
Pestópizza er frábær tilbreyting frá hinni hefðbundnu pizzu. Ég meina, hver sagði það þyrfti að vera pizzasósa á pizzu?

Þessi pestópizza var algjört dúndur og ég hlakka til að prófa frekari útfærslur af svona pizzum í framtíðinni. Það má auðvitað setja hráskinku, salami eða annað kjötálegg ofan á þessa pizzu þegar hún kemur úr ofninum fyrir þá sem slíkt vilja en mér fannst hún æðisleg þó ekkert kjötálegg væri á henni!

Pestópizza
Botnar
- 700 g hveiti
- 1 pk þurrger (11,8 g)
- 1 tsk. salt
- 400 ml volgt vatn
- 4 msk. ólífuolía
- Setjið öll þurrefnin saman í skál og blandið saman.
- Hellið volgu vatni ásamt ólífuolíu saman við og hnoðið þar til deigkúla hefur myndast.
- Setjið deigið í skál sem búið er að pensla að innan með matarolíu, plastið og leyfið að hefast í um klukkustund.
- Skiptið deiginu niður í 5-7 hluta og fletjið út nokkrar pizzur (9-12“) og setjið áleggið á.
Álegg
- 2 ½ krukka af Sacla pestó með basilíku (um 450 g)
- 300 g kastaníusveppir
- 40 g smjör
- 1 rauðlaukur
- Rifinn ostur
- 2 dósir mozzarellakúlur með basilíku (2 x 180 g)
- Sólþurrkaðir tómatar frá Sacla
- Klettasalat
- Kasjúhnetur (saxaðar gróft)
- Fersk basilíka
- Sacla ólífuolía með basilíku
- Salt, pipar og hvítlauksduft
- Skerið sveppina niður og smjörsteikið þá við miðlungs hita þar til þeir mýkjast örlítið, kryddið til með salti, pipar og hvítlauksdufti, leggið til hliðar.
- Penslið vel af pestó á hvern pizzabotn og raðið næst smjörsteiktum sveppum og rauðlauk yfir.
- Rífið næst ost yfir allt saman og bakið við 225°C í um 10 mínútur eða þar til botninn fer að gyllast í köntunum. Raðið þá mozzarella kúlunum á og bakið áfram í örfáar mínútur.
- Þegar pizzan kemur úr ofninum má pensla kantana strax með ólífuolíu með basilíku.
- Að lokum má setja klettasalat, kasjúhnetur, sólþurrkaða tómata og ferska basilíku yfir pizzurnar. Einnig er gott að hella smá ólífuolíu með basilíku yfir alla pizzuna.

Segi ekki annað en jum, jum, jum og mæli sannarlega með því að þið prófið pestópizzu í einhverri útfærslu á næsta pizzakvöldi!

Megið endilega fylgja Gotterí líka á INSTAGRAM