Brauðbollur af einföldustu sort



Þegar ég var yngri var til pakki í matvöruverslunum frá Dr Oetker sem innihélt einfalt brauðbollumix. Þetta voru án efa einar ljúffengustu bollur sem til voru og ég hreinlega skil ekki af hverju framleiðslu á þeim var hætt!

Það er fátt betra en nýbökuð brauð með smjöri og osti að mínu mati og þá sérlega um helgar þegar maður hefur oftar tíma fyrir slíkt og þá má auðvitað ekki gleyma að fá sér kakómalt með.

Ég held leit minni að hinum fullkomnu brauðbollum áfram en þessi uppskrift minnti mig óneitanlega á Dr Oetker bollurnar og á ég án efa eftir að prófa að útfæra hana að nýju til að komast enn nær draumabollunum.

Brauðbollur af einföldustu sort uppskrift

  • 120gr smjör
  • 3,5 dl mjólk
  • 3 msk instant ger (eða 15 gr þurrger)
  • 1 dl sykur
  • 680gr hveiti
  • ½ tsk salt
  • Egg til penslunar

  1. Bræðið smjör við vægan hita og hitið mjólkina út í þar til ylvolgt (passa að hita ekki of mikið til að drepa ekki gerið). Ef notað er þurrger má setja það útí hér og leyfa aðeins að gerjast.
  2. Setjið annars öll þurrefnin saman í hrærivélarskálina og instant gerið líka (það þarf ekkert að gerjast fyrst líkt og þurrgerið ef þið notið það).
  3. Hellið mjólkurblöndunni saman við og hnoðið með króknum (eða í höndunum).
  4. Setjið rakan klút yfir skálina og leyfið að hefast í um 45 mínútur.
  5. Hnoðið í bollur (c.a 22-24 stk), raðið á bökunarpappír, setjið klútinn aftur yfir og leyfið að hefast í um 30 mínútur.
  6. Hitið ofninn 220°C, penslið bollurnar með eggi og bakið í um 10-12 mínútur eða þar til bollurnar verða gylltar.

Tags: -

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

Flokkar

0
    0
    Karfan þín
    Karfan er tómNetverslun