Rjómapasta er eitthvað sem ég verð seint leið á. Það er eitthvað svo notalegt og kósý að gera gott rjómapasta. Ég ætla að viðurkenna að þetta var eitt af því fyrsta sem ég varð góð í að elda þegar ég byrjaði að búa svo það var ansi oft rjómapasta á boðstólnum hér í denn.

Þessi útgáfa er fljótleg og ljúffeng um leið og hún er gúrme!

Rjómalagað kjúklingapasta
Fyrir um 6 manns
- 500 g DeCecco Fusilli pastaskrúfur
- 3 Rose Poultry kjúklingabringur
- 500 g blandaðir sveppir (t.d portobello, kastaníu, venjulegir)
- 1 rauðlaukur
- 2 hvítlauksrif
- 600 ml rjómi
- 1 piparostur (rifinn)
- 100 g Philadelphia rjómaostur
- 1 msk. fljótandi Oscar nautakraftur
- 2 tsk. sítrónusafi
- Ólífuolía til steikingar
- Smjör til steikingar
- Salt, pipar og hvítlauksduft
- Meðlæti: parmesan ostur og snittubrauð
- Skerið kjúklingabringur í strimla/bita á einn disk og sveppi, lauk og hvítlauk á annan.
- Sjóðið pastaskrúfurnar samkvæmt leiðbeiningum á pakka (Al Dente) og steikið á meðan kjúklingabringurnar og grænmetið.
- Byrjið á kjúklingabitunum, steikið þá upp úr vel af ólífuolíu og kryddið eftir smekk, setjið á disk/í skál þegar þeir eru tilbúnir.
- Bætið vænni smjörklípu á pönnuna (óþarfi að þrífa hana á milli) og steikið sveppi, lauk og hvítlauk þar til mýkist. Kryddið eftir smekk og hellið loks yfir á sama disk/skál og kjúklingabitarnir eru í.
- Hellið næst um helming rjómans á pönnuna og bætið við piparosti og rjómaosti, hrærið vel þar til ostarnir hafa bráðnað og bætið þá restinni af rjómanum á pönnuna.
- Bætið nautakrafti og sítrónusafa í sósuna og kryddið til með salti, pipar og hvítlauksdufti.
- Þegar sósan er tilbúin má hella pastaskrúfum, kjúklingi og grænmeti saman við hana og blanda öllu lauslega saman.
- Gott er að bera pastaréttinn fram með rifnum parmesan osti og nýbökuðu snittubrauði.

Pastaskrúfurnar frá DeCecco passa einstaklega vel í þennan rétt og þetta eru mínar uppáhalds pastaskrúfur.

Að blanda saman alls kyns sveppum er guðdómlegt í bland við kjúklinginn og rjómasósuna.

Allt of gott og girnilegt pasta, namm!
Þessi færsla er unnin í samstarfi við Gerum daginn girnilegan!