Hamborgarhryggur með gljáa⌑ Samstarf ⌑
Hamborgarhryggur með gljáa og öllu tilheyrandi
Hamborgarhryggur með gljáa og öllu tilheyrandi

Það eru aðeins nokkrir dagar til jóla og ansi margir landsmenn sem gæða sér á hamborgarhrygg yfir hátíðirnar. Hér kemur dásamleg uppskrift að gljáa og gómsætu meðlæti!

Hamborgarhryggur með gljáa og öllu tilheyrandi

Aðferðin sem ég nota hér finnst mér langbesta eldunaraðferðin, hef ekki soðið hamborgarhrygg í nokkur ár síðan ég prófaði að elda hann með þessum hætti, hann verður svo miklu meira djúsí svona!

Hamborgarhryggur með gljáa og ananassneiðum

Hamborgarhryggur með gljáa

Fyrir um 6 manns

Hamborgarhryggur og gljái uppskrift

 • Hamborgarhryggur um 2-2,5 kg
 • 1 l vatn
 • 160 g púðursykur
 • 60 g gróft Maille Dijon sinnep
 • 60 g klassískt Maille Dijon sinnep
 • 60 g tómatsósa
 • 80 g rjómi rjómi
 • 4-5 ananassneiðar
 1. Byrjið á því að útbúa gljáann með því að sjóða saman púðursykur, sinnep, tómatsósu og rjóma. Best finnst mér að setja pottinn ofan á vigt og vigta allt beint í pottinn og setja hann svo á helluna (þess vegna eru mælieiningarnar í grömmum). Leyfið að bubbla aðeins og lækkið svo hitann og hrærið þar til sykurinn er uppleystur.
 2. Hellið 1 l af vatni í ofnskúffu neðst í ofninum og stillið hitann á 150°C.
 3. Setjið hamborgarhrygginn á ofngrind, penslið 1 x með gljáanum. Stingið kjöthitamæli inn í hann miðjan og komið grindinni fyrir í ofninum fyrir ofan skúffuna með vatninu. Penslið 1-2 x á hrygginn á meðan hann er í ofninum á þessum tíma.
 4. Eldið hrygginn með þessum hætti þar til kjarnhiti sýnir um 55°C og hækkið þá hitann í 210°C, setjið ananassneiðarnar ofan á og penslið aftur eina lokaumferð með gljáa. Eldið þar til kjarnhiti sýnir 67°C og leyfið þá hryggnum að standa í að minnsta kosti 15 mínútur áður en hann er skorinn í sneiðar.
 5. Geymið soðið sem eftir stendur í skúffunni og restina af gljáanum þar til það kemur að sósugerð.
 6. Ef þið eigið ekki kjöthitamæli er gott að miða eldunartíma við 45 mín til klukkustund á hvert kíló.
Dijon sinnep er ómissandi í gljáann

Dijon sinnepið spilar lykilhlutverk í gerð gljáans en síðan nýti ég það einnig í sósuna og jólasalatið. Hér fyrir neðan koma uppskriftir af öllu þessu dásamlega meðlæti.

Karamellukartöflur eða brúnaðar kartöflur

Karamellukartöflur uppskrift

 • 1 kg kartöflur
 • 150 g sykur
 • 40 g smjör við stofuhita
 1. Sjóðið og flysjið kartöflurnar.
 2. Hellið sykrinum á pönnu og hitið við hæsta hita þar til hann fer að bráðna. Hristið pönnuna reglulega til að koma í veg fyrir að hann brenni og þegar hluti er farinn að bubbla og dökkna má setja smjörið á þann stað, lækka hitann aðeins niður og hræra saman sykri og smjöri þar til sykurinn er alveg uppleystur.
 3. Þá má setja kartöflurnar saman við og gott er að leyfa þeim að malla í karamellunni í svolitla stund á meðan annað er útbúið við vægan hita.
 4. Ef kartöflurnar eru stórar er gott að skera þær fyrst niður í tvo eða fleiri hluta og mér finnst best að nota sleif til að blanda kartöflum og karamellu saman, það kemur í veg fyrir að þær brotni eða losni í sundur.

Það má setja smá rjóma saman við rétt áður en kartöflurnar fara á pönnuna og þá verða þær mjög sléttar og fallegar . Ef því er sleppt verður karamellan þykkari og stundum festast alveg „klessur“ hér og þar, sérlega þegar kartöflurnar fara aðeins að kólna. Þannig gerir pabbi þetta alltaf og okkur leiðist ekkert auka karamellan!

Jólasalat í líkingu við Waldorf salat

Jólasalat uppskrift

 • 1 ½ gult epli
 • 1 stór þroskuð pera
 • 40 þurrkuð trönuber
 • ½ granatepli (fræin)
 • 50 g saxaðar pekanhnetur
 • 100 g sýrður rjómi
 • 3 tsk. Maille Dijon hunangssinnep
 • 120 ml þeyttur rjómi
 • 2 tsk. sykur
 • ½ tsk. salt
 1. Flysjið og skerið epli og peru niður í litla bita.
 2. Blandið trönuberjum, granateplafræjum og hnetum saman við.
 3. Hrærið saman sýrðan rjóma og Dijon sinnep og blandið saman við eplablönduna ásamt sykri og salti.
 4. Að lokum má vefja þeytta rjómanum saman við allt, varlega með sleif.

Ég ákvað að prófa einhvers konar útfærslu af Waldorf salati og þetta varð útkoman. Mikið sem þetta var hrikalega gott og ferskt!

Brún sósa uppskrift

Brún sósa uppskrift

 • 200 g kastaníusveppir
 • 40 g smjör
 • Soð frá hamborgarhryggnum
 • 250 ml vatn
 • 400 ml rjómi
 • 2 msk. kjötkraftur
 • 4 msk. gljái (afgangur frá hamborgarhrygg)
 • Maizenamjöl
 • Salt + pipar
 • Sósulitur (ef vill)
 1. Skerið sveppina niður og steikið upp úr smjöri þar til þeir mýkjast, kryddið til með salti og pipar.
 2. Sigtið soðið sem eftir stendur í skúffunni þegar hamborgarhryggurinn er tilbúinn og bætið því saman við sveppina (ég fékk um 80 ml af soði).
 3. Hellið næst vatninu og rjómanum í pottinn, þykkið með Maizenamjöli og smakkið til með krafti og kryddum.
 4. Setjið sósulitinn saman við í lokin ef vill.
Hamborgarhryggur með gljáa og öllu tilheyrandi

Annað meðlæti

 • Soðnar gulrætur sem síðan er velt upp úr smjöri og salti á pönnu
 • Gular baunir með smá salti og smjöri
 • St.Dalfour sulta

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

Flokkar

0
  0
  Karfan þín
  Karfan er tómNetverslun