
Mér finnst fátt skemmtilegra en að raða saman ostabökkum og útbúa ljúffengar veitingar fyrir þá sem mér þykir vænt um. Það sem er gott við ostabakka er að það þarf ekki endilega að hafa mikið fyrir því að útbúa gómsætan slíkan sé maður með rétta hráefnið og lunkinn við að raða saman góðgæti. Fallegur borðbúnaður, bretti, skálar og dúllerí toppar síðan auðvitað gleðina við að útbúa svona dásamlegheit.

Hér er ég búin að raða saman á ostabakka, baka einn ost og útbúa skinkusalat. Veitingar sem þessar henta fullkomlega í saumaklúbbinn eða hvers kyns hitting. Með fjölbreyttu hráefni finna allir eitthvað við sitt hæfi.

Ég er yfir mig ástfangin af nýja Iittala Aalto trébrettinu mínu sem og þessum fallegu Bitz vörum sem sjást í þessari færslu. Ég er að minnsta kosti þeirrar skoðunar að góðar veitingar verða enn betri ef þær eru bornar fram á/í fallegum ílátum.

Hér má sjá einfalt og gott skinkusalat, pistasíur og rjómaost með bláberjasultu og bláberjum í fallegu skálunum frá Bitz. Þær koma þrjár í pakka og henta fullkomlega fyrir svona veitingar. Þær eru einnig sniðugar fyrir snakk, sælgæti, sultur og annað. Bitz vörurnar fást í miklu úrvali í Húsgagnahöllinni og fleiri verslunum um land allt.

Skinkusalat með graslauk
- 6 harðsoðin egg
- Um 200 g skinka
- 70 g majónes
- 50 g rjómaostur með graslauk
- 3 msk. saxaður graslaukur
- Salt og pipar eftir smekk
- Skerið eggin með eggjaskera á tvo vegu í stóra skál.
- Skerið skinkuna í litla bita og bætið saman við.
- Hrærið saman majónesi og rjómaosti og blandið síðan öllum hráefnum vel saman með sleif.
- Kryddið eftir smekk og berið fram með góðu kexi eða brauði.

Það passar ótrúlega vel að nota brie ost, raða á hann berjum, hella smá sýrópi yfir og rífa síðan súkkulaði yfir allt, namm!

Bakaðir ostar eru sívinsælir og þessi hér er einn sá besti!
Bakaður ostur með pekanhnetum
- 1 Dala Auður
- 50 g saxaðar pekanhnetur
- 4 msk. agave sýróp
- 2 msk. púðursykur
- Cheyenne pipar af hnífsoddi
- Hitið ofninn í 190°C.
- Komið ostinum fyrir í eldföstu móti og bakið í um 10 mínútur, útbúið pekanhnetubráðina á meðan.
- Setjið sýróp, sykur og cheyenne pipar í pott og hrærið þar til sykurinn er bráðinn.
- Bætið pekanhnetunum saman við í lokin og hellið yfir ostinn um leið og hann kemur úr ofninum.
- Berið fram með góðu kexi eða brauði.

Það er gott að hafa salt og pipar við hendina þegar ostar, álegg, ávextir og brauðmeti er annars vegar til þess að hver og einn geti kryddað sína bita til eftir smekk. Þessar Bitz kvarnir eru alveg hreint dásamlegar og fást einnig í Húsgagnahöllinni og víðar.

Já takk, það má alltaf bjóða mér í svona veislu!

Salt- og piparkvarnirnar frá Bitz koma í ýmsum litum og eru undurfallegar.

Skálasettin eru einnig til í fleiri litum og stærðum, mér finnast þessi sett algjör snilld!

Nýja Iittala Aalto viðarbrettið er einnig til í tveimur stærðum en brettið sem sést í þessari færslu, drekkhlaðið góðgæti er minni týpan.

Hægt er að kaupa hluta af vörunum sem sjást í þessari færslu með bókinni Saumaklúbburinn hér í netversluninni.