MyntukransÆtli það séu ekki um 15 ár síðan mamma hennar Ingu vinkonu kenndi okkur að gera nammikrans fyrir jólin. Það er ansi langt síðan ég hef föndrað einn slíkan svo nú ákvað ég að útbúa fallegan silfraðan krans.

Ég keypti járnhring í Föndurlist í Holtagörðum (20cm og 16cm í þvermál) ásamt spotta og borða til að útbúa slaufu. Síðan keypti ég Fazer mint súkkulaðimola í Hagkaup þar sem þeir eru guðdómlega gómsætir og jólalegir. Silfruðu umbúðirnar henta afar vel í svona krans og þó svo ég hafi keypt silfraða slaufu mætti hún allt eins vera græn. Um 1,2kg af súkkulaðimolum fóru í stærri hringinn (eins og á myndinni) og um 1kg í þann minni.

Fazermint

Mikilvægt er að hnýta og vefja þétt og fast. Byrjið á því að taka um 1meter af spotta og hnýtið fast við hringinn. Útbúið síðan lykkju fyrir hvern mola, stingið honum í gegn og dragið spottann þétt að, eins nálægt járnhringnum og hægt er. Vefjið síðan aukahring um hringinn sjálfan með sælgætisbréfinu á milli til að ná molunum alveg upp við hringinn. Endurtakið og þéttið mjög vel og ég þurfti að endurnýja spottann 2-3 x til að ná að hnýta sælgæti allan hringinn. Útbúið slaufu sem ykkur þykir falleg eða kaupið tilbúna slaufu og festið á hringinn þar sem hann kemur til með að hanga uppi. Við mæðgur áttum notalega kvöldstund við þessa iðju og er ég ekki frá því að sú stutta hafi vandað sig enn frekar en móðirin og hringurinn hennar var ótrúlega flottur.

Einnig sá ég aðferð þar sem hægt er að klippa um 10cm spotta af jólakrullubandi og binda hvern og einn mola við þannig og krulla síðan uppá bandið sem stendur út af. Þetta ætla ég að leyfa 6 ára dóttur minni að prófa þar sem hin aðferðin er mögulega aðeins of erfið fyrir litla fingur en þó mögulega ekki. Það er nefnilega líka frekar krúttlegt að sjá silfrað krullubandið koma inn á milli sælgætismolanna svo þið veljið þá aðferð sem þið teljið að muni henta betur.

Góða skemmtun!

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

Flokkar

0
    0
    Karfan þín
    Karfan er tómNetverslun