Það er svo sannarlega farið að hausta og þá dett ég í allt annan gír í eldhúsinu! Ég hef lengi ætlað að setja uppskrift af hægelduðum lambaskönkum hingað inn fyrir ykkur.

Loksins er hún hér komin í uppáhalds pottinum mínum sem er fullkominn fyrir svona lagað! Le Creuset pottarnir frá Byggt & Búið henta afskaplega vel fyrir hægeldaðan mat, pottrétti, súpur og og og og……..

Þessir skankar voru algjörlega guðdómlegir og ég mæli svo mikið með því að þið prófið. Kartöflumúsin fer síðan undurvel með þessari uppskrift, namm!

Hægeldaðir lambaskankar
Fyrir 5-6 manns
Lambaskankar
- 5-6 lambaskankar (eftir stærð)
- 1 saxaður laukur
- 3 saxaðar gulrætur
- 3 rifin hvítlauksrif
- 140 g tómatpaste
- 1 dós hakkaðir tómatar (400 g)
- 600 ml nautasoð
- 3 greinar rósmarín
- 1 msk. ferskt timian
- 100 ml rauðvín
- Salt, pipar og lambakjötskrydd
- Ólífuolía til steikingar
- Smjör til steikingar
- Hitið ofninn í 175°C.
- Byrjið síðan á því að steikja skankana upp úr vel af matarolíu og krydda eftir smekk. Ég steikti þá í pottinum í tveimur hlutum, 3 og 3 í einu. Geymið þá síðan á disk á meðan þið útbúið sósuna.
- Bætið nú vænni klípu af smjöri í pottinn og steikið lauk og gulrætur á meðalhita í um 10 mínútur. Bætið hvítlauknum þá saman við og steikið áfram í nokkrar mínútur.
- Blandið tómatpaste næst út á pönnuna og síðan hökkuðum tómötum, nautasoði, rósmaríngreinum og söxuðu timian (geymið rauðvínið þar til síðar).
- Leyfið þessu að malla stutta stund, bætið skönkunum aftur í pottinn, setjið lokið á og inn í ofn í 2 klukkustundir.
- Að þeim tíma liðnum má taka skankana varlega uppúr, bæta rauðvíninu í sósuna og hræra hana upp að nýju, leyfa henni að malla á hellunni í um 5 mínútur. Þá má setja skankana aftur útí og bera fram með kartöflumús.
Kartöflumús
- Um 1,2 kg kartöflur
- 30 g smjör
- 150 ml mjólk
- 80 ml rjómi
- 1 msk. sykur
- Salt, pipar og timian eftir smekk
- Rifinn parmesan, sé þess óskað
- Sjóðið kartöflurnar og takið annað hráefni til.
- Þegar kartöflurnar eru orðnar mjúkar má flysja þær og setja í góðan pott við lágan hita.
- Ég notaði kartöflustappara en það er líka hægt að setja vel soðnar kartöflur í hrærivél og gera þetta þar.
- Stappið saman kartöflur og önnur hráefni. Kryddið til eftir smekk og gott er að rífa parmesanost, bæði saman við músina og aftur yfir hana sé þess óskað.

Mmmmmm, hversu girnilegt er þetta!
Ég er með 26 cm Le Creuset pott og pössuðu sex skankar í minni kantinum vel í hann. Ég steikti 3 og 3 í einu í upphafi og svo fóru þeir allir ofan í sósuna og inn í ofn.

Það sem er síðan svo frábært við þessa uppskrift er að hún er mjög einföld og tekur alls ekki langan tíma að undirbúa. Það er í rauninu bara öllu skellt í pottinn og látið malla með lokið á í tvo klukkutíma í ofninum. Á meðan er hægt að ganga frá öllu sem tengdist undirbúningnum, útbúa kartöflumúsina, leggja á borð og hafa það huggulegt.

Megið endilega fylgja Gotterí líka á INSTAGRAM