
Ég hef alltof lengi ætlað mér að elda svínarif frá grunni en einhverra hluta vegna ekki látið verða af því fyrr en nú! Við elskum rif og þá sérstaklega stelpurnar svo þessi máltíð verður klárlega á boðstólnum hér aftur fljótlega.

Stefán vinur okkar sendi mér sína uppskrift af sósu fyrir rifin og ég gerði mitt besta til að leika hans snilldar eldamennsku eftir líkt og oft áður. Stórfjölskyldan úr Lækjarberginu kom síðan í mat þetta kvöld og samkvæmt Stefáni heppnaðist þetta alveg upp á tíu svo ykkur er sannarlega óhætt að prófa.

Þetta var einfaldara en mig grunaði og ættu allir að geta leikið þessa uppskrift eftir og ekki er verra að hafa ískaldan bjór með mat sem þessum. San Miguel Fresca bjórinn er til dæmis léttur og hentugur með sumarmáltíð sem þessari.

Heimagerð rif og hrásalat
Fyrir 4-6 manns
Rif
- 4 x heil óelduð svínarif
- Góð kryddblanda
- 2 x steikarpoki
- Hitið ofninn 150°C.
- Kryddið rifin vel beggja megin (ég notaði salt, pipar, papriku og Bezt á allt krydd í bland).
- Komið þeim fyrir í steikarpoka, 2 rif í hvorn poka.
- Hægeldið rifin í pokunum í 1,5 klst, takið þau þá út, opnið pokann og leyfið hitanum aðeins að rjúka úr.
- Penslið örþunnu lagi af sósu (uppskrift hér að neðan) á rifin beggja megin og grillið á vel heitu grilli skamma stund (þetta gert til þess að fá stökka húð á kjötið).
- Takið af grillinu og penslið 1-2 x sósu á báðar hliðar að nýju, skerið niður, stráið smá sesamfræjum yfir til skrauts og berið fram.
Sósa
- ½ flaska sæt bbq sósa
- 2 msk púðursykur
- 2 msk tómatsósa
- Blandið öllu saman í skál og leyfið sykrinum að leysast upp. Gott að útbúa sósuna þegar rifin fara í ofninn og hræra reglulega í henni á meðan þau eldast, þá er hún klár til notkunar þegar þau eru tilbúin.
Hrásalat með sumarlegu ívafi
- ½ kínakálshaus
- 2 meðalstórar gulrætur
- ½ grænt epli
- 1 tsk sítrónusafi
- 1 msk majónes
- 1 msk sýrður rjómi
- 1 tsk sætt sinnep
- 1 msk agave sýróp
- Salt og pipar eftir smekk
- Saxið kínakál smátt niður og rífið gulrætur og epli með rifjárni.
- Kreistið sítrónusafann yfir og blandið saman við grænmetið.
- Hrærið majónes, sýrðan rjóma, sinnep og sýróp saman og kryddið til með salti og pipar.
- Blandið saman við grænmetið og hrærið vel.
Annað meðlæti sem hentar vel með þessari máltíð er til dæmis franskar kartöflur og maísstönglar.

Minni á INSTAGRAM reikninginn minn, megið endilega fylgja mér þar líka.