Hér eru á ferðinni undursamlegar bollakökur með lakkrískeim í kökunni sjálfri og silkimjúku súkkulaði smjörkremi, namm!

Það er eitthvað með blöndu af lakkrís og súkkulaði sem hreinlega getur ekki klikkað.

Bollakökur með lakkrískeim
12-14 stykki
Bollakökur uppskrift
- 2 egg
- 100 g sykur
- 100 g púðursykur
- 80 ml ljós matarolía
- 120 ml súrmjólk
- 2 tsk. vanilludropar
- 110 g hveiti
- 40 g bökunarkakó
- 1 tsk. lyftiduft
- ½ tsk. matarsódi
- ½ tsk. salt
- 1 pakki Eitt sett Royal búðingur
- Hitið ofninn í 170°C og takið til bollakökuform. Best þykir mér að nota álform með pappaformum inn í.
- Þeytið saman egg og báðar tegundir af sykri þar til létt og ljós blanda myndast.
- Pískið saman matarolíu, súrmjólk og vanilludropa, geymið.
- Hrærið hveiti, kakó, lyftiduft, matarsóda og salt saman, geymið.
- Blandið nú til skiptis þurrefnunum og súrmjólkurblöndunni út í eggjablönduna og skafið niður á milli.
- Að lokum má hræra búðingsduftið saman við stutta stund.
- Skiptið næst niður í 12-14 bollakökuform og bakið í 20-22 mínútur.
- Kælið áður en þið setjið kremið á.
Súkkulaði smjörkrem uppskrift
- 150 g smjör við stofuhita
- 50 g bökunarkakó
- 500 g flórsykur
- 3 msk. kaffi (uppáhellt)
- 3 msk. hlynsýróp
- 2 tsk. vanilludropar
- Þeytið smjör og kakó þar til létt og ljóst, skafið niður á milli.
- Bætið öðrum hráefnum saman við til skiptis og þeytið áfram í nokkrar mínútur, skafið niður á milli.
- Setjið í sprautupoka með stórum stjörnustút (ég notaði 1M frá Wilton) og sprautið upp í spíral.
- Skreytið með lakkrískurli ef þess er óskað.

Ég hef oft bætt Royal búðingsdufti í kökudeig og útkoman hefur hingað til ekki klikkað. Búðingurinn gerir kökuna aðeins blautari í sér og bætir bragðið!

Mmmm….