Dóttir minni finnast hnetustykki góð í nestisboxið. Henni finnast rúsínur/ber hins vegar ekki neitt alltof góð í slíkum stykkum svo hún fann uppskrift á netinu (man ekki hvar) og útbjó sín eigin stykki um daginn.
Þau voru stökk og góð og þrátt fyrir smá sýrópshjúp eru þau hollari en margt annað sem í nestisboxið er látið!
Hnetustykki uppskrift
- 1 ½ bolli möndlur
- ¾ bolli salthnetur
- ¾ bolli valhnetur
- ½ bolli braselíu hnetur
- ½ bolli Rice Krispies
- 1 msk chia fræ
Sýróp
- ½ bolli hunang
- 1/3 bolli sýróp (ljóst)
- ¼ tsk salt
- 1 tsk vanilludropar
- Dreifið hnetunum á bökunarpappír á plötu, ristið í um 10 mín við 200 gráður. Fylgist vel með og passið að brenna þær ekki.
- Saxið hneturnar í grófa bita þegar þær koma úr ofninum.
- Spreyið skál með matarolíuspreyi og hellið hnetunum ásamt Rice Krispies og chia fræjum þar í (gert til þess að koma í veg fyrir að sýrópið festist við skálina þegar því er hellt yfir).
- Útbúið sýrópið: Setjið öll hráefnin saman í pott og látið suðuna koma upp, leyfið að bubbla á meðalhita í um 5 mínútur og hrærið stanslaust í á meðan.
- Hellið sýrópinu yfir hnetublönduna og snúið nokkrum sinnum með sleif þar til vel blandað.
- Leggið bökunarpappír í ferkantað form um 20x20cm og hellið blöndunni þar í. Þrýstið með fingrunum þar til þið hafið fyllt út í formið og notið svo botninn á glasi til að þjappa þessu betur niður og mynda sléttari áferð.
- Leyfið að kólna á borðinu í um 15 mínútur og skerið svo í bita (hluti hjá okkur molnaði og settum við þá bita bara í sérskál en leyfðum þeim heilu að halda sér).
Þessi var ánægð með afraksturinn og við geymdum stykkin í smjörpappírsklæddu boxi með smjörpappír á milli laga til þess að þau festust ekki saman. Einnig væri hægt að vefja hverju og einu stykki inn í smjörpappír og geyma þannig.
Allt hráefni í þessa uppskrift fæst í Nettó