Súkkulaði smákökur með valhnetum

Súkkulaðismákökur með valhnetum

 • 175 g sykur
 • 120 g smjör við stofuhita
 • 1 tsk vanilludropar
 • 1 egg
 • 60 g 70% súkkulaði (brætt og kælt lítillega)
 • 130 g hveiti
 • 2 msk bökunarkakó
 • ½ tsk lyftiduft
 • ½ salt
 • 100 g saxaðar valhnetur frá “Til hamingju”
 • 70 g súkkulaðidropar

 1. Þeytið saman sykur, smjör, vanilludropa og egg.
 2. Bætið bræddu súkkulaðinu saman við blönduna.
 3. Setjið næst hveiti, bökunarkakó, lyftiduft og salt í blönduna og skafið vel niður á milli.
 4. Að lokum fara saxaðar valhneturnar saman við (geymið smá af þeim þar til síðar, um það bil ¼ af blöndunni).
 5. Setjið um eina matskeið af blöndu á bökunarpappír fyrir hverja köku (blandan gefur um 24-28 kökur) og hafið svolítið bil á milli þar sem deigið lekur niður við bakstur.
 6. Stráið nokkrum súkkulaðidropum yfir kökurnar ásamt restinni af hnetunum og bakið við 180°C í 12-15 mínútur.

Mmmm….. þessar voru guðdómlegar aðeins volgar með ískaldri mjólk!

Súkkulaðistangirnar hennar ömmu

Elsku amma Guðrún heitin bakaðai þessar súkkulaðistangir alltaf í aðdraganda jólanna og mátti ég til með að prófa uppskriftina hennar. Þetta eru dásamlegar súkkulaðikökur með hökkuðum heslihnetum sem einnig má skipta út fyrir hakkaðar möndlur fyrir þá sem vilja.

Súkkulaðistangir með heslihnetum

 • 360 g hveiti
 • 250 g smjör
 • 250 g sykur
 • 4 msk bökunarkakó
 • 2 egg
 • Hakkaðar heslihnetur frá “Til hamingju“

 

 1. Hrærið saman hveiti, smjör, sykur, bökunarkakó og egg með K-inu.
 2. Rúllið deiginu í góða kúlu, plastið og kælið í klukkustund.
 3. Skiptið kældu deiginu niður í fjóra hluta og rúllið hvern í lengjur sem eru um 1 cm í þvermál.
 4. Stráið (og þrýstið) hökkuðum heslihnetum yfir lengjuna ásamt því að strá smá sykri yfir líka og skerið hana á ská í um 5 cm langa bita og raðið á bökunarplötu.
 5. Bakið við 180°C í um 15-17 mínútur.
 6. Blandan gefur um 40-50 súkkulaðistangir.

Þessar eru æðislegar og einfaldar og tilvaldar í kökuboxið á aðventunni.

Áramótatertan

Þar sem ég er með algjört æði fyrir „Dripping“ kökum þessi misserin verður áramótatertan í ár að sjálfsögðu skreytt á þann háttinn. Ég útbjó þessa köku fyrir Morgunblaðið á dögunum og birtist hún einmitt í jólablaðinu þeirra fyrir helgi!

Lýsingin er löng og ítarleg en ekki láta hana hræða ykkur, þetta er eitthvað sem allir geta prófað með þolinmæði og gleði að vopni!

Fyrir þá sem ekki treysta sér í þetta þá er ég með örfá laus pláss á aukanámskeiðinu þann 14.desember svo þá er um að gera að skella sér og læra að gera svona dásemd almennilega.

Botnar

 • 1 x Betty Crocker Devils Food Cake Mix
 • 4 egg
 • 100 ml matarolía
 • 250 ml vatn
 • 3 msk bökunarkakó
 • 1 pk Royal súkkulaðibúðingur
 1. Setjið egg, olíu og vatn í hrærivélina og blandið.
 2. Bætið þá kökumixi og bökunarkakó saman við og hrærið vel, skafið niður á milli.
 3. Að lokum fer Royal búðingurinn (aðeins duftið) saman við súkkulaðiblönduna og hrært létt og skafið niður á milli.
 4. Deiginu skipt niður í þrjú 15 cm bökunarform sem búið er að spreyja vel með matarolíuspreyi.
 5. Bakið við 160°C í um 25-30 mínútur eða þar til prjónn kemur hreinn út.
 6. Kælið botnana, jafnið með kökuskera (skerið ofan af toppunum) og takið síðan hvern botn í tvennt með kökuskeranum. Þannig endið þið með sex þynnri kökubotna og þá er hægt að hefjast handa við skreytinguna.

Súkkulaðismjörkrem (á milli botna)
•    125 gr smjör (við stofuhita)
•    350 gr flórsykur
•    2 tsk vanilludropar
•    4 msk pönnukökusýróp
•    4 msk bökunarkakó

 1. Setjið öll hráefnin nema flórsykur og kakó í hrærivélarskálina og hrærið vel saman.
 2. Blandið flórsykri og kakó saman og bætið varlega útí blönduna, skafið niður á milli og hrærið þar til kremið er slétt og fellt.
 3. Smyrjið þunni lagi af kremi á milli botnanna í fimm lögum (ekki setja á efsta botninn).
 4. Geymið smá hluta af kremi til að smyrja utan á kökuna með hvíta kreminu sem er útbúið í næsta skrefi og til þess að setja í sprautupoka og skreyta toppinn í lokin.

Hvítt krem (til að þekja með)
•    2 x Betty Crocker Vanilla Frosting
•    200 gr flórsykur

 1. Hrærið vel saman í hrærivélarskálinni þar til hvítt og silkimjúkt.
 2. Setjið smá hluta strax í sprautupoka til að eiga fyrir skreytingu á toppnum í lokin.
 3. Smyrjið örþunnu lagi yfir alla kökuna til að binda alla kökumylsnu, leyfið að standa og taka sig stutta stund. Þetta skref er mikilvægt til að koma í veg fyrir að kökumylsna sjáist í  kreminu.
 4. Smyrjið nú öðru og þykkara lagi af hvítu kremi á kökuna og reynið að hafa jafnt allan hringinn.
 5. Setjið þá smá af súkkulaðikreminu hér og þar yfir hvíta kremið, ýmist með sprautunni eða bara með hníf.
 6. Hér er mikilvægt að taka spaðann sinn og bleyta örlítið (hafa rakan) og draga kremin saman til að mynda marmaraáferðina. Skafa kremið af á milli og bleyta að nýju og halda þannig áfram allan hringinn þar til þið hafið fengið það útlit sem ykkur þykir fallegt.
 7. Setjið kökuna í kæli á meðan þið útbúið ganacé.

Ganacé
•    100 gr saxað suðusúkkulaði (mjög smátt saxað)
•    1/3 bolli rjómi

 1. Hitið rjómann að suðu, hellið yfir súkkulaðið, leyfið að standa í um tvær mínútur og hrærið svo saman með písk/gaffli. Leyfið hitanum aðeins að rjúka úr og setjið því næst á kökuna (muna að þynna með smá rjóma ef það verður of þykkt og kæla betur ef verður of þunnt).
 2. Best að hella aðeins hluta á í einu og stýra því hvernig það lekur niður hliðarnar og hella svo aðeins meira og fara þannig allan hringinn.
 3. Leyfið ganacé að taka sig aðeins á kökunni á meðan þið útbúið skrautið.

Skreyting

 • Hjúpsúkkulaði (hvítt og dökkbrúnt)
 • Ískex-vindlar  (fást í Hagkaup)
 • Papparör og stjörnur á priki (keypt á AliExpress)
 • Ferrero Rocher kúla
 • Risa Nóakropp
 • Venjulegt Nóakropp
 • Kökuskraut, gyllt og hvítt (fæst í Allt í köku)
 • Gyllt kökuskreytingarduft og glimmer (fæst í Allt í köku)
 • Afgangskrem frá kökunni sett í sprautupoka með stjörnustútum með þéttar tennur.
 1. Bræðið hjúpsúkkulaði og dreifið á bökunarpappír í nokkrum skömmtum (ekki of þunnt samt). Stráið því kökuskrauti, glimmeri eða dufti yfir áður en storknar.
 2. Þegar storknað takið þá og brjótið niður eftir því sem ykkur þykir fallegt og stingið í kökuna.
 3. Skreytið með öðru kökuskrauti og kremi að vild.

Súkkulaði lakkrístoppar

Á þessu heimili eru lakkrístoppar bakaðir fyrir hver jól. Við gerum alltaf þessa hefðbundnu, gömlu góðu úr Hagkaupsbókinni en svo er gaman að prófa eitthvað nýtt líka.

Að þessu sinni settum við bökunarkakó saman við og stráðum því einnig yfir fyrir bakstur og ég verð að segja þessir koma sterkir inn fyrir súkkulaði og kakóunnendur!

Súkkulaði lakkrístoppar

 • 230 g púðursykur
 • 4 eggjahvítur
 • 150 g lakkrískurl
 • 2 msk bökunarkakó

 

 1. Þeytið saman púðursykur og eggjahvítur þar til stífir toppar myndast.
 2. Takið helming blöndunnar til hliðar og bætið bökunarkakói í þann hluta sem enn er í hrærivélarskálinni og blandið vel.
 3. Skiptið lakkrískurlinu niður í skálarnar tvær og blandið vel við hvora blöndu.
 4. Setjið blöndurnar þá saman og rétt snúið þeim saman (alls ekki of mikið því þið viljið fá marmaraáferð á kökurnar)
 5. Setjið kúfaðar teskeiðar á bökunarplötu, stráið smá bökunarkakói yfir og bakið við 180°C í 14-17 mínútur.

 

Heitt jólakakó

Hvað er betra en heitt súkkulaði á veturna í kuldanum? Ekki margt, prófuðum smá nýjung í kakógerð um daginn, þetta var dásamlega gott!

Heitt jólakakó

Dugar í 2 góða bolla

 • 400 ml nýmjólk
 • 60 gr suðusúkkulaði
 • 2 msk heslihetusmjör
 • 1 msk smjör frá Gott í matinn
 • Smá salt
 • Þeyttur rjómi frá Gott í matinn og súkkulaðispænir til skrauts

aIMG_0279

 1. Setjið öll hráefnin (fyrir utan þeytta rjómann og súkkulaðispæninn) í pott og hitið yfir miðlungshita þar til vel blandað og súkkulaðið bráðið, hrærið vel í allan tímann.
 2. Hellið kakóinu í bolla og setjið vel af þeyttum rjóma yfir og smá súkkulaðispæni.

Hreindýra-bollakökur

Þessar krúttlegu hreindýra bollakökur geta allir föndrað og dóttir mín sem er átta ára sá að mestu um skreytingar þetta skiptið. Við sáum þessa skreytingarhugmynd á Pinterest og það er alltaf svo gaman að gera eitthvað svona einfalt og skemmtilegt svo ég hvet ykkur til að prófa þessar í jólaundirbúningnum.

Bollakökur
• Betty Crocker Devils Food Cake Mix
• Royal súkkulaðibúðingur
• 170 ml matarolía
• 1 dós sýrður rjómi frá Gott í matinn(180gr)
• 90 ml nýmjólk
• 4 egg
• 1 tsk vanilludropar
• 250 gr suðusúkkulaðidropar

1. Setjið allt nema súkkulaðidropana í skál, hrærið þar til slétt og fínt.
2. Vefjið súkkulaðidropunum saman við með sleif.
3. Skiptið á milli bollakökuformanna og bakið við 160°C í um 20 mínútur ( blandan gefur 24 stk)


Súkkulaðikrem
• 50 gr suðusúkkulaði
• 100 gr smjör frá Gott í matinn (við stofuhita)
• 200 gr flórsykur
• 1 tsk vanilludropar
• 3 msk bökunarkakó
• 2-4 msk nýmjólk
1. Bræðið súkkulaðið í vatnsbaði og leyfið að standa á meðan þið þeytið rest saman svo það sé ekki of heitt þegar það er sett út í.
2. Þeytið smjör þar til létt og ljóst.
3. Bætið flórsykri og bökunarkakó smátt og smátt saman við og skafið niður á milli.
4. Bætið vanilludropunum við að lokum og vefjið því næst bræddu súkkulaðinu saman við með sleif.
5. Bætið nokkrum msk af mjólk saman við eftir þörfum svo auðvelt sé að smyrja kreminu á.

aIMG_0241
Skraut
• Saltkringlur
• Litlar piparkökukúlur
• Wilton nammiaugu (fást í Allt í köku)
• Rauðar & brúnar stórar sykurperlur (fást í Allt í köku)
• Límt saman með bræddu súkkulaði

Kókoskúlur

aIMG_6067

Þessa uppskrift ætlaði ég að vera lööööööngu búin að setja hingað inn. Það er alveg magnað hvað kókoskúlur slá alltaf í gegn og mesta furða maður útbúi þær ekki oftar.  Ég tók tímann á dætrum mínum í gærkvöldi þegar þær voru að búa kúlurnar til og þetta tók þær ekki nema hálftíma og þá fóru þær í ísskápinn í kælingu. Ef ykkur vantar eitthvað skemmtilegt að gera eftir skóla eða með kvöldkaffinu þá er þetta tilvalið.

Kókoskúlur

 • 200 gr smjör við stofuhita
 • 1 dl sykur
 • 1 dl púðursykur
 • 2 tsk vanilludropar
 • 4 msk bökunarkakó
 • 6 dl haframjöl
 • 3 msk kælt kaffi (má sleppa en gott að setja þá 3 msk af vatni til að blandan verði ekki of þurr)
 1. Setjið allt saman í skál og hnoðið saman með höndunum eða með K-inu.
 2. Mótið litlar kúlur og rúllið upp úr kókosmjöli.
 3. Kælið í að minnsta kosti klukkustund.
 4. Best er síðan að eiga kúlurnar í frysti/kæli og taka nokkrar út í einu.

aIMG_6066

Súkkulaði hafraklattar

Rakst á þessa uppskrift um daginn á síðunni „Money Saving Mom“ og hreinlega varð að prófa. Molarnir voru dásamlega góðir og gott að eiga þá í frystinum og geta gripið sér einn og einn. Þessa bita þarf ekki að baka og því tekur enga stund að útbúa þá!

Súkkulaði haframjölsklattar

 • 1 bolli hnetusmjör
 • ½ bolli hunang
 • ½ bolli kókosolía
 • 2 bollar gróft haframjöl
 • 1 bolli kókosmjöl
 • 1 bolli saxaðar hnetur (hér notaði ég Macadamia og Cashew)
 • 1 bolli suðusúkkulaðidropar
 • 1 tsk vanilludropar

Súkkulaði hafraklattar

 1. Bræðið hnetusmjör, hunang og kókosolíu í potti við lágan/meðalhita þar til vel blandað. Fylgist vel með, hrærið í allan tímann og passið að blandan brenni ekki við, takið af hitanum.
 2. Bætið haframjöli, kókosmjöli, súkkulaðidropum, hnetum og vanilludropum saman við og blandið saman með sleif
 3. Klæðið um 25×25 cm kökuform með bökunarpappír og þjappið blöndunni niður í formið.
 4. Kælið í að minnsta kosti klukkustund og skerið síðan í litla bita.
 5. Gott að eiga þessa bita í frystinum og taka nokkra út í einu til að gæða sér á.

Emil í Kattholti

Elsku litli vinur minn hann Stefán Kári varð fimm ára í lok sumars. Hún Inga vinkona mín og mamma hans er algjör snillingur þegar kemur að veisluhöldum svo ég laumaði myndavélinni með mér til að geta komið þessum dásamlegu hugmyndum hingað inn. Þemað var Emil í Kattholti og verður að segjast að hann Stefán Kári er hálfgerður Emil.

Afmæliskakan er útskorinn tölustafur og smjörkrem látið fljóta saman.

Sykurpúðar á priki sem búið er að dýfa í súkkulaði og strá hafrakexmylsnu yfir.

Ávaxtaspjót slá alltaf í gegn.

Snilldar framsetning á vatnsmelónu, búið að stinga ísprikum í melónurnar.

Hvítar Rice Krispies kökur, getið til dæmis fundið uppskrift hér nema þið sleppið matarlitnum og setjið í pappaform í stað þess að skera út.

SK2

Mini Pulled Pork samlokur og ostabakki….Mmmm svo gott!

Allir krakkar fengu síðan gjafabox með sér heim, þetta eru litlir blómapottar úr IKEA, pappi settur í hvern og þeir fylltir með góðgæti.

SK1

Merkimiðana og fleira sem er útprentað pantaði Inga hjá Pixel og Ingunn hjá Andlitsmálun Ingunnar sá um að gera krakkana svona fína í framan :)

SK

Soffía og Stefán eru bestu vinir og þau eru sko algjör Emil og Ída!