Rjúpur og tilheyrandi



⌑ Samstarf ⌑
Hvernig eldar maður rjúpur

Í fyrra þegar við elduðum rjúpur á aðfangadag sagði ég að ég yrði að ná að setja þessa uppskrift á bloggið fyrir næstu jól. Svo frussast tíminn áfram og þetta rétt hafðist hjá mér! Það var hann Balli vinur okkar sem reddaði rjúpunum þar sem veiði hefur verið dræm okkar megin þetta árið. Þær eru að sjálfsögðu skotnar í Búrfellshrauni í Mývatnssveit og vill Balli meina að þær rjúpur sé þær bestu á landinu og að sjálfsögðu skulum við trúa því!

Rjúpur og meðlæti

Uppskriftin er hins vegar komin frá mömmu og Guðrúnu systur í bland. Mamma var með eina þar sem til dæmis hugmyndina með perurnar og rauðbeðusalatið var að finna en svo er eldunin og sósan komin frá systur minni. Margir mauksjóða rjúpurnar í sósunni og vilja láta þær hanga lengi svo villibráðarbragðið skíni sterkt í gegn. Þessi aðferð er þó öllu nýstárlegri og eru rjúpurnar mun mildari á bragðið en á hinn veginn.

Uppskrift af rjúpum

Balla og fjölskyldu var að sjálfsögðu boðið í mat til þess að smakka herlegheitin og þó svo hann vilji meina að sín aðferð sé sú allra besta þá sagði hann ansi oft við matborðið „djöfull er þetta gott maður“, „Þetta er alveg geggjað“, „Hvernig eldaðir þú þetta annars“…….. svo ætli hann verði ekki búinn að skipta um uppskrift á aðfangadag áður en við vitum af, í það minnsta farinn að gera báðar týpur, hahaha!

Rjúpur uppskrift

Fyrir 2-3 manns

Rjúpusoð uppskrift

  • ½ laukur
  • 30 g smjör
  • 2-3 læri, fóarn og hjörtu
  • 1 tsk. salt
  • 600 ml vatn
  1. Steikið laukinn upp úr smjörinu og saltið.
  2. Steikið kjötið með lauknum þar til það brúnast og hellið þá vatninu yfir og leyfið að sjóða í um 1 ½ klukkustund (lengur ef þið viljið meira bragð).
  3. Sigtið síðan allt gumsið frá og notið soðið í sósuna.

Rjúpusósa uppskrift

  • 80g smjör
  • 2 msk. hveiti
  • Rjúpusoðið hér að ofan
  • 300 ml rjómi
  • 3 tsk. Oscar Vildt kraftur
  • 2 tsk. bláberjasulta
  • 2 tsk. gráðaostur
  • 3 msk. Muga rauðvín
  • Salt og pipar eftir smekk
  1. Bræðið smjörið í potti, pískið hveitið saman við og hellið næst soðinu yfir og pískið vel saman allan tímann.
  2. Bætið þá rjómanum og öðrum hráefnum saman við, smakkið til með krafti og kryddum og leyfið að malla aðeins.
Hvernig eldar maður rjúpur

Rjúpur eldun

  • 8 rjúpubringur
  • Smjör til steikingar
  • Salt og pipar
  • 6 x ½ niðursoðnar perur í dós
  • Rifsberjasulta
  1. Hitið ofninn í 190°C.
  2. Snöggsteikið bringurnar upp úr vel af smjöri í rúmlega hálfa mínútu á hvorri hlið.
  3. Raðið í eldfast mót og hellið sósu upp á miðjar bringur (berið restina af sósunni fram með máltíðinni).
  4. Bakið í 10-13 mínútur eftir stærð.
  5. Þegar fatið er tekið úr ofninum má raða perunum í kring og setja rifsberjasultu ofan í „holuna“.
  6. Njótið með rauðbeðusalati og brúnuðum kartöflum.
Rauðrófusalat

Rauðbeðusalat uppskrift

  • 3 gul epli (flysjuð og skorin smátt)
  • Um 250 g rauðbeður (skornar smátt niður)
  • 3 msk. rifsberjahlaup, brætt í örbylgjuofni/potti svo úr verði saft
  • 300 ml þeyttur rjómi
  1. Blandið rifsberjahlaupinu saman við söxuð epli og rauðbeður með sleikju.
  2. Blandið næst þeytta rjómanum saman við og berið fram.
Brúnaðar kartöflur

Brúnaðar kartöflur

  • Um 900 g soðnar kartöflur
  • 150 g sykur
  • 30 g smjör
  • 1 msk. rjómi
  1. Setjið sykurinn á pönnu á háan hita.
  2. Þegar hann byrjar að leysast upp þarf að lækka hitann, setja smjörið saman við og hræra vel saman.
  3. Næst má setja rjómann saman við og leyfa blöndunni aðeins að „bubbla“ og hella kartöflunum á pönnuna og velta upp úr karamellunni.
Rjúpur og meðlæti

Ég hvet alla sem eru fyrir rjúpur að prófa þessa uppskrift, sama hversu sterkt þið viljið halda í hefðirnar, hún mun koma ykkur á óvart!

Muga rauðvín í rjúpusósuna

Skál!

Rjúpur á jólunum

Þessi uppskrift er unnin í samstarfi við Gerum daginn girnilegan

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

Flokkar

0
    0
    Karfan þín
    Karfan er tómNetverslun