Fyrsta námskeiðið í nútímalegum kökuskreytingum!

Langar þig til þess að læra að útbúa dásamlega köku í þessum stíl?

Fyrsta námskeiðið í nútímalegum kökuskreytingum verður haldið þann 30.september næstkomandi milli 14:00-18:00 og eru enn nokkur laus pláss, skráning á gotteri@gotteri.is

Ég aðeins búin að vera að leika mér til að undirbúa námskeiðið!

Á námskeiðinu er farið yfir það hvernig jafna skuli kökubotna og skipta þeim, kremi er smurt á milli og hvernig hjúpa skal köku fyrir skreytingu. Kennd er svokölluð „watercolor effect“ aðferð með smjörkremi til að hjúpa kökuna. Því  næst er súkkulaðiskraut útbúið og allir þátttakendur læra að útbúa ganaché og smyrja því á kökuna og hvernig hægt er að láta það leka fallega niður hliðarnar. Að lokum skreyta allir sína köku með frjálsri aðferð.

Frábær gæðastund fyrir alla áhugasama um kökuskreytingar, vinkonur, vini, mæðgur eða hvern sem er!

Verð er 14.900kr og fara allir heim með fullskreytta köku í lok námskeiðs.

Hér fyrir neðan eru síðan hugmyndir af veraldarvefnum sem hægt er að hafa í huga.

6 5 4 3 2 1

 

Sprinkles afmælisþema

Ég eeeeelska að skipuleggja afmælisveislur dætra minna og í næsta mánuði verður sú elsta fjórtán ára og ég mun víst ekki fá að gera fleiri stórafmæli fyrir hana. Ég held þó í vonina að fá að aðstoða hana við vinkonupartýið sitt að einhverju leyti og leyfum við  ykkur að sjálfsögðu að fylgjast með því.

Við vorum að spjalla í gær um hvað hún vildi gera á afmælinu sínu þetta árið og þá áttaði ég mig á því að ég var ekki enn búin að setja hér inn færslu frá afmælinu hennar í fyrra! Ég mun algjörlega kenna meðgöngu og síðar brjóstaþoku um að slatti af efni liggur óhreyft hér á tölvunni minni, þetta kemur þó allt inn á næstunni, ég lofa.

Það var eiginlega allt í SPRINKLES eftir þennan dag og hér fyrir neðan getið þið fengið hugmyndir af ýmsu góðgæti. Ég man að ég var á hátindi ógleðinnar svo Betty Crocker og aðrar einfaldar uppskriftir komu klárlega til bjargar ásamt dyggri aðstoð frá afmælisdömunni sjálfri. Diskar, servettur og þess háttar var allt keypt í Allt í köku.

Afmælistertan sjálf er Betty Crocker með Betty Crocker vanilla icing og súkkulaðismjörkremi og risa kökupinnaís á toppnum.

Afmæliskakan

Hvor kaka um sig voru 5 þunnir botnar (8 og 6 tommu form, c.a 20 og 15cm) og er það um 2-2,5 kökumix, 1 x súkkulaðismjörkremsuppskrift á milli og 2 x Vanilla icing þeytt upp með flórsykri til að þekja. Restin af kökumixinu fór í nokkrar bollakökur. Á toppnum gerði ég síðan „risa“ kökupinnaís en síðan voru einnig þannig minni í boði. Ganaché er skemmtileg aðferð til að gera fallega köku og undir færslunni „Bleik bomba“ hér á síðunni getið þið fundið uppskrift og leiðbeiningar um slíkt.

Kökupinnaís

Þessar dúllur hef ég útbúið nokkrum sinnum og elska ég kökupinnabókina hennar Bakerella sem Ragnheiður vinkona mín gaf mér fyrir nokkrum árum. Ég fylgi ferlinu hennar og hægt er að hafa hvernig köku og krem sem er í þessum kökupinnaís, sjá á heimasíðu Bakerella.

Einnig gerði ég nokkra hefðbundna kökupinna og getið þið séð ferlið og fengið hugmyndir undir kökupinnauppskriftir hér á síðunni ásamt því að skoða kennsluefni.

Það er bara ekki hægt að fá nóg af kökupinnum, þeir gera veisluborðið svo fallegt og drottinn minn svo eru þeir dásamlega góðir!

Bollakökur

Hér eru á ferðinni súkkulaði bollakökur með vanillu smjörkremi í mismunandi litum. Ég notast við stút 104 frá Wilton en það er laufastútur og hægt er að búa til svona skemmtileg blóm með honum.

Hér eru einnig súkkulaðibollakökur á ferðinni með Betty Crocker vanilla frosting sem búið er að þykkja með flórsykri og sprauta rósamynstur með stút 2D frá Wilton.

Hrískökur

Hrískökur eru alltaf vinsælar og það tekur aðeins örfáar mínútur að útbúa slíkar svo þær ættu hreinlega að vera í öllum veislum.

 

Kíkið endilega á flokkinn „Veisluhugmyndir og kökuskreytingar“ hér á síðunni en þar er fullt af skemmtilegum hugmyndum fyrir utan uppskriftarflokkana.

Einnig minni ég á haustnámskeiðin en þar er hægt að læra að gera köku með ganaché, smjörkremsskreytingar á heilar kökur, bollakökuskreytingar já eða dásamlegu kökupinnana!

Chocolate Trailer og temprun á súkkulaði

Fyrr í ágúst fórum við nokkrar vinkonur á námskeið hjá honum Halldóri konfektgerðarmeistara í Chocolate Trailer-num hans niðri í bæ. Þetta var meiriháttar skemmtilegt og þá sérlega þegar hann tók súkkulaðidansinn með okkur! Á námskeiðinu lærðum við að tempra súkkulaði og búa til fyllta ofurgómsæta súkkulaðimola. Ég verð að játa mig seka að hafa aldrei áður gert svona konfekt þrátt fyrir að vera sá sælkeri sem ég er. Nú er ég hins vegar búin að læra hvernig á að tempra súkkulaði ásamt annarri súkkulaðitækni og panta nammihitamæli á netinu þannig að nú verður heimagert konfekt útbúið fyrir þessi jólin.

Súkkulaðivagninn er sá fyrsti sinnar tegundar á Íslandi og mögulega bara í heiminum og hefur hann fengið ómælda athygli ferðamanna enda hver vill ekki læra að útbúa þessi krúttheit og taka um leið heim með sér fallega Íslandsmola!

Grein um vagninn birtist á Lonely Planet um daginn og ég sé hreinlega fyrir mér að erlendir ferðamenn muni standa í röðum til að fá að taka þátt og mæli svo sannarlega með þessu fyrir vinnustaði, saumaklúbba og aðra sem vilja eiga gæðastund saman.

1

Halldór að störfum og þátttakendur vigta súkkulaði.

2

Já!!! Það subbast allt út í súkkulaði, en það er líka bara allt í lagi, sumir settu óþarfa svettu hér og þar til þess að þurfa að „hreinsa“ betur til hjá sér. Við lærðum líka að útbúa fyllingu úr karamellusúkkulaði með sjávarsalti frá Nóa Siríus og viskí :)

Molarnir eru fallegir og fyllingin æðisleg, síðan fá allir svona fallegan poka til að taka molana með í heim.

Fyrir áhugasama þá er hægt að bóka sig á námskeið á netinu á heimasíðu Chocolate Trailer

Mús í krús

Fyrir rúmri viku síðan gæsuðum við vinkonurnar hana Gyðu okkar og byrjaði dagurinn hér heima í bröns. Við vorum með beikon, egg, pönnsur, Mímósu og ávexti og síðan útbjó ég einfalda útgáfu af súkkulaðimús með Nóa kroppi, það sem hún var góð og krúttleg!

Mús í krús

 • 450 gr suðusúkkulaðidropar
 • 110 gr smjör
 • 2 eggjahvítur
 • 600 ml þeyttur rjómi (fyrir músina sjálfa)
 • 300 ml þeyttur rjómi (til að sprauta ofan á músina síðar)
 • Nóa kropp til skrauts

 1. Bræðið súkkulaði og smjör yfir vatnsbaði.
 2. Þegar súkkulaðiblandan er slétt og fín er hún tekin af hitanum.
 3. Eggjahvítunum er þá bætt útí, einni í einu og hrært vel á milli.
 4. Hluta af rjómanum blandað saman við súkkulaðiblönduna með sleif (um ¼).
 5. Síðan er restinni af súkkulaðiblöndunni hellt varlega saman við rjómablönduna og vafið með sleif þar til vel blandað.
 6. Skipt niður í litlar krúsir (þessi uppskrift dugði í 20 krúsir sem þessar en ef stærri dessert skálar eru notaðar eru þetta líklega á bilinu 8-12 skammtar).
 7. Kælið í nokkrar klukkustundir (eða yfir nótt) og sprautið þá vel af rjóma í hverja krús og stráið Nóa kroppi yfir.

Það tók enga stund að útbúa þessa dásemd, ég skellti í músina á föstudagskvöldinu og sprautaði rjómanum síðan á morguninn eftir og stráði Nóa kroppinu yfir.

Veðrið var dásamlegt og við sátum úti á palli með veitingarnar og dagurinn var frábær í alla staði!

bröns

Sólberjabaka

Haustið og rútínan er að skella á í öllu sínu veldi eftir dásamlega síðsumardaga. Um helgina kíktum við mæðgur út í garð þar sem runnarnir eru fullir af dásamlegum dökkum sólberjum og tíndum í fulla skál á nokkrum mínútum. Ekki skemmdi síðan fyrir að geta stokkið upp í móann hér bak við hús og náð í rabbabara til að bæta í bökuna. Nóg af dásamlegu súkkulaði er einnig í uppskriftinni og þannig næst betra jafnvægi á móti því súra.

sólber

Sólberjabaka

 • 200 gr smjör við stofuhita
 • 150 gr hveiti
 • 80 gr púðursykur
 • 60 gr sykur
 • 100 gr haframjöl
 • 30 gr kókosmjöl
 • 1 tsk vanillusykur
 • 100 gr konsum súkkulaðidropar
 • 80 gr rjómasúkkulaði með karamellukurli og sjávarsalti
 • 150 gr niðursneiddur rabbabari
 • 130 gr sólber

 1. Hitið ofninn 180°C.
 2. Blandið saman smjöri, hveiti, púðursykri, sykri, haframjöli, kókosmjöli og vanillusykri til að búa til grunndeigið.
 3. Setjið um 2/3 af deiginu í botninn á eldföstu bökuformi og þrýstið vel upp á hliðarnar (ekki gleyma að smyrja formið fyrst).
 4. Stráið síðan rabbabara, sólberjum og báðum tegundum af súkkulaði yfir til skiptis.
 5. Að lokum fer restin af deiginu yfir í um 1-2 cm bitum.
 6. Breiðið álpappír yfir bökuna og bakið þannig í um 25 mínútur, takið þá álpappírinn af og bakið áfram í 20-25 mínútur í viðbót eða þar til bakan fer að gyllast.

Það var svo gott veður að farið var með bökuna út á pall í sólina og hún borðuð með ís eða rjóma…..já eða bara bæði!

Nútímalegar kökuskreytingar – nýtt námskeið

Þessa köku gerði ég í byrjun júlí þegar tengdamamma mín varð sjötug. Ég hef nokkrum sinnum áður leikið mér með mislitt krem, hjúp sem lekur niður hliðarnar og frjálslegar skreytingar eins og þið getið séð hér á síðunni undir „Veisluhugmyndir og kökuskreytingar„.

Fyrir afmælið ákvað ég að nota tækifærið og útbúa prufuútfærslu fyrir nýja námskeiðið sem verður í boði í haust og kallast „Nútímalegar kökuskreytingar“ og úr varð þessi skemmtilega kaka. Þið getið fundið allar nánari upplýsingar um þau námskeið sem verða í boði í vetur undir „Námskeið í boði“ hér á síðunni.

Þessi kaka samanstendur af fimm þunnum kökubotnum með súkkulaðikremi á milli, mislitu smjörkremi á hliðunum og ganaché á toppnum. Skreytingarnar eru kökupinnaprik, súkkulaðihjúpur sem smurt var úr, leyft að storkna og brotinn í óreglulega bita, makkarónur, súkkulaðikossar og kökuskraut.

Það er ótrúlega skemmtilegt að leika sér með þessa skreytingaraðferð og hlakka ég til að fá að útbúa fleiri svona kökur á næstunni á komandi námskeiðum. Þetta er alls ekki eins flókið og það lítur út fyrir að vera og um að gera að leyfa sköpunargleðinni að njóta sín.

Dagsetningar verða auglýstar á næstunni svo fylgist vel með og munið að skrá ykkur á póstlistann á www.gotteri.is

Námskeiðið tekur um 4 klst og er tilvalin gæðastund fyrir vinnuhópa, saumaklúbba, mæðgur, feðgin eða hvern sem hefur áhuga á að dúllast í kökuskreytingum og föndri. Allir fara að lokum heim með fullskreytta og dásamlega köku til að deila með ættingjum og vinum.

Hér fyrir neðan eru myndir sem ég fann á netinu og geta gefið ykkur frekari hugmyndir hvort sem þið hyggist fara í tilraunastarfsemi heima fyrir eða skella ykkur á námskeið.

6 5 4 3 2 1

Heit karamellu- og súkkulaði íssósa

Þar sem sumarið leikur við okkur þessa dagana er ekkert annað í stöðunni en borða nóg af ís og ekki verra að hafa þessu guðdómlegu heitu íssósu með honum!

Íssósan

 • Ein rúlla af Center súkkulaðimolum
 • 100 gr Toblerone
 • 6 msk rjómi
 • Nóakropp og ískex

 1. Bræðið saman Center, Toblerone og rjóma þar til súkkulaðið leysist upp, kælið stutta stund.
 2. Setjið ís að eigin vali í skál, hellið ríkulega af sósu yfir ásamt því að bæta ískexi og Nóa kroppi við þessa dásamlegu blöndu.

Algjör óþarfi að fara í ísbúðina þegar hægt er að gera svona lúxus heima hjá sér!

Hjónasæla með rifskeim

Um daginn kom mamma með heimalagaða rabbabarasultu til okkar og það kallaði aðeins á eitt, HJÓNASÆLU og kjötbollur í brúnni!

Ég hef áður sett inn uppskriftina hennar ömmu af hjónabandssælu en átti enga jarðaberjasultu að þessu sinni svo ég prófaði að setja rifsgel í staðinn. Útkoman varð dásamleg og hér hafið þið uppskriftina til að njóta.

Hjónasæla með rifskeim

 • 240 gr mjúkt smjör
 • 225 gr hveiti
 • 90 gr sykur
 • 65 gr púðursykur
 • 2 tsk lyftiduft
 • 200 gr haframjöl
 • 5 msk rifsberjagel
 • 6 msk rabbabarasulta

 1. Hrærið saman smjör, hveiti, sykur og púðursykur með K-inu
 2. Bætið haframjöli og lyftidufti saman við í lokin
 3. Setjið um 2/3 af deiginu í botninn á vel smurðu springformi (um 22cm í þvermál) og ýtið aðeins upp á kantana
 4. Blandið sultunum saman og smyrjið yfir botninn
 5. Myljið restina af deiginu yfir sultuna
 6. Bakið við 175°C í um 50 mínútur eða þar til kakan fer að gyllast
 7. Kælið, takið úr forminu og berið fram með þeyttum rjóma

 

Ýmislegt til leigu

Eftir fjöldan allan af fyrirspurnum varðandi standa og kökuform hef ég ákveðið að leigja þeim sem hafa áhuga á eitt og annað í þeim efnum.

Hér á síðunni er kominn nýr undirflokkur þar sem þið getið skoðað úrvalið.

plexistandur

Meðal annars er hægt að leigja þennan dásamlega fallega plexistand sem væri tilvalinn fyrir brúðkaupsveislur sumarsins.

Einnig er fjöldinn allur af kökuformum og eflaust kemur eitthvað fleira til með að bætast þarna við. Algjör óþarfi er að kaupa og eiga alla þessa hluti og svo er auðvitað ekki alltaf allt til hérlendis svo vonandi getið þið nýtt ykkur þetta.

Hér getið þið skoðað úrvalið, TIL LEIGU