Þjóðhátíðarkakan



Þar sem Þjóðhátíðardagurinn er við það að ganga í garð ákvað ég að setja hér inn hugmynd að smjörkremsskeytingu fyrir þá sem gætu viljað útbúa eitthvað fallegt í kaffinu þann 17.júní.

Hér er á ferðinni hefðbundin súkkulaðikaka í 6 lögum (bakaði í 3x 20cm formum að þessu sinni og tók hvern botn svo í tvennt).

Kakan er síðan skreytt með smjörkemi og hringlaga stút, mikilvægt að hafa 3 eins stúta og sitthvorn pokann fyrir hvern lit. Kreminu er sprautað í jafnar doppur og svo dregnar út með spaða, gerist ekki einfaldara og samt svo ótrúlega fallegt.

  • Súkkulaðismjörkrem er sett á milli laga og dugar einföld uppskrift í það (sjá uppskrift hér að neðan).
  • Þunnu lagi af hvítu smjörkemi er smurt utan á kökuna og síðan er hafist handa við að sprauta doppur og draga þær út með spaða. Tvöfaldri uppskrift er skipt niður í 3 liti (mest af hvítum því fyrst þarf að þekja með honum). Athugið að það þarf vel af rauðum og bláum matarlit til að ná fram skörpum lit.

Súkkulaðikaka

  • 3 bollar púðursykur
  • 250gr mjúkt smjör
  • 4 egg
  • 2 tsk vanilludropar
  • 2 2/3 bolli hveiti
  • 3/4 bolli bökunarkakó
  • 1 matskeið matarsódi
  • 1/2 tsk salt
  • 1 1/3 bolli sýrður rjómi (í lagi að nota súrmjólk í staðinn)
  • 1 1/3 bolli sjóðandi vatn

Aðferð

  1. Þeytið saman púðursykur og smjör þar til létt og ljóst.
  2. Bætið eggjunum samanvið, einu í einu, skafið niður á milli.
  3. Þeytið þessa blöndu á háum hraða þar til loftkennd og bætið þá vanilludropunum útí.
  4. Blandið saman þurrefnunum (hveiti, kakó, matarsóda og salti) og blandið saman við til skiptis við sýrða rjómann.
  5. Hrærið rólega þar til vel blandað og bætið þá sjóðandi vatninu samanvið.
  6. Skiptið niður í kökuform (3 x um 20cm form og svo er hvor botn tekinn í 2 með tvinna/kökuskera)
  7. Bakið í um 35 mínútur við 170 gráður.

Súkkulaðismjörkrem – á milli botna

  • 125gr smjör (mjúkt)
  • 500gr flórsykur
  • 1 egg
  • 2 tsk vanilludropar
  • 2 msk sýróp
  • 4msk bökunarkakó
  1. Setjið öll hráefnin nema flórsykur og kakó í hrærivélarskálina og hrærið vel saman.
  2. Blandið flórsykri og kakó saman og bætið varlega útí blönduna, skafið niður á milli og hrærið þar til kremið er slétt og fellt.
  3. Ef kremið er of stíft til að bera á milli botnanna má bæta smá vatni samanvið.

Vanillusmjörkrem – til að skreyta kökuna með (1,5-2 uppskrift af þessu)

• 125gr smjör (mjúkt)
• 500gr flórsykur
• 1 egg
• 2 tsk vanilludropar
• 2 msk sýróp

  1. Setjið öll hráefnin nema flórsykur í hrærivélarskálina og hrærið vel saman.
  2. Bætið flórsykri varlega útí blönduna, skafið niður á milli og hrærið þar til kremið er slétt og fellt.
  3. Skiptið í 3 skálar og litið með hvítu, rauðu og bláu.
  4. Notið hringlaga stúta sem eru á bilinu 1-1,5cm í þvermál og svo lítinn spaða til að draga úr hverri doppu.

Allt hráefni í þessa uppskrift fæst í Nettó

3 Replies to “Þjóðhátíðarkakan”

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

Flokkar

0
    0
    Karfan þín
    Karfan er tómNetverslun