Um daginn vildi dóttir mín fá að baka eplapæ þegar hún kom heim úr skólanum og á hún heiðurinn af þessari fallegu hjartalaga köku. Þetta er eflaust ein einfaldasta uppskrift af einni slíkri sem hugsast getur og þarf lítið fyrir henni að hafa. Ég áttaði mig hins vegar á því að ég hef aldrei sett inn uppskriftina hér svo hvernig væri nú að skella í eina svona með jólakaffinu um helgina.
Eplapæ
- 100gr smjör við stofuhita
- 100gr hveiti
- 100gr sykur
- 3 epli (jonagold finnast mér best eða græn)
- 100gr saxað suðusúkkulaði/súkkulaðidropar
- Kanelsykur eftir smekk
- Skerið eplin í þunnar sneiðar og geymið.
- Saxið súkkulaðið og útbúið kanelsykur.
- Blandið saman smjöri, hveiti og sykri þar til deig hefur myndast.
- Smyrjið eldfast mót og setjið um 2/3 af deiginu í botninn og upp á kantana.
- Raðið eplaskífunum yfir allt í nokkrum lögum og stráið kanelsykri yfir á milli.
- Setjið um 2/3 af súkkulaðinu ofaná síðasta eplalagið.
- Myljið afgangsdeigið yfir eplin og stráið svo restinni af súkkulaðinu yfir í lokin.
- Bakið við 180°C í um 30-40 mínútur eða þar til kakan er orðin gyllt og falleg.
- Best finnst mér að bera kökuna fram heita með ís og rjóma.