
Við höfum undanfarin ár verið með hamborgarhrygg á Aðfangadag. Meðlætið er ekki endilega alltaf það sama en þó svipað. Við höfum misjafnan forrétt og nánast alltaf súkkulaðimús í eftirrétt. Í ár ætlum við að vera með hamborgarhrygg ásamt rjúpu í fyrsta skipti svo það verður gaman að prófa það.

Hér fyrir neðan kemur skotheld uppskrift af öllu sem þarf fyrir dásamlega hátíðarmáltíð.
Hamborgarhryggur og tilheyrandi
Fyrir 4-6 manns

Hamborgarhryggur
- Hamborgarhryggur um 2-2,5 kg
- 1 l vatn
- 4 msk. púðursykur
- 1 tsk. Dijon sinnep
- 1 tsk. tómatsósa
- 3 msk. rjómi
- 3-4 ananassneiðar
- Byrjið á því að útbúa gljáann með því að sjóða saman púðursykur, sinnep, tómatsósu og rjóma. Leyfið að bubbla aðeins og lækkið svo hitann og hrærið þar til sykurinn er uppleystur.
- Hellið 1 l af vatni í ofnskúffu neðst í ofninum og stillið hitann á 150°C.
- Setjið hamborgarhrygginn á ofngrind, penslið 1 x með gljáanum. Stingið kjöthitamæli inn í hann miðjan og komið grindinni fyrir í ofninum fyrir ofan skúffuna með vatninu. Penslið 1-2 x á hrygginn á meðan hann er í ofninum á þessum tíma.
- Eldið hrygginn með þessum hætti þar til kjarnhiti sýnir um 55°C og hækkið þá hitann í 210°C, setjið ananassneiðarnar ofan á og penslið aftur eina lokaumferð með gljáa. Eldið þar til kjarnhiti sýnir 67°C og leyfið þá hryggnum að standa í að minnsta kosti 15 mínútur áður en hann er skorinn í sneiðar.
- Ef þið eigið ekki kjöthitamæli er gott að miða eldunartíma við 45 mín til klukkustund á hvert kíló.

Sósa
- 2 skalottlaukar
- 2 msk. smjör
- 1 pk Toro Brun Saus
- 1 pk Toro Saus til Steg
- 500 ml rjómi
- 350 ml vatn
- 1 msk. fljótandi svínakraftur
- 1 tsk. rifsberjasulta
- Saxið laukinn smátt og steikið upp úr smjöri við miðlungshita þar til laukurinn mýkist.
- Hellið vatni og rjóma út í pottinn og pískið duftinu úr báðum sósupökkunum saman við.
- Hitið að suðu og hrærið reglulega í allan tímann.
- Bætið krafti og sultu saman við og leyfið sósunni að malla þar til annað er tilbúið og hrærið reglulega í á meðan.

Þetta var frábærlega góð sósa og er búið að panta að hún verði útbúin aftur í næstu viku á Aðfangadag svo það hljóta að vera topp meðmæli!

Gljáðar kartöflur
• 900 g Parísarkartöflur (forsoðnar)
• 100 g sykur
• 40 g smjör
• 3 msk. rjómi
- Setjið sykurinn á pönnu á hæsta hita þar til hann fer að bráðna (passið að hann brenni ekki).
- Bætið þá smjörinu saman við og lækkið hitann, hellið rjómanum saman við og hrærið áfram þar til karamella hefur myndast.
- Hellið kartöflunum út á pönnuna og leyfið þeim að malla í um 10 mínútur þar til þær eru orðnar heitar og vel gljáðar.

Waldorfsalat
- 2 gul epli
- 10-15 vínber
- 2 ananashringir (niðursoðnir)
- 1 lítil dós sýrður rjómi
- 150 ml þeyttur rjómi
- 1 tsk. sykur
- 1 tsk. saxað suðusúkkulaði
- 40 g saxaðar pekanhnetur
- Flysjið eplin og skerið smátt niður í teninga.
- Skerið vínberin niður og saxið ananashringina mjög smátt.
- Blandið sýrðum rjóma saman við ávextina ásamt sykri, súkkulaði og pekanhnetum.
- Að lokum fer þeyttur rjómi saman við með sleif og blandað varlega saman.
- Sett í skál og skreytt með vínberjum, söxuðu súkkulaði og pekanhnetum.

Ofnbakað rósakál
- 1 poki ferskt rósakál (um 300 g)
- 70 g þurrkuð trönuber
- 25 g möndluflögur
- 4 msk. ólífuolía
- 1 tsk. salt og ¼ tsk. pipar
- Hitið ofninn 190°C
- Snyrtið rósakálið, takið endann af og skerið til helminga, veltið upp úr ólífuolíu og saltið og piprið.
- Bakið í eldföstu fati í um 18-20 mínútur og bætið þá trönuberjum og möndluflögum saman við.
- Hrærið aðeins upp í blöndunni og bakið áfram í um 8-10 mínútur eða þar til rósakálið er farið að mýkjast.

Royal súkkulaðimús á nokkrum mínútum í eftirmat

Megið endilega fylgja Gotterí líka á INSTAGRAM
Ég elska þig