Ostakaka með karamellu og kanilkexi



⌑ Samstarf ⌑
ostakaka sem ekki þarf að baka

Ég elska að útbúa eftirrétti, held án gríns ég gæti gert endalausar útgáfur af einhverju sætu og góðu. Ostakökur eru alltaf klassískar og þegar hún er sett í glös/skálar líkt og hér má sleppa matarlími og einfalda aðferðina til muna.

einföld ostakaka í eftirrétt

Hér þarf ekkert að baka og ef þið hafið ekki tíma til að útbúa eigin karamellusósu þá má kaupa hana tilbúna í flestum verslunum!

ostakaka í glasi

Ostakaka með karamellu og kanilkexi

Uppskrift dugar í 6-8 glös/skálar

Botn

  • 170 g Jóla kremkex frá FRÓN
  1. Myljið kexið í blandara þar til það minnir á sand.
  2. Skiptið niður í 6-8 glös (eftir stærð) og ýtið aðeins upp kantana.

Fylling

  • 400 g rjómaostur við stofuhita
  • 180 g sykur
  • Fræ úr einni vanillustöng
  • 400 g þeyttur rjómi
  1. Þeytið rjómaost, sykur og fræin úr vanillustönginni saman í nokkrar mínútur þar til blandan verður létt í sér.
  2. Vefjið þá þeytta rjómanum saman við með sleikju, setjið í sprautupoka/zip-lock poka og skiptið á milli glasanna, sléttið svo aðeins úr með skeið.
  3. Kælið á meðan karamellan er útbúin.

Karamella

  • 60 g smjör
  • 110 g púðursykur
  • 80 ml rjómi
  • Bræðið smjörið við meðalháan hita.
  • Bætið sykri og rjóma saman við, náið upp suðu og leyfið síðan að malla við lágan hita þar til sykurinn er uppleystur.
  • Hellið þá yfir í skál úr pottinum og leyfið hitanum að rjúka aðeins úr.
  • Hellið karamellu yfir ostakökuna í hverju glasi og kælið að nýju.
  • Fallegt er að skreyta með ristuðum heslihnetum og ferskum blómum.
jólakremkex frá Frón

Við elskum kremkex frá Frón og nú er Sæmundur mættur í jólafötin í sérstakri jólaútgáfu. Jólakexið er með kanil og negul og ég myndi segja að það sé léttur kremkex-piparkökufílingur í þessu kexi með krem á milli, alveg hrikalega gott!

ostakaka með kanil og karamellu

Mæli með að þið prófið þessa dásemd!

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

Flokkar

0
    0
    Karfan þín
    Karfan er tómNetverslun