Tengdapabbi varð sjötugur um daginn og voru systkinin fimm og „viðhengi“ með dýrindis veislu hér í Laxatungunni eftir skemmtilega „óvissuferð“. Ég fékk að sjálfsögðu að sjá um eftirréttinn og þar sem ég er mjög mikið fyrir súkkulaðimús ákvað ég að prófa eitthvað nýtt í þeim efnum. Ég gerði bæði dökka og hvíta mús og útbjó röndótt mynstur eins og myndin sýnir. Þetta er alls ekki eins flókið og það lítur út fyrir að vera svo ég hvet alla til að prófa þessa uppskrift um helgina.
Þessi uppskrift dugði í 10 glös eins og myndin sýnir og afgangurinn fór í skál sem við vinkonurnar gæddum okkur á síðar í vikunni við brúðkaupsundirbúning einnar okkar. Það er því mögulegt að 1/2 uppskrift dugi ykkur, fer eftir fjölda í mat 🙂
Hluti með dökku súkkulaði
- 300gr suðusúkkulaði
- 50gr smjör
- 5 dl rjómi (1/2 líter)
- 50gr sykur
- 3 egg
Hluti með hvítu súkkulaði
- 300gr hvítt súkkulaði
- 50gr smjör
- 5 dl rjómi (1/2 líter)
- 50gr sykur
- 3 egg
Aðferð – súkkulaðimús (sama aðferð við báða liti)
- Bræðið súkkulaði og smjör yfir vatnsbaði, kælið örlítið.
- Þeytið rjómann og leggið til hliðar.
- Þeytið egg og sykur þar til létt og ljóst.
- Hellið súkkulaðiblöndunni varlega í eggjahræruna.
- „Vefjið“ þeytta rjómanum varlega saman við allt saman þar til jafnt og fínt.
- Hellið til skiptis í glös/skálar og leikið ykkur með litina. Hægt er að gera hana röndótta, líka með marmaraáferð eða hvernig sem ykkur dettur í hug. Einnig er hægt að hella súkkulaðiblöndunum í stóra skál í stað þess að setja í nokkrar litlar.
- Kælið í að minnsta kosti 3 klukkustundir eða yfir nótt (plastið).
- Skreytið með þeyttum rjóma, súkkulaðisósu (ég notaði bara íssósu í þetta skiptið) og súkkulaðiskrauti/súkkulaðispæni.
Aðferð – Súkkulaðiskraut
- Bræðið súkkulaðihjúp yfir vatnsbaði á vægum hita þar til bráðið.
- Setjið í sterkan poka/sprautupoka og klippið lítið gat/notið lítinn hringlaga sprautustút.
- Sprautið zik-zak á bökunarpappír og svo aftur yfir í hina áttina, látið storkna. Gott er að hafa bökunarpappírinn á bretti sem hægt er að færa í ísskáp til að flýta fyrir ferlinu.
- Þegar storknað er gott að brjóta niður skraut í þeirri stærð sem þið óskið.