Hvannadalshnúkur í gulri viðvörun! „Þetta verður eitthvað, eruð þið ekki örugglega með Little Hotties í lúffurnar stelpur?“ Svona voru samræður okkar vinkvennanna daginn fyrir göngu og bæði kvíði og spenna bærðist um í okkur. Hótelherbergin voru full af búnaði sem við vorum að sortera og yfirfara og sannarlega gott að vera vel búinn fyrir svona langan dag sem gæti tekið á sig ýmsar veðurmyndir. Við náðum að sofa í rúmar 4 klukkustundir áður en hópurinn hittist við Sandfell kl:05:00 um morguninn.

Veðrið spilar stórt hlutverk þegar ganga skal á Hnúkinn og að þessu sinni var göngunni flýtt um einn dag til að fá betra skyggni. Það var hins vegar gul veðurviðvörun og mikið rok og frost í kortunum svo við bjuggum okkur sannarlega undir það versta.

Við fórum með Fjallhalla Adventurers og það var Einar hjá Öræfaferðum sem var aðal leiðsögumaður í þessari ferð ásamt honum Ólafi. Við vorum þrettán manns sem hófum leika en aðeins hluti af okkur náði toppnum þar sem upp komu veikindi og mikil þreyta hjá hluta af hópnum og önnur línan varð að snúa við.
Einar hefur farið 319 sinnum upp á Hvannadalshnúk svo reynslumeiri leiðsögumann hugsa ég að erfitt sé að finna. Hann var algjörlega sannspár um veðrið, vissi að við yrðum í skjóli framan af og síðan myndi hann byrja að kólna og blása en útsýnið var undursamlegt, ekki ský á himni langleiðina. Síðan var spáin sem betur fer ekki alveg eins köld og hvöss eins og við áttum von á sem var auðvitað æðislegt.

Við vorum nokkuð fljót upp að línusteini en hann er í um 1000 m hæð svo þá veit maður að hækkunin er hálfnuð og framundan er „slow and steady“ ganga upp að öskjubrún í línu, alveg fram yfir svokallaða „dauðabrekku“. Þessi brekka hefur þetta nafn því hún virkar endalaus, þú sérð bara brekku og labbar og labbar og brekkan virðist engan endi ætla að taka, hahaha!

Þegar komið er að öskjubrún tekur síðan við nokkuð sléttur kafli en hann er samt lúmskur og oft erfiður yfirferðar. Djúpur snjór og gott að búa til fótspor og ganga beint í þau í línunni. Þér finnst þú kominn svo nálægt á þessum stað en ferðin yfir öskjuna tekur alveg um klukkustund hvora leið og síðan þarf að klífa Hnúkinn sjálfan í lokin.
Áður en við héldum af stað yfir öskjuna þurfti önnur línan að snúa niður sökum veikinda hjá tveimur aðilum, það var virkilega sorglegt að horfa á eftir þeim en um leið hárrétt ákvörðun hjá leiðsögumönnum okkar því það má enga áhættu taka í þessum aðstæðum. Einar fór því niður með þeirri línu og Ólafur kom okkur hinum örugglega á toppinn!

Hnúkurinn lítur sakleysislega út en er síðan ansi brattur og mikilvægt að vera á jöklabroddum og með ísexi því þarna vill maður ekki renna af stað. Ferðin upp Hnúkinn sjálfan tekur á bilinu 45 mínútur til klukkustund og hækkunin er um 250 m á þessum kafla sem er að sjálfsögðu krefjandi eftir margra klukkustunda göngu upp í móti.

Við stoppuðum í sólinni og fengum okkur nesti áður en lagt var af stað í lokahnykkinn. Sem betur fer hafði ég keypt mér brúsa í Ellingsen úr áli því þegar þarna er komið voru allir aðrir drykkir frosnir nema vatnið sem ég geymdi þarna!

Off we go….

Svo fallegt og góð tilfinning þegar maður sér fram á að klára þetta!

„Tres Amigos on Top“. Þarna er ég með elsku Ester og Guðrúnu sem hafa verið með okkur Hemma á fjallanámskeiði síðustu tvo vetur hjá Fjallhalla. Við reyndum allar við Hnúkinn í fyrra en urðum að snúa við svo það var ljúft að ná að klára þetta allar saman núna!

Það má alveg reyna að hoppa með þungan bakpoka eftir um 10 klukkustunda göngu, hahaha!

Það er líka mikilvægt að ná myndum frá toppnum, því annars gerðist þetta víst ekki, hahahaha!
Það þarf síðan að fara varlega á niðurleiðinni og við vorum dágóða stund að koma okkur niður af Hnúknum sjálfum til þess að geta tekið af okkur broddana og pakkað exinni. Á þessum tímapunkti var færið að spillast og við sáum lítið sem ekkert á leið okkar yfir öskjuna tilbaka og hluta af „dauðabrekkunni“. Síðan líklega í um 1500 m hæð gengum við niður úr skýjunum og við tók bjart og fallegt veður að nýju.

Það var mikil lukka að hafa náð að toppa í góðu skyggni og einstök tilfinning að standa á hæsta tindi Íslands! Hér sjáið þið færið á leiðinni upp Hnúkinn sjálfan til vinstri og á niðurleiðinni til hægri, aðeins um klukkustund á milli mynda! Það mátti því ekki miklu muna að við hefðum algjörlega misst útsýnið af toppnum en almáttugur hvað það var dásamlegt að ná því!

Þegar aðstæður eru svona er gott að geta treyst á góðan leiðsögumann!

Svona var ástandið hluta af niðurleiðinni, virkilega kalt og hvasst. Hárið fraus og nebbinn inn á milli, ég dró ullarbuffið reglulega upp fyrir nef og festi undir skíðagleraugunum og það bjargaði mér alveg!

Hér sjáið þið þegar við gengum niður úr skýjunum og sáum aftur fallegt útsýni.

Færið var almennt fínt, snjórinn ekki of blautur og ekki of harður svo niðurleiðin gekk mjög vel. Erfiðasti parturinn fannst mér þegar við vorum komin úr snjónum yfir á mölina/grjótið því þarna eru fæturnir orðnir þreyttir og auðvelt að renna á bossann. Því er mikilvægt að halda athygli alla leið niður á bílastæði og passa sig í hverju skrefi!

Við vinkonurnar leyfðum okkur aftur þann lúxus að gista á Fosshóteli við Jökulsárlón og það er algjör draumur að komast í gufu, heitan pott og góðan mat eftir svona langan dag. Við vorum töluvert lengur á göngu en við höfðum áætlað svo við enduðum á útivistarfötunum inn á fína veitingastaðnum til að ná í spa-ið fyrir lokun og svo beint í bólið. Ég rotaðist síðan alveg á núlleinni þetta kvöld!

Næsta dag var dásamlegt veður og við tókum smá „Recovery“ göngu eftir morgunmatinn. Keyrðum heimleiðis og stoppuðum í Skaftafelli og gengum upp að Svartafossi sem er undurfallegur. Þar var gott að liðka sig aðeins til og síðan sátum við úti í sólinni, fengum okkur franskar, kokteilsósu og kók og höfðum það huggulegt.

Næsta stopp var síðan á Vík þar sem við kíktum í Schoolbeans Café fyrir kaffi og kruðerí og stóðum síðan kaggann í bæinn til að ná í kvöldmat.

Mikið sem ég er þakklát því að geta brölt á blessuð fjöllin. Það eru forréttindi að halda heilsu og fá að eldast og mikið vona ég að ég eigi enn inni ýmislegt skemmtilegt brölt og vitleysu á fjöllum!
Búnaður – Hvannadalshnúkur
Ég hef undanfarið ár komið mér upp góðum búnaði og hér fyrir neðan er listi yfir þann búnað sem ég var í eða með í bakpokanum. Þessi búnaður kemur að mestu frá Ellingsen þó svo eitthvað sé annars staðar frá.
- Innst er DEVOLD ull, toppur, bolur, buxur, á enn eftir að prófa nærbuxurnar!
- Flíspeysa: Ég á þessa hér frá Bergans.
- Primaloft/þunn dúnúlpa. Ég keypti þessa fyrir Hnúkinn og hún er ÆÐI.
- Skel: Ég var í þessari hér frá Bergans allan tímann en með þessa hér frá Mountain Hardware ef það hefði orðið blautt.
- Þykkari dúnúlpa fyrir stoppin og ef veðrið er mjög kalt: Ég á þessa hér frá Bergans.
- Góðar göngubuxur og ull innanundir
- Gott að hafa líka skelbuxur með í pokanum ef hinar eru ekki vatnsheldar
- Dúnlúffur/lopavettlingar og síðan voru sumir með skelvettlinga utan yfir, ég þarf að eignast þannig.
- Ullarbuff/lambúshetta. Ég notaði hetturnar á peysum/úlpum og var með Devold ullarbuff til að draga upp fyrir nef þegar þurfti.
- Vel einangraðir gönguskór: Ég var í þessum hér, Mammut Kento Guide High.
- Ullarsokkar, ég var í einum og með aðra í pokanum.
- Góð húfa: Ég á þessa hér frá DEVOLD.
Ég er síðan með Osprey Kyte 46 l bakpoka og í honum var allt nesti, broddar, exi, skelbuxur og jakki, stóra dúnúlpan, hleðslukubbur, höfuðljós, hælsærisplástrar, verkjalyf, aukavettlingar og húfa, sólgleraugu, skíðagleraugu (mikið notuð), sólarvörn, varasalvi, legghlífar (ef snjórinn verður djúpur), göngustafir og eitthvað fleira sem ég ekki man, hahaha!
Ég er síðan alltaf líka með lítinn Osprey „Fanny Pack“ framan á mér því mér finnst gott að geyma þar síma, sólgleraugu, smá snarl, varasalva og annað smálegt til að þurfa ekki alltaf að fara í bakpokann.