöfflur og dugði vel fyrir tvær stórar fjölskyldu

ÁSTFANGIN…..af hrærivél!

Já krakkar mínir! Ég veit ekki hvar ég á að byrja…..EN ég var að fá NÝJA hrærivél og er alveg sjúk í hana!

Ég er ekki að grínast með það þegar ég segist vera ástfangin af henni. Þessi litur einn og sér gerir mig bara glaða, ég get svo svarið það að ég get varla hætt að horfa á hana! Ég var eins og lítill krakki á jólunum þegar ég tók hana upp úr kassanum og skipti þeirri eldri út fyrir þennan dásamlega fallega og bjarta bláa lit.

Ég átti hins vegar mjööööög erfitt með að velja mér lit, það voru svo margir fallegir. Ég var upphaflega ákveðin í því að fá mér þessa hrímhvítu með glæru skálinni….

….ræddi síðan við Ingu vinkonu mína og var að fá álit á litavali þar sem mér fundust nokkrir litir svo æðislega fallegir að auki við þessa hvítu. Þá sagði hún við mig að lífið væri einfaldlega of stutt fyrir hvíta hrærivél og ég ákvað á staðnum að taka hana á orðinu!

Ég fór því í Rafland og við tók  val á milli þessara véla og hamingjan hjálpi mér ekki var það auðvelt….

Kitchen aid

….eigandi þrjár stelpur kallaði þessi bleika strax á mig, svo búum við líka í bleika hverfinu í Mosó, hahahaha. Pistasíugræna og þessi gula eru líka svo undurfallegar. Eftir að hafa velt þessu fyrir mér í nokkra daga og skipt um skoðun oft á dag komst ég niður á það að fá mér þessa ísbláu og sé alls ekki eftir því.

Ég fann mig strax knúna til þess að baka eitthvað í stíl við vélina enda telst slíkt fullkomlega eðlilegt á þessu heimili og skellti ég í þessa fallegu súkkulaðiköku.

Kaka

 • Betty Crocker Devils Food Cake mix
 • 4 egg
 • Olía og vatn samkvæmt leiðbeiningum á pakka
 • 3 msk bökunarkakó
 • 1 pk Royal súkkulaðibúðingur
 1. Hrærið saman eggjum, olíu og vatni.
 2. Bætið kökumixi og bökunarkakó saman við.
 3. Þegar búið er að hræra deigið vel og skafa niður á milli er búðingsduftinu hellt saman við í lokin og hrært létt.
 4. Ég notaðist við 3 x 6 tommu form en þau eru um 15 cm í þvermál og tók svo hvern botn í tvennt með kökuskera svo úr urðu 6 þynnri botnar.

Krem á milli botna

 • 125 gr smjör við stofuhita
 • 400 gr flórsykur
 • 2 tsk vanilludropar
 • 4 msk sýróp
 • 4 msk bökunarkakó
 1. Allt sett saman í hrærivélina og hrært þar til slétt og fellt, þá skipt niður á botnana, frekar þunnt lag á hvern því þetta eru jú fimm lög af kremi!

Krem utan á köku

 • 2 x Betty Crocker Vanilla frosting
 • ca 300 gr af flórsykri (finnið hvort það þurfi meira til að sprauta stjörnunum á)
 1. Blandið þessu saman og hjúpið kökuna alla með þunnu lagi af hvítu kremi og leyfið henni að standa aðeins til að fá á sig „harða“ skel.
 2. Takið smá krem til hliðar og litið í þeim litum sem þið viljið hafa, hér var ég með þrjá misdökka bláa liti.
 3. Smyrjið þá aftur hvítu kremi á hliðarnar og nú í meira magni en við hjúpun.
 4. Setjið smá af hverjum lit sem þið hafið valið hér og þar á kökuna og dragið svo með spaða til að litirnir blandist.
 5. Látið kökuna svo standa aftur á meðan þið útbúið Ganacé (uppskrift hér að neðan)
 6. Þegar Ganacé er komið á kökuna er gott að kæla hana smá stund og sprauta síðan smjörkremsmynstri á toppinn. Ég notaði nokkra misstóra stjörnustúta og smá kökuskraut en að sjálfsögðu má skreyta þetta hvernig sem er.

Ganacé

 • 100 gr smátt saxað suðusúkkulaði
 • 1/3 bolli rjómi
 1. Hitið rjómann að suðu og hellið yfir saxað súkkulaðið, látið standa í tvær mínútur.
 2. Hrærið þá saman með písk eða gaffli þar til vel blandað.
 3. Smyrjið yfir topp kökunnar og látið leka niður hliðarnar.

Þessi hlíf fylgdi einnig með sem hægt er að setja yfir skálina og hella hráefnum út í án þess allt fari út um allt, algjör snilld!

Ég gerði líka dásamlega fallegar bollakökur þar sem erfitt var að hemja sig í gleðinni og set inn uppskrift af þeim fljótlega!

Færsla þessi var unnin í samstarfi við Rafland og Kitchen Aid á Íslandi þar sem boðið er upp á mesta úrval af Kitchen Aid á Íslandi!

Bollakökur með dásamlegu súkkulaðikremi

Ég bakaði þessar bollakökur um daginn og voru þær alveg hreint dásamlega góðar. Þetta var mín fyrsta færsla hjá Gott í matinn og að sjálfsögðu er það íslenska silfurlitaða smjörið sem gerir þetta krem svona yndislega bragðgott!

Ég fór með nokkrar í hópahitting í skólanum og meira að segja Einar sem sagðist aldrei borða krem á köku fannst það æðislegt!

Súkkulaði bollakökur

 • 260 gr hveiti
 • 220 gr bolli sykur
 • 6 msk bökunarkakó
 • 1 tsk salt
 • 1 tsk matarsódi
 • 3 egg
 • 2 tsk vanilludropar
 • 160 ml olía
 • 230 ml kalt vatn
 1. Sigtið saman hveiti, sykur, kakó, salt og matarsóda, leggið til hliðar.
 2. Þeytið saman egg, olíu, vatn og vanilludropa þar til það verður létt í sér.
 3. Bætið þurrefnunum rólega samanvið og skafið vel niður á milli.
 4. Skiptið niður í um 20 bollakökuform og bakið við 180 gráður í 15-18 mínútur.

Bollakökur

Súkkulaðismjörkrem

 • 125 gr smjör (við stofuhita)
 • 400 gr flórsykur
 • 2 tsk vanilludropar
 • 2 msk  Maple sýróp
 • 4 msk bökunarkakó
 1. Setjið öll hráefnin nema flórsykur og kakó í hrærivélarskálina og hrærið vel saman.
 2. Blandið flórsykri og kakó saman og bætið varlega útí blönduna, skafið niður á milli og hrærið þar til kremið er slétt og fellt.
 3. Kreminu sprautaði ég síðan á með stút 1M frá Wilton, stráði kökuskrauti yfir og setti eitt RISA Nóakropp á toppinn!

aIMG_9092

Ég mæli með þið prófið þessar!

Allt of fallegar til að hægt væri að velja fáar myndir :)

Fyrsta námskeiðið í nútímalegum kökuskreytingum!

Langar þig til þess að læra að útbúa dásamlega köku í þessum stíl?

Fyrsta námskeiðið í nútímalegum kökuskreytingum verður haldið þann 30.september næstkomandi milli 14:00-18:00 og eru enn nokkur laus pláss, skráning á gotteri@gotteri.is

Ég aðeins búin að vera að leika mér til að undirbúa námskeiðið!

Á námskeiðinu er farið yfir það hvernig jafna skuli kökubotna og skipta þeim, kremi er smurt á milli og hvernig hjúpa skal köku fyrir skreytingu. Kennd er svokölluð „watercolor effect“ aðferð með smjörkremi til að hjúpa kökuna. Því  næst er súkkulaðiskraut útbúið og allir þátttakendur læra að útbúa ganaché og smyrja því á kökuna og hvernig hægt er að láta það leka fallega niður hliðarnar. Að lokum skreyta allir sína köku með frjálsri aðferð.

Frábær gæðastund fyrir alla áhugasama um kökuskreytingar, vinkonur, vini, mæðgur eða hvern sem er!

Verð er 14.900kr og fara allir heim með fullskreytta köku í lok námskeiðs.

Hér fyrir neðan eru síðan hugmyndir af veraldarvefnum sem hægt er að hafa í huga.

6 5 4 3 2 1

 

Sprinkles afmælisþema

Ég eeeeelska að skipuleggja afmælisveislur dætra minna og í næsta mánuði verður sú elsta fjórtán ára og ég mun víst ekki fá að gera fleiri stórafmæli fyrir hana. Ég held þó í vonina að fá að aðstoða hana við vinkonupartýið sitt að einhverju leyti og leyfum við  ykkur að sjálfsögðu að fylgjast með því.

Við vorum að spjalla í gær um hvað hún vildi gera á afmælinu sínu þetta árið og þá áttaði ég mig á því að ég var ekki enn búin að setja hér inn færslu frá afmælinu hennar í fyrra! Ég mun algjörlega kenna meðgöngu og síðar brjóstaþoku um að slatti af efni liggur óhreyft hér á tölvunni minni, þetta kemur þó allt inn á næstunni, ég lofa.

Það var eiginlega allt í SPRINKLES eftir þennan dag og hér fyrir neðan getið þið fengið hugmyndir af ýmsu góðgæti. Ég man að ég var á hátindi ógleðinnar svo Betty Crocker og aðrar einfaldar uppskriftir komu klárlega til bjargar ásamt dyggri aðstoð frá afmælisdömunni sjálfri. Diskar, servettur og þess háttar var allt keypt í Allt í köku.

Afmælistertan sjálf er Betty Crocker með Betty Crocker vanilla icing og súkkulaðismjörkremi og risa kökupinnaís á toppnum.

Afmæliskakan

Hvor kaka um sig voru 5 þunnir botnar (8 og 6 tommu form, c.a 20 og 15cm) og er það um 2-2,5 kökumix, 1 x súkkulaðismjörkremsuppskrift á milli og 2 x Vanilla icing þeytt upp með flórsykri til að þekja. Restin af kökumixinu fór í nokkrar bollakökur. Á toppnum gerði ég síðan „risa“ kökupinnaís en síðan voru einnig þannig minni í boði. Ganaché er skemmtileg aðferð til að gera fallega köku og undir færslunni „Bleik bomba“ hér á síðunni getið þið fundið uppskrift og leiðbeiningar um slíkt.

Kökupinnaís

Þessar dúllur hef ég útbúið nokkrum sinnum og elska ég kökupinnabókina hennar Bakerella sem Ragnheiður vinkona mín gaf mér fyrir nokkrum árum. Ég fylgi ferlinu hennar og hægt er að hafa hvernig köku og krem sem er í þessum kökupinnaís, sjá á heimasíðu Bakerella.

Einnig gerði ég nokkra hefðbundna kökupinna og getið þið séð ferlið og fengið hugmyndir undir kökupinnauppskriftir hér á síðunni ásamt því að skoða kennsluefni.

Það er bara ekki hægt að fá nóg af kökupinnum, þeir gera veisluborðið svo fallegt og drottinn minn svo eru þeir dásamlega góðir!

Bollakökur

Hér eru á ferðinni súkkulaði bollakökur með vanillu smjörkremi í mismunandi litum. Ég notast við stút 104 frá Wilton en það er laufastútur og hægt er að búa til svona skemmtileg blóm með honum.

Hér eru einnig súkkulaðibollakökur á ferðinni með Betty Crocker vanilla frosting sem búið er að þykkja með flórsykri og sprauta rósamynstur með stút 2D frá Wilton.

Hrískökur

Hrískökur eru alltaf vinsælar og það tekur aðeins örfáar mínútur að útbúa slíkar svo þær ættu hreinlega að vera í öllum veislum.

 

Kíkið endilega á flokkinn „Veisluhugmyndir og kökuskreytingar“ hér á síðunni en þar er fullt af skemmtilegum hugmyndum fyrir utan uppskriftarflokkana.

Einnig minni ég á haustnámskeiðin en þar er hægt að læra að gera köku með ganaché, smjörkremsskreytingar á heilar kökur, bollakökuskreytingar já eða dásamlegu kökupinnana!

Chocolate Trailer og temprun á súkkulaði

Fyrr í ágúst fórum við nokkrar vinkonur á námskeið hjá honum Halldóri konfektgerðarmeistara í Chocolate Trailer-num hans niðri í bæ. Þetta var meiriháttar skemmtilegt og þá sérlega þegar hann tók súkkulaðidansinn með okkur! Á námskeiðinu lærðum við að tempra súkkulaði og búa til fyllta ofurgómsæta súkkulaðimola. Ég verð að játa mig seka að hafa aldrei áður gert svona konfekt þrátt fyrir að vera sá sælkeri sem ég er. Nú er ég hins vegar búin að læra hvernig á að tempra súkkulaði ásamt annarri súkkulaðitækni og panta nammihitamæli á netinu þannig að nú verður heimagert konfekt útbúið fyrir þessi jólin.

Súkkulaðivagninn er sá fyrsti sinnar tegundar á Íslandi og mögulega bara í heiminum og hefur hann fengið ómælda athygli ferðamanna enda hver vill ekki læra að útbúa þessi krúttheit og taka um leið heim með sér fallega Íslandsmola!

Grein um vagninn birtist á Lonely Planet um daginn og ég sé hreinlega fyrir mér að erlendir ferðamenn muni standa í röðum til að fá að taka þátt og mæli svo sannarlega með þessu fyrir vinnustaði, saumaklúbba og aðra sem vilja eiga gæðastund saman.

1

Halldór að störfum og þátttakendur vigta súkkulaði.

2

Já!!! Það subbast allt út í súkkulaði, en það er líka bara allt í lagi, sumir settu óþarfa svettu hér og þar til þess að þurfa að „hreinsa“ betur til hjá sér. Við lærðum líka að útbúa fyllingu úr karamellusúkkulaði með sjávarsalti frá Nóa Siríus og viskí :)

Molarnir eru fallegir og fyllingin æðisleg, síðan fá allir svona fallegan poka til að taka molana með í heim.

Fyrir áhugasama þá er hægt að bóka sig á námskeið á netinu á heimasíðu Chocolate Trailer

Mús í krús

Fyrir rúmri viku síðan gæsuðum við vinkonurnar hana Gyðu okkar og byrjaði dagurinn hér heima í bröns. Við vorum með beikon, egg, pönnsur, Mímósu og ávexti og síðan útbjó ég einfalda útgáfu af súkkulaðimús með Nóa kroppi, það sem hún var góð og krúttleg!

Mús í krús

 • 450 gr suðusúkkulaðidropar
 • 110 gr smjör
 • 2 eggjahvítur
 • 600 ml þeyttur rjómi (fyrir músina sjálfa)
 • 300 ml þeyttur rjómi (til að sprauta ofan á músina síðar)
 • Nóa kropp til skrauts

 1. Bræðið súkkulaði og smjör yfir vatnsbaði.
 2. Þegar súkkulaðiblandan er slétt og fín er hún tekin af hitanum.
 3. Eggjahvítunum er þá bætt útí, einni í einu og hrært vel á milli.
 4. Hluta af rjómanum blandað saman við súkkulaðiblönduna með sleif (um ¼).
 5. Síðan er restinni af súkkulaðiblöndunni hellt varlega saman við rjómablönduna og vafið með sleif þar til vel blandað.
 6. Skipt niður í litlar krúsir (þessi uppskrift dugði í 20 krúsir sem þessar en ef stærri dessert skálar eru notaðar eru þetta líklega á bilinu 8-12 skammtar).
 7. Kælið í nokkrar klukkustundir (eða yfir nótt) og sprautið þá vel af rjóma í hverja krús og stráið Nóa kroppi yfir.

Það tók enga stund að útbúa þessa dásemd, ég skellti í músina á föstudagskvöldinu og sprautaði rjómanum síðan á morguninn eftir og stráði Nóa kroppinu yfir.

Veðrið var dásamlegt og við sátum úti á palli með veitingarnar og dagurinn var frábær í alla staði!

bröns