
Það er ekki oft sem fermt er að hausti svo ferming sem á sér stað 6.september verður hreinlega að fá heitið „Haustferming“!

Gunnar fermingarstrák hef ég þekkt frá því hann fæddist og veit ég það er búið að vera erfitt fyrir bæði fermingarbörn og aðstandendur að vera í óvissu með vígslu sem og veislu. Foreldrar hans tóku ákvörðun um að halda litla veislu fyrir þá nánustu til þess að geta haldið upp á þennan fallega dag með pompi og prakt þó svo upphaflega hafi staðið til að halda mun stærri veislu í veislusal.

Lukka vinkona er auðvitað algjör snillingur þegar kemur að veisluhöldum. Hún er ein af þeim sem hefur gott auga fyrir að raða öllu fallega saman og hef ég sjaldan séð eins girnilegt veisluborð og í fermingarveislunni hans Gunnars.

Eldhúseyjan var undirlögð fyrir helstu veitingar en síðan var Lukka búin að nostra við smáatriði um allt hús eins og henni einni er lagið. Popp-bar var á hillunum inn í stofu, nammskálar um allt, spritt, blöðrur og önnur fallegheit.

Gestabók, kerti og mynd á veggborðinu, svo fallegt allt saman og ég átta mig á því þegar ég skrifa þessa færslu að gestabókina gleymdi ég að skrifa í, hihihi!

Blóm í vösum hér og þar um húsið og fallega skreyttar nammiskálar!

Kaffihornið í eldhúsinu!

Þá að hlaðborðinu. Allar veitingar voru aðkeyptar fyrir utan kökurnar og ostabakka. Lukka sá um að baka makkarónurnar og setja saman ostabakka og ég gerði fermingarterturnar ásamt kransakökunni.

Við verðum að leyfa sögunni um kransakökuna að fylgja hér með en hún var gerð í vor fyrir Fermingarblað Morgunblaðsins, plöstuð létt og sett í plastkassa í frystikistuna hjá Lukku og Baldri í 3 hlutum. Lukka fórnaði nokkrum löxum úr veiðiferðum Baldurs sem þar lágu til þess að kakan fengi sitt pláss, og þar átti hún að lúra örfáar vikur fram að fermingu. Þessar vikur urðu að mánuðum og við hugsuðum hvort við þyrftum ekki að gera nýja köku nú þegar september nálgaðist. Ákváðum hins vegar að láta á þetta reyna og viti menn, kakan var eins og ný og undur ljúffeng. Nú verða því kransakökur bakaðar með nokkurra mánaða fyrirvara fyrir komandi fermingar til að létta á álaginu þegar nær dregur, hahaha!

Ég bakaði tvær kökur, eina sem samanstóð af 3 x 15 cm súkkulaðibotnum og aðra úr 3 x 20 cm botnum. Á milli setti ég vænt lag af Oreo-smjörkremi og skreytti með ferskum blómum, súkkulaðiskrauti í stíl við kransakökuna og fleiru smálegu.

Lukka er hér með krýnd makkarónumeistari því þessar voru bæði fallegar og gómsætar!

Sörur frá Eygló mömmu hans Baldurs voru dásamlegar og minna mann á að það ætti að gera þær oftar en bara í kringum hátíðirnar.

Hér er fallegur ostabakki sem Lukka útbjó og hér fyrir neðan kemur sýnishorn af þeim ljúffengu veitingum sem voru í boði.

Vaffla með önd.

Brauð með gröfnum laxi!

Kjötbollur slá alltaf í gegn hjá ungum sem öldnum.

Innbakað lambafile með bernaise, namm!

Butterfly rækjur.

Kjúklingaspjót með mangósósu.

Snittur með ostasalati og beikoni, algjör snilld sem ég þarf að leika eftir hér á blogginu fljótt.

Hörpuskelin fallega og góða sem ég má ekki snerta sökum óþols og á mjög bágt með, en hún fékk sannarlega góða dóma frá öðrum sem hana smökkuðu!

Nautakjöt í mini vefju, hrikalega gott.

Djúsí mini hamborgarar.

Það er svo fallegt að raða veitingum upp á nokkrar hæðir á fallega standa. Þórunn vinkona okkar sem á Multi by Multi hannaði þessa dásamlegu svörtu standa og þá má einnig leigja hjá henni.

Drekkhlaðið veisluborð…..namm!

Gómsætur matur hvert sem litið er.

Ég er svo þakklát vinum mínum fyrir að leyfa mér að laumast með myndavélina til þeirra áður en veislur hefjast og deila með ykkur hugmyndum og fallegheitum hjá þeim!
Það er brátt komið heilt ár síðan ég fékk sjálf að halda veislu og almáttugur minn, það tekur alveg á að mega ekkert veislustússast fyrir konu eins og mig í heimsfaraldri, hahaha!