Margra laga súkkulaði og jarðaberjaterta

Þessa köku gerði ég í fyrrasumar fyrir útskrift systurdóttur minnar og sló hún rækilega í gegn. Ég er að hreinsa til í tölvunni minni þessa dagana og sé ég skulda margar góðar uppskriftir og hugmyndir. Stundum er einfaldlega aðeins of mikið að gera í lífinu að ekki gefst tími til að dúllast í þessu öllu saman. Uppskriftin hefur þó áður birst í Kökublaði Vikunnar svo þið gætuð hafa rekist á hana þar.

Kökublað Vikunnar

Hér kemur þó þessi dásamlega uppskrift fyrir þá sem vilja nostra við komandi fermingar- útskriftar eða brúðkaupstertu!

Margra laga súkkulaði- og jarðaberjaterta

(uppskriftin dugar fyrir þrjú form, 6,8 og 12´´)

Hér þarf að notast við smelluform og kökuplast (fæst í Allt í köku en einnig oft hægt að fá að kaupa í bakaríum). Eftir að kökubotnar hafa verið bakaðir þarf að klæða smelluformið að innan með kökuplasti og raða lögunum saman inn í því. Ég var með tvöfalt plast á hæðina að gera svo seinna plastið stóð aðeins upp úr smelluforminu og þannig næst aðeins meiri hæð á hverja köku. Mikilvægt er að vera einnig með pappaspjöld fyrir tvo minni botnana og „burðarsúlur“ úr pappa.

Brownie botn

 • 450 gr smjör
 • 285 gr sykur
 • 210 gr púðursykur
 • 6 egg
 • 600 gr suðusúkkulaði
 • 1 tsk salt
 • 5 msk bökunarkakó
 • 225 gr hveiti
 • 7 msk volgt vatn
 • 4 tsk vanilludropar

 1. Þeytið saman sykur (báðar tegundir) og smjör þar til létt og ljóst.
 2. Bætið eggjunum saman við einu í einu og skafið á milli.
 3. Bræðið súkkulaðið og hrærið í blönduna.
 4. Setjið þurrefnin út í og loks vatnið og vanilludropana.
 5. Klæðið smelluform með bökunarpappír í botninn og spreyið PAM á hliðarnar.
 6. Skiptið deiginu á milli formanna svo allir botnarnir verði svipaðir á þykkt.
 7. Bakið í 175° heitum ofni í um 30-35 mínútur eða þar til prjónn kemur út með smá kökumylsnu á endanum (ekki blautu deigi).
 8. Kælið og geymið þar til allt annað er tilbúið.

Svampbotnar

 • 4 egg
 • 380 gr sykur
 • 250 gr hveiti
 • 2 tsk lyftiduft
 • 200 ml vatn
 • 100 gr smjörlíki

 1. Þeytið saman sykur og egg þar til létt og ljóst.
 2. Hitið saman vatn og smjörlíki og leggið til hliðar.
 3. Blandið hveiti og lyftidufti saman við eggjablönduna og loks vatni og smjöri þegar bráðið.
 4. Skiptið niður í formin 3.
 5. Bakið við 200°C í um 15 mínútur eða þar til botnarnir verða gullinbrúnir.
 6. Kælið og skiptið síðan hverjum botni í tvennt með kökuskera, geymið þar til síðar.

Jarðaberjamús

 • 15 gelatín blöð
 • 230 gr sykur
 • 1 kg jarðaber (maukuð í blandara)
 • 5 msk sítrónusafi
 • 900 ml rjómi (þeyttur)

 1. Leggið gelatínblöðin í bleyti í um 1 líter af köldu vatni.
 2. Hitið saman maukuð berin, sítrónusafann og sykurinn þar til heitt (alls ekki sjóða).
 3. Bætið gelatíni saman við berjablönduna, hafið hana á vægum hita og hrærið vel á milli hvers blaðs.
 4. Hitið þar til vel blandað (um 5 mín) og færið þá yfir í skál og leyfið að ná stofuhita. Því næst má kæla blönduna í um 2 klst.
 5. Blandið að lokum þeytta rjómanum saman við berjablönduna með sleif og smyrjið ofan á brownie botnana (munið að vera búin að setja kökuplastið inn á smelluformin. Kælið og leyfið músinni að taka sig áður en haldið er áfram (amk 1 klst).

Jarðaberjarjómi

 • 800 ml þeyttur rjómi
 • 500 gr fersk jarðaber, skorin í litla bita

 1. Hrærið rjóma og jarðaberjum saman og haldið síðan áfram með samsetninguna.
 2. Fyrri svampbotinn settur ofan á jarðaberjamúsina, því næst jarðaberjarjóminn og loks seinni svampbotninn.
 3. Nú þarf að plasta kökurnar og kæla í að minnsta kosti 4 klukkustundir eða yfir nótt.
 4. Smelluforminnu er þá smeygt af og plastið fjarlægt. Kakan ætti að vera stíf og fín og hér þarf síðan að hjúpa hverja köku með þunnu lagi af hvítu smjörkremi, stafla henni með stoðum og skreyta að vild.
 5. Ég keypti blómin í Hlín blómahúsi í Mosfellsbæ, þar fékk ég einnig birkigreinar og síðan tíndi ég hvítu litlu blómin af reynitrjánum úti í garði.

Botnana er hægt að baka með fyrirvara og frysta til að spara tíma. Einnig er hægt að setja jarðaberjamúsina og rjómann á deginum áður og svo bara stafla kökunni saman og skreyta samdægurs.

Ég fermi í næsta mánuði og þá verður gerð önnur tilraun við „Naked Cake“ og vonandi á hún eftir að koma jafnvel út.

 

Í veislunni var sjávarréttarsúpa og brauð fyrir alla og svo kökuhlaðborð í eftirrétt.

Ásamt útskriftartertunni voru kökupinnar, makkarónur og salthnetur og rúsínur í skálum.

Kökupinnar

Kökupinnarnir voru bæði súkkulaði og vanillu, þeir brúnu og bleiku voru með súkkulaðibragði og þeir hvítu með vanillubragði. Ég notaði Betty Crocker Devils kökumix fyrir báðar uppskriftir eins og svo oft áður og Vanillu frosting til að blanda við kökuna. Dýfði þeim síðan í brúnt, bleikt og  hvítt Candy Melts og skreytti með sykurmassablómum og kökuskrauti.

Það skiptir í raun engu hvernig kökukúlurnar eru að innan, hægt að velja það sem hugurinn girnist og síðan skreyta í stíl við veisluþemað!

Getið fundið hugmyndir af kökupinnauppskriftum hér á síðunni.

Makkarónur

Makkarónurnar keyptum við tilbúnar frosnar að þessu sinni. Þær voru dásamlega góðar og í stíl við veisluborðið.

Hollar heslihnetukúlur

Hollar heslihnetukúlur

 • 200 gr döðlur
 • 150 ml sjóðandi vatn
 • 40 gr cashew hnetur
 • 40 gr heslihnetur
 • 100 gr möndlumjöl
 • 2 msk kókosolía (hituð örlítið svo verði fljótandi)
 • 2 msk heslihnetusmjör
 • 1 tsk vanilludropar
 • ½ tsk salt
 • 160 gr (tvær plötur) Rapunzel appelsínusúkkulaði (til að dýfa í)

heslihnetukúlur

 1. Hellið sjóðandi vatni yfir döðlurnar og leyfið að standa í 30 mínútur.
 2. Setjið hneturnar í blandara/matvinnsluvél og blandið saman við möndlumjölið, leggið til hliðar.
 3. Hellið mesta vatninu af döðlunum og setjið í blandara/matvinnsluvél.
 4. Blandið kókosolíu, heslihnetusmjöri og vanilludropum saman við döðlurnar.
 5. Því næst fer salt í blönduna og að lokum möndlu- og hnetublandan.
 6. Ef notaður er blandari gæti þurft að hnoða saman með höndunum á þessum tímapunkti en matvinnsluvél ætti að ráða við þetta allt saman.
 7. Plastið skálina og geymið blönduna í kæli í amk 1 klst.
 8. Mótið þá kúlur c.a 1 msk hver og raðið saman á bökunarpappír
 9. Frystið í um 15 mínútur og hjúpið svo með appelsínusúkkulaði.

Ljós Rice Krispies kransakaka

Rice Krispies kransakaka

Í fyrra útbjó ég þessa útgáfu af kransaköku fyrir hana Elínu dóttir vinafólks okkar. Hún elskar hvítt súkkulaði og því var óskin sú að fá Rice Krispies kransaköku með slíku. Ég notaðist við uppskrift og aðferð sem ég hafði þróað af hefðbundinni súkkulaði Rice Krispies kransaköku en skipti hjúpsúkkulaðinu út fyrir hvítt Candy Melts og kom hún svona dásamlega vel út.

Þemað var hvítt, gyllt og svart og útbjó ég líka vanillu kökupinna í takt við þemað.

Cake pops

Ljós Rice Krispies kransakaka

 • 1000 gr Bright White Candy melts
 • 2 litlar dósir sýróp (Lyle’s golden syrup 2x 454gr)
 • 300 gr smjör
 • 540+ gr Rice Kripies

Rice Krispies kransakaka

 1. Setjið allt nema Rice Krispies í  stóran pott (ef þið eigið ekki nægilega stóran, skiptið þá uppskriftinni til helminga og útbúið í tvennu lagi) og hitið við miðlungshita. Hrærið vel í blöndunni allan tímann og hækkið örlítið hitann í lokin og leyfið að “bubbla” í nokkrar sekúndur. Slökkvið þá á hellunni og leyfið hitanum að rjúka aðeins út.
 2. Bætið Rice Krispies út í í nokkrum skömmtum og blandið vel. Það gæti verið að það þurfi aðeins meira af Rice Krispies en varist þó að setja of mikið.
 3. Leggið plast yfir kransakökuformin og byrjið á því að setja í innsta og ysta hring í öllum formunum þar sem ekki er hægt að setja í öll 3 hólfin í einu (myndu klessast saman).
 4. Gott er að setja þau jafnóðum í frystinn á meðan þið útbúið næsta og þannig er hægt að losa þau þegar það kemur að miðjuhringnum í hverju formi.
 5. Best er að vera í einnota gúmmíhönskum og nota PAM matarolíusprey á fingurna til að geta meðhöndlað volga blönduna betur. Þjappið saman og mótið með fingrunum í hvern hring.
 6. Mótið hringina örlítið hærri en þið ætlið að hafa þá því gott er að leggja bretti/bók á hvern hring eftir mótun á meðan það er enn í forminu til að ná sléttara yfirborði (þannig verður auðveldara að raða þeim án þess að kakan halli).
 7. Leggið alla hringina á bretti/flatan flöt og geymið í kæli fram að samsetningu (í plasti).
 8. Hægt að raða hringjunum saman allt að 2-3 dögum áður en veislan fer fram svo lengi sem léttur poki umlykur kökuna og hún er geymd í kæli (líka hægt að láta hana standa við stofuhita en hitt öruggara).
 9. Setjið 2-3 góðar “doppur” af Candy Melts á milli laga til að hringirnir séu betur fastir þó svo þeir límist nokkuð vel saman án þess að nokkuð súkkulaði sé notað svo ef ekki þarf að flytja kökuna er þetta óþarfi.
 10. Skreytið að vild með því að dýfa skrauti í súkkulaðihjúp og halda svo við kökuna þar til storknar. Einnig er hægt að stinga lifandi blómum í kökuna hér og þar.

Ég mæli með þið setjið vanillu kökukúlur með Daim í þann búning sem hentar fermingarþemanu hjá ykkur!

Cake pops

Í næsta mánuði kem ég sjálf til með að ferma og eðlilega erum við mæðgur búnar að liggja yfir skrauti, uppskriftum og pælingum og kem ég að sjálfsögðu til með að gefa ykkur þær hugmyndir hér strax í framhaldinu svo endilega fylgist með!

Banana- og hnetu möffins

Banana- og hnetu möffins

Banana og hnetu möffins

 • 2 egg
 • 110 gr brætt smjör
 • 2 þroskaðir bananar (stappaðir)
 • 1 tsk vanilludropar
 • 230 gr hveiti
 • 180 gr sykur
 • 1 tsk lyftiduft
 • ¼ tsk matarsódi
 • ¼ tsk salt
 • 1 ½ tsk kanill
 • 75 gr saxaðar brasilíu hnetur

 1. Hitið ofninn 180°
 2. Blandið öllum þurrefnunum saman og setjið til hliðar.
 3. Hrærið eggjum, bræddu smjöri og stöppuðum banönum saman ásamt vanilludropum.
 4. Bætið þurrefnunum smátt og smátt saman við þar til vel blandað.
 5. Skiptið niður í um 12 muffinsform og bakið í um 15-18 mínútur.

Oreo ostaköku brownies

Oreo bownie ostakaka

Ég er mikið bæði fyrir brownies sem og ostakökur eins og þið hafið eflaust tekið eftir. Að blanda þessu tvennu saman hafði mér hins vegar ekki dottið í hug fyrr en ég var að vafra á veraldarvefnum eitt kvöldið og rakst á hugmynd svipaða þessari.

Ég var ekki lengi að átta mig á því að þetta þyrfti að prófa og við mæðgur útbjuggum þessa dásamlegu köku í eftirrétt eina helgina.

Oreo ostaköku brownies

 • 120 gr smjör
 • 100 gr sykur
 • 2 stór egg
 • 200 gr rjómaostur við stofuhita (1x askja Philadelphia)
 • 90 gr flórsykur
 • 2 tsk vanilludropar
 • 110 gr hveiti
 • 3 msk bökunarkakó
 • ½ tsk salt
 • 100 gr suðusúkkulaði (bráðið)
 • 12 Oreokökur muldar + um 4 í stærri bita til skrauts

Oreo brownie ostakaka

Aðferð

 1. Hitið ofninn 175°C
 2. Klæðið ferkantað kökuform (um 22×22 cm) með bökunarpappír og spreyið með PAM matarolíuspreyi.
 3. Bræðið smjör og bætið sykri saman við, leyfið að sjóða í um mínútu og kælið síðan í nokkrar mínútur á meðan annað er undirbúið.
 4. Þeytið saman rjómaost, flórsykur og vanilludropa þar til létt og setjið til hliðar.
 5. Þeytið eggin örstutta stund, bætið smjör- og sykurblöndunni saman við og blandið vel.
 6. Hrærið hveiti, kakó og salti saman og blandið út í eggjablönduna, hellið bræddu súkkulaðinu saman við og skafið vel niður á milli.
 7. Að lokum fara muldu Oreokökurnar saman við og gott er að vefja þeim við deigið í lokin.
 8. Setjið helminginn af brownie deiginu í botninn á forminu og sléttið úr.
 9. Hellið því næst rjómaostablöndunni yfir og sléttið úr.
 10. Setjið restina af brownie deiginu yfir en nú í litlum skömmtum, skeið hér og þar og takið að lokum prjón og dragið í gegn til að skapa smá marmaraáferð. Myljið 4 Oreokökur gróft og stingið hér og þar.
 11. Bakið í um 25 mínútur eða þar til prjónn kemur út með smá brúnni kökumylsnu en ekki blautu deigi.
 12. Kælið alveg, lyftið upp úr forminu og skerið í bita.

Oreo ostakökubrownie

Rósmarín og chili möndlur

Rósmarín og chili möndlur

Rósmarín og Chili möndlur

 • 2 msk Extra virgin ólífuolía
 • 1 msk rósmarín
 • 1 tsk Chiliduft
 • 1 tsk gróft salt
 • 380 gr möndlur með hýði
 • Cayenne pipar ef þess er óskað, um ½ tsk

aIMG_4860

 1. Hitið ofninn 170°C.
 2. Blandið öllu saman í skál.
 3. Hellið því næst í ofnskúffu klædda bökunarpappír.
 4. Ristið í 16-20 mínútur og hrærið reglulega í blöndunni á meðan.

Bananakaka með glassúr

Bananabrauð

Ég verð að segja að þetta er með því betra með sunnudagskaffinu! Búðingurinn verður til þess að kakan er mýkri og blautari í sér en annars og glassúrinn dásamlegur.

Bananakaka  með glassúr

 • 70 gr smjör (brætt)
 • 120 gr sykur
 • 40 gr púðursykur
 • 2 egg
 • 1 tsk vanilludropar
 • 180 gr súrmjólk/AB mjólk
 • 2-3 vel þroskaðir bananar
 • 290 gr hveiti
 • 1 tsk matarsódi
 • ½ tsk salt
 • 1 pk Royal vanillubúðingur (duftið)
 1. Hitið ofninn 165°C
 2. Blandið saman bræddu smjöri, sykri, púðursykri, eggjum, vanilludropum og súrmjólk í hrærivélinni.
 3. Stappið bananana og bætið saman við blönduna.
 4. Blandið hveiti, matarsóda og salti saman í skál og setjið saman við í nokkrum skömmtum.
 5. Að lokum fer vanillubúðingurinn (aðeins duftið) út í blönduna og hrærið þar til allt er blandað og skafið niður á milli.
 6. Spreyið brauðform vel með PAM (eða notið smjör), hellið deiginu þar í og bakið í um 50-58 mínútur eða þar til prjónn kemur út með engu kökudeigi (allt í lagi smá kökumylsna sé á honum því brauðið er blautt í sér, bara ekki deig).
 7. Komið brauðinu fyrir á vírgrind og leyfið að kólna áður en þið setjið glassúrinn yfir.

Glassúrinn

 • 60 gr smjör
 • 110 gr flórsykur
 • 2 tsk vanilludropar
 • 1-4 msk rjómi
 1. Hitið smjörið við miðlungshita þar til það brúnast örlítið en varist þó að það brenni. Kælið í um 10 mínútur.
 2. Setjið þá flórsykur og vanilludropa saman við smjörið og hrærið saman.
 3. Bætið við rjóma þar til blandan öðlast þá þykkt sem þið kjósið að nota.
 4. Smyrjið eða sprautið glassúr yfir brauðið.

Hollar haframjölskökur

Hollar haframjölskökur

 • 70 gr gróft haframjöl (sett í blandara og maukað í duft)
 • 40 gr gróft haframjöl til viðbótar (ekki sett í blandara)
 • 15 gr venjulegt haframjöl
 • 1 tsk matarsódi
 • 1 ½ tsk kanill
 • ½ tsk salt
 • 1 ½ tsk vanilludropar
 • 1 stórt egg
 • 4 msk púðursykur
 • 50 gr kókosolía (brædd og kæld örlítið)
 • 40 gr saxað 70% súkkulaði
 • Nokkrir súkkulaðidropar til skrauts (má sleppa)

 1. Blandið saman haframjölsdufti, grófu og fínu haframjöli ásamt matarsóda, kanil og salti í eina skál.
 2. Í aðra skál má blanda saman egginu, vanilludropunum, púðursykrinum og bræddu kókosolíunni.
 3. Því næst má blanda hráefnunum úr báðum skálum saman með sleif og að lokum setja saxað súkkulaðið saman við.
 4. Gott er að plasta skálina með blöndunni og kæla í 20-30 mínútur til þess að auðveldara sé að móta kúlur.
 5. Hitið ofninn því næst í 175°C og klæðið bökunarplötu með bökunarpappír.
 6. Rúllið í kúlur (kúfuð teskeið fyrir hverja) og raðið á plötuna (athugið að kökurnar leka út við bakstur svo varist að raða of þétt).
 7. Setjið 1-2 súkkulaðidropa á hverja kúlu sé þess óskað og bakið í um 7-10 mínútur eða þar til kantarnir verða aðeins dekkri en miðjan.
 8. Þessi uppskrift gefur um 16-18 kökur svo hana má auðveldlega tvöfalda.

 

Betty Toblerone brúnka

Ef ykkur vantar fljótlega og frábærlega góða uppskrift af „brownie“ köku er þessi samsetning málið!

Betty Toblerone brúnka

 • 2 x Betty Crocker Chocolate Fudge mix að viðbættum þeim hráefnum samkvæmt uppskrift á pakka
 • 100 gr brætt suðusúkkulaði
 • 200 gr gróft saxað Toblerone

Aðferð

 1. Útbúið tvöfalda uppskrift af kökumixi samkvæmt leiðbeiningum á pakka.
 2. Bætið bræddu suðusúkkulaði saman við og blandið létt.
 3. Vefjið söxuðu Toblerone saman við í lokin og hellið í skúffukökuform klætt bökunarpappír (c.a 20 x 30 cm).
 4. Kælið, lyftið upp úr forminu, stráið flórsykri yfir til skrauts og skerið í bita.

Döðlugott

Hér er á ferðinni hið sívinsæla döðlugott með smá útfærslu. Uppskriftina fann ég á Gulur Rauður Grænn og Salt en þar er að finna fjölmargar girnilegar uppskriftir (reyndar breytti ég einhverjum innihaldsefnum). Ég hef gert svipaða uppskrift áður og getið þið fundið það lakkrísgott hér á síðunni. Þessi er örlítið léttari í sér en engu að síður dásamlega góð. Það er sniðugt að skera gottið í litla bita og eiga í frystinum þegar góða gesti ber að garði. Þá er hægt að sækja nokkra mola og njóta þegar hentar.

Döðlugott

 • 500 gr döðlur (smátt saxaðar eða settar í matvinnsluvél)
 • 200 gr smjör
 • 80 gr púðursykur
 • 100 gr sýróp
 • 3 stk Yankee súkkulaðistykki (skorin í bita)
 • 140 gr Rice Krispies
 • 2 pokar lakkrískurl
 • 350 gr suðusúkkulaði

Döðlugott

 1. Setjið döðlur, smjör, púðursykur, sýróp og Yankee í pott og hitið við miðlungshita. Hrærið vel í allan tímann og takið af hellunni þegar allt er orðið mjúkt og bráðið (um 10 mín).
 2. Hellið lakkrískurli og Rice Krispies saman við og hrærið vel.
 3. Setjið bökunarpappír í botn&hliðar á formi (um 20x30cm) og þjappið blöndunni vel þar í.
 4. Frystið í um 15 mínútur.
 5. Því næst er bræddu suðusúkkulaðinu hellt yfir og dreift jafnt út og fryst aftur í um 20-30 mínútur áður en skorið er í bita.