Litlar kókos pavlour

Þessar dúllur gerði ég fyrr í sumar fyrir útskriftarveisluna mína og átti alltaf eftir að setja uppskrifina hingað inn. Eins og þið hafið líklega tekið eftir þá elska ég allt sem heitir „mini“ eitthvað og hef komist að því að veislugestir gera það líka!

Ég var með eftirréttarturn á nokkrum hæðum í útskriftinni með alls kyns sætum smábitum og þetta er líklega það sniðugasta sem ég hef gert í slíkum málum. Þarna á milli er að finna kókospavlournar með rjóma og kirsuberi. Til viðbótar voru mini pavlour með karamellu, súkkulaðimús, brownie bitar, bollakökur, ávextir, makkarónur, marengstoppar og blóm, allt saman dásamlega fallegt í bland.

Kókos pavlour

 • 4 eggjahvítur
 • 4 dl sykur
 • 1 ½ dl Til hamingju gróft kókosmjöl
 • 300 ml þeyttur rjómi
 • Kirsuber til skrauts

 1. Hitið ofninn 110°C.
 2. Þeytið saman eggjahvítur og sykur þar til stífir toppar myndast.
 3. Vefjið kókosmjölinu saman við með sleif.
 4. Setjið í stóran sprautupoka með hringlaga stút (eða klippið gat á sterkan poka)og sprautið litla toppa á bökunarplötu (um það bil 4-5 cm í þvermál). Búið síðan til smá holu í miðjuna með botninum á teskeið til að meira pláss myndist fyrir rjómann.
 5. Bakið í 50 mínútur og kælið.
 6. Sprautið þeyttum rjóma á hverja pavlou og skreytið með kirsuberi.
 7. Uppskriftin gefur um 35-40 stk af litlum pavloum.

Eggjasalat með karrýkeim

Eggjasalöt eru fullkomin ofan á kex eða brauð og hér kemur skemmtileg útfærsla af eggjasalati með karrýkeim…….mmmmm þetta var ÆÐI!

Tilvalið í veisluna, með kaffinu eða bara þegar eggjasalatslöngunin hellist yfir ykkur :)

Eggjasalat með karrýkeim

 • 4 egg
 • 1 góð lúka brokkoli
 • 4 msk majones frá E. Finnsson
 • ½ tsk karrý
 • ½ tsk gróft sinnep
 • Pipar og salt eftir smekk
 • Radísur til skrauts
 • Vorlaukur til skrauts
 • Gott baguette brauð/kex

 1. Harðsjóðið eggin og kælið á meðan annað er útbúið.
 2. Saxið brokkoli smátt niður.
 3. Skerið radísur og vorlauk í þunnar sneiðar.
 4. Skerið eggin niður á tvo vegu í eggjaskera eða stappið/tætið niður með gaffli.
 5. Setjið þá brokkoli, majones, karrý og sinnep í skál og blandið saman, kryddið til með salti og pipar.
 6. Hellið í skál og stráið vel af radísum og vorlauk yfir og berið fram með góðu brauði eða kexi.

Radísurnar og vorlaukurinn gera þetta einstaklega girnilegt þó svo auðvitað megi sleppa því fyrir þá sem slíkt kjósa.

Þessi færsla er unnin í samstarfi við Vogabæ

Avókadó franskar með sriracha majónesi

aIMG_7342

Prófaði í fyrsta skipti að gera avókadó franskar um daginn og jommí þessar voru æði!

Avókadó franskar með sriracha majónesi

Franskar

 • 2 þroskuð en stíf Avókadó
 • 60 gr hveiti
 • 70 gr kókosmjöl
 • 2 egg
 • 1 msk vatn
 • 4 tsk hvítlauksduft
 • 2 tsk paprikuduft
 • 1 tsk salt
 • ½ tsk pipar

Sriracha majónes

 • 3 msk majónes frá E. Finnsson
 • 3 msk grísk jógúrt
 • 1 msk Sriracha sósa
 • 1 tsk sítrónusafi/limesafi
 • Pipar eftir smekk

aIMG_7362

 1. Hitið ofninn 210°C
 2. Gerið ofnskúffu/grind tilbúna með bökunarpappír.
 3. Helmingið avókadó eftir endilöngu og skerið í hæfilega stórar franskar, um það bil 5-7 stykki.
 4. Blandið öllum kryddum saman í eina skál.
 5. Hrærið saman egg og vatn í einni skál og setjið til hliðar.
 6. Setjið hveiti og helminginn af kryddblöndunni í skál og blandið saman.
 7. Setjið kókosmjöl og hinn helminginn af kryddblöndunni í skál og blandið saman.
 8. Dýfið hverjum bita fyrst í hveitiblönduna, þá eggjablönduna og að lokum í kókosmjölið og raðið á bökunarpappírinn.
 9. Bakið í ofninum í 10-12 mínútur, snúið þá við og bakið áfram í 2-4 mínútur.
 10. Hrærið öllum hráefnum saman í majónesið á meðan franskarnar bakast.

aIMG_7390

Þessi færsla er unnin í samstarfi við Vogabæ

Berjabakki með ostum

Verslunarmannahelgin er handan við hornið og ostabakkar eru málið hvort sem þið ætlið að vera heima í kósý, í útilegu, sumarbústað eða hvar sem er!

Hér eru á ferðinni Dala Höfðingi, Kastali og Camenbert með alls kyns berjum, jarðaberjasultu, kexi og ristuðu baguette.

Sjóræningja-afmæli

aIMG_6718

Hann Stefán Kári yndisvinur minn varð sex ára fyrir nokkrum dögum, hvernig sem það má nú vera þar sem hann bara fæddist í gær! Ég dýrka þetta barn og finnst hann einn sá fyndnasti sem til er og hlakka til komandi uppátækja hjá honum!

afmæli 4

Foreldrar hans þau Inga og Stefán vinir okkar eru auðvitað snillingar með meiru og ég eeeeeeeelska að koma í veislur til þeirra og að sjálfsögðu er samið um að ég mæti með myndavél og fái að mynda og blogga um herlegheitin.

aIMG_6763

Þau eru ekki þekkt fyrir annað en að fara ALL-IN þegar að afmælisveislum kemur og þessi veisla var sko engin undantekning! Hér fyrir neðan koma síðan uppskriftir og útfærslur af því sem boðið var upp á.

aIMG_6799

Rice Krispies kubbar

 • 50 gr smjör
 • 250 gr hvítt candy melts
 • 5 msk sýróp
 • Rice Krispies

Allt sett saman í pott nema Rice Krispies. Hitað þar til bráðið og hrærið vel í á meðan. Takið því næst af hellunni í nokkrar mínútur og bætið Rice Krispies útí, hrærið vel á milli og bætið svo meiru við eftir þörfum. Dreifið úr blöndunni á bökunarpappír á bretti, leggið annan bökunarpappír ofan á og þrýstið saman hliðunum og leggið bók/bretti ofan á til að ná þessu nokkuð sléttu. Gott er að ýta þessu saman í rétthyrning eins og best verður á kosið, kæla og skera síðan í teninga og stinga grillpriki í þegar orðið kalt. Svart og rautt Candy melts er síðan brætt og neðri hlutanum stungið í og aftur látið kólna/storkna á bökunarpappír. Hér er best að halda bara í kubbinn sjálfan því grillprikið gæti losnað úr við dýfinguna :)

aIMG_6742

Ávaxtapinnar á grillprikum slá alltaf í gegn……

aIMG_6802

….. og ekki síður melónubitar sem búið er að stinga íspriki í.

aIMG_6718

Sjóræningjakaka

Kakan er Betty Crocker Devils Food Cake Mix með vanillubúðing til viðbótar við annað innihald (duftið sett út í alveg í lokin), bökuð í 2 x 20 cm formum og hvor botn tekinn í tvennt. Smjörkremi með bræddu súkkulaði smurt á milli botna. „Sandurinn“ er síðan mulið Haust kex í blandaranum/matvinnsluvél. Kistan var Kit-Kat sem var límt saman með súkklaðihjúp. Í kistunni var stór sykurpúði í botninum svo að það þyrfti ekki að fylla hana af nammi. Gullpeningarnir eru keyptir í Costco.
aIMG_6729
Sjóræningjapinnar
 • 3 msk smjör
 • 1 poki sykurupúðar (um 40 stk)
 • 6 bollar Rice Krispies

Skraut

 • Svart og rautt Candy Melts
 • Hvítt kökuskraut og nammiaugu frá Wilton
 • Íspinnaprik
 1. Bræðið smjör í stórum potti við lágan hita og bætið sykurpúðunum út í og hrærið þar til þeir hafa bráðnað alveg saman við smjörið.
 2. Bætið Rice Krispies út í, einum bolla í einu og hrærið vel.
 3. Setjið bökunarpappír á plötu/bakka og hellið blöndunni þar á. Spreyið/berið matarolíu á sleif og dreifið úr blöndunni á bökunarpappírnum. Gott að hafa þetta nægilega þykkt til að geta stungið tréprikunum í. Hér er gott að leggja annan bökunarpappír ofan á blönduna og pressa létt með stórri bók/bretti til að slétta aðeins áður en hringir eru stungnir út.
 4. Kælið, berið matarolíu á hringlaga piparkökumót (svo það klístrist ekki við) og stingið síðan út eins marga hringi og þið getið og stingið trépriki í hvern hring.
 5. Bræðið rautt Candy Melts og dýfið í fyrir klútinn og stráið hvítu kökuskrauti yfir áður en harðnar.
 6. Bræðið þá svart Candy Melts og setjið í poka og klippið lítið gat. Sprautið lepp, nef og munn ásamt því að setja smá súkkulaði undir nammiaugun (fást í Allt í köku og eru frá Wilton).

aIMG_6750

Melónuskip

Melóna skorin í tvennt og kúlur gerðar með ísskeið. Seglið síðan gert úr berkinum og fest saman með grillpinna.
aIMG_6809
Rice Krispies kökur
 • 50 gr smjör
 • 250 gr suðusúkkulaði
 • 7 msk sýróp
 • 1 poki lakkrískurl
 • Rice Krispies

Allt sett saman í pott nema Rice Krispies. Hitað þar til bráðið og ég leyfi þessu alltaf að „sjóða“ í um eina mínútu og hræri vel í á meðan því þá festist blandan betur saman þegar hún kólnar. Takið því næst af hellunni í nokkrar mínútur og bætið Rice Krispies og lakkrískurli út í, hrærið vel á milli og bætið svo meiru Rice Krispies við eftir þörfum.

aIMG_6698

Grillaðar pylsur, ostar og annað góðgæti fyrir fullorðna fólkið

afmæli 1

Krúttlegu frændsystkinin

afmæli 2

Það var gott veður þennan dag (einn af fáum þetta sumarið) og fallegi garðurinn í Lækjaberginu var vel skreyttur og risa hoppukastali var á túninu.

afmæli 3

 

 

Pastasalat

Hér er á ferðinni dásamlegt pastasalat sem hentar frábærlega í veisluna, kvöldmatinn, nestisboxið eða hvað eina!

Pastasalat

 • 1 pakki beikon
 • 350 gr pastaskrúfur
 • 4 msk létt majónes frá E. Finnsson
 • 5 msk Ranch dressing
 • 15-20 cherry tómatar
 • 1 góð lúka brokkoli
 • Nokkur blöð af Romaine salati (c.a 4 stk)
 • 100 gr rifinn Cheddar ostur
 • 1/3 rauðlaukur

 1. Sjóðið pastaskrúfur og hellið ólífuolíu yfir þær í sigti þegar tilbúnar og hristið saman, leyfið að kólna.
 2. Steikið beikonið þar til stökkt, leggið á pappír og leyfið að kólna, myljið eða klippið það því næst niður.
 3. Hrærið saman majonesi og Ranch dressingu þar til kekkjalaust, leggið til hliðar.
 4. Skerið tómata í teninga, skerið brokkoli smátt niður og saxið romaine salat og rauðlauk.
 5. Rífið því næst ostinn og blandið öllu saman í skál, pasta, grænmeti, osti, beikoni og sósunum.
 6. Fallegt er að skreyta með litlum tómötum og strá smá af beikoninu yfir í lokin.

Mmmm þetta var svo gott og öll fjölskyldan var þar sammála þó svo Elín Heiða sagði að það hefði mátt sleppa rauðlauknum fyrir hana :)

Þessi færsla er unnin í samstarfi við Vogabæ.

Súkkulaðihjúpaðir bananar

aIMG_6534

Ég elska allt sem er einfalt, fallegt og gott! Ef það á við um ykkur líka eru þessir súkkulaðihjúpuðu bananar algjörlega málið, allir hér á þessu heimili elskuðu þá en það voru hins vegar skiptar skoðanir á því hvort fólk væri hnetu eða kókos megin í lífinu.

aIMG_6515

Súkkulaðihjúpaðir bananar

 • 3-4 bananar (skornir í 2-3 bita hver)
 • 150 gr suðusúkkulaði
 • 150 gr hjúpsúkkulaði
 • Til hamingju hakkaðar heslihnetur
 • Til hamingju gróft kókosmjöl
 • Íspinnaprik

aIMG_6484

 1. Skerið hvern banana í 2-3 bita eftir því hversu stórir þeir eru og takið aðeins af endunum báðu megin.
 2. Stingið íspinnapriki í hvern bita.
 3. Bræðið saman suðusúkkulaði og hjúpsúkkulaði (betra að hafa smá blöndu því hjúpsúkkulaðið storknar fyrr og verður harðara).
 4. Setjið brætt súkkulaði í hátt plastglas/annað mjótt ílát og dýfið hverjum bita á kaf.
 5. Hallið bitanum þá upp á við og sláið eins mikið af súkkulaðinu af og þið getið og snúið bitanum reglulega.
 6. Þegar súkkulaðið er hætt að renna af má strá ríkulega af hnetum eða kókosmjöli  allan hringinn og leggja bitann síðan á bökunarpappír þar til súkkulaðið storknar.
 7. Bananabitarnir eru bestir samdægurs og gott er að geyma þá í kæli (þeir duga þó vel í 1-2 daga frá hjúpun).

aIMG_6541

Ég er klárlega hnetumegin í lífinu, elska allt með hnetum og vá hvað þessi blanda passaði hrikalega vel saman, bananar, súkkulaði og hnetur….mmmmm

aIMG_6529

 

 

Blómamarengs

Tinna vinkona mín varð þrítug fyrr í sumar og er hún algjör snillingur í kökugerð. Hún útbjó tölustafina 3 og 0 úr dásamlegum blómamarengs, tók fyrir mig myndir og sendi mér uppskriftina til þess að leyfa ykkur að njóta!

Það hefur sýnt sig undanfarið að númerakökur eins og þessar eru að slá í gegn. Í flestum tilfellum hef ég séð svokallaðar „Cream Tart“ númerakökur en þar er kakan þétt í sér, þunn og í tveimur til þremur lögum og skreytt með lifandi blómum og fleiru skemmtilegu. Ég hef hins vegar ekki séð þetta búið til úr marengs fyrr svo nú ættu marengsaðdáendur að taka vel eftir.

Uppskrift fyrir einn tölustaf:

 • 6 eggjahvítur
 • 300 gr. sykur
 • ½ tsk lyftiduft
 • 1 ½ bolli Rice Crispies
 • ½ bolli möndluflögur

Ferlið

 1. Prentið út tölustafi sem fylla um það bil út í A3 blað. Dragið útlínur í gegn á bökunarpappír. Látið tölustafinn snúa öfugt þannig að þegar búið er að baka marengsinn sé hægt að snúa við á kökudisk.
 2. Bakið í 90 mín á blæstri við 120 gráður. Leyfið marengsinum að kólna í um klukkustund í ofninum áður en hann er tekinn út.
 3. Áður en þið setjið  lyftiduftið, Rice Crispies og möndluflögur út í marengsinn takið þá smávegis til hliðar og setjið í skál til að búa til rósir. Blandaði bleikum, rauðum og bláum matarlit út í til að fá lillabláan lit á marengsinn. Búið til rósir (1M stútur frá Wilton) og dropa (8B stútur frá Wilton) og látið bakast með tölustafnum í 90 mín. Áður en rósirnar og droparnir eru bakaðir má strá yfir smá kökuskrauti og leyfa því að bakast með.
 4. Sprautið svo rjóma (með smá flórsykri) á marengsbotnana með 8B stútnum og skreytti síðan með marengsskrautinu, lifandi blómum, berjum (jarðarber, hindber, brómber, kirsuber) og frönskum makkarónum.

Hversu fallegt! Hægt er að finna ótal skreytingarhugmyndir af númerakökum á netinu. Ég sagði við Tinnu að ég þyrfti nauðsynlega að prófa að útbúa eina svona á næstunni og myndi mig langa að búa til númeraköku úr brownie botnum til að prófa eitthvað nýtt svo fylgist með þegar að því kemur!

30 ára!

Blóm og ávextir….mmm

Jarðaberja sorbet

Ég hef lengi ætlað að prófa að gera heimatilbúinn ís og þegar ég fékk ísgerðarvélina frá Kitchen Aid í gjöf á dögunum var ekki í boði annað en að prófa hana og það strax! Þar sem það kom sumar í einn dag í síðustu viku ákvað ég að byrja á því að útbúa sorbet ís sem er einmitt svo sumarlegur og frískandi á bragðið.

Ég nældi mér í fersk jarðaber frá Dalsgarði í Mosfellsdal en það eru án þess að ég ýki, heimsins bestu jarðaber! Ég þarf að kaupa nokkur box hverju sinni þar sem stelpurnar mínar eru búnar með 1-2 áður en ég kemst út afleggjarann hjá þeim :)

Ég fór síðan á stúfana að skoða uppskriftir og fann eina mjög girnilega uppskrift af jarðaberjasorbet hjá Valentinu á Real Italian Kitchen en þar er hún að gefa upp leyniuppskrift sem móðir hennar útbýr fyrir veitingastaðinn sinn og nú kemur hún hér fyrir ykkur.

Athugið að mikilvægt er að hafa geymt ísgerðarvélina í frysti í að minnsta kosti 15 klukkustundir áður en þið farið að útbúa ís.

Jarðaberjasorbet

 • 200 ml vatn
 • 250 gr jarðaber
 • 150 gr sykur
 • Safi úr einni sítrónu
 • Safi úr einni appelsínu
 • 1 x eggjahvíta
 1. Setjið vatn, jarðaber og safann bæði úr sítrónunni og appelsínunni í mixer/notið töfrasprota og blandið vel.
 2. Bætið þá sykrinum saman við og þeytið aðeins að nýju, leyfið blöndunni þá að kólna í ísskáp í um eina klukkustund.
 3. Takið Kitchen Aid ísskálina úr frystinum og festið á hrærivélina. Kveikið á stillingu 4 áður en þið byrjið að hella blöndunni í skálina því annars gæti hún frosið við kantana.
 4. Hellið jarðaberjablöndunni saman við og hrærið í um 18 mínútur. Bætið þá þeyttri eggjahvítunni saman við með sleif og hrærið áfram í 4-8 mínútur í viðbót eða þar til blandan er við það að fara upp úr skálinni.
 5. Blandan er dásamleg beint upp úr skálinni en til þess að geta gert kúlur með ísskeið þarf að setja hana í plastbox og frysta í að minnsta kosti 4 klukkustundir.

Fyrst er blandan hálfgert mauk en eftir því sem mínúturnar líða þykknar hún upp.

Eftir að eggjahvítunni hefur verið blandað saman við fara hlutirnir síðan að gerast og passa þarf að hætta að hræra áður en blandan sullast upp úr ísskálinni :)

Jammí, hversu girnilegur er þessi sorbet! Það má að sjálfsögðu borða hann beint upp úr skálinni og er hann dásamlega mjúkur og góður þannig. Ef þið náið hins vegar ekki að klára hann eða viljið geyma þar til síðar eða móta úr honum kúlur er gott að setja hann í þétt plastsbox og geyma í frystinum. Til þess að útbúa ískúlur þarf til dæmis að frysta hann í að minnsta kosti 4 klukkustundir.

Hægt er að kaupa ísgerðarvélina í Rafland og þar er einnig að finna ýmsa aðra aukahluti fyrir Kitchen Aid hrærivélar.

aísskál

Þessi færsla er unnin í samstarfi við Rafland og Kitchen Aid á Íslandi

 

Bökuð epli í bolla

Um daginn gerði ég dásamlega blauta súkkulaðiköku í bolla og hef ég eiginlega verið að bíða eftir því að prófa fleiri bollauppskriftir en þegar maður fær endalausar hugmyndir af einhverju góðgæti er erfitt að koma öllu að. Þegar „Going on Vacation“ múmínbollinn bættist í safnið ákvað ég hins vegar að láta slag standa og prófa eina nýja uppskrift. Ég held ég setji mér það hér með sem markmið að prófa eina nýja kökuuppskrift í bolla í hvert sinn sem ég fæ mér nýjan Múmínbolla.

Hér er á ferðinni nokkurs konar eplapæ með karamelluívafi og vá hvað þetta var góð blanda!

Bökuð karamelluepli í bolla

Eplablanda

 • 1 x stórt Jonagold epli (eða tvö minni gul/græn epli)
 • 1 msk hveiti
 • 1 tsk sítrónusafi
 • 1 msk púðursykur
 • 1 msk saxaðar pekanhnetur
 • Walkers karamellur (þessar í fjólubláu bréfunum)

„Kröst“ á toppinn

 • 50 gr brætt smjör
 • 50 gr haframjöl
 • 1 ½ msk púðursykur
 • 1 msk maple sýróp
 • 1 tsk kanill
 • ¼ tsk salt

 1. Skerið eplið niður í litla teninga (um það bil 0,5 x 0,5 cm).
 2. Blandið restinni af hráefnunum fyrir eplablönduna saman við eplabitana fyrir utan karamellurnar.
 3. Skiptið eplablöndunni niður í 3-4 bolla og fyllið þá rúmlega til hálfs, setjið þá eina til tvær karamellur ofan á og útbúið því næst „kröstið“.
 4. Setjið öll hráefnin fyrir „kröstið“ saman í skál og setjið ofan á eplablönduna og karamelluna.
 5. Bakið í örbylgjuofninum í 3- 3 ½ mínútu eða þar til blandan fer aðeins að „bubbla“.
 6. Takið þá úr ofninum, hrærið upp í blöndunni  og blandið öllu saman og leyfið aðeins að kólna (varið ykkur því bollinn er heitur).
 7. Gott er að bera bökuðu eplin fram með góðri ískúlu og smá af söxuðum pekanhnetum.

Hvað er skemmtilegra en það að bjóða upp á eplaköku í krúttlegustu bollum heims! Mig grunar líka að ansi margir Íslendingar séu að safna þessum bollum og nú er heldur betur komið nýtt notagildi fyrir þá. Bolli er sko ekki bara bolli, hann má vera kökuform líka :)