Lambahryggur „ala“ ammaHryggur

„Ömmuhryggur“ er eitt það besta sem ég fæ. Amma Guðrún bjó alltaf ein og það sem hún dekraði okkur systurnar upp úr skónum. Ef okkur langaði í hrygg var að sjálfsögðu keyptur hryggur og eldaður með öllu tilheyrandi, þó svo við værum stundum bara tvær.

Lambahryggur eins og amma gerir hann

Ég hafði það sem reglu að bjóða ömmu alltaf í mat þegar ég eldaði hrygg eða annað lambakjöt því hún eldaði ekki mikið sjálf í seinni tíð og það sem hún var alltaf þakklát.

Lambahryggur

Ég er ein af fáum vinum mínum sem elda svona mat en ég man vel eftir því þegar ég hringdi til að fá uppskrifina þegar ég fór að búa rúmlega tvítug. Uppskriftin er skrifuð í gamla ljóðastílabók sem ég notaði í Menntaskólanum við Sund ásamt öðrum uppskriftum. Það eru því heldur betur breyttir tímar hvað þetta varðar en hryggurinn breytist þó ekki neitt, sama hvaðan uppskriftin kemur.

Lambahryggur í ofni

Ef þið viljið gera hrygg upp á 10 mæli ég 100% með því að kaupa ferskan lambahrygg. Ég fékk þennan dásamlega hrygg hjá Geira í Kjötbúðinni á Grensásvegi. Ég hef oft keypt ferskan hrygg í matvöruverslun en að kaupa hann í kjötbúð er svo miklu, miklu, miklu betra. Við höfum í það minnsta aldrei bragðað svona mjúkan og góðan hrygg áður. Minnsta skottan okkar sem sjaldnast borðar mikið (ef hún borðar eitthvað annað en jógúrt og snarl) bað þrisvar sinnum um áfyllingu á diskinn sinn svo það hlýtur að segja það sem segja þarf um þessa máltíð!

Lambakrydd

Gott krydd skiptir höfuðmáli til að fá bragðmikla og góða skorpu og alls ekki spara það að mínu mati. Gott að bera ólífuolíu á hrygginn fyrst og nudda kryddinu síðan inn í skorpuna og strá öðru kryddlagi lagi yfir hann allan áður en hann fer í ofninn. Þessi lambakjötskryddblanda frá Kjötbúðinni passaði fullkomlega á hrygginn svo ég mæli með þið nælið ykkur í slíkt.

Lambahryggur ala amma Guðrún

Fyrir um 6-8 manns

Lambahryggur

 • Ferskur lambahryggur frá Kjötbúðinni (um 3kg)
 • Lambakjötskrydd Kjötbúðarinnar
 • 1 msk ólífuolía
 • 50 g smjör
 • 700 ml vatn
 • ½ laukur
 • 1 stk. gulrót
 1. Hitið ofninn í 150°C.
 2. Skolið og þerrið hrygginn vel og nuddið á hann ólífuolíunni.
 3. Kryddið vel með lambakjötskryddblöndu Kjötbúðarinnar (ekki gleyma lundunum undir).
 4. Setjið í stóran steikarpott, smjörklípur hér og þar ásamt lauk og gulrót í um þremur bitum (laukur og gulrót aðeins upp á betra soð í sósuna).
 5. Leyfið hryggnum að malla í ofninum í um 3 klst (1 klst kílóið) og ausið yfir hann soði úr botninum á um það bil 45 mín fresti. Þið sem notið kjöthitamæli getið farið í skref 6 þegar kjarnhiti er orðinn 65-70 en þegar hann er eldaður svona „ömmustyle“ þá finnst mér hann alveg mega vera meira eldaður en minna.
 6. Hellið nú soðinu í pott í gegnum fínt sigti til að geta byrjað á sósunni.
 7. Hækkið hitann í 200°C og takið lokið af steikarpottinum.
 8. Fylgist vel með skorpunni og takið hrygginn út úr þegar hún er orðin stökk (tekur um 15 mínútur) og leyfið að standa í að minnsta kosti 15 mínútur áður en hann er skorinn niður.  Passið ykkur þó að taka hann ekki út fyrr en skorpan er orðin stökk, án þess að hún brenni auðvitað. Nokkrar mínútur til eða frá skipta sköpum upp á að þetta heppnist svo standið vaktina vel í lokin.

Brún sósa

 • Soðið úr steikarpottinum
 • 400 ml vatn
 • 500 ml rjómi
 • 1 tsk lambakraftur
 • 1 msk púðursykur
 • Salt og pipar eftir smekk
 • Maizenamjöl og sósulitur
 1. Hellið vatninu saman við soðið og náið upp suðunni.
 2. Þykkið aðeins með maizenamjöli og bætið sykri, krafti og rjóma saman við og hrærið vel.
 3. Litið með sósulit sé þess óskað og smakkið til með salti, pipar eða meiri lambakrafti.
 4. Leyfið sósunni að malla á meðan kjötið klárast að eldast og á meðan það hvílir.

Karamellukartöflur

 • Kartöflur 12-16 stk meðalstórar
 • Sykur
 • 50 g smjör
 1. Sjóðið og flysjið kartöflurnar og skerið þær til helminga.
 2. Setjið botnfylli af sykri á pönnu (um ½ cm þykkt lag) og stillið á hæsta hita.
 3. Hristið pönnuna og varist að sykurinn brenni þegar hann byrjar að bráðna.
 4. Þegar hann er bráðinn má lækka vel niður í hellunni, setja smjörið saman við og hræra vel þar til karamella hefur myndast.
 5. Hrærið kartöflunum varlega saman við karamelluna og hjúpið vel.
 6. Setjið kartöflurnar í ílát og notið sykurlöginn sem eftir er á pönnunni fyrir gulræturnar (sjá uppskrift að neðan).

Sykraðar gulrætur

 • 7-8 stk meðalstórar gulrætur
 • Sykurlögur af kartöflunum
 1. Skerið gulræturnar í bita og sjóðið þar til þær mýkjast.
 2. Látið vatnið renna af og veltið upp úr sykurleginum sem eftir stóð hjá kartöflunum.

Annað meðlæti

 • Grænar baunir úr dós
 • Rauðkál úr dós (það má þó auðvitað gera heimalagað)
 • Rifsberjasulta
Lambahryggur með brúnni sósu

Það er að sjálfsögðu hægt að gera heimalagað rauðkál eða bjóða upp á annað meðlæti með lambahrygg en þetta er það sem amma bauð alltaf upp á svo ég held í þá hefð þegar ég elda hrygg á þennan veg.

Megið endilega fylgja Gotterí í INSTAGRAM líka!

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

Flokkar

0
  0
  Karfan þín
  Karfan er tómNetverslun