SVINDL-samloka



⌑ Samstarf ⌑
Hin eina sanna svindl samloka af Nesinu

Almáttugur minn hvað það er hægt að vera spenntur fyrir einni sveittri majónes-samloku! Hér er það sannarlega nostalgían sem kikkaði inn í öllu sínu veldi og sagan sem þessari samloku fylgir er nú orðin ansi skrautleg. Ég skal reyna að hafa þetta eins stutt og ég get en lofa engu!

Lykilatriði eru „leyni-kokteilsósa“ og að hita samlokuna í poka í örbylgjuofninum svo hún verði sveitt og djúsí eins og í denn.

Svindlsamloka úr Skaraskúr

Það eru nú eflaust margir sem botna ekki neitt í neinu þegar þeir lesa nafnið á þessari samloku hér á blogginu. Seltirningar sem voru uppi á tímum Skaraskúrs, sem var og hét, vita hins vegar upp á hár hvað um ræðir hér!

Maður hefði haldið þetta væru engin stjarnvísindi, ostur og kokteilsósa á brauð og inn í örbylgjuofn. Ónei….svo einfalt er það ekki og það hefur reynst þrautinni þyngra að þróa hina einu réttu „leyni-kokteilsósu“. Eftir ansi margar kokteilsósuhræringar með hinum og þessum útfærslum hér heima eftir punkta frá fyrrum eiganda, systur hans, fyrrum starfsmanni og fleirum við hönd, kom ábending úr óvæntri átt frá bekkjarsystur minni úr Való sem hafði unnið í Skaraskúr og hrært í sósuna frægu. Sú ábending leiddi mig að hinni einu sönnu blöndu sem var, þegar öllu var á botninn hvolft majónes og rautt relish! En hvað er rautt relish eiginlega?

Ég var búin að vera að þróa kokteilsósu með grænu relish og öðru gúmelaði og hún var nú komin ansi nálægt hinni einu sönnu en þegar ég fékk þessar upplýsingar var hafist handa við að finna rautt relish. Ég keyrði um bæinn þveran og endilangan og rautt relish var til í Fjarðarkaup. Það smakkaðist vel með majóinu og náði að líkjast samlokunni í denn upp að ákveðnu marki en ekki alveg upp á 10……svo ég ákvað að gúgla aðeins betur allt sem ég gæti um rautt relish. Á sínum tíma var nefnilega ekkert mikið verið að nota jalapeño eða slíkt (sem er í þessu frá Fjarðarkaup) og komst ég að því að ýmis rauð relish eru framleidd. Ég hugsaði því aftur til 1990 ish og hvað væri líklegt að hefði verið til á þeim tíma og klassískt „Hamburger relish“ finnst mér líklegast. Slíkt hef ég ekki fundið hérlendis en auðvitað fann ég „copycat“ uppskrift af slíku á netinu sem ég útfærði og bjó þannig til mitt eigið hamborgararelish. Eftir nokkrar prufanir á því í bland við Hellmann’s varð ég sátt og hér fáið þið að mínu mati það sem kemst næst því að vera gamla góða SVINDL-samlokan af Nesinu!

Svindsamloka frá því í Valhúsaskóla

SVINDL-samloka uppskrift

Samsetning

  • 2 fransbrauðsneiðar
  • Ostur
  • Leyni-kokteilsósa

Leyni-kokteilsósa uppskrift

Uppskrift dugar í um 10 samlokur

  • 150 g Hellmann‘s majónes
  • 50 g rautt relish (sjá uppskrift)

Rautt relish

  • 50 g grænt gúrkurelish á flösku
  • 60 g tómatsósa
  • 1 tsk. grillaðar paprikur (úr krukku)
  • ½ tsk. paprikuduft
  • ½ tsk. hvítlauksduft
  • ½ tsk. laukduft
  • ½ tsk. salt
  • ¼ tsk. kanill
  • ¼ tsk. hvítur pipar
  1. Saxið grilluðu paprikurnar alveg niður í mauk og blandið síðan öllum hráefnunum saman í skál.
  2. Blandið síðan réttum hlutföllum saman við Hellmann’s majónesið og smyrjið á fransbrauðið.

Ég prófaði líka í staðinn fyrir að nota tómatsósu að blanda 60 g af tómat paste saman við 1 matskeið af sykri og 1 teskeið af hvítvínsediki en útkoman varð mjöööög svipuð svo ég ákvað að einfalda þetta aðeins fyrir ykkur!

Varðandi fransbrauðið þá ætlaði ég að fara að kaupa brauð í bakarí en þá var mér bent á að slíkt hefði verið allt of dýrt á þessum tíma og aðeins notast við hvítt Myllu samlokubrauð úr Bónus svo að sjálfsögðu keypti ég það!

Hellmann's majónes á svindlsamloku

Það sem gerir gæfumuninn er síðan að hita samlokuna í samlokupoka svo hún verði sveitt og djúsí, alveg eins og hún var í Skaraskúr. Ég fann samlokupoka með „zip lock“ sem voru fullkomnir í verkið. Hitinn hins vegar magnast inn í pokanum og samlokupokar almennt ekki gerðir til að fara í örbylgjuofn svo hver og einn þarf aðeins að læra á sinn ofn hvað þetta varðar. Ég setti á næst lægstu stillingu (med-low) á mínum ofni og hitaði samlokuna í 30 sekúndur. Eftir 15 sekúndur snéri ég pokanum og kláraði seinni 15 sekúndurnar og þetta var alveg fullkomið! Ég myndi eiginlega segja að þegar pokinn fer að blása út er samlokan klár.

Maðurinn minn sagði við mig í þessari tilraunastarfsemi, „á ekki að vera skinka á þessu“? og auðvitað má bæta henni við fyrir þá sem vilja en ætli þetta hafi ekki einmitt heitið SVINDL-samloka þar sem það er engin skinka, bara ostur og sósa sem sumum finnst mögulega hálfgert svindl, haha!

Sveitt svindlsamloka í samlokupoka í örbylgjuofni

Ég fann þessa poka í Krónunni og fannst þeir fullkomnir í verkið (prófaði nokkrar tegundir) en líklega voru bara gömlu góðu nestispokarnir á rúllunni notaðir í þetta á sínum tíma.

Svindlsamloka með osti og kokteilsósu

Síðan sagði fyrrum bekkjarsystir mín að það væri auðvitað „möst“ að skola þessu niður með einni „súperdós“ og fá sér síðan Flipper í eftirrétt, hahaha! Ég myndi taka undir það og segja það sé klárlega heilög þrenning!

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

Flokkar

0
    0
    Karfan þín
    Karfan er tómNetverslun