Áherslubreytingar hjá www.gotteri.is



Dagsferð í Landmannalaugar að Grænahrygg, mögnuð ganga með Fjallhalla Adventures

Kæru fylgjendur!

Eins og þið hafið líklega tekið eftir undanfarna mánuði þá hafa verið ákveðnar breytingar í gangi á heimasíðunni. Ég hef í auknum mæli verið með umfjallanir um veitingastaði, sett inn hugmyndir fyrir ferðalög, gistingu og fleira í þeim dúr. Nú stefni ég á að bæta við hugmyndum að gönguferðum á síðuna líka svo það má eiginlega segja að Gotterí og gersemar sé að breytast í „Matar & ævintýrablogg“. Með þessu er ég að sameina fleiri áhugamál mín á sama stað og deila hugmyndum með ykkur.

Síðan er því orðin persónulegri en hún var og ég fer að deila með ykkur ævintýrum og upplifunum fjölskyldunnar og vina okkar að einhverju leyti. Það er auðvitað stórt skref að taka og ég mun vanda mig eftir fremsta megni að skila ykkur góðum hugmyndum og umfjöllunum án þess þó að slíkt hafi áhrif á fólkið mitt.

Ég hef brennandi áhuga á ferðalögum og fjallgöngum, elska að elda, baka og mynda mat, veit fátt skemmtilegra en að halda veislur og mannfögnuði og hef alla tíð verið mikið skipulagsfrík þegar kemur að þessum málaflokkum. Að skipuleggja ævintýri og gæðastundir fyrir fólkið í kringum mig er í raun það skemmtilegasta sem ég geri.

Into The Glacier á Langjökli

Þegar ég byrjaði að deila hugmyndum með ykkur í vor fann ég hvað mér fannst það gaman. Ég hef fengið góð viðbrögð við því sem ég hef sett inn nú þegar og því hef ég ákveðið að halda áfram á þessari braut.

Uppskriftir, veisluhugmyndir og námskeið verða 150% áfram á sínum stað og kem ég ekkert til með að gefa eftir hvað þær áherslur varðar.

Súkkulaði ostakaka með Toblerone og Oreo

Matarupplifun & ævintýri er hins vegar nýr flokkur og skemmtileg viðbót á www.gotteri.is. Flokkurinn skiptist upp í „Matarupplifun“, „Ævintýri & ferðalög“, „Gistingu & veitingar“ og „Gönguferðir“.

Tómatsúpa, heimsókn í Friðheima , matarupplifun

Ég mun skrifa þessar færslur frá hjartanu og eigin reynslu í þeirri von að gefa ykkur skemmtilegar hugmyndir og góð ráð. Ég er enginn sérfræðingur í þessum efnum og við erum bara venjuleg fjölskylda sem elskum að skoða eitthvað nýtt og skemmtilegt og skapa góðar minningar.

Það er mín ósk að heimasíðan verði áhugaverðari fyrir vikið og þið ánægð kæru fylgjendur. Mér finnst gaman að fylgjast með ykkur á móti og þið megið endilega merkja Gotterí & gersemar á Instagram ef þið eruð eitthvað að bralla af síðunni minni. Síðan er líka alltaf að gaman að fá frá ykkur tölvupóst og skilaboð og þið megið endilega koma með hugmyndir að því sem betur má fara og hvað þið mynduð vilja sjá hér inni.

Takk kærlega fyrir lesninguna!

Berglind & fjölskylda

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

Flokkar

0
    0
    Karfan þín
    Karfan er tómNetverslun