Gamlárskvöld er á morgun og eflaust margir að leita að hinum fullkomna eftirrétti! Hér kemur einn undursamlegur sem einfalt er að útbúa og ungir sem aldnir munu elska!

Litlar ostakökur í glasi, skál eða krúsum eru frábærar og aðferðin mjög einföld.

Ostakaka með karamellukeim
Uppskrift dugar í 8-10 glös eftir stærð
Botn
- 300 g Noir kex frá Frón (1 ½ pakki)
- 50 g brætt smjör
- Setjið kexið í blandarann og maukið þar til áferðin minnir á sand.
- Hellið kexinu í skál og blandið bræddu smjörinu saman við með sleikju.
- Skiptið kexblöndunni á milli glasanna og kælið áður en ostakökufyllingin fer yfir.
Ostakökufylling
- 400 g rjómaostur við stofuhita
- 150 g sykur
- 100 g flórsykur
- Fræ úr einni vanillustöng
- 180 g hnetu- og karamellujógúrt (1 dós)
- 400 ml þeyttur rjómi
- Þeytið rjómaost, sykur, flórsykur og fræ úr vanillustöng saman í hrærivélinni þar til létt og slétt blanda hefur myndast.
- Vefjið þá jógúrti og þeyttum rjóma varlega saman við blönduna með sleikju og skiptið á milli glasanna, sléttið úr eins og unnt er.
- Kælið áður en þið toppið með karamellu og skrauti.
Karamella og toppur
- 150 g rjómakaramellur
- 100 ml rjómi
- Karamellukúlur
- Fersk blóm
- Bræðið saman karamellur og rjóma þar til slétt karamellusósa hefur myndast, takið af hellunni og leyfið að ná stofuhita.
- Setjið um eina matskeið af karamellusósu yfir hverja ostaköku og skreytið með karamellukúlum og ferskum blómum.

Noir kexið er eitt af mínum uppáhalds og hefur verið frá því ég var barn ásamt hnetu- og karamellujógúrti svo þessi blanda er algjör negla og ákveðin nostalgía um leið!
