Hamborgarhryggur og tilheyrandi⌑ Samstarf ⌑
Hamborgarhryggur með gljáðum kartöflum, rósakáli, waldorfsalati og góðri sósu

Við höfum undanfarin ár verið með hamborgarhrygg á Aðfangadag. Meðlætið er ekki endilega alltaf það sama en þó svipað. Við höfum misjafnan forrétt og nánast alltaf súkkulaðimús í eftirrétt. Í ár ætlum við að vera með hamborgarhrygg ásamt rjúpu í fyrsta skipti svo það verður gaman að prófa það.

Gljái á hamborgarhrygg

Hér fyrir neðan kemur skotheld uppskrift af öllu sem þarf fyrir dásamlega hátíðarmáltíð.

Hamborgarhryggur og tilheyrandi

Fyrir 4-6 manns

Hamborgarhryggur með gljáa og ananas

Hamborgarhryggur

 • Hamborgarhryggur um 2-2,5 kg
 • 1 l vatn
 • 4 msk. púðursykur
 • 1 tsk. Dijon sinnep
 • 1 tsk. tómatsósa
 • 3 msk. rjómi
 • 3-4 ananassneiðar
 1. Byrjið á því að útbúa gljáann með því að sjóða saman púðursykur, sinnep, tómatsósu og rjóma. Leyfið að bubbla aðeins og lækkið svo hitann og hrærið þar til sykurinn er uppleystur.
 2. Hellið 1 l af vatni í ofnskúffu neðst í ofninum og stillið hitann á 150°C.
 3. Setjið hamborgarhrygginn á ofngrind, penslið 1 x með gljáanum. Stingið kjöthitamæli inn í hann miðjan og komið grindinni fyrir í ofninum fyrir ofan skúffuna með vatninu. Penslið 1-2 x á hrygginn á meðan hann er í ofninum á þessum tíma.
 4. Eldið hrygginn með þessum hætti þar til kjarnhiti sýnir um 55°C og hækkið þá hitann í 210°C, setjið ananassneiðarnar ofan á og penslið aftur eina lokaumferð með gljáa. Eldið þar til kjarnhiti sýnir 67°C og leyfið þá hryggnum að standa í að minnsta kosti 15 mínútur áður en hann er skorinn í sneiðar.
 5. Ef þið eigið ekki kjöthitamæli er gott að miða eldunartíma við 45 mín til klukkustund á hvert kíló.
Sósa með steik

Sósa

 • 2 skalottlaukar
 • 2 msk. smjör
 • 1 pk Toro Brun Saus
 • 1 pk Toro Saus til Steg
 • 500 ml rjómi
 • 350 ml vatn
 • 1 msk. fljótandi svínakraftur
 • 1 tsk. rifsberjasulta
 1. Saxið laukinn smátt og steikið upp úr smjöri við miðlungshita þar til laukurinn mýkist.
 2. Hellið vatni og rjóma út í pottinn og pískið duftinu úr báðum sósupökkunum saman við.
 3. Hitið að suðu og hrærið reglulega í allan tímann.
 4. Bætið krafti og sultu saman við og leyfið sósunni að malla þar til annað er tilbúið og hrærið reglulega í á meðan.
Toro sósa með trikki

Þetta var frábærlega góð sósa og er búið að panta að hún verði útbúin aftur í næstu viku á Aðfangadag svo það hljóta að vera topp meðmæli!

Gljáðar kartöflur

Gljáðar kartöflur
• 900 g Parísarkartöflur (forsoðnar)
• 100 g sykur
• 40 g smjör
• 3 msk. rjómi

 1. Setjið sykurinn á pönnu á hæsta hita þar til hann fer að bráðna (passið að hann brenni ekki).
 2. Bætið þá smjörinu saman við og lækkið hitann, hellið rjómanum saman við og hrærið áfram þar til karamella hefur myndast.
 3. Hellið kartöflunum út á pönnuna og leyfið þeim að malla í um 10 mínútur þar til þær eru orðnar heitar og vel gljáðar.
Waldorfsalat

Waldorfsalat

 • 2 gul epli
 • 10-15 vínber
 • 2 ananashringir (niðursoðnir)
 • 1 lítil dós sýrður rjómi
 • 150 ml þeyttur rjómi
 • 1 tsk. sykur
 • 1 tsk. saxað suðusúkkulaði
 • 40 g saxaðar pekanhnetur
 1. Flysjið eplin og skerið smátt niður í teninga.
 2. Skerið vínberin niður og saxið ananashringina mjög smátt.
 3. Blandið sýrðum rjóma saman við ávextina ásamt sykri, súkkulaði og pekanhnetum.
 4. Að lokum fer þeyttur rjómi saman við með sleif og blandað varlega saman.
 5. Sett í skál og skreytt með vínberjum, söxuðu súkkulaði og pekanhnetum.

Ofnbakað rósakál

 • 1 poki ferskt rósakál (um 300 g)
 • 70 g þurrkuð trönuber
 • 25 g möndluflögur
 • 4 msk. ólífuolía
 • 1 tsk. salt og ¼ tsk. pipar
 1. Hitið ofninn 190°C
 2. Snyrtið rósakálið, takið endann af og skerið til helminga, veltið upp úr ólífuolíu og saltið og piprið.
 3. Bakið í eldföstu fati í um 18-20 mínútur og bætið þá trönuberjum og möndluflögum saman við.
 4. Hrærið aðeins upp í blöndunni og bakið áfram í um 8-10 mínútur eða þar til rósakálið er farið að mýkjast.
Toro sósa með trikki

Royal súkkulaðimús á nokkrum mínútum í eftirmat

Súkkulaðimús með Royal búðing á nokkrum mínútum

Megið endilega fylgja Gotterí líka á INSTAGRAM

One Reply to “Hamborgarhryggur og tilheyrandi”

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

Flokkar

0
  0
  Karfan þín
  Karfan er tómNetverslun