Það er nú þónokkuð síðan ég útbjó þessa fótboltaköku fyrir son vinar míns en einhverra hluta vegna gleymdi ég alltaf að setja inn mynd af henni.
Eins og hvað ég er mikil sykurmassakerling þá er alltaf gaman að rifja upp gamla og góða takta með smjörkremi og stjörnustút. Ætli það sé svo ekki eins með kökutískuna eins og aðra tísku að þetta fer allt á endanum í hringi 🙂
Hér notaði ég Wilton-fótboltakökumót og notaðist við „Einföldu súkkulaðikökuna“ með smjörkremi (sjá uppskrift hér að neðan). Síðan er að lita kremið í þeim litum sem þarf að nota (grænt og svart) og halda eftir hluta fyrir hvíta partinn. Síðan er að notast við lítinn stjörnustút fyrir kökuna og pínulítinn hringlaga stút/klippa lítið gat á sprautupoka fyrir útlínurnar. Muna bara að sprauta stjörnunum þétt saman og á víxl eftir röðum svo ekkert sjáist í kökuna sjálfa.
Í stað þess að notast við þessar uppskriftir sem ég gef upp má alveg eins grípa í kökumix eins og Betty Crocker eða annað slíkt. Ég er alltaf reyndar hrifnust af smjörkreminu hér fyrir neðan en Betty hvíta kremið er alveg ágætt í svona lagað svo lengi sem svolítið af flórsykri er bætt við til að þykkja það, annars lekur það niður þegar stjörnurnar eru sprautaðar 🙂
Smjörkrem
125gr smjör (mjúkt)
500gr flórsykur
1 egg
2 tsk vanilludropar
3 msk sýróp