
Jæja það kom loksins að því að ég prófaði að útbúa þessa dásamlegu samloku! Við heimsóttum veitingastaðinn Einsa kalda í Vestmannaeyjum síðasta haust og fengum brjálæðislega góða humarsamloku.

Ég fékk uppskriftina hjá Einari stuttu síðar og hef hugsað mikið um hana og loksins lét ég slag standa og prófaði og útkoman himnesk!

Það á reyndar að vera frisée salat á toppnum en eftir leit í fjórum verslunum gafst ég upp og lét veislusalat duga, það setur samt mikinn svip á lokuna að hafa frisée salat svo ég myndi klárlega mæla með því að nota það þó svo káltegund hafi lítil áhrif á lokabragðið.

Bragðlaukarnir fá heldur betur veislu í þessari samloku og samanstendur hún af hinum ýmsu hráefnum og mismunandi áherslum en útkoman er alveg upp á 10!
Humarloka Einsa kalda
Uppskrift fyrir 4 samlokur
Útbúið paprikusalsa og lime majónes, skerið grænmeti og smjörsteikið humarinn áður en að samsetningu kemur.
- 12 þunnar ljósar súrdeigsbrauðsneiðar (3 í hverja loku, gott að kaupa heilt brauð og skera sjálfur)
- Cheddar-ostasósa frá Old el Paso
- 8 sneiðar parmaskinka frá Casale
- Paprikusalsa (sjá uppskrift hér að neðan)
- 600 g skelflettur humar
- Smjör, salt, pipar og hvítlauksduft (fyrir humarinn)
- Lime majónes (sjá uppskrift hér að neðan)
- Klettasalat
- Frisée salat
- 1 ferskt chili, skorið í þunnar sneiðar
- ½ granatepli
- 3 x vorlaukur í sneiðum
- Súrdeigsbrauðsneiðarnar eru grillaðar í stutta stund áður en lokan er sett saman.
- Neðsta sneiðin er smurð með cheddar-ostasósu, 2 sneiðar af parmaskinku settar þar ofan á og þar á eftir paprikusalsa (kúfuð matskeið á hverja loku).
- Hér kemur næsta brauðsneið og ofan á hana fer smjörsteiktur humar sem búið er að hræra saman við lime majónes ásamt klettasalati.
- Að lokum kemur 3ja brauðsneiðin og hún er smurð með lime majónesinu og toppuð með frisee salati, chilisneiðum, granateplafræjum og vorlauk.
Paprikusalsa
- 1 x rauð paprika
- 1 x rauðlaukur
- 2 x tómatur (kjarnhreinsaðir)
- 4 x sólþurrkaðir tómatar
- 6 x Til hamingju döðlur
- 1 msk. söxuð steinselja
- Salt og pipar eftir smekk
- Ólífuolía til steikingar
- Skerið allt hráefnið í þunna strimla og steikið upp úr ólífuolíunni stutta stund.
- Lækkið þá hitann og leyfið að malla í um 20 mínútur og hrærið reglulega í á meðan.
Lime majónes
- 200 g Hellmann‘s majónes
- 1 lime (safi og börkur)
- Hrærið vel saman og geymið í kæli.
Á Einsa Kalda er hins vegar notað svo kallað Yu-zu majónes en það er japanskt majónes og Yu-zu safi en yu-zu er sítrus ávöxur. Að sjálfsögðu er hægt að taka þetta alla leið ef þið finnið þetta hráefni.

Það er síðan gott að hafa lime majónes í aukaskál fyrir þá sem vilja bæta aðeins á samlokuna sína. Einnig er gott að bera fram franskar með lokunni en hún er engu að síður mjög matarmikil og dugar alveg ein og sér.

Megið endilega fylgja Gotterí líka á INSTAGRAM