
Grilluð nautasteik með bernaise er algjör negla, hreinlega máltíð sem getur ekki klikkað að mínu mati! Maður á það til að festast í að gera alltaf sama meðlætið svo nú ákvað ég að prófa smá nýtt.

Ég var að prófa nýju Chili Bernaise sósuna frá Toro í fyrsta skipti og hún var alveg dúndurgóð! Súpereinfalt að búa hana til og þessi máltíð var dásamleg!

Hér er á ferðinni nauta ribeye með chili bernaise sósu, bökuðum kartöflum og ofnbökuðu grænmeti, fullkomin samsetning!

Ribeye og Chili Bernaise sósa uppskrift
Fyrir 2-3
Hráefnalisti
- Ribeye steikur (2 x 300 g)
- Bökunarkartöflur (ein á mann)
- 1 ½ rauðlaukur
- 200 g gulrætur
- 3 hvítlauksrif (heil)
- 200 g sveppir (kastaníu og hefðbundnir í bland)
- 1 pakki Toro Chili Bernaise sósa (+ smjör og mjólk skv.pakkningu)
- Smjör og olía til steikingar
- Ferskt timían
- Oregano, rósmarín, salt og pipar

Ribeye
- Leyfið kjötinu að standa við stofuhita í að minnsta kosti klukkustund áður en það er grillað.
- Hitið grillið og lokið kjötinu við háan hita, þannig að flottar grillrákir myndist og það brúnist vel á báðum hliðum.
- Færið þá yfir á óbeinan hita og lækkið í grillinu.
- Takið steikurnar af þegar kjarnhiti sýnir um 58°C, nuddið þær með smjöri, saltið og piprið.
- Leyfið þeim síðan að hvíla í að minnsta kosti 10 mínútur áður en þið skerið þær.
Chili Bernaise
- Útbúið sósuna samkvæmt leiðbeiningum á pakka.
- Hægt er að krydda hana aukalega með salti, pipar og mögulega chili ef þið viljið hana sterkari.

Bökunarkartöflur
- Hitið ofninn í 200°C.
- Pakkið hverri kartöflu inn í álpappír og setjið í ofninn í hátt í 1 ½ klukkustund. Stingið þó með prjóni í þær reglulega og þær eru tilbúnar þegar þær eru mjúkar í gegn.
- Skerið kross í þær og opnið og fyllið með því sem hugurinn girnist, smjör + salt, Chili bernaise eða kaldri dressingu.

Ofnbakað grænmeti
- Hitið ofninn í 190°C.
- Skerið gulrætur í strimla, lauk í sneiðar, flysjið hvítlauksrifin og skerið sveppi í bita.
- Setjið í stóra skál og setjið eins og 4 matskeiðar af ólífuolíu yfir, ½ tsk. oregano, ½ tsk. rósmarín, ½ tsk. gróft salt, ¼ tsk. pipar og nokkrar timían greinar.
- Blandið öllu saman og dreifið síðan úr grænmetinu á ofnskúffu.
- Bakið í um 20 mínútur eða þar til grænmetið er farið að mýkjast.

Ég er alltaf að múltítaska þegar ég er í eldhúsinu og það mátti mjóu muna að ég hreinlega kveikti í þessum fallegu steikum á meðan ég var að undirbúa myndatökuna inni, hahaha. Sem betur fer var ég búin að loka þeim og búin að færa yfir óbeinan hita því ég hreinlega sá svartan reyk stíga upp úr grillinu þegar ég leit út. Ég ætlaði varla að þora að opna það en eldtungurnar voru sem betur fer ekki þeim megin á grillinu sem steikurnar voru, hjúkkit! Note to self…..ekki fara frá grillinu þegar þú ert að grilla svona fínheit, hahaha!
