Þristamús Simma VillÞristamús uppskrift

Herre GUD! Hér er hún komin, Þristamús Simma Vill í öllu sínu veldi…..og í sparifötunum!

Þristamús Simma Vill

Það er ekkert lítið sem þessi mús hefur fengið mikla athygli að undanförnu, enda ekki skrítið, því dásamlega góð er hún! Simmi Vill sem rekur veitingastaðinn Barion , þar sem Þristamúsin er meðal annars seld, á allan heiðurinn að þessari uppskrift. Mér finnst síðan alls ekkert leiðinlegt að birta uppskriftir eftir svona snillinga hér inni fyrir ykkur.

Þristamús Barion uppskrift

Uppskriftin af þessari dásemd er að finna í nýjasta Þrista- og kókosbollubæklingi Kólus og hér kemur hún ögn ítarlegri, eins og mér einni er lagið.

Súkkulaðimús uppskrift

Þristamús Simma Vill uppskrift

Þristamús uppskrift

Uppskrift dugar í um 8 glös/skálar

 • 250 g Þristur (+ smá meira til skrauts)
 • 500 ml rjómi
 • 80 g eggjarauður (4-5 stk.)
 • 15 g flórsykur
 1. Skerið Þristinn niður og bræðið í potti við vægan hita ásamt 100 ml af rjómanum. Takið af hellunni þegar súkkulaðið er bráðið en allt í lagi þó lakkrísinn sé enn í bitum. Leyfið hitanum að rjúka vel úr áður en þið blandið saman við önnur hráefni.
 2. Léttþeytið 400 ml af rjóma og leggið til hliðar á meðan þið þeytið saman eggjarauður og flórsykur.
 3. Þeytið eggjarauður og flórsykur þar til blandan fer aðeins að þykkna og bætið þá Þristablöndunni saman við og blandið vel.
 4. Vefjið að lokum þeytta rjómanum varlega saman við allt með sleif þar til ljós og létt Þristamús hefur myndast. Mér finnst gott að vefja fyrst um 1/3 af rjómanum saman við og síðan restinni en þá fær súkkulaðimúsin enn mýkri áferð.
 5. Skiptið að lokum niður í litlar skálar eða glös og kælið í að minnsta kosti klukkustund áður en karamella, Þristur og haframjölstoppur er sett ofan á. Einnig er í lagi að gera músina deginum áður, geyma í kæli og setja restina á næsta dag.

Karamellusósa uppskrift

 • 90 g sykur
 • 65 g sýróp
 • 150 ml rjómi
 • 25 g smjör við stofuhita
 • Salt af hnífsoddi
 1. Hitið saman sykur og sýróp þar til sykurinn leysist upp. Leyfið aðeins að bubbla og hrærið vel í á meðan.
 2. Bætið þá rjómanum saman við og hitið að suðu, takið af hellunni og hrærið að lokum smjöri og salti saman við.
 3. Leyfið karamellunni að kólna niður og þykkna og hrærið reglulega í henni á meðan. Hægt er að gera karamelluna með fyrirvara og geyma í lokuðu íláti í ísskáp, setja síðan yfir músina þegar hún er tilbúin.

Sykraður haframjölstoppur

 • 200 g hafrar
 • 100 g brætt smjör
 • 50 g sykur
 1. Hitið ofninn í 180°C.
 2. Blandið öllu saman í skál, hellið á bökunarpappír í ofnskúffu og bakið þar til hafrarnir fara að gyllast (um 15 mínútur), hrærið nokkrum sinnum í á meðan.
 3. Kælið og toppið síðan Þristamúsina með karamellu, niðurskornum Þristi og haframjölstoppi.
 4. Það dugar mögulega alveg að gera 1/2 uppskrift fyrir þessi 8 glös en það er líka gott að eiga hafrana til að nota út á jógúrt eða annað slíkt svo ég myndi klárlega nota tækifærið og gera það.
Þristamús Simma Vill uppskrift

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

Flokkar

0
  0
  Karfan þín
  Karfan er tómNetverslun