Þetta jólaglögg á sér langa sögu og er sagt það allra besta!

Amma Guðrún vann í Skólabæ í „gamla daga“ þar sem hún sá um ófáar veislurnar (já maður hlýtur að fá þetta frá einhverjum, hahaha!). Þar á þessi uppskrift víst uppruna sinn og hefur gengið manna í milli síðan.
Mamma og pabbi hafa mallað þetta glögg frá því að ég man eftir mér og alltaf í jóla-hundagöngu hjá írsk-setter deildinni hér á árum áður var þetta með í för og drukkið eftir kalda vetrargöngu. Núna bjóða þau alltaf öllum þeim sem eiga Eðal írska-setter hunda (sem þau rækta) í jólagöngu, glögg, heitt súkkulaði og smákökur heima hjá sér í desember. Ég var einmitt að aðstoða mömmu við að hræra í pottunum um síðustu helgi og ilmurinn af þessu glöggi er alveg hreint dásamlegur. Það var því ekki annað í stöðunni en að fá uppskriftina og deila henni með ykkur núna á aðventunni!

Jólaglögg
- 2 l Adobe Reserva rauðvín
- 4 msk. sykur
- 100 g heilar heslihnetur
- 100 g rúsínur
- 4 mandarínur + negulnaglar (c.a 8 í hverja)
- 5 kanilstangir heilar
- 200 ml vodka
- 1 ½ l Z-Up
- Leggið rauðvín, sykur, hnetur, rúsínur, mandarínur með negulnöglum og kanilstangir í bleyti yfir nótt.
- Hitið að suðu, lækkið næst hitann síðan og haldið heitu í um klukkustund.
- Í lokin má bæta Z-Up saman við í nokkrum skömmtum ásamt vodka og aðeins hitað með blöndunni við vægan hita.

Það er mikilvægt að leggja allt nema vodka og Z-Up í bleyti kvöldinu áður.
