Kjúklingasúpa Saumaklúbbsins



⌑ Samstarf ⌑
Kjúklngasúpa með sætum kartöflum og grænmeti

Þrátt fyrir að Sumardagurinn fyrsti hafi verið í gær finnst mér enn hálf haustlegt úti! Heit og góð súpa er í það minnsta eitthvað sem kom upp í kollinn á mér í morgun svo ég ákvað að deila með ykkur þessari undursamlegu uppskrift úr bókinni minni Saumaklúbburinn.

Matreiðslubók, Saumaklúbburinn uppskriftarbók

Það eru yfir 240 uppskriftir í þessari elsku bestu bók svo ég má nú til með að deila einni og einni með ykkur!

Kjúllasúpa uppskrift

Þessa súpu fékk ég fyrst hjá Henný vinkonu minni fyrir mörgum árum. Hún er einstaklega bragðgóð og matarmikil og hef ég ekki tölu á því hversu oft hún hefur verið útbúin síðan. Uppskriftin er frekar stór og hentar þessi súpa því vel fyrir hittinga en við fjölskyldan gerum hana þó reglulega bara fyrir okkur og þá dugar hún í tvo daga. Það er ekki verra þegar hægt er að elda mat sem er jafnvel betri í upphitun daginn eftir og það er hún svo sannarlega þessi.

Kjúklingasúpa

Kjúklingasúpa uppskrift

Fyrir um 8 manns

  • 1 poki Rose Poultry úrbeinuð kjúklingalæri/bringur
  • 2-3 sætar kartöflur (eftir stærð)
  • 2 rauðar paprikur
  • 1 rautt ferskt chili
  • 1 púrrulaukur
  • 3 hvítlauksrif
  • 2 flöskur Heinz chili sósa
  • 400 g rjómaostur
  • 700 ml rjómi
  • 900 ml vatn
  • 1 msk. ferskt rósmarín
  • 1 msk. Fond kjúklingakraftur (fljótandi)
  • Karrý, salt, pipar, cheyenne pipar, kjúklingakrydd
  • Ólífuolía til steikingar
  1. Skerið kjúkling í bita og steikið upp úr ólífuolíu á pönnu, kryddið með kjúklingakryddi, salti og pipar, leggið til hliðar á disk á meðan annað er útbúið.
  2. Afhýðið sætu kartöflurnar og skerið í litla teninga.
  3. Skerið papriku í strimla ásamt blaðlauk og saxið bæði chili og hvítlauk.
  4. Steikið grænmetið upp úr ólífuolíu og karrý þar til það byrjar að mýkjast, kryddið til með salti og pipar.
  5. Hellið þá rjóma, rjómaosti, chilisósum og vatni saman við og blandið þar til kekkjalaust.
  6. Setjið sætar kartöflur, rósmarín og kjúklingakraft í pottinn og smakkið til með salti, pipar og cheyenne pipar.
  7. Leyfið að malla í 30-45 mínútur eða þar til kartöflurnar verða mjúkar í gegn. Hellið þá kjúklingnum saman við og hitið áfram stutta stund.
  8. Berið fram með góðu naan brauði.
Heinz Chilli sósa í súpuna

Mmmm þessi súpa er ein sú allra besta!

Matarmikil kjúklingasúpa

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

Flokkar

0
    0
    Karfan þín
    Karfan er tómNetverslun