Valentínusar – eftirrétturinn!
Þessi heita súkkulaðikaka er algjört lostæti, hún er blaut í sér og í raun eins og litlar „franskar“ súkkulaðikökur með blautri miðju nema súkkulaðibráðinni er hellt ofaná kökuna sjálfa. Kakan er einföld í framkvæmd og ef ég er með hana sem eftirrétt er ég alltaf búin að gera kökudeigið fyrr um daginn og hella því í form og geymi með plastfilmu yfir við stofuhita þar til hún fer í ofninn. Hráefnið í bráðina hef ég síðan tilbúið í litlum skaftpotti til að þurfa ekkert að gera nema setja kökuna í ofninn og kveikja undir pottinum á bráðinni þegar styttast fer í eftirmat.
Kakan
- 4 egg
- 2 dl sykur
- 200 gr smjör
- 250 gr súkkulaði
- 1 dl hveiti
Súkkulaðibráð
- 70 gr smjör
- 150 gr súkkulaði
- 4 msk síróp
Aðferð
- Hitið ofninn170 °C.
- Smjör og súkkulaði brætt saman í potti og látið kólna svolítið.
- Egg og sykur þeytt saman þar til létt og ljóst.
- Súkkulaðiblöndunni blandað saman við eggin og sykurinn.
- Hveiti bætt varlega útí að lokum.
- Bakað við í um 35 mín í vel smurðu kökuformi (c.a 27-30cm í þvermál fyrir þessa uppskrift).
- Kakan látin standa í nokkrar mínútur á meðan súkkulaðibráðin er útbúin.
- Súkkulaðibráðin: Setjið öll hráefnin í pott og bræðið á meðalhita þar til allt hefur blandast vel saman.
- Hellið yfir kökuna og dreifið með spaða til að jafna bráðina.
- Berið kökuna fram heita/volga með ís, rjóma og jarðaberjum (eða öðru sem ykkur þykir gott)