Við elskum hvítar smákökur með hvítu súkkulaði og Macadamia. Þegar við förum á Subway þá kaupum við ætíð fullan poka af „hvítum með hvítu“ og því var kominn tími til að útbúa slíka uppskrift hingað inn!

Þessar kökur heppnuðust guðdómlega og voru svakalega góðar!

Þær eru dúnmjúkar að innan og stökkar að utan, mmmmmmmm!

Hvítsúkkulaðikökur með Macadamia hnetum
Um 25 stykki
- 230 g smjör við stofuhita
- 120 g púðursykur
- 50 g sykur
- 2 egg
- 2 tsk. vanilludropar
- 1 pk. vanillu Royal búðingur (duftið)
- 270 g hveiti
- 1 tsk. matarsódi
- ½ tsk. salt
- 130 g hvítt súkkulaði (saxað gróft)
- 100 g Macadamia hnetur (gróft saxaðar)
- Hitið ofninn í 175°C.
- Þeytið saman smjör og báðar tegundir af sykri þar til létt og ljós blanda myndast.
- Bætið eggjum og vanilludropum saman við, hrærið áfram og skafið niður á milli.
- Hrærið næst Royal búðing, hveiti, matarsóda og salti saman í skál og bætið í hrærivélarskálina, hrærið á lágum hraða og skafið niður þar til vel blandað.
- Setjið súkkulaði og hnetur saman við í lokin og blandið saman með sleikju.
- Notið ísskeið/kökuskeið/skeið til að útbúa kúlur og raðið á plötu. Magn í hverri kúlu ætti að vera á stærð við um tvær matskeiðar. Ég raðaði 3 x 3 og notaði því þrjár ofnskúffur með bökunarpappír í botninn þó sú síðasta væri ekki með jafn mörgum.
- Bakið í 12-15 mínútur eða þar til kantarnir verða vel gylltir.
- Setjið á kæligrind og kælið áður en þið njótið.

Royal búðingurinn sér til þess að kökurnar verða extra mjúkar og djúsí að innan!

Mmmmm, fallegar og góðar!
