Marengsterta⌑ Samstarf ⌑
Marengs uppskrift að góðri marengstertu

Þessi kaka er B O B A eins og Bubbi myndi segja það! Dúdda mía sko, hér er á ferðinni ein besta marengsterta sem ég hef sett saman, það er bara þannig! Ég er auðvitað löngu forfallinn púðursykursmarengsaðdáandi og hreinlega elska að setja saman marengstertur. Hér er því enn ein bomba komin í safnið fyrir ykkur að njóta.

Marengsterta með Þristi og rjóma og jarðarberjum

Lykilatriði er að þeyta marengsinn nægilega lengi þar til að þið finnið varla lengur fyrir sykurögnunum í honum. Við erum aðeins að breyta í eldhúsinu hjá okkur og ég var því að skipta út hrærivélinni minni. Ég var að fá svarta, matta Kitchen Aid vél sem passar svo vel við breytingarnar. Ég hlakka til að sýna ykkur meira frá þeim en ég gat ekki beðið lengur með að sýna ykkur þessa fallegu hrærivél!

Kitchen Aid hrærivél mött og svört

Eruð þið að sjá þessa fegurð! Ég hef aldrei átt svona flotta hrærivél en þetta er Kitchen Aid 185 útgáfan, hrafnasvört mött frá Rafland. Mig langar pínu í svarta skál líka og hugsa ég setji hana hér með á óskalistann fyrir jólin!

En aftur að kökunni góðu, það verða hreinlega allir að prófa að gera þessa köku því hún er algjört dúndur!

Góð marengskaka

Marengsterta uppskrift

Marengsbotnar uppskrift

 • 4 eggjahvítur
 • 250 g púðursykur
 1. Hitið ofninn í 150°C.
 2. Teiknið hring á bökunarpappír á þremur bökunarplötum (um 20 cm í þvermál).
 3. Þeytið eggjahvítur og púðursykur saman í nokkrar mínútur þar til topparnir halda sér og verða stífir.
 4. Skiptið blöndunni niður inn í hringina og jafnið marengsinn út svo hann verði nokkuð hringlaga og jafn þykkur yfir allt.
 5. Bakið í 50 mínútur og slökkvið þá á ofninum og leyfið botnunum að kólna í honum.

Mars-sósa uppskrift

 • 5 Mars stykki (5 x 39g)
 • 150 ml rjómi
 1. Bræðið mars og rjóma saman í potti við meðalháan hita þar til súkkulaðið leysist upp.
 2. Gott er að nota písk í lokin til að jafna sósuna vel út.
 3. Leyfið sósunni að ná stofuhita áður en þið setjið kökuna saman.

Fylling og toppur

 • 700 ml rjómi
 • 400 g jarðarber
 • 250 g Þristur
 • 2 Mars stykki (2 x 39g)
 1. Skerið jarðarber, Þrist og Mars niður í bita.
 2. Þeytið rjómann og hefjist handa við samsetningu.

Samsetning

 1. Leggið marengsbotn á kökudisk.
 2. Setjið vel af Mars-sósu yfir botninn.
 3. Næst fer um 1/3 af þeytta rjómanum yfir sósuna.
 4. Þá má setja jarðarberjabita og Þristabita yfir.
 5. Setjið næsta botn ofan á og endurtakið.
 6. Setjið síðasta botninn ofan á, Mars-sósu og búið til smá „hól“ úr rjómanum ofan á sósunni (ekki smyrja honum alveg út).
 7. Toppið með jarðarberjum, Þristi og Mars bitum.
 8. Gott er að leyfa kökunni að hvíla í kæli í nokkrar klukkustundir áður en hennar er notið.
Marengsterta eða marengskaka uppskrift

Það besta við marengstertur er síðan hvað það er auðvelt að gera þær! Fá innihaldsefni og hægt að gera marengsbotnana með góðum fyrirvara og svo bara setja saman kvöldinu áður eða nokkrum klukkustundum fyrir veislu. Marengsbotnarnir verða að mínu mati alltaf bestir eftir að hafa fengið að drekka í sig þeytta rjómann í að minnsta kosti sólarhring.

Marengsterta uppskrift

„I’m in love“, bæði af hrærivél og köku!

2 Replies to “Marengsterta”

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

Flokkar

0
  0
  Karfan þín
  Karfan er tómNetverslun