Saumaklúbburinn



Matreiðslubókin Saumaklúbburinn uppskriftabók fyrir sælkera

LOKSINS – LOKSINS – LOKSINS

Þið vitið ekki hvað ég er spennt að segja ykkur frá þessari dásemd. Ég fékk þá flugu í höfuðið í upphafi árs að útbúa aðra matreiðslubók eftir að hafa verið höfundur að Veislubókinni í fyrra og tekið þátt í bókinni Vinsælustu uppskriftirnar frá vinsælum matarbloggurum. Það var einhver sem sagði að þegar maður byrjaði að skrifa bækur, gæti maður ekki hætt, svo það er spurning hvort það sé raunin eða hvort orðatiltakið „Allt er þegar þrennt er“ muni eiga hér við?

Bakaður ostur fyrir saumaklúbbinn eða matarboðið

Bókin mín, Saumaklúbburinn er semsagt mætt og hefur að geyma yfir 140 frábærar uppskriftir sem henta við ýmis tækifæri. Uppskriftirnar spanna allt frá salötum yfir í ostagóðgæti, aðalrétti, smárétti, kökur og kræsingar og koma úr ýmsum áttum. Auk hefðbundinna uppskrifta eru settir fram tíu fullbúnir saumaklúbbar hjá frábærum konum í kringum mig svo allir ættu að geta fundið hugmyndir og uppskriftir við hæfi.

Uppskriftir fyrir saumakúbbinn, uppskriftir fyrir matarboð, fljótlegir réttir, einfaldir réttir, góðir réttir

Það þarf að hafa mikinn áhuga og eldmóð fyrir mat, uppskriftagerð og veitingum til þess að fara út í matreiðslubókargerð. Slíkt ferli er gríðarleg vinna og eru óteljandi vinnustundir sem búa að baki. Að þessu sinni sá ég um allt ferlið frá A-Ö, hannaði uppskriftir, tók allar ljósmyndir og sá um hönnun og umbrot. Þetta voru mín fyrstu skref í umbroti og hefur ferðalagið frá hugmynd að prentun því verið heilmikill skóli og án dyggrar aðstoðar ákveðinna aðila hefði þetta ævintýri ekki gengið upp.

Fljótlegir og góðir réttir fyrir saumaklúbbinn

Það er nefnilega þannig að ég fæ ansi margar hugmyndir upp í kollinn daglega, klárlega misgóðar, en hef alltaf trú á því að ég geti allt sem mig langar til. Ég hugsa það sé góður kostur þó svo fljótfærni mín komi mér stundum í bobba. Ég trúi því samt að það sé betra að stökkva en hrökkva því það er eflaust ekkert verra en tilhugsunin um að hafa alltaf ætlað að prófa hitt og þetta en ekki gert það.

Girnilegar uppskriftir fyrir saumaklúbb, ostar, kex, salöt, matur ýmislegt góðgæti

Ég elska að stússast í eldhúsinu, búa til góðar uppskriftir, bjóða í kaffi, kvöldmat og allar veislur. Ég fæ fiðring í magann við tilhugsunina um að gera eitthvað gómsætt og gleðja fólkið í kringum mig með góðum veitingum og óvæntum ævintýrum. Ég hef verið svona frá því ég man eftir mér svo þetta litla áhugamál mitt hefur heldur betur undið upp á sig og nú gefið af sér þessa dásamlegu matreiðslubók.

Saumaklúbburinn uppskriftir

Skál fyrir því!

Saumaklúbbsmatur, réttir og uppskriftir

Ég vona svo innilega þið eigið eftir að elska þessa yndislegu bók jafn mikið og ég og njóta þess að galdra fram hennar gómsætu uppskriftir.

Matreiðslubók, Saumaklúbburinn uppskriftarbók

Í bókinni eru ýmsar nýjungar í uppskriftagerð og mikið af hugmyndum sem ég hef aldrei prófað áður á blogginu. Mér fannst mikilvægt að reyna að höfða til sem flestra með fjölbreytni og það tókst svo sannarlega að mínu mati. Vinkonur mínar gerðu grín að mér og sögðu að þetta væri eflaust efni í margar bækur en þarna er þetta allt saman komið, fyrir ykkur að njóta, í einni bók!

Matreiðslubók, Saumaklúbburinn uppskriftarbók

Það voru 10 vinkonur mínar sem tóku þátt í því að gera þessa bók fullkomna og ég tileinka þeim risastóran kafla í lok bókarinnar sem heitir „Í heimsókn…“. Þar fór ég nefnilega í heimsókn til þeirra þar sem þær voru búnar að útbúa sína uppáhalds rétti fyrir heimboð, myndaði dásamlegheitin og fékk hjá þeim uppskriftir. Þessi hluti bókarinnar hefði ekki getað heppnast betur og virkilega gaman fyrir lesendur að sjá hvernig hægt er að raða saman mismunandi veitingum fyrir svipuð tilefni, allt eftir því hvað hugurinn girnist hverju sinni.

Uppskriftir fyrir saumaklúbb

Ég verð þakklát og meyr þegar ég hugsa um allt góða fólkið sem stóð við bakið á mér við gerð þessarar bókar og ég veit ekki hvernig ég get þakkað nægilega vel fyrir mig. Ég gæti eflaust setið hér og skrifað endalaust eitthvað fallegt en þá myndi líklega enginn lesa mikið lengra. Ég ætla því að setja punktinn hér í bili en mín heitasta ósk er sú að þessari fallegu bók verði flett inn á heimilum landsmanna um ókomna tíð og gefi af sér gleði og gæðastundir.

Bókin fæst hér á www.gotteri.is, í helstu verslunum Pennans og í Fjarðarkaup. Einnig er hún á leiðinni í fleiri verslanir og mun ég kynna þær fyrir ykkur síðar.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

Flokkar

0
    0
    Karfan þín
    Karfan er tómNetverslun