Það hafa eflaust flestir prófað að útbúa þetta heita rúllutertubrauð einhvern tímann á ævinni. Þetta hefur fylgt okkur Íslendingum lengi og er afar vinsæll veislumatur, enda engin furða, þetta brauð er svo svakalega gott!
Það er hins vegar eitt „leynitrikk“ sem ég hef alltaf notað sem gerir þetta brauð svo miklu betra en það er að smyrja það vel með majónesi þegar búið er að rúlla því upp, áður en ostinum er stráð yfir. Með því móti kemur svo stökk og djúsí áferð á brauðið. Það má vel vera að einhver ykkar hafi gert þetta en þið sem ekki hafið prófað eruð heppin að eiga þetta eftir!
Heitt rúllutertubrauð uppskrift
- 1 stk fínt rúllutertubrauð
- 1 pk sveppasmurostur
- 1 lítil dós af niðursoðnum aspas
- 1 skinkubréf
- Majónes frá E. Finnsson
- Rifinn ostur
- Skerið skinkuna í litla teninga og hellið safanum af aspasinum.
- Blandið skinku, aspas og sveppasmurosti saman í skál og hrærið vel saman með sleif.
- Smyrjið jafnt yfir rúllutertubrauðið og rúllið því síðan þétt upp og færið yfir á bökunarplötu íklædda bökunarpappír.
- Smyrjið allar hliðar vel með majónesi, stráið osti yfir og bakið í 180 gráðu heitum ofni í um 20-25 mínútur.