Maltesers kaka



Það var hún Auðbjörg vinnufélagi minn og vinkona sem skoraði á mig að útbúa þessa köku fyrr í vetur eftir að hafa séð hana á erlendri bloggsíðu. Ég gat auðvitað ekki annað en orðið að ósk hennar einn daginn og mætti með þessa köku í vinnuna, henni og fleirum til mikillar gleði 🙂

Hér fyrir neðan er uppskriftin en ef þið viljið fremur notast við aðra súkkulaðikökuuppskrift/krem á milli er það í fínu lagi líka. Þessi skreyting með súkkulaðihjúp og Maltesers kemur einstaklega vel út og er bæði augnayndi ásamt því að vera algjört góðgæti.

Kaka

  • 1 bolli púðursykur
  • ¾ bolli mjólk
  • 125gr smjör
  • 1 ¼ bolli hveiti
  • 1½  tsk lyftiduft
  • ½  tsk salt
  • ½ bolli bökunarkakó
  • 3 egg

Súkkulaðihjúpur

  • 300gr saxað suðusúkkulaði
  • ½ bolli rjómi
  • 30gr smjör

Krem

  • 185gr smjör við stofuhita
  • 2 ¼ bolli flórsykur
  • 1 msk mjólk
  • 2 msk súkkulaðihjúpur (uppskrift hér að ofan)

Skraut

  • Maltesers (um 500gr)

Aðferð – kaka

  1. Hitið ofninn 160 gráður og smyrjið um 20cm kökuform með smjöri. Setjið smjörpappír í botninn og hliðarnar.
  2. Setjið púðursykur, mjólk og smjör í pott og hitið á miðlungshita í nokkrar mínútur þar til blandan er slétt og fín, setjið í hrærivélarskálina.
  3. Blandið hveiti, lyftidufti, salti og bökunarkakói varlega saman við og skafið niður á milli.
  4. Setjið eggin útí, eitt í einu og blandið vel.
  5. Hellið í kökuformið og bakið í um 55 mínútur eða þar til prjóni sem stungið er í kökuna miðja kemur hreinn út.

Aðferð – súkkulaðihjúpur

  1. Setjið súkkulaði, rjóma og smjör í skál og bræðið yfir vatnsbaði, hrærið mjög reglulega í blöndunni þar til hún verður jöfn og fín. Geymið við stofuhita í um 1-1,5 klst þar til hjúpurinn verður þykkur og glansandi.

Aðferð – krem

  1. Setjið smjörið í hrærivélarskálina og þeytið þar til létt og ljóst. Bætið þá flórsykri og mjólk útí og þeytið áfram þar til blandan verður létt í sér. Bætið 2 msk af súkkulaðihjúpnum útí kremið.

Samsetning

  1. Skerið kökuna í 4 lög með kökuskera/hníf/tvinna.
  2. Smyrjið kreminu jafnt á milli botnanna og reynið að fylla jafnt út á kantana svo kakan verði slétt og fín að utan (ekki er nauðsynlegt að setja krem ofaná eða alveg á hliðarnar)
  3. Kælið kökuna í um klukkustund.
  4. Setjið hjúpinn sem hefur þykknað og fengið á sig glansandi yfirbragð á kökuna.
  5. Raðið Malteserskúlum þétt yfir alla kökuna. Gott er að notast við einnota gúmmíhanska því annars koma „fingraför“ í kúlurnar. Ef hjúpurinn storknar of hratt til þess að kúlurnar festist við hann er hægt að dýfa hverri kúlu í smá afgangs hjúp/bráðið súkkulaði og festa hana þannig 🙂

One Reply to “Maltesers kaka”

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

Flokkar

0
    0
    Karfan þín
    Karfan er tómNetverslun