Lakkrísbollur⌑ Samstarf ⌑

Um daginn prófaði ég Eitt sett búðinginn frá Royal og fannst hann alveg guðdómlegur. Ég gat ekki beðið eftir að prófa að setja hann inn í bollur fyrir Bolludaginn svo gjörið þið svo vel, fyrsta bolluhugmynd ársins 2022 er hér komin!

Með því að blanda búðingnum saman við þeyttan rjóma myndast silkimjúk og mild áferð með lakkrískeim, algjört sælgæti.

Lakkrísbollur

Vatnsdeigsbollur uppskrift

10-12 stykki

 • 150 g hveiti
 • 1 tsk. lyftiduft
 • ¼ tsk. salt
 • 140 g smjör
 • 270 ml vatn
 • 3 egg (um 120-130 g)
 1. Hitið ofninn í 180°C.
 2. Hrærið saman hveiti, lyftidufti og salti saman í skál og geymið.
 3. Hitið saman vatn og smjör í potti þar til smjörið er bráðið og blandan vel heit. Leyfið að bubbla aðeins og takið síðan af hellunni.
 4. Hellið hveitiblöndunni saman við smjörblönduna og hrærið/vefjið saman við með sleikju þar til allir kekkir eru horfnir og blandan losnar auðveldlega frá köntum pottsins.
 5. Flytjið blönduna yfir í hrærivélarskálina og hrærið á lægsta hraða með K-inu og leyfið hitanum þannig að rjúka aðeins úr blöndunni á meðan þið pískið eggin.
 6. Setjið eggin næst saman við í litlum skömmtum og skafið niður á milli. Athugið að nota aðeins 120-130 g af eggjunum. Egg eru misstór og því gott að vigta þetta til þess að deigið verði ekki of þunnt.
 7. Setjið bökunarpappír á ofnplötu og hver bolla má vera um 2 matskeiðar af deigi (ein vel kúpt matskeið).
 8. Bakið í 27-30 mínútur, bollurnar eiga að vera orðnar vel gylltar og botninn líka, ekki opna þó ofninn fyrr en í fyrsta lagi eftir 25 mínútur til að kíkja undir eina. Helstu mistök sem fólk gerir er að baka bollurnar ekki nógu lengi og þá falla þær.

Lakkrísfylling

 • 1 pakki Eitt sett Royal búðingur
 • 250 ml nýmjólk
 • 500 ml þeyttur rjómi
 1. Pískið mjólk og búðingsduft saman í um eina mínútu, setjið í kæli og leyfið að þykkna í um 10-15 mínútur. Gott er að hræra varlega í blöndunni með sleikju nokkrum sinnum á meðan.
 2. Hellið búðingsblöndunni þá saman við þeytta rjómann og vefjið varlega saman með sleikju þar til vel blandað, létt og ljóst.
 3. Setjið í sprautupoka og setjið á bollurnar.

Glassúr og skraut

 • 100 g brætt smjör
 • 200 g flórsykur
 • 3 msk. bökunarkakó
 • 3 tsk. vanilludropar
 • 2 msk. kaffi (uppáhellt)
 • Vatn ef ykkur finnst þurfa að þynna kremið
 • Lakkrískurl
 1. Allt sett saman í skál (nema lakkrískurlið) og hrært saman með písk/skeið þar til vel blandað.
 2. Best er að fylla bollurnar fyrst og setja svo væna teskeið af glassúr ofan á „lokið“ og dreifa aðeins út og strá lakkrískurli yfir áður en glassúrinn tekur sig.

Ég elska súkkulaðiglassúr á bollur og lakkrískurlið fullkomnar þetta allt saman.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

Flokkar

0
  0
  Karfan þín
  Karfan er tómNetverslun