Sólberjabaka

Haustið og rútínan er að skella á í öllu sínu veldi eftir dásamlega síðsumardaga. Um helgina kíktum við mæðgur út í garð þar sem runnarnir eru fullir af dásamlegum dökkum sólberjum og tíndum í fulla skál á nokkrum mínútum. Ekki skemmdi síðan fyrir að geta stokkið upp í móann hér bak við hús og náð í rabbabara til að bæta í bökuna. Nóg af dásamlegu súkkulaði er einnig í uppskriftinni og þannig næst betra jafnvægi á móti því súra.

sólber

Sólberjabaka

 • 200 gr smjör við stofuhita
 • 150 gr hveiti
 • 80 gr púðursykur
 • 60 gr sykur
 • 100 gr haframjöl
 • 30 gr kókosmjöl
 • 1 tsk vanillusykur
 • 100 gr konsum súkkulaðidropar
 • 80 gr rjómasúkkulaði með karamellukurli og sjávarsalti
 • 150 gr niðursneiddur rabbabari
 • 130 gr sólber

 1. Hitið ofninn 180°C.
 2. Blandið saman smjöri, hveiti, púðursykri, sykri, haframjöli, kókosmjöli og vanillusykri til að búa til grunndeigið.
 3. Setjið um 2/3 af deiginu í botninn á eldföstu bökuformi og þrýstið vel upp á hliðarnar (ekki gleyma að smyrja formið fyrst).
 4. Stráið síðan rabbabara, sólberjum og báðum tegundum af súkkulaði yfir til skiptis.
 5. Að lokum fer restin af deiginu yfir í um 1-2 cm bitum.
 6. Breiðið álpappír yfir bökuna og bakið þannig í um 25 mínútur, takið þá álpappírinn af og bakið áfram í 20-25 mínútur í viðbót eða þar til bakan fer að gyllast.

Það var svo gott veður að farið var með bökuna út á pall í sólina og hún borðuð með ís eða rjóma…..já eða bara bæði!

Nútímalegar kökuskreytingar – nýtt námskeið

Þessa köku gerði ég í byrjun júlí þegar tengdamamma mín varð sjötug. Ég hef nokkrum sinnum áður leikið mér með mislitt krem, hjúp sem lekur niður hliðarnar og frjálslegar skreytingar eins og þið getið séð hér á síðunni undir „Veisluhugmyndir og kökuskreytingar„.

Fyrir afmælið ákvað ég að nota tækifærið og útbúa prufuútfærslu fyrir nýja námskeiðið sem verður í boði í haust og kallast „Nútímalegar kökuskreytingar“ og úr varð þessi skemmtilega kaka. Þið getið fundið allar nánari upplýsingar um þau námskeið sem verða í boði í vetur undir „Námskeið í boði“ hér á síðunni.

Þessi kaka samanstendur af fimm þunnum kökubotnum með súkkulaðikremi á milli, mislitu smjörkremi á hliðunum og ganaché á toppnum. Skreytingarnar eru kökupinnaprik, súkkulaðihjúpur sem smurt var úr, leyft að storkna og brotinn í óreglulega bita, makkarónur, súkkulaðikossar og kökuskraut.

Það er ótrúlega skemmtilegt að leika sér með þessa skreytingaraðferð og hlakka ég til að fá að útbúa fleiri svona kökur á næstunni á komandi námskeiðum. Þetta er alls ekki eins flókið og það lítur út fyrir að vera og um að gera að leyfa sköpunargleðinni að njóta sín.

Dagsetningar verða auglýstar á næstunni svo fylgist vel með og munið að skrá ykkur á póstlistann á www.gotteri.is

Námskeiðið tekur um 4 klst og er tilvalin gæðastund fyrir vinnuhópa, saumaklúbba, mæðgur, feðgin eða hvern sem hefur áhuga á að dúllast í kökuskreytingum og föndri. Allir fara að lokum heim með fullskreytta og dásamlega köku til að deila með ættingjum og vinum.

Hér fyrir neðan eru myndir sem ég fann á netinu og geta gefið ykkur frekari hugmyndir hvort sem þið hyggist fara í tilraunastarfsemi heima fyrir eða skella ykkur á námskeið.

6 5 4 3 2 1

Heit karamellu- og súkkulaði íssósa

Þar sem sumarið leikur við okkur þessa dagana er ekkert annað í stöðunni en borða nóg af ís og ekki verra að hafa þessu guðdómlegu heitu íssósu með honum!

Íssósan

 • Ein rúlla af Center súkkulaðimolum
 • 100 gr Toblerone
 • 6 msk rjómi
 • Nóakropp og ískex

 1. Bræðið saman Center, Toblerone og rjóma þar til súkkulaðið leysist upp, kælið stutta stund.
 2. Setjið ís að eigin vali í skál, hellið ríkulega af sósu yfir ásamt því að bæta ískexi og Nóa kroppi við þessa dásamlegu blöndu.

Algjör óþarfi að fara í ísbúðina þegar hægt er að gera svona lúxus heima hjá sér!

Hjónasæla með rifskeim

Um daginn kom mamma með heimalagaða rabbabarasultu til okkar og það kallaði aðeins á eitt, HJÓNASÆLU og kjötbollur í brúnni!

Ég hef áður sett inn uppskriftina hennar ömmu af hjónabandssælu en átti enga jarðaberjasultu að þessu sinni svo ég prófaði að setja rifsgel í staðinn. Útkoman varð dásamleg og hér hafið þið uppskriftina til að njóta.

Hjónasæla með rifskeim

 • 240 gr mjúkt smjör
 • 225 gr hveiti
 • 90 gr sykur
 • 65 gr púðursykur
 • 2 tsk lyftiduft
 • 200 gr haframjöl
 • 5 msk rifsberjagel
 • 6 msk rabbabarasulta

 1. Hrærið saman smjör, hveiti, sykur og púðursykur með K-inu
 2. Bætið haframjöli og lyftidufti saman við í lokin
 3. Setjið um 2/3 af deiginu í botninn á vel smurðu springformi (um 22cm í þvermál) og ýtið aðeins upp á kantana
 4. Blandið sultunum saman og smyrjið yfir botninn
 5. Myljið restina af deiginu yfir sultuna
 6. Bakið við 175°C í um 50 mínútur eða þar til kakan fer að gyllast
 7. Kælið, takið úr forminu og berið fram með þeyttum rjóma

 

Ýmislegt til leigu

Eftir fjöldan allan af fyrirspurnum varðandi standa og kökuform hef ég ákveðið að leigja þeim sem hafa áhuga á eitt og annað í þeim efnum.

Hér á síðunni er kominn nýr undirflokkur þar sem þið getið skoðað úrvalið.

plexistandur

Meðal annars er hægt að leigja þennan dásamlega fallega plexistand sem væri tilvalinn fyrir brúðkaupsveislur sumarsins.

Einnig er fjöldinn allur af kökuformum og eflaust kemur eitthvað fleira til með að bætast þarna við. Algjör óþarfi er að kaupa og eiga alla þessa hluti og svo er auðvitað ekki alltaf allt til hérlendis svo vonandi getið þið nýtt ykkur þetta.

Hér getið þið skoðað úrvalið, TIL LEIGU

Súkkulaði bananakökubrauð

Okkur vantaði eitthvað með kaffinu í síðustu viku og þar sem ég átti banana á síðasta sjens og kökumix ákvað ég að prófa að blanda þessu tvennu saman og útkoman varð dásamlegt súkkulaði-banana-köku-brauð eða hvað sem okkur langar að kalla þetta góðgæti.

Betty súkkulaði „bananakökubrauð“

 • 1 x Milk Chocolate Layer Cake Mix
 • 4 egg
 • 100 ml matarolía (ljós)
 • 250 ml vatn
 • 4 msk bökunarkakó
 • 2 x þroskaðir bananar
 • 100 gr gróft saxað suðusúkkulaði/súkkulaðidropar

 1. Stappið bananana og saxið suðusúkkulaðið, leggið til hliðar.
 2. Blandið kökumixi, eggjum, matarolíu, vatni og bökunarkakói saman og þeytið létt.
 3. Bætið stöppuðum banönum og suðusúkkulaði saman við í lokin.
 4. Smyrjið skúffukökuform og bakið í um 30 mínútur eða þar til prjónn kemur út hreinn.
 5. Kælið örlítið, stráið smá flórsykri yfir til skrauts og skerið í bita.

S’mores smákökur

Þar sem við fjölskyldan elskum súkkulaðibitakökur sem og S’mores samsetningu kom ekki annað til greina en prófa þessa hugmynd eftir að hafa rekist á hana hjá „The Cookie Rookie“ á netinu. Ég reyndar gerði mitt eigið smákökudeig en það er lítið mál að skipta því út fyrir Betty Crocker eða annað tilbúið deig.

Smákökurnar

 • 350 gr smjör við stofuhita
 • 290 gr púðursykur
 • 180 gr sykur
 • 2 egg
 • 2 eggjarauður (til viðbótar við eggin)
 • 2 tsk vanilludropar
 • 2 tsk matarsódi
 • 4 tsk maísmjöl/kartöflumjöl
 • 1 tsk salt
 • 540 gr hveiti
 • 300 gr suðusúkkulaðidropar
 1. Þeytið saman smjör og báðar tegundir sykurs þar til létt og ljóst (ég þeytti með K-inu).
 2. Bætið eggjum og eggjarauðum saman við og skafið vel niður á milli.
 3. Því næst fara vanilludropar, matarsódi, maísmjöl, salt og hveiti út í.
 4. Að lokum er súkkulaðidropum blandað saman við með sleif.
 5. Kælið í amk 4 klst eða yfir nótt.
 6. Búið til kúlu úr kúfaðri matskeið af deigi og pressið örlítið niður, bakið við 175°C í 10-12 mínútur.

Topping

 • 1 poki mini sykurpúðar
 • 200 gr súkkulaðihjúpur
 • ½ pk Lu Digestive hafrakex sem búið er að mylja í blandara.
 1. Raðið nokkrum sykurpúðum á hverja köku og setjið undir grillið í örskamma stund. Mæli með að standa við ofninn þar sem sykurpúðarnir brenna auðveldlega, kælið.
 2. Bræðið súkkulaðið og setjið í eina skál, hafrakökumylsnu í aðra.
 3. Dýfið hverri köku hálfa leið í súkkulaðið og svo í hafrakökumylsnuna, raðið á bökunarpappír og leyfið súkkulaðinu að harðna.

Obbobbobb, hér fyrir neðan sjáið þið hvað gerðist hjá mér þegar ég reyndi að múltítaska á meðan ég grillaði sykurpúðana.

Mæli því með þið standið alveg yfir ofninum þar sem þetta tekur örskamma stund.

Skírnarveisla

Þann 11.júní síðastliðinn fékk litla monsan okkar nafnið Hulda Sif. Skírnin fór fram í Lágafellskirkju og að athöfn lokinni buðum við nánustu vinum og ættingjum heim í grillaða hamborgara og vorum með kökur í eftirrétt í yndislegu sumarveðri. Krakkarnir gátu verið úti á trampólíni og hluti gestanna sat úti á palli í góða veðrinu, enda alltaf gott veður þann 11.júní en það er einmitt líka brúðkaupsdagur okkar hjóna.

Þar sem ég elska allt sem er „mini“ þetta eða hitt samanstóð kökuborðið af litlum bitum, fyrir utan skírnartertuna sjálfa.

Hér fyrir neðan getið þið fundið uppskriftir og hugmyndir af ýmsu góðgæti úr veislunni!

Kökupinnar gera öll veisluborð fallegri fyrir utan að vera dásamlega góðir, það er bara þannig! Að þessu sinni var ég með vanillu köku blandaða í vanillukrem og dýfði í hvítt, bleikt og peach súkkulaði sem ég skreytti með litlum sykurkúlum.

Mér finnst gaman að bera kökupinna fram og það er ýmist hægt að hafa þá á hvolfi eða láta þá standa upprétta. Á efri myndinni er ég búin að fylla bleikan blómavasa af mini sykurpúðum og þar sem vasinn er frekar „hlykkjóttur“ var hægt að raða mikið af pinnum í hann og fannst mér þessi uppstilling koma frábærlega vel út. Á neðri myndinni eru pinnarnir hins vegar á litlum kökudiski á fæti en þannig ber ég þá oftast fram þar sem það er einfaldast, held samt blómavasinn sé kominn til að vera í kökupinnauppstillingu hjá mér eftir þessa tilraun.

Mini bollakökurnar eru úr súkkulaði Betty Crocker kökumixi, skreyttar með smjörkremi í mismunandi litum. Ég notaði stút 104 frá Wilton til að ná fram blúnduáferð á kökurnar og kom það ótrúlega vel út.

aIMG_7172

Kökunum raðaði ég síðan á tveggja hæða bakka og slógu þessar alveg í gegn.

Kökur í krús verða líklega nýja uppáhaldið mitt eftir þessa tilraun en ég hef lengi ætlað að prófa eitthvað í þessum dúr. Hér getið þið fundið uppskrift af kræsingum í krús og það er einfaldara en maður heldur að útbúa þessi krúttheit.

Makkarónur eru alltaf fallegar á veisluborði og að þessu sinni útbjó ég slíkar með karamellufyllingu og var umtalað í veislunni hversu góðar þær væru. Uppskriftina af þessum dúllum er að finna hér.

Skírnarkakan sjálf er súkkulaðikaka með súkkulaðikremi á milli laga, síðan skreytt með vanillu smjörkremi. Ég notaðist eðlilega við Betty Crocker Devils Food Cake Mix með smá tvisti, enda er það mín uppáhalds súkkulaðikaka. Bæti alltaf auka eggi í uppskriftina, 2 msk bökunarkakó og 1 pk af Royal súkkulaðibúðingsdufti. Uppskrift af súkkulaði og vanillu smjörkremi finnið þið síðan hér. Ég gerði 3 botna af hvorri kökustærð, 8 og 6 tommu sem eru milli 2-3 kökumix, restina notaði ég í mini-bollakökurnar. Hvern botn skar ég síðan í tvennt með kökuskera og útbjó tvöfalda uppskrift af súkkulaðikreminu sem ég smurði á milli þeirra og einnig þurfti tvöfalda uppskrift af vanillukremi til að skreyta með, munið bara að skipta uppskriftinni upp eftir þeim litum sem þið ætlið að nota.

Mikilvægt er síðan að nota pappaspjald og súlur til að halda efri kökunni uppi og slíkar græjur er hægt að kaupa í Allt í köku eða á netinu. Kökuskiltið með nafninu pantaði ég hjá Hlutprent en þessi skilti eru algjör snilld og á ég án efa eftir að nýta mér þeirra þjónustu oftar í framtíðinni.

Mig hefur lengi langað að prófa „watercolor effect“ á köku svo þetta var fyrsta tilraun af slíkri. Ég gerði efri kökuna með þessari aðferð og síðan notaðist ég við stóran laufastút (125 frá Wilton) á neðri kökuna og sprautaði blúndum með mislitu kremi og setti eitt sykurmassablóm á toppinn fyrir utan fallega nafnaskiltið. Getið séð skreytingaraðferðina hér.

Það þarf síðan ekki alltaf að vera flókið! Hér er ég með mini Flipper sælgæti sem ég setti í bleika skál á veisluborðið. Flipper hefur verið eitt uppáhalds nammið mitt frá því ég man eftir mér og þegar ég fer í IKEA kaupi ég mér venjulega lager af því. Þegar ég rakst á þessa mini útgáfu í Nettó um daginn var ég ekki lengi að grípa með mér nokkra poka, síðan var svo heppilegt að þetta var alveg í stíl við kökuborðið.

Þar sem það er síðan svo sumarlegt að hafa karöflur með ávöxtum, vatni og þessháttar útbjó ég þrjá mismunandi drykki á þann mátann.

Í einni könnunni var ég með Egils ananasþykkni í bland við vatn, nóg af klökum og appelsínusneiðar til skrauts. Í annarri var ég með sódavatn með lime og sítrónusneiðar til skrauts og í þeirri þriðju var ég með sódavatn með lime í bland við Ribena þykkni og fersk jarðaber til skrauts.

Ég hef lengi verið að nota stóra krukku með krana fyrir svipaða drykki en langaði að prófa eitthvað nýtt og fann þessar karöflur í Snúrunni og hafa þær nú verið notaðar í hverju einasta matarboði það sem af er sumri og held ég ekkert lát verði á því. Við höfum sett í hana gos, vatn, sódavatn og líka stóran skammt af boozt-i þegar við vorum með brunch um daginn, þannig gat hver og einn skammtað sér að vild.

 

Snickers dásemd

Bollakökur
• 1 x Betty Crocker Devils Food Cake Mix
• 4 egg
• 1 ½ dl matarolía
• 2 ½ dl mjólk
• 2 ½ dl súrmjólk/ab mjólk
• 1 pk súkkulaði Royal búðingur

1. Hrærið saman öllu nema Royal búðingnum þar til vel blandað og örlítið létt í sér.
2. Bætið búðingsduftinu saman við í lokin og hrærið stutta stund.
3. Skiptið niður í 20-24 bollakökur.
4. Bakið við 160°C þar til prjónn kemur hreinn út (c.a 15-20 mín).


Karamellukrem
• 225 gr smjör
• 5 dl púðusykur
• 180 ml rjómi
• ½ tsk salt
• 300 gr flórsykur

1. Bræðið smjör í potti á lágum hita og bætið púðursykri og rjóma útí.
2. Hrærið í yfir meðalhita þar til sykurinn er alveg uppleystur, bætið þá saltinu útí.
3. Hækkið hitann og leyfið að sjóða (bubbla) í 2-3 mínútur.
4. Takið af hitanum og kælið niður þar til þykknar.
5. Þegar karamellan hefur kólnað vel niður (má vera örlítið volg) hrærið þá flórsykrinum saman við og setjið minna ef þið viljið þynnra krem, meira ef þið viljið þykkja það örlítið frekar.
6. Sprautið á kökurnar eða smyrjið, hér er notast við stút 1 M frá Wilton og sprautað ríkulega af kremi á hverja köku.


Skraut
• 12 stk English Creamy Toffees karamellur
• 4 msk rjómi
• 3 stk Snickers smátt söxuð

1. Hitið rjóma og karamellur saman yfir meðalhita þar til bráðið.
2. Kælið niður þar til karamellan þykknar.
3. Setjið karamelluna í zip lock poka og „drisslið“ yfir hverja köku þegar búið er að setja á hana krem.
4. Stráið að lokum söxuðu Snickers á toppinn.

 

Kræsingar í krús

Mig langaði að prófa eitthvað nýtt í skírnarveislu dóttur minnar um daginn. Þar sem ég hef alla tíð verið mikið fyrir „mini“ allt þá lét ég loksins verða af því að gera krukkukökur. Ég fann þessar litlu sætu sultukrukkur í Hagkaup í Spönginni og þá var ekki aftur snúið. Að þessu sinni valdi ég uppskrift í takt við litaþema veislunnar og var þetta það krúttlegasta á veisluborðinu. Ég fæ líklega æði fyrir krukkukökum í framhaldinu og hlakka til að prófa mig áfram með ýmsar hugmyndir í þeim efnum.

Svampbotnar

 • 6 egg
 • 225 gr sykur
 • 150 gr hveiti
 • 75 gr kartöflumjöl
 • 1 ½ tsk lyftiduft
 1. Þeytið saman egg og sykur þar til létt og ljóst.
 2. Blandið þurrefnunum saman í skál og blandið rólega saman við eggjablönduna.
 3. Setjið bökunarpappír í 2 x ofnskúffu og skiptið deiginu á milli (þetta er þunnt lag af deigi enda viljum við fá þunna botna).
 4. Bakið við 220°C í um 7-9 mínútur eða þar til botnarnir verða örlítið gylltir.
 5. Þegar botnarnir hafa kólnað eru skornir út jafn stórir hringir og sú krukkustærð sem þið notið og reynið að nýta botnana vel (þessi uppskrift gaf mér um 50 litla hringi sem fóru í 25 krukkur).

Jarðaberjarjómi

 • 750 ml rjómi
 • 500 gr fersk jarðaber
 1. Maukið jarðaberin í blandara og setjið til hliðar.
 2. Stífþeytið rjómann og blandið síðan jarðaberjamaukinu saman við með sleif.
 3. Best fannst mér síðan að sprauta rjómanum í krúsirnar með 1,5 cm hringlaga stút.

Samsetning

 1. Fyrst fer svampbotn, því næst jarðaberjarjómi, aftur svampbotn og að lokum jarðaberjarjómi.
 2. Gott er að setja lokin á krúsirnar á þessum tímapunkti og best að leyfa botnunum að drekka í sig rjómann í að minnsta kosti sólahring (mér fannst þetta best tveggja sólahringa gamalt).
 3. Áður en bera á krukkurnar fram þeytti ég 500ml af rjóma, sprautaði ofan á hverja krús og setti síðan smá kökuskraut á toppinn sem hefði allt eins getað verið jarðaber eða annað álíka.