Sól og sumri fylgir óneitanlega meira ísát á þessu heimili og ekki þykir okkur verra ef hægt er að bera ísinn fram í skemmtilegum skálum/glösum. Þannig verður hann enn meira spennandi og mögulega betri á bragðið líka 🙂
Þessar krúttlegu ísskálar eru úr plasti og fékk ég þær í Nettó í Mjódd. Mig minnir að þær hafi allar fjórar kostað undir þúsund krónum og það sem þær vöktu mikla lukku á þessu heimili skal ég segja ykkur!
Að þessu sinni pöntuðu dæturnar bananasplitt og þar sem við vildum auðvitað nota nýju skálarnar ákváðum við að láta hugmyndarflugið ráða.
Við skreyttum ískex, útbjuggum heita Dumle-karamellusósu, skárum banana til helminga og röðuðum svo öllu saman.
Dumle íssósa (dugar í 4 -6 skálar)
- 1 poki Dumle karamellur
- 1/2-1 dl rjómi (eftir því hversu þykka þið viljið sósuna)
- Setjið karamellur og rjóma í pott, hitið á lágum hita og hrærið vel þar til allt hefur bráðnað.
Skreytt ískex
- Ískex að eigin vali 8-10stk
- 100gr dökkt bráðið súkkulaði
- Kökuskraut að eigin vali
- Dýfið ískexinu í brætt súkkulaðið og leggið á bökunarpappír
- Skreytið með kökuskrauti
Annað sem þarf
- Ís að eigin vali (c.a 2 kúlur í hverja skál)
- Banani (1/2 í hverja skál)
Allt hráefni í þessa uppskrift fæst í Nettó