Gotterí og gersemar banner

„Dirt Cup“ SjeikEins og flestir hafa eflaust tekið eftir kem ég reglulega með hugmyndir frá Bandaríkjunum hingað á bloggið þar sem ég er ansi hrifin af mörgu þaðan og oft á tíðum sakna ég elsku Seattle aðeins of mikið. Þegar slíkt hellist yfir mig er ekkert annað í stöðunni en útbúa smá Seattle upplifun hér heima og það gerðum við heldur betur í gær. Sumarið kom heldur betur í heimsókn í gær og hér voru allir úti að leika, krakkarnir hjólandi, í boltleikjum, með vatnsblöðrur og blásandi sápukúlur. Þegar sumarið ákveður að kíkja í heimsókn lengur en einn dag í senn þarf að fara að dusta rykið af útihúsgögnunum og trampólíninu, hér er beðið með eftirvæntingu eftir því. Vinir okkar komu yfir í grillaða hamborgara og meðlæti og væri alveg hægt að venjast því að vera alltaf í fríi á fimmtudögum.

Það var ekki nóg með að ég fann poka af „BBQ-Waffle Fries“ í frystinum á Nettó til að hafa með hamborgurunum heldur útbjó ég besta, þá meina ég besta sjeik sem er til í eftirrétt. Þetta var nánast eins og við hefðum fagnað tilvonandi sumri á veitingastaðnum RAM nema að þessu sinni allt heimagert (já eða svona næstum því) „ala“ Mosó.

Ég mæli eindregið með því að þið prófið þennan yndislega sjeik hvort sem er í eftirrétt eða bara þegar þið viljið gera ykkur glaðan dag. Krökkum finnst mjög spennandi að hafa hlaupormana þarna að skríða uppúr og allir elska innihaldið í glasinu. Upphaflega er „Dirt Cup“ nokkur konar „Moldarbolli“ þar sem Oreo kex er notað fyrir mold og raðað í lög til skiptis við súkkulaðibúðing og síðan hlaupormar settir efst á mulið Oreo. Þannig er þetta eins og moldarbeð með ormum og er síðan borðað þannig með skeið.

Þessi drykkur er því í raun með „Dirt Cup“ ívafi og hef ég ekki tölu á því hversu oft ég pantaði mér hann meðan við bjuggum í Seattle og enginn fékk að koma í heimsókn nema fara með okkur á RAM í U-Village og prófa þennan drykk.

„Dirt Cup“ Sjeik Uppskrift

 • 1 líter vanilluís
 • 4-8 Oreo kexkökur, fer eftir því hversu mikið þið viljið hafa
 • 10 meðalstór fersk jarðaber
 • ½ bolli jarðaberjaíssósa
 • ½ bolli mjólk
 • Súkkulaðisósa til skrauts (það má líka nota jarðaberja)
 • Hlaupormar til skrauts (okkur þykja Trolli ormarnir bestir, hvort sem þeir eru í sjeik eða ekki)

Aðferð

 1. Setjið Oreo kökurnar í blandarann (matvinnsluvél) og útbúið „Oreo-mylsnu“, leggið til hliðar.
 2. Setjið jarðaberin í mixerinn og maukið alveg, geymið í blandaranum.
 3. Setjið ísinn, maukuð jarðaberin, jarðaberja íssósuna, Oreo-mylsnuna og mjólkina í hrærivélarskálina og hrærið á vægum hraða þar til blandað (hef viskastykki yfir því annars sullast útum allt).
 4. Sprautið smá súkkulaði íssósu inná hliðarnar á glösunum (nóg að sprauta í hring efst því sósan lekur niður og sést betur í glæru glasi en þessum) og skiptið ísblöndunni því næst á milli þeirra (dugar í 4-5 stór glös).
 5. Skreytið með því að raða svo nokkrum hlaupormum á brúnirnar og setja smá meiri súkkulaðisósu yfir.

Allt hráefni í þessa uppskrift fæst í Nettó

Tags:

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

Flokkar

0
  0
  Karfan þín
  Karfan er tómNetverslun