
Það er fátt betra en góðir pastaréttir. Ég veit ekki hversu oft ég hef reddað mér með pasta þegar mér finnst ekkert til í ísskápnum og úr verður dýrindis máltíð. Þessi réttur inniheldur fá hráefni og það tekur aðeins um 20 mínútur að útbúa hann. Þessi uppskrift er því súpereinföld, fljótleg og dúndurgóð á bragðið.

Lillý vinkona kann að elda ítalskan mat upp á 10 og þessi uppskrift kemur úr hennar smiðju. Hún hefur meira að segja áður orðið fræg en það var skorað á Lillý í Stykkishólmspóstinum um árið og þangað fór þessi dásemd. Nú kemur hún hins vegar hingað inn til þess að leyfa alþjóð að njóta hennar.

Þið getið stillt styrkleikann með magni af chili en það er einnig chilibragð af tómatmaukinu sjálfu svo hún rífur örlítið í en það fer einstaklega vel með rjómanum á móti.

Sancho Panza „ala“ Lillý
Fyrir 4-6 manns
- 500 g penne pasta
- 50 g af grófu salti (til að sjóða pastað í, c.a 10 g fyrir hvern lítra af vatni)
- 2 hvítlauksgeirar
- 1 msk. ólífuolía
- 200 g beikon
- 1 x ferna Cirio Polpa Fine tómatmauk með chili
- ½ tsk. salt
- ½ tsk. sykur
- ¼ tsk. þurrkað chili
- 500 ml rjómi
- Parmesan ostur eftir smekk
- Sjóðið penne pasta í saltvatninu. Það er nauðsynlegt að halda suðu í pottinum og hræra öðru hvoru svo pastað festist ekki saman.
- Á meðan pastað sýður er sósan útbúin.
- Klippið beikonið niður í litla bita og steikið upp úr ólífuolíunni ásamt hvítlauksgeirunum þar til það verður stökkt.
- Takið þá hvítlauksgeirana upp úr, þeir eru bara notaðir til að gefa fitunni auka bragð.
- Hellið tómatmaukinu út á pönnuna, kryddið til og hellið rjómanum saman við. Leyfið þessu að malla á meðan pastað er að verða tilbúið.
- Chili er missterkt svo gott er að nota það varlega í byrjun og bæta frekar við eftir smekk.
- Sigtið vatnið af pastanu og hellið því út á sósuna og blandið öllu varlega saman.
- Gott er að strá parmesan osti yfir í lokin og bera fram með góðu hvítlauksbrauði.

Ég er aðeins búin að vera að prufa mig áfram með Cirio tómatmaukið í fernunum og verð að segja þetta er algjör snilld! Mun koma með fleiri uppskriftir hingað inn á næstunni sem innihalda þetta mauk og þið megið endilega senda á mig hugmyndir af uppskriftum ef þið lumið á einhverju sniðugu á gotteri@gotteri.is. Það er svo gaman að geta sagt sögur í kringum uppskriftir því ég er svo sannarlega ekki að finna þær allar upp!
Cirio tómatmauk í fernum fæst í Hagkaup, Nóatúni, Melabúðinni og í netverslun Heimkaupa.
Megið endilega fylgja Gotterí á INSTAGRAM