Ömmusnúðar

Þessa dásamlegu stökku kanelsnúða bakaði  hún amma Guðrún ofan í okkur í tonnavís frá því ég man eftir mér. Það þurfti ekki annað en leggja inn pöntun og snúðar voru komnir með heimsendingu stuttu síðar, meira að segja kom nokkrum sinnum risastórt Mackintosh box af snúðum til okkar til Seattle á meðan við bjuggum þar. Þetta lýsir henni elsku ömmu minni vel því hún vildi alltaf allt fyrir okkur gera.

Ég tók þessar myndir í júlí 2016 og hélt ég væri löngu búin að setja inn uppskriftina. Það var hins vegar ekki fyrr en við stelpurnar hennar vorum að fara að baka snúða fyrir erfidrykkjuna hennar um daginn að ég áttaði mig á því að þetta var hvergi að finna. Þá var farið í handskrifuðu uppskriftarstílabókina hennar og auðvitað fundum við þá fljótt þar. Aðeins er að finna innihald og ekki aðferð við flestar uppskriftir hjá ömmu enda gerði hún þetta eftir sinni hendi og svona dass og smá hér og þar. Við náðum engu að síður að gera þá ansi ömmulega ef ég segi nú sjálf frá.

ömmusnúðarnir

Ömmusnúðar

 • 500 gr hveiti
 • 180 gr smjörlíki við stofuhita
 • 150 gr sykur
 • 2 tsk lyftiduft
 • 1 tsk hjartarsalt
 • 1 egg
 • Mjólk eftir þörfum
 • Rjómi og kanelsykur til að smyrja á milli

 1. Hitið ofninn 180°C
 2. Setjið allt saman í hrærivélarskálina (nema rjóma og kanelsykur) og blandið með K-inu
 3. Hellið bara smá mjólk í einu (nokkrum msk í einu) og takið blönduna úr hrærivélina meðan hún er enn frekar þurr en þó þannig að þið getið kreist deigið saman í lófanum og það heldur sér saman.
 4. Færið yfir á borð og hnoðið svolitla stund, deigið mýkist við það og ef ykkur finnst þurfa meiri mjólk þá má setja nokkrar tsk í einu saman við og hnoða vel á milli.
 5. Fletjið síðan deigið út á hveitistráðu borði, c.a 30 x 40/50 cm.
 6. Penslið með rjóma og stráið vel af kanelsykri yfir.
 7. Rúllið upp (frá lengri hliðinni) og skerið niður rúmlega 1 cm sneiðar og raðið á bökunarplötu.
 8. Bakið þar til snúðarnir fara að gyllast.

Ég skal mæla magnið af mjólkinni betur í næstu tilraun og uppfæri þá uppskriftina hér inni en þetta bara spurning að setja eins mikið af mjólk og þið komist upp með án þess að deigið verði of blautt til að hægt sé að fletja það út og rúlla upp.

 

Nacos ídýfa og nýr uppskriftarflokkur

Ég hef lengi gengið með þá hugmynd í maganum að útbúa sérstakan uppskriftarflokk fyrir „partýrétti“ sem sniðugir eru í ýmsar veislur. Þegar ég hef haldið veislur hef ég einbeitt mér að því að skrifa um kökurnar og kökuskreytingarnar en nú hef ég loksins látið verða að því að beina myndavélinni víðar svo hér munu fleiri skemmtilegir réttir detta inn á næstunni.

Þessi uppskrift kemur frá Þórunni vinkonu minni og eru bráðum tuttugu ár síðan hún kynnti mig fyrir þessari dásamlegu uppskrift og verð ég að segja að hún er frábærlega fersk og góð og erfitt að hætta þegar maður byrjar!

Þessa færslu útbjó ég fyrir Gott í matinn á dögunum og var við það að gleyma að setja hana hingað inn en hvet ykkur nú til þess að bjóða upp á þessa dásemd í næstu veislu eða bara fyrir fjölskylduna eða vinina um helgina!

Nacosdýfa

 • 1 lítil krukka salsasósa (medium)
 • 1 dós rjómaostur (við stofuhita)
 • 1 rauðlaukur
 • Iceberg (c.a ¼ haus eftir stærð)
 • 1 x rauð paprika
 • ½ púrrulaukur
 • Nokkrir sveppir (c.a 8 stk)
 • Mini tómatar og nokkrir hringir af blaðlauk til skrauts
 • Nacos (saltað/venjulegt finnst mér passa best og hringlóttu flögurnar frá Santa Maria henta vel)

ferlið

 1. Setjið salsasósu og rjómaost í hrærivélarskálina og blandið þar til kekkjalaust og létt í sér.
 2. Saxið rauðlauk mjög smátt og dreifið í botninn á þeirri skál/fati/bakka sem verður fyrir valinu.
 3. Smyrjið rjómaostblöndunni yfir rauðlaukinn.
 4. Saxið grænmetið smátt (nema tómata) og dreifið yfir blönduna (að sjálfsögðu má nota annað grænmeti, bara það sem ykkur þykir gott).
 5. Skerið nokkra mini tómata til helminga og skreytið.
 6. Gott er að kæla nacosdýfuna aðeins áður en hennar er notið en þó ekki nauðsynlegt.

 

Hrekkjavöku ostakaka

Hér er á ferðinni dásamlega góð ostakaka með Hrekkjavökuívafi sem ég útbjó fyrir Gott í matinn!

Hrekkjavöku ostakaka

Botn

 • 308 gr mulið Oreo (2x 154 gr pakki)
 • 120 gr smjör
 • ½ tsk salt
 • 1 tsk vanillusykur

Ostakakan sjálf

 • 500 gr rjómaostur til matargerðar frá Gott í matinn (við stofuhita)
 • 90 gr sykur
 • 1 tsk vanillusykur
 • 4 gelatínblöð
 • 60 ml sjóðandi vatn (til að leysa upp gelatínið)
 • 400 ml þeyttur rjómi
 • 3 x Mars súkkulaðistykki, skorin í smáa bita

Súkkulaði ganaché

 • 40 gr suðusúkkulaði (smátt saxað)
 • 2 msk rjómi

Aðferð

 1. Byrjið á botninum. Blandið saman muldu Oreo, salti, vanillusykri og bræddu smjöri. Klæðið botn (og hliðar ef vill) á 20-22 cm springformi með bökunarpappír og þjappið blöndunni á botninn og aðeins upp hliðarnar. Setjið í kæli á meðan kakan sjálf er útbúin.
 2. Leggið gelatínblöð í kalt vatn í um 10 mínútur, kreistið þá vatnið úr og setjið í sjóðandi vatn (60ml). Hrærið vel saman og tryggið að blandan sé uppleyst og leyfið því næst að ná stofuhita.
 3. Þeytið rjómann og geymið.
 4. Þeytið því næst saman rjómaost, sykur og vanillusykur þar til létt og ljóst.
 5. Hellið gelatínblöndunni saman við rjómaostablöndunni þegar hún hefur kólnað niður og vefjið síðan rjómanum saman við með sleikju.
 6. Útbúið ganaché: hitið rjómann að suðu og hellið yfir smátt saxað súkkulaðið, leyfið að standa í 2 mínútur og hrærið svo saman. Leyfið að kólna aðeins þar til það fer að þykkna og setjið þá í sprautupoka/klippið lítið gat á zip lock poka til að sprauta köngulóarvefinn á þegar búið er að setja kökuna saman.
 7. Skiptið ostakökublöndunni í tvo hluta og hrærið Mars bitunum saman við annan hlutann.
 8. Hellið fyrst hlutanum með Mars bitunum á botninn og því næst hvíta hlutanum og sléttið vel úr í forminu.
 9. Sprautið ganaché á miðjuna og svo í hringi með um það bil 1,5 cm á milli. Dragið þá prjón í gegn frá miðjunni og myndið þannig köngulóarvef.
 10. Kælið í að minnsta kosti 4 klst eða yfir nótt og losið þá úr forminu og færið yfir á disk.

Shopkins afmælisþema

Í vor var Shopkins æðið yfirráðandi hjá henni Elínu minni og kom ekkert annað til greina en halda Shopkins afmæli. Það kom skemmtileg umfjöllun um veisluna á www.mbl.is en síðan steingleymdi ég auðvitað að setja hana hingað inn í kjölfarið svo hér kemur hún loks!

Súkkulaðigosbrunnur og ávextir

 • 1,2 kg af Odense súkkulaðidropum (seljast í 100gr pokum)
 • 280 ml ljós matarolía
 • 1 ananas
 • 3 öskjur jarðaber
 • 1 askja brómber
 • 1 gul melóna (notast við kúluáhald til að taka innan úr)
 • 1 klasi rauð vínber
 • 1 klasi græn vínber
 • 1 poki mini sykurpúðar (fást t.d í Sösterne Gröne og Krónunni)
 • Grillprik

Skerið ávextina niður í hæfilega stóra bita og raðið ásamt sykurpúðum á grillpinna. Ég gerði um 30 pinna og síðan fór restin af ávöxtunum í skálar og hver og einn gat búið til sinn uppáhaldspinna og dýft í súkkulaðið.

Bræðið súkkulaðið í tvennu lagi í örbylgjuofninum á næsthæsta hita í um það bil 30 sekúndur í senn og hrærið vel á milli. Þegar súkkulaðið er bráðið er matarolíunni blandað saman við og hitað einu sinni til viðbótar. Súkkulaðiblöndunni er síðan hellt í skálina á gosbrunninum og kveikt á, blandan á að vera orðin það vel út þynnt að hún rennur fallega niður brunninn. Ef þið eigið ekki súkkulaðigosbrunn má vel notast við Fondue skálar eða hreinlega bara bræða súkkulaði og hella í venjulega skál, það er merkilegt hvað slíkt stendur lengi án þess að storkna. Ef það fer síðan að storkna má bara setja það örstutt aftur í örbylgjuofninn og aftur á borðið.

Rice Krispies kökur

 • 50 gr smjör
 • 5 msk sýróp
 • 250 gr suðusúkkulaði
 • Rice Krispies

Hitið smjör, sýróp og suðusúkkulaði saman í potti við miðlungsháan hita og leyfið blöndunni að bubbla aðeins í lokin og takið síðan af hellunni. Bætið þá Rice Krispies saman við í litlum skömmtum. Setjið minna en meira í einu og hrærið vel á milli. Mér finnst best að hafa vel af súkkulaðiblöndu svo kökurnar verði svona frekar klístraðar og „djúsí“ en hægt er að drýgja blönduna betur með smá meira Rice Krispies fyrir þá sem vilja. Setjið í pappaform sem ykkur þykja falleg (hægt að nota bæði lítil og stór) og síðan er hægt að stinga fána eða öðru skrauti í hverja köku.

Cupcake Queen Shopkins afmælisterta

Kakan

 • 1,5 Betty Crocker Devils Food Cake kökumix samkvæmt leiðbeiningum á pakka (ég blandaði reyndar tvöfalt og notaði restina í bollakökur).

Kökumix hrært samkvæmt leiðbeiningum og hellt í vel smurt risa bollakökuform. Ef þið eigið ekki slíkt er hægt að gera nokkra botna, setja krem á milli og skera út. Ég var síðan með pappaspjald sem sat á grillpinnum á milli hæða til að auðveldara væri að skera kökuna.

Smjörkrem (á þessa köku gerði ég 3 x neðangreinda uppskrift)

 • 125gr smjör (mjúkt)
 • 500gr flórsykur
 • 3 tsk vanilludropar
 • 3 msk sýróp
 • Smá vatn
 • Gulur og túrkís matarlitur
 • Kökuskraut

Blandið öllum hráefnum saman í hrærivélarskálinni þar til slétt og fellt. Skiptið kreminu  niður og litið (um 1/3 gulur og 2/3 blár).

Grunnið kökuna fyrst með þunnu lagi af kremi til að binda alla kökumylsnu. Smyrjið þá aftur þykkara lagi á neðri hlutann og sléttið eins og hægt er. Fyrir efri hlutann notaðist ég við stóran hringlaga stút (c.a 3 cm í þvermál) og sprautaði upp í spíral. Áður en efri hlutinn storknaði stráði ég svo kökuskrauti og sykurperlum hér og þar.

Sykurmassaskraut

 • Tilbúið Gumpaste (fæst í Allt í köku)
 • Svartur og bleikur matarlitur
 • Kökuskraut
 • Gullsprey/gyllt glimmer

Blandið smá klípu af gumpaste saman við bæði svartan og bleikan matarlit. Rúllið út og stingið út augu, mótið augnhár, nef, munn, augabrúnir og raðið saman. Fæturna fremst bjó ég til úr bleiku gumpaste og skreytti með kökuskrauti. Kórónuna stakk ég út með hvítu gumpaste og spreyaði með gylltum lit, stráði gylltu glimmeri yfir áður en það þornaði og stakk sykurperlum í hér og þar. Hendurnar mótaði ég með hvítu gumpaste og smurði síðan gulu smjörkremi yfir.

Poppy Popcorn Shopkins afmælisterta

Kakan

 • 1 Betty Crocker Red Velvet Cake kökumix samkvæmt leiðbeiningum á pakka.
 • Smjörkrem (1,5 x uppskrift hér að ofan)
 • Sykurperlur

Kökumix hrært samkvæmt leiðbeiningum og hellt í „Barbie“ bökunarform. Skreytt með smjörkremi í rauðu, bláu og hvítu eftir að dúkkunni hefur verið stungið í kökuna miðja. Fyrst er smurt þunnu lagi af kremi á kökuna og síðan sprautaðar stjörnur með 1M stút frá Wilton og sykurperlum stungið í hér og þar.

Peppa Mint Shopkins afmælisterta

Kakan

 • 1 Betty Crocker Vanilla Cake kökumix samkvæmt leiðbeiningum á pakka.
 • Smjörkrem (2 x uppskrift hér að ofan)
 • Sykurperlur og smá bleikt glimmer

Kökumix hrært samkvæmt leiðbeiningum og hellt í „Barbie“ bökunarform. Skreytt með bleiku smjörkremi eftir að dúkkunni hefur verið stungið í kökuna miðja. Fyrst er smurt þunnu lagi af kremi á kökuna og síðan sprautað blúndumynstur með stút nr 125 frá Wilton og bleiku glimmeri stráð yfir allt saman í lokin. Að lokum er grænbláum sykurperlum stungið í hér og þar.

Sleikjókúla

 • 30 stk Chupa Chups sleikjóar
 • ½ gul melóna (hreinsuð að innan)
 • Hjartapinnar (keyptir í Tiger)
 • Álpappír

Melónan holuð að innan (ég bjó til melónukúlur fyrir súkkulaðigosbrunnin úr því) og álpappír settur yfir hana alla. Sleikjópinnum og hjartapinnum stungið í kúluna.

Bollakökur

 • Betty Crocker Devils Food Cake kökumix
 • Smjörkrem (1 x uppskrift að ofan)
 • Smarties, M&M eða Skittles
 • Papparör og útprentaðar Shopkinsmyndir – heimatilbúið skraut

Bollakökur bakaðar, smurðar með smörkremi, skreyttar með Smarties/Skittles/M&M og priki stungið í miðjuna.

Hjúpaðir sykurpúðar

 • 1 poki Haribo sykurpúðar
 • ½ poki Candymelts í hverjum lit (ég notaði 3 liti)
 • Kökuskraut og Smarties
 • Pappaprik

Stingið pappapriki í sykurpúðana svo þeir verði vel fastir. Bræðið Candy Melts og dýfið hálfa leið upp sykurpúðann, skreytið með kökuskrauti og Smarties og leyfið að storkna.

Popp í pappapokum og karamellur settar í litlar marglitar krúsir

 

 

Brakandi bitar

Hér er á ferðinni  tilraunauppskrift úr sumarfríinu þar sem við mæðgur útfærðum Rice Krispies kökurnar örlítið og bættum Nóa kroppi í uppskriftina, vá hvað það var gott!

Brakandi bitar

 • 75 gr smjör
 • 200 gr suðusúkkulaðidropar
 • 5 msk sýróp
 • 150 gr Rice Krispies
 • 150 gr Nóa kropp + 50 gr til skrauts

 1. Setjið smjör, súkkulaði og sýróp í pott og leyfið suðunni að koma upp og lækkið þá strax niður og hrærið vel í nokkrar mínútur.
 2. Takið súkkulaðiblönduna af hellunni og leyfið að standa í nokkrar mínútur (takið til pappaform á meðan)
 3. Hrærið þá Rice Krispies og Nóa kroppi saman við og skiptið niður í formin.
 4. Setjið nokkur Nóa kropp á hverja köku áður en hún kólnar því þannig næst fallegt útlit á kökurnar.

Grillað góðgæti

Ég er enn að vinna upp myndir og uppskriftir frá því í sumarfríinu og lengra, greinilegt að ég er duglegri að baka og mynda en blogga!!!

Hér eru á ferðinni brjálæðislega góðir grillaðir bananar. Við hreinlega fáum ekki nóg af því að grilla okkur súkkulaðibanana með ýmsum útfærslum og hér kemur enn ein fyrir ykkur að njóta!

Grillaðir bananar

 • Bananar (ekki of þroskaðir)
 • Siríus rjómasúkkulaði með kremkexi
 • Suðusúkkulaðidropar

 1. Skerið endana af hverjum banana og rauf eftir honum miðjum.
 2. Komið vel fyrir á smá „álpappíshreiðri“ svo þeir liggi ekki alveg á grillinu.
 3. Fyllið með báðum tegundum af súkkulaði og reynið að koma eins miklu í hvern og þið komist upp með.
 4. Grillið yfir meðalhita í nokkrar mínútur eða þar til súkkulaðið er bráðið.

Á þessu heimili er grillað allan ársins hring, vetur, sumar, vor og haust svo það er alltaf tilefni til að gera góðan súkkulaðibanana í eftirrétt!

Heimsins bestu vöfflur

Við vorum í sumarbústað í Húsafelli í ágúst og ákvað ég að það væri löngu tímabært að prófa góða vöffluuppskrift. Á heimasíðunni Passion for baking fann ég uppskrift af „Norwegian waffles“ sem mér leist vel á og útfærði örlítið, bæði yfir í það sem ég hélt að kæmi enn betur út og til að aðlaga uppskriftina að tveimur svöngum fimm manna fjölskyldum.

Ég verð að segja að þetta voru bestu vöfflur sem ég hef smakkað! Ég held að galdurinn liggi annars vegar í „buttermilk“ og hins vegar í sigtun á hveiti því svona silkimjúkt deig hef ég ekki áður augum litið.

Heimsins bestu vöfflur

 • 5 egg
 • 225 gr sykur
 • 720 ml mjólk
 • 180 ml „buttermilk“
 • 2 tsk vanilludropar
 • 140 gr bráðið smjör
 • 570 gr hveiti
 • 1 tsk lyftiduft
 • 1 tsk salt
 1. Þeytið saman sykur og egg þar til létt og ljóst.
 2. Bætið því næst mjólk, „buttermilk“, vanilludropum og bræddu smjöri saman við. Til þess að útbúa buttermilk er mjólk hellt í skál og 1-2 tsk sítrónusafi settur saman við og látið standa í um 5 mínútur.
 3. Sigtið hveitið og blandið því ásamt lyftidufti og salti varlega saman við blönduna.
 4. Þetta voru alveg um 25+ vöfflur og dugði vel fyrir tvær stórar fjölskyldu

ÁSTFANGIN…..af hrærivél!

Já krakkar mínir! Ég veit ekki hvar ég á að byrja…..EN ég var að fá NÝJA hrærivél og er alveg sjúk í hana!

Ég er ekki að grínast með það þegar ég segist vera ástfangin af henni. Þessi litur einn og sér gerir mig bara glaða, ég get svo svarið það að ég get varla hætt að horfa á hana! Ég var eins og lítill krakki á jólunum þegar ég tók hana upp úr kassanum og skipti þeirri eldri út fyrir þennan dásamlega fallega og bjarta bláa lit.

Ég átti hins vegar mjööööög erfitt með að velja mér lit, það voru svo margir fallegir. Ég var upphaflega ákveðin í því að fá mér þessa hrímhvítu með glæru skálinni….

….ræddi síðan við Ingu vinkonu mína og var að fá álit á litavali þar sem mér fundust nokkrir litir svo æðislega fallegir að auki við þessa hvítu. Þá sagði hún við mig að lífið væri einfaldlega of stutt fyrir hvíta hrærivél og ég ákvað á staðnum að taka hana á orðinu!

Ég fór því í Rafland og við tók  val á milli þessara véla og hamingjan hjálpi mér ekki var það auðvelt….

Kitchen aid

….eigandi þrjár stelpur kallaði þessi bleika strax á mig, svo búum við líka í bleika hverfinu í Mosó, hahahaha. Pistasíugræna og þessi gula eru líka svo undurfallegar. Eftir að hafa velt þessu fyrir mér í nokkra daga og skipt um skoðun oft á dag komst ég niður á það að fá mér þessa ísbláu og sé alls ekki eftir því.

Ég fann mig strax knúna til þess að baka eitthvað í stíl við vélina enda telst slíkt fullkomlega eðlilegt á þessu heimili og skellti ég í þessa fallegu súkkulaðiköku.

Kaka

 • Betty Crocker Devils Food Cake mix
 • 4 egg
 • Olía og vatn samkvæmt leiðbeiningum á pakka
 • 3 msk bökunarkakó
 • 1 pk Royal súkkulaðibúðingur
 1. Hrærið saman eggjum, olíu og vatni.
 2. Bætið kökumixi og bökunarkakó saman við.
 3. Þegar búið er að hræra deigið vel og skafa niður á milli er búðingsduftinu hellt saman við í lokin og hrært létt.
 4. Ég notaðist við 3 x 6 tommu form en þau eru um 15 cm í þvermál og tók svo hvern botn í tvennt með kökuskera svo úr urðu 6 þynnri botnar.

Krem á milli botna

 • 125 gr smjör við stofuhita
 • 400 gr flórsykur
 • 2 tsk vanilludropar
 • 4 msk sýróp
 • 4 msk bökunarkakó
 1. Allt sett saman í hrærivélina og hrært þar til slétt og fellt, þá skipt niður á botnana, frekar þunnt lag á hvern því þetta eru jú fimm lög af kremi!

Krem utan á köku

 • 2 x Betty Crocker Vanilla frosting
 • ca 300 gr af flórsykri (finnið hvort það þurfi meira til að sprauta stjörnunum á)
 1. Blandið þessu saman og hjúpið kökuna alla með þunnu lagi af hvítu kremi og leyfið henni að standa aðeins til að fá á sig „harða“ skel.
 2. Takið smá krem til hliðar og litið í þeim litum sem þið viljið hafa, hér var ég með þrjá misdökka bláa liti.
 3. Smyrjið þá aftur hvítu kremi á hliðarnar og nú í meira magni en við hjúpun.
 4. Setjið smá af hverjum lit sem þið hafið valið hér og þar á kökuna og dragið svo með spaða til að litirnir blandist.
 5. Látið kökuna svo standa aftur á meðan þið útbúið Ganacé (uppskrift hér að neðan)
 6. Þegar Ganacé er komið á kökuna er gott að kæla hana smá stund og sprauta síðan smjörkremsmynstri á toppinn. Ég notaði nokkra misstóra stjörnustúta og smá kökuskraut en að sjálfsögðu má skreyta þetta hvernig sem er.

Ganacé

 • 100 gr smátt saxað suðusúkkulaði
 • 1/3 bolli rjómi
 1. Hitið rjómann að suðu og hellið yfir saxað súkkulaðið, látið standa í tvær mínútur.
 2. Hrærið þá saman með písk eða gaffli þar til vel blandað.
 3. Smyrjið yfir topp kökunnar og látið leka niður hliðarnar.

Þessi hlíf fylgdi einnig með sem hægt er að setja yfir skálina og hella hráefnum út í án þess allt fari út um allt, algjör snilld!

Ég gerði líka dásamlega fallegar bollakökur þar sem erfitt var að hemja sig í gleðinni og set inn uppskrift af þeim fljótlega!

Færsla þessi var unnin í samstarfi við Rafland og Kitchen Aid á Íslandi þar sem boðið er upp á mesta úrval af Kitchen Aid á Íslandi!

Bollakökur með dásamlegu súkkulaðikremi

Ég bakaði þessar bollakökur um daginn og voru þær alveg hreint dásamlega góðar. Þetta var mín fyrsta færsla hjá Gott í matinn og að sjálfsögðu er það íslenska silfurlitaða smjörið sem gerir þetta krem svona yndislega bragðgott!

Ég fór með nokkrar í hópahitting í skólanum og meira að segja Einar sem sagðist aldrei borða krem á köku fannst það æðislegt!

Súkkulaði bollakökur

 • 260 gr hveiti
 • 220 gr bolli sykur
 • 6 msk bökunarkakó
 • 1 tsk salt
 • 1 tsk matarsódi
 • 3 egg
 • 2 tsk vanilludropar
 • 160 ml olía
 • 230 ml kalt vatn
 1. Sigtið saman hveiti, sykur, kakó, salt og matarsóda, leggið til hliðar.
 2. Þeytið saman egg, olíu, vatn og vanilludropa þar til það verður létt í sér.
 3. Bætið þurrefnunum rólega samanvið og skafið vel niður á milli.
 4. Skiptið niður í um 20 bollakökuform og bakið við 180 gráður í 15-18 mínútur.

Bollakökur

Súkkulaðismjörkrem

 • 125 gr smjör (við stofuhita)
 • 400 gr flórsykur
 • 2 tsk vanilludropar
 • 2 msk  Maple sýróp
 • 4 msk bökunarkakó
 1. Setjið öll hráefnin nema flórsykur og kakó í hrærivélarskálina og hrærið vel saman.
 2. Blandið flórsykri og kakó saman og bætið varlega útí blönduna, skafið niður á milli og hrærið þar til kremið er slétt og fellt.
 3. Kreminu sprautaði ég síðan á með stút 1M frá Wilton, stráði kökuskrauti yfir og setti eitt RISA Nóakropp á toppinn!

aIMG_9092

Ég mæli með þið prófið þessar!

Allt of fallegar til að hægt væri að velja fáar myndir :)