
Herre GUD! Hér er hún komin, Þristamús Simma Vill í öllu sínu veldi…..og í sparifötunum!

Það er ekkert lítið sem þessi mús hefur fengið mikla athygli að undanförnu, enda ekki skrítið, því dásamlega góð er hún! Simmi Vill sem rekur veitingastaðinn Barion , þar sem Þristamúsin er meðal annars seld, á allan heiðurinn að þessari uppskrift. Mér finnst síðan alls ekkert leiðinlegt að birta uppskriftir eftir svona snillinga hér inni fyrir ykkur.

Uppskriftin af þessari dásemd er að finna í nýjasta Þrista- og kókosbollubæklingi Kólus og hér kemur hún ögn ítarlegri, eins og mér einni er lagið.

Þristamús Simma Vill uppskrift
Þristamús uppskrift
Uppskrift dugar í um 8 glös/skálar
- 250 g Þristur (+ smá meira til skrauts)
- 500 ml rjómi
- 80 g eggjarauður (4-5 stk.)
- 15 g flórsykur
- Skerið Þristinn niður og bræðið í potti við vægan hita ásamt 100 ml af rjómanum. Takið af hellunni þegar súkkulaðið er bráðið en allt í lagi þó lakkrísinn sé enn í bitum. Leyfið hitanum að rjúka vel úr áður en þið blandið saman við önnur hráefni.
- Léttþeytið 400 ml af rjóma og leggið til hliðar á meðan þið þeytið saman eggjarauður og flórsykur.
- Þeytið eggjarauður og flórsykur þar til blandan fer aðeins að þykkna og bætið þá Þristablöndunni saman við og blandið vel.
- Vefjið að lokum þeytta rjómanum varlega saman við allt með sleif þar til ljós og létt Þristamús hefur myndast. Mér finnst gott að vefja fyrst um 1/3 af rjómanum saman við og síðan restinni en þá fær súkkulaðimúsin enn mýkri áferð.
- Skiptið að lokum niður í litlar skálar eða glös og kælið í að minnsta kosti klukkustund áður en karamella, Þristur og haframjölstoppur er sett ofan á. Einnig er í lagi að gera músina deginum áður, geyma í kæli og setja restina á næsta dag.
Karamellusósa uppskrift
- 90 g sykur
- 65 g sýróp
- 150 ml rjómi
- 25 g smjör við stofuhita
- Salt af hnífsoddi
- Hitið saman sykur og sýróp þar til sykurinn leysist upp. Leyfið aðeins að bubbla og hrærið vel í á meðan.
- Bætið þá rjómanum saman við og hitið að suðu, takið af hellunni og hrærið að lokum smjöri og salti saman við.
- Leyfið karamellunni að kólna niður og þykkna og hrærið reglulega í henni á meðan. Hægt er að gera karamelluna með fyrirvara og geyma í lokuðu íláti í ísskáp, setja síðan yfir músina þegar hún er tilbúin.
Sykraður haframjölstoppur
- 200 g hafrar
- 100 g brætt smjör
- 50 g sykur
- Hitið ofninn í 180°C.
- Blandið öllu saman í skál, hellið á bökunarpappír í ofnskúffu og bakið þar til hafrarnir fara að gyllast (um 15 mínútur), hrærið nokkrum sinnum í á meðan.
- Kælið og toppið síðan Þristamúsina með karamellu, niðurskornum Þristi og haframjölstoppi.
- Það dugar mögulega alveg að gera 1/2 uppskrift fyrir þessi 8 glös en það er líka gott að eiga hafrana til að nota út á jógúrt eða annað slíkt svo ég myndi klárlega nota tækifærið og gera það.
