Matarupplifun
Matarupplifun er stór hluti af lífi matarbloggarans, ég elska mat og allt sem snýr að mat og gotteríi! Það er því ekki úr vegi að hafa hér á síðunni sérstakan flokk þar sem ég deili með ykkur mismuandi matarupplifunum, hvort sem það er úr matarboðum, frá veitingahúsum eða annars konar matarmenningu erlendis frá. Ég hefði auðvitað löngu átt að vera búin að koma þessum flokki á laggirnar enda ferðast víða og upplifað ýmislegt skemmtilegt hvað mat varðar. En betra er seint en aldrei og hér munu í framtíðinni koma umfjallanir um góða veitingastaði, matarmenningu erlendis og matarboð/veislur sem ég mun fara í.
Ævintýri & ferðalög
Skemmtileg ævintýri og ferðalög í bland við matarupplifun er fullkomin blanda að mínu mati. Við fjölskyldan erum miklir ferðalangar, elskum að ganga á fjöll, ferðast erlendis sem og innanlands, flækjast um allar trissur og skoða eitthvað nýtt og spennandi. Hvort sem það er að borða góðan mat á veitingahúsum á leiðinni, taka með gott nesti eða elda góðan mat að lokinni ævintýraferð er allt partur af upplifuninni. Ég gat því ekki setið á mér með að víkka aðeins út matarbloggsheiminn minn og deila með ykkur skemmtilegum hugmyndum af afþreyingu og ferðalögum og vona innilega þið hafið gagn og gaman af þessum hugmyndum. Hér stefni ég á að setja inn alls konar. Allt frá dagsferðum, lengri ferðalögum, fjölskylduferðum, ferðum innanlands, ferðum erlendis, hjónaferðum, vinkonuferðum og bara hinu og þessu í bland sem gaman er að gera!
Gisting & veitingar
Gisting og góðar veitingar gera ævintýri og ferðalög enn betri.
Við fjölskyldan höfum í gegnum tíðina prófað ýmislegt hvað ferðalagagistingu varðar og okkur finnst gaman að blanda saman alls kyns gistiupplifunum ef svo má að orði komast. Til dæmis fórum við eitt sinn í mánaðarlangt „roadtrip“ um Bandaríkin þar sem við gistum stundum í tjaldinu okkar, stundum í litlum sumarhúsum, gistiheimilum eða fimm stjörnu hótelum, allt í sömu ferðinni!
Hér mun ég því fjalla um alls konar gistingu og veitingar bví það er svo gaman að prófa mismunandi möguleika hvað slíkt varðar!
Gönguferðir
Gönguferðir eru eitt það allra besta sem ég geri fyrir sjálfa mig þegar ég er ekki í eldhúsinu. Ég reyni auðvitað að smita þetta yfir í fjölskyldu og vini og dreg fólkið mitt oft um allar trissur og vona ég innilega að ég nái að smita dætur mínar af fjallabakteríunni. Þegar ég fer á fjall gleymi ég stund og stað og lifi algjörlega í núinu, ég elska að prófa nýjar gönguleiðir og finnst gaman að ganga allan ársins hring.
Eftir að ég víkkaði út litla matarbloggsheiminn minn og fór meira yfir í ævintýri og ferðalög fannst mér tilvalið að setja hér inn stöku gönguferðir með skemmtilegum myndum til að gefa fólki hugmyndir af slíkum. Ég nota oftast Wapp forritið ef ég er að fara á nýjar slóðir sem ég ekki þekki en annars eru ótal margar gönguleiðir orðnar vel merktar og stikaðar svo það er víst úr nægu að velja.
Það er til fullt af heimasíðum með góðar leiðbeiningar svo ég hvet ykkur til að leita á netinu og skoða hvað ykkur finnst spennandi en hér mun ég setja inn ýmsar gönguferðir, hvort sem ég er bara að fara stutt á eigin vegum eða í skipulagðar ferðir með ferðaþjónustuaðilum.