Hamborgarar með Chili Majónesi

Grillaðir hamborgarar eru tilvalinn matur í komandi sumarveislur, svona ef sumarið lætur kannski sjá sig hér á Suðurlandinu :)

E. Finnsson var að setja Chili Majónes í flösku á markað og drottinn minn hvað þetta er mikil snilld! Við fjölskyldan útbjuggum hamborgara til að prófa hana og höfðum ýmislegt meðlæti með. Vöfflufranskar höfum við elskað síðan við bjuggum í USA og finnst mér frábært að geta keypt þær út í búð (þær yfirleitt alltaf til í Krónunni til dæmis) og svo vorum við að prófa að gera sultaðan rauðlauk í fyrsta skipti og hann var alveg dásamlegur í bland við þetta allt.

Hamborgarar með Chili majónesi

 • 500 gr nautahakk
 • 60 gr mulið Ritz kex
 • 1 pískað egg
 • 1 tsk Chile lime krydd
 • 1 tsk Steikarkrydd (má líka setja 2 af þessu og sleppa hinu)
 • Ostsneiðar
 • 10-15 stk sveppir
 • 3 rauðlaukar
 • 3 msk púðursykur
 • 6 msk smjör
 • 4-5 hamborgarabrauð
 • Grænmeti (hér eru kál og tómatar)
 • Vöfflufranskar
 • Beikon
 • Chili Majónes frá E. Finnsson

 1. Blandið hakki, Ritz kexi, eggi og kryddum saman í skál og blandið saman með höndunum.
 2. Þjappið hakkblöndunni í hamborgarabuff eða notið hamborgarapressu. Uppskriftin gefur 4-5 hamborgara eftir því hversu þykka þið viljið hafa þá.
 3. Gott er að plasta og kæla buffin á meðan meðlæti og annað er undirbúið.
 4. Hitið ofninn og setjið franskar á eina ofnskúffu og beikon á þá næstu (bökunarpappír undir), setjið í ofninn á meðan þið gerið annað meðlæti og grillið hamborgarana.
 5. Hvítlauksristaðir sveppir: Skerið sveppi í sneiðar og steikið upp úr smjöri, kryddið til með salti, pipar og hvítlauksdufti.
 6. Sultaður rauðlaukur: Skerið laukana í sneiðar og steikið upp úr smjöri, kryddið til með salti og pipar. Þegar hann hefur linast er púðursykrinum blandað saman við og leyft að malla við lágan hita í nokkrar mínútur.
 7. Grillið því næst borgarana og hitið brauðin (mér finnst gott að hafa þau í álpappír á efri grindinni því þá verða þau svo mjúk og góð), ekki gleyma ostinum og smá auka kryddi í lokin.
 8. Ég keypti nokkur krydd í Williams & Sonoma í Seattle um daginn og Steakhouse rub kryddið þeirra er dásamlegt á ýmislegt kjöt og svo var Chile lime kryddið líka skemmtileg tilbreyting. Hér getið þið þó að sjálfsögðu notað þau krydd sem ykkur þykja góð.
 9. Raðið þessu síðan öllu saman og njótið með Chili Majónesi.

Þessi færsla var unnin í samstarfi við Vogabæ

 

Nacos partýdýfa

Nacosdýfur eru í miklu uppáhaldi á þessu heimili og oftar en ekki er „eðlan“ útbúin eða dásamlega ferska dýfan sem Þórunn vinkona kenndi mér að gera fyrir eins og tuttugu árum síðan! Held ég þurfi síðan klárlega að skjalfesta hvað við fjölskyldan setjum í okkar „eðlu“ við fyrsta tækifæri og setja hingað inn.

Þessi ferska dýfa með Cheddar osti er hins vegar frábærlega góð! Ég útjó hana fyrir Gott í matinn á dögunum þar sem sérstakar HM pakkningar af sýrðum rjóma komu á markað og þessi dýfa er einmitt tilvalin til að hafa með komandi fótboltaleikjum, í saumaklúbbinn eða bara hvað sem er!

Nacosdýfa

 • 225 gr sýrður rjómi frá Gott í matinn
 • 225 gr rjómaostur við stofuhita frá Gott í matinn
 • 450 gr salsasósa
 • 1 tsk tacokryddblanda
 • ½ meðalstór iceberghaus
 • 2 stórir tómatar
 • 1/3 Óðals cheddar ostur
 • 3 msk skornar ólífur

aIMG_5224

 1. Setjið sýrðan rjóma, rjómaost, salsasósu og tacokrydd í hrærivélina og þeytið saman þar til kekkjalaus blanda myndast.
 2. Hellið blöndunni í fallegt fat/skál/bakka.
 3. Saxið iceberg kálið smátt, skerið tómatana í teninga og rífið ostinn fínt.
 4. Stráið grænmetinu og því næst ostinum yfir salsablönduna.
 5. Að lokum fara skornar ólífur yfir ostinn og gott er að plasta og kæla dýfuna í að minnsta kosti klukkustund.
 6. Berið fram með stökkum nacos flögum.

Litlar karamellu pavlour

Þessar dúllur útbjó ég fyrir útskriftina mína um síðustu helgi ásamt alls kyns öðrum sætum bitum og þessar eru algjör B O M B A, hinn fullkomni og fagri eftirréttur.

Karamellu pavlour

 • 4 eggjahvítur
 • 4 dl púðursykur
 • 300 ml þeyttur rjómi
 • 1 rúlla af Center karamellumolum
 • 3 msk rjómi
 • Hnetukurl
 1. Hitið ofninn 110°C.
 2. Þeytið saman eggjahvítur og sykur þar til stífir toppar myndast.
 3. Setjið í stóran sprautupoka með hringlaga stút (eða klippið gat á sterkan poka)og sprautið litla toppa á bökunarplötu (um það bil 4-5 cm í þvermál). Búið síðan til smá holu í miðjuna með botninum á teskeið til að meira pláss myndist fyrir rjómann.
 4. Bakið í 50 mínútur og kælið.
 5. Bræðið saman Center mola og rjóma í potti þar til falleg karamellubráð hefur myndast, leyfið að kólna í nokkrar mínútur á meðan þið þreytið rjómann.
 6. Sprautið rjóma á hverja pavlou og „drisslið“ karamellubráð yfir rjómann ásamt hnetukurli. Gott er að setja karamellubráðina í lítinn sprautupoka/zip-lock poka og klippa lítið gat á endann.
 7. Uppskriftin gefur um 35-40 stk af litlum pavloum.

Hér sjáið þið þær síðan á eftirréttaturninum fína ásamt öðru góðgæti.

Center rúllurnar fást meðal annars í Hagkaup, Nettó, Iceland, Fjarðarkaup og 10-11

 

Kokteilboð

Þann 16.júní síðastliðinn útskrifaðist ég með MPM meistaragráðu frá Háskólanum í Reykjavík. Ég er mjög góð í því að halda veislur fyrir aðra en var varla að nenna því fyrir sjálfa mig. Ég ákvað hins vegar ef nú væri ekki tilefni til að skála þá hvenær! Úr varð dömu kokteilboð fyrir mínar nánustu og voru um 18 konur sem komu og fögnuðu þessum tímamótum með mér.

Dagskráin var ansi þétt þennan laugardaginn þar sem útskriftinni í HR var flýtt um 3 klukkustundir til þess að allir gætu verið komnir til sinna heima áður en fyrsti landsleikur Íslands í Rússlandi myndi hefjast! Ég var því búin að raða upp öllu heima og aðeins átti eftir að setja veitingarnar á sína staði og taka drykki úr kæli.

Ég pantaði sushi og snittur, útbjó ostabakka og risa eftirréttaturn og kokteilboðið var milli kl:17:00-20:00 þennan dag……já og svona eitthvað lengur fyrir hluta sem var alveg dásamlegt, bara við stelpurnar að sitja, borða og blaðra og hafa það kósý.

Mig hefur lengi langað til að prófa að útbúa eftirréttarturn þar sem alls konar litlum bitum er blandað saman á nokkrum hæðum. Ég útbjó mini pavlour bæði kókos og karamellu, brownie bita, marengstoppa, súkkulaðimús, bollakökur og keypti frosnar makkarónur þar sem ég hafði ekki tíma til að baka slíkar.  Inn á milli setti ég síðan blóm og ber og á efstu hæðina kom ég fyrir lítilli útskriftarköku. Þetta heppnaðist ótrúlega vel og ég verð að segja að þetta er með því sniðugra sem ég hef gert, hver og einn getur valið að smakka allt eða aðeins hluta.

Er hann ekki dásamlegur!

Ég mun setja uppskriftir af hverju og einu fljótlega hingað inn svo endilega fylgist með!

Þessi framsetning gæti verið tilvalin fyrir brúðkaup, fermingu eða aðrar veislur, hægt er að leigja plexistandinn hér  og setja allt sem hugurinn girnist á hann.

Það passaði einstaklega vel að hafa sushi og hvítvín í svona dömuboði og pantaði ég bæði eldaða og hráa bita í bland hjá Tokyo Sushi og sótti í Glæsibæ á heimleið úr Hörpunni. Þeir voru svo góðir að ég náði meira að segja að plata mömmu sem aldrei hefur smakkað sushi til að smakka á þeim elduðu og hún kom aftur til að sækja sér fleiri bita, enda ekki furða…..mmmm

Þar sem tvær af gestunum eru barnshafandi passaði ég mig á því að hafa aðeins eldaða bita á einum stað og síðan blandaða bita annars staðar til að taka enga óþarfa áhættu. Ég færði bitana yfir af plastbökkunum á langt trébretti og einnig lyfti ég nokkrum bitum upp á lítinn kökudisk. Það er svo fallegt að raða þessum bitum upp á skemmtilegan hátt.

Mmmmm…..hægt er að panta veislubakka frá Tokyo Sushi hér.

Hér fyrir ofan sjáið þið blandaða bakkann. Einnig færði ég meðlætið yfir í litlar skálar og þetta sló algerlega í gegn.

Ég var með nokkra litla ostabakka hér og þar á veisluborðinu þar sem það er alltaf gott að narta í slíkt með og inn á milli smáréttanna.

Í fermingu dóttur minnar í fyrra pantaði ég kokteilsnittur hjá Smurbrauðsstofu Sylvíu og þær voru svo dásamlega góðar að ég hafði samband við hana Guðrúnu smurbrauðssnilling aftur. Ég pantaði 80 stk af þremur mismunandi tegundum og þær kláruðust allar, svo góðar voru þær!

Roastbeef snitturnar voru vinsælastar og fyrstar til að klárast!

Laxasnitturnar eru svo guðdómlega fallegar með þessari skreytingu.

Það er bara eitthvað við svona kokteilsnittur sem gerir veisluborðið einstaklega fágað og glæsilegt. Þessir fallegu svörtu standar sem Finnur vinur okkar smíðaði sjálfur fyrir fermingu dóttur sinnar eru auðvitað gordjöss og snitturnar sóma sér vel á þeim!

Í veislu sem þessari er nauðsynlegt að skála fyrir áfanganum! Ég lét því LOKSINS verða að því að fá mér Essence kampavínsglösin frá Iittala þrátt fyrir að hafa haldið ótal áramótapartý án þess að geta skálað í almennilegum glösum!

Habbý vinkona sá um að fylla á glösin og síðan röðuðum við þeim fallega upp.

Skál!

Ég er með algjört æði fyrir „Naked cakes“ þessa dagana og því var útskriftarkakan lítil þannig.

Ég útbjó litla gulrótarköku sem ég færði yfir á toppinn á plexistandinum og fallega skiltið á toppnum fékk ég hjá Hlutprent eins og svo oft áður.

Hér koma síðan nokkrar fleiri myndir af veisluborðinu………

Eftirréttaturninn var svo dásamlegur að erfitt var að hætta að mynda hann.

Mæli klárlega með þessu!

Fallegu snitturnar.

Girnilegi sushibakkinn!

Fallegi vasinn hennar Lukku vinkonu.

Til þess að auðvelda ykkur að áætla magn af veitingum fyrir 3 klukkustunda kokteilboð (þar sem nokkrar sátu lengur) þá koma hér smá ráðleggingar.

20 dömur 

 • 80 kokteilsnittur
 • 130 sushibitar
 • Ostabakkar (4 ostar, kex, ávextir, hráskinka, salami, sultur, ólífur o.fl)
 • 90 litlir sætir bitar (súkkulaðimús, makkarónur, browniebitar, muffins, mini pavlour o.fl)
 • 4 hvítvínsflöskur
 • 3 rauðvínsflöskur
 • 3 freyðivínsflöskur (til að skála í)
 • 15 bjórdósir
 • 20 sódavatn og gosdósir í bland

Þessi færsla er styrkt að hluta til.

Pestólokur með Dala brie

Gerði þessa uppskrift um daginn fyrir Gott í matinn og VÁ, VÁ, VÁ hvað þær voru dásamlega góðar! Er klárlega að fara að prófa að nota Brie í fleiri samlokur á næstunni svo fylgist með!

Þessar sóma sér vel á veisluborðinu eða í nestistöskuna.

Pestóloka með Dala Brie

 • 3 x lítil baguette brauð
 • Eitt bréf pestóskinka
 • 1 ½ Dala Brie ostur
 • Rautt pestó
 • Klettasalat
 • Gouda ostsneiðar
 1. Afþýðið baguette brauðin og skerið eftir endilöngu (þau eru seld sex talsins í poka og eru frystivara). Þessi verða mjúk og góð þegar búið er að rista þau.
 2. Smyrjið góðu lagi af pestó á neðri hluta brauðsins.
 3. Því næst fara ostsneiðarnar á og svo skinkan. Eitt bréf á að innihalda sex stórar skinkusneiðar og því duga tvær sneiðar á hverja loku. Brjótið skinkuna saman eftir endilöngu og leggið ofan á ostsneiðarnar.
 4. Skerið Dala Brie í hæfilega stóra bita og skiptið niður á brauðin.
 5. Lokið og grillið þar til brauðið brúnast og osturinn bráðnar(gott að klemma grillið ekki alveg niður til að koma í veg fyrir að osturinn leki af brauðinu).
 6. Þegar brauðið er tilbúið má leyfa hitanum aðeins að rjúka úr, taka efra lokið af og setja klettasalat á hverja loku.
 7. Síðan má skera hverja loku niður í minni bita.

1 árs afmælisveisla

Elsku litla gullið mitt hún Hulda Sif varð eins árs gömul þann 19.apríl síðastliðinn. Það var að þessu sinni Sumardagurinn fyrsti og því var ekkert annað í stöðunni en að bjóða upp á mjög sumarlegt afmælisþema og varð gult og hvítt fyrir valinu.

Elín Heiða stóra systir varð 9 ára þann 19.mars og héldu þær saman upp á afmælin sín fyrir vini og ættingja þrátt fyrir að Elín hafi verið búin að fá sína skautaafmælisveislu með bekkjarsystrunum á afmælisdaginn í mars.

Hér fyrir neðan má finna hugmyndir úr veislunni í máli og myndum…….

aIMG_3819

 

Afmæliskakan sjálf var tveggja hæða súkkulaðikaka, skreytt með smjörkremi.

Við skelltum í eina aukaköku til þess að báðar fengju nú að blása á kerti á „sinni“ köku og hér er á ferðinni lítil og krúttleg súkkulaði „naked cake“.

Það er svo gaman að skreyta kökur með lifandi blómum!

Rice Krispies kökur í ýmsum útfærslum slá alltaf í gegn!

Hér erum við með Rice Krispies „ís“ sem búið er að dýfa í hvítt og síðan gult Candy melts, uppskrift og aðferð að finna hér.

Þessir dúllulegu „donuts“ eru sykurpúða hrískökur, hringirnir snúnir út með plastglasi og svo sleif notuð til að búa til holu í miðjuna. Þeir síðan kældir og að lokum dýft í hvítt Candy melts og kökuskrauti stráð yfir, þetta sló alveg í gegn!

Litlar dúllur standa alltaf fyrir sínu. Mini súkkulaði bollakökur með hvítu smjörkremi sem sprautað er á með stút 2D frá Wilton, kökuskrauti stráð yfir og að lokum M&M á toppinn.

Hér eru á ferðinni gulrótarköku bollakökur (Betty gulrótarkökumix) og gult smjörkrem ásamt smá sykurskrauti.

Marmara kökupinnar sem ég var að prófa í fyrsta skipti. Um er að ræða vanillu kökupinna (Betty vanillu kökumix og vanillu krem) sem dýft er í gult og hvítt Candy melts til að fá fallega marmaraáferð. Ég var með hvítt bráðið Candy melts sem ég setti síðan alltaf smá og smá af gulu saman við og dýfði í gegnum báða liti í einu og út kom skemmtilega mismunandi marmaramynstur.

Einnig voru nokkrir einfaldir gulir gerðir á hvolfi með sykurskrauti og sykurmassafiðrildum.

Á fullorðinsborðinu var síðan að finna þessa hér, ég held þetta séu uppáhalds súkkulaði kökupinnarnir mínir, það er eitthvað við þetta Rice Krispies og súkkulaði í bland.

Elín Heiða fékk fallega hvíta skautastelpu á sína köku og voru það snillingarnir hjá Hlutprent  sem sáu um að útbúa afmælisskiltin fyrir mig og þau eru alveg ótrúlega flink, geta gert nánast allt milli himins og jarðar.

Hulda Sif fékk 1 árs skilti!

Gamla góða Egils ananasþykknið í vatni slær alltaf í gegn hjá krökkunum og að þessu sinni settum við nokkrar ferskar ananassneiðar út í.

Á eyjunni voru síðan ýmsar kræsingar fyrir allt fullorðna fólkið og má þar helst nefna (þó margt hafi gleymst að mynda): Ostabakka, mini hamborgara, púðursykurmarengsinn hans pabba (sem hann gerði), jarðaberjatertu frá tengdó, kökupinna, snakk og fleira :)

Þessir dásamlegu og djúsí hamborgarar komu frá American Style. Við pöntuðum hjá þeim fyrir ferminguna í fyrra og grunar mig að þetta sé langt því frá í síðasta skipti sem leitað verður þangað þar sem þeir hafa slegið í gegn bæði hjá ungum sem öldnum.

Hversu krúttaðir eru þeir!

Fallegu stelpurnar mínar, vantar bara þá elstu sem lá lasin upp í herbergi á meðan veisluhöldum stóð :(

Hulda Sif 1 árs gullmoli

Mini bláberja skyrkökur

Þessar dúllur eru alveg dúndur góðar get ég sagt ykkur og tilvalinn og sumarlegur eftirréttur!

Mini bláberja skyrkökur

Botn

 • 300 gr Digestive kex
 • 50 gr brætt smjör

Skyrblanda

 • 1 x KEA skyr með vanillubragði (stór dós)
 • 500 ml rjómi

Bláberjasósa

 • 250 gr bláber
 • 50 ml vatn
 • 3 msk sykur
 • ½ tsk sítrónusafi
 • ½ tsk vanilludropar
 1. Botn: Myljið kexið (setjið í matvinnsluvél) og hellið bræddu smörinu yfir og hrærið saman. Leyfið að kólna á meðan bláberjasósan er útbúin.
 2. Bláberjasósa: Setjið öll hráefnin í pott og leyfið suðunni að koma upp, lækkið þá niður í meðalhita, hrærið vel í þar til sósan fer að þykkna (tekur um 10 mínútur). Setjið sósuna til hliðar og leyfið henni að kólna aðeins á meðan þið útbúið skyrblönduna.
 3. Skyrblanda: Þeytið rjómann og vefjið vanilluskyrinu saman við.
 4. Samsetning: Setjið um 2 msk af kexmylsnu í hvert glas, því næst skyrblöndu og síðan bláberjasósu þar ofan á, skreytið með ferskum bláberjum.

Einnig væri hægt að raða skyrkökunni saman í eina stóra skál ef þið kjósið.

Hafraklattar með döðlum

Þessar dásamlegu hafraklatta útbjó ég um daginn. Dætrum mínum þykja rúsínur ekkert allt of góðar svo ég ákvað að prófa að setja saxaðar döðlur í uppskriftina ásamt kókosmjöli og þessar kökur féllu heldur betur í kramið hjá okkur öllum.

Hafraklattar með döðlum

 • 250 gr sykur
 • 200 gr púðursykur
 • 250 gr smjör við stofuhita
 • 4 egg
 • 300 gr hveiti
 • 1 tsk lyftiduft
 • 2 tsk kanill
 • 1 tsk salt
 • 470 gr Til hamingju gróft haframjöl
 • 50 gr Til hamingju gróft kókosmjöl
 • 100 gr Til hamingju saxaðar döðlur

 1. Sykur (báðar tegundir) og smjör hrært saman í hrærivél þar til létt og ljóst.
 2. Eggin sett út í, eitt í einu og skafið niður á milli.
 3. Því næst er restinni af þurrefnunum blandað saman við og hrært rólega þar til vel blandað.
 4. Að lokum er haframjöli, kókosmjöli og döðlum bætt útí og hrært saman við með sleif.
 5. Ofninn hitaður 180°C og kúlur mótaðar úr góðri matskeið og þrýst létt ofan á hverja, raðað á bökunarplötu og bakað í 15-20 mínútúr (bakið minna ef þið viljið seigari, meira fyrir stökkari).
 6. Uppskriftin gefur um 50 stk og dásamlegt að eiga þær í frysti til að stinga í nestisboxið.

 

Burritorúllur

Hér eru á ferðinni burritorúllur sem rjúka út á augabragði í hverri einustu veislu!

Samsetningin er einföld og fljótleg og gleður unga sem aldna.

Burritorúllur

 • Burritokökur
 • Skinka
 • Ostur
 • Kál og tómatar
 • Pítusósa

Samsetning

 1. Sneiðið ost og leggið nokkrar sneiðar yfir um það bil hálfa kökuna.
 2. Raðið næst skinkusneiðum ofan á ostinn.
 3. Þá fer pítusósan ofan á og loks kál og þunnt skornir tómatar.
 4. Rúllið þétt upp og skerið í bita, gott að stinga tannstöngli í bitana svo þeir haldist betur þegar þeim er raðað á disk.

Þessi færsla er unnin í samstarfi við Vogabæ

Áfram Ísland ostabakki

Ég setti saman þennan skemmtilega ostabakka um daginn fyrir Óðalsosta. Íslensku fánalitirnir eru ráðandi á bakkanum sem samanstendur af dásamlegum Óðalsostum. Á bakkanum eru eftirfarandi ostar (í teningum og ostapinnum): Búri, Tindur, Gouda sterkur, Havarti pipar, Havarti krydd,. Á bakkanum er að auki að finna salami, eldstafi, jarðaber, bláber, kex og ostapinna (með kjötbollum í hoi sin, papriku eða bláberjum).

Litlu fánarnir fást til dæmis í Tiger en ég hef heyrt þeir fáist víðar og eru skemmtilegir þegar Eurovision, HM eða annað skemmtilegt er í gangi!

Ég setti nöfnin á ostunum á hverja krukku með litlum miða og fannst gestunum þetta æðislegur bakki og vildu ólmir prófa mismunandi osta.

Það er alltaf gaman að gera „ostakúlu“ en þá sker ég melónu til helminga, tæmi innan úr henni og klæði með álpappír, útbý síðan fullt af ostapinnum og sting í hana.

Ó hann var svo fallegur og bragðgóður þessi og mér fannst erfitt að hætta að mynda hann!

Gott er að hafa litla tannstöngla til hliðar í skál til að næla sér í ostateninga.

Havartí krydd er í uppáhaldi á þessu heimili og reyndar líka nýji Havartí pipar en hann má nota í ýmsa matargerð.