Þegar piparkökur bakast…Frá því ég eignaðist börn hafa piparkökubakstur og skreytingar verið hefð í jólahaldi heimilisins. Þegar ég var lítil var alltaf gert piparkökuhús frá grunni með hundakofa og öllu tilheyrandi í „garðinum“ en ég hef einhvern vegin ekki lagt í það ennþá. Ég hef hins vegar stöku sinnum keypt tilbúin piparkökuhús sem ég hef púslað saman og við fjölskyldan síðan skreytt, þau bara voru ekki komin í búðirnar þar sem við vorum heldur snemma að þessu í ár.

Ég ákvað að taka mér eina fríhelgi frá skólabókunum áður en próflestur hefst og nýttum við helgina í að baka, setja upp jólaskraut, bjóða heim, elda góðan mat ásamt því að hitta vini og ættingja.

Stelpurnar vildu baka piparkökur og ef slíkt er skyndiákvörðun er gott að útbúa deig sem ekki þarf að standa í kæli í nokkrar klukkustundir (þó þau séu nú stundum skemmtilegri viðureignar).  Hér hafið þið því einfalda og fljótlega uppskrift sem gefur nóg af piparkökum fyrir alla í fjölskyldunni að fletja út og skreyta.

Piparkökur

 • 250 gr Dan sukker sykur (annar sykur of grófur í þessa uppskrift þar sem hún er ekki hituð)
 • 250 gr smjörlíki (við stofuhita)
 • 750-800 gr hveiti
 • 2 tsk negull
 • 2 tsk engifer
 • 4 tsk kanill
 • 2 tsk matarsódi
 • 1/2 tsk pipar
 • 2 dl sýróp
 • 1 dl mjólk
 1. Allt sett í hrærivélarskálina og hnoðað saman með króknum (einnig hægt að hnoða í skál með höndunum). Bætið við smá hveiti ef ykkur þykir deigið of blautt.
 2. Fletjið út frekar þunnt og stingið út fígúrur og setjið á bökunarplötu klædda bökunarpappír.
 3. Bakið við 180°C í 8-10 mínútur.

Undanfarin ár hef ég útbúið Royal Icing úr flórsykri og eggjahvítum  og litað en ég rak augun í þessa tilbúnu sprautur í Nettó og get ég sagt ykkur að ég held ég nenni ekkert að útbúa þetta sjálf oftar. Stelpurnar áttu mjög auðvelt með að skreyta kökurnar og er bæði hægt að fá skæra hefðbundna liti og liti með ávaxtabragði fyrir þá sem vilja slíkt. Einnig var til þykk og góð Icing í stærri umbúðum og fannst mér frábært að skreyta með þeim á meðan stelpurnar kusu að nota minni túpurnar.

Eins og sjá má voru stelpurnar afar duglegar og einbeittar við baksturinn og var gaman að fylgjast með þeim dunda sér við skreytingarnar fram eftir degi. Afraksturinn var ekki af verri endanum og fá gestir og gangandi nú litríkar og bragðgóðar piparkökur hjá okkur hér í sveitinni. Mamman útbjó ýmislegt góðgæti á meðan á þessu stóð svo fleiri jólauppskriftir eru væntanlegar hingað inn á næstunni.

 

Tags:

One Reply to “Þegar piparkökur bakast…”

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

Flokkar

0
  0
  Karfan þín
  Karfan er tómNetverslun