Matarmikil haustsúpa⌑ Samstarf ⌑
Matarmikil haustsúpa með risarækjum, hörpuskel, linguine og grænmeti

Það er svo notalegt að ylja sér í haustinu með heitri og bragðgóðri súpu. Ég dett í mikinn súpugír á haustin og geri alltaf nægilega stóran skammt til þess að hægt sé að eiga afgang daginn eftir fyrir okkur fjölskylduna því súpur eru flestar betri við upphitun daginn eftir.

Matarmikil haustsúpa með risarækjum, hörpuskel, linguine og grænmeti

Þessa súpu gerði ég hins vegar í vikunni fyrir „Hversdagsdinner“ en það er hefð sem við settum á í upphafi árs með vinum okkar þeim Kalla og Henný eftir að hafa hist allt of sjaldan árinu áður. Tíminn flýgur áfram í nútímasamfélagi og þegar helgar nálgast eru þær oft fullar af einhvers konar plani, æfingum og æfingamótum hjá börnunum, afmælum, einhverju vinnutengdu, fjölskyldutengdu eða öðrum viðburðum svo erfitt er að finna tíma sem hentar öllum fyrir hitting.

Við gerðum því með okkur sameiginlegt áramótaheit um að hittast 1 x í mánuði í „Hversdagsdinner“ þar sem við myndum skiptast á að bjóða í mat á virkum degi. Þá hittumst við beint eftir vinnu, enginn á að hafa sig til eða stressa sig á að hafa fínan mat, bara eitthvað fljótlegt og þægilegt og það er bannað að sitja lengur frameftir en til 21:30/22:00 til að börnin verði ekki ofurþreytt daginn eftir þegar það á að vakna í skólann! Sniðugt ráð er að hafa með náttföt fyrir þau yngstu svo ef þau sofna á heimleiðinni er hægt að bera þau beint inn í rúm.

Þetta er líklega besta ákvörðun sem við tókum í upphafi árs og höfum við staðið við þetta markmið að fullu fyrir utan júlímánuð þegar allir voru í sumarfríi á sitthvorum tíma um land allt. Þessi „úlfatími“ breytist því í skemmtilega vinastund þar sem börn leika og fullorðnir geta spjallað svo ég mæli 100% með því að þið prófið með vinafólki ykkar!

Matarmikil haustsúpa með risarækjum, hörpuskel, linguine og grænmeti

Ég mallaði í þessa súpu síðdegis og setti linguine og sjávarfang saman við hana rétt áður en til stóð að borða kvöldmatinn og bæði börn og fullorðnir voru hæstánægð með útkomuna.

Matarmikil haustsúpa með risarækjum, hörpuskel, linguine og grænmeti

Matarmikil haustsúpa

 • 2 pakkar af soðinni risarækju frá Sælkerafiski (2 x 300 g)
 • 1 pakki af risa hörpuskel frá Sælkerafiski (1 x 300 g)
 • 1 stk. laukur
 • 2 tsk. minched garlic frá Blue Dragon
 • 2 tsk. red curry paste frá Blue Dragon
 • 5 meðalstórar gulrætur
 • 2 rauðar paprikur
 • 1 dós Hunt‘s tómatpúrra (170 g)
 • 1 dós Hunt‘s niðurskornir tómatar (411 g)
 • 300 g Philadelphia rjómaostur (hreinn)
 • 100 g Philadelphia rjómaostur með chili
 • 500 ml rjómi
 • 500 ml grænmetissoð
 • 700 ml vatn
 • 250 g linguine pasta
 • Salt, pipar og kraftur eftir smekk
 • Filippo Berio ólífuolía til steikingar
 1. Saxið niður lauk, skerið gulrætur og paprikur í strimla og skolið rækjur og hörpuskel sem búið er að affrysta.
 2. Steikið laukinn í ólífuolíu í stórum potti, saltið og piprið og bætið red curry paste og minched garlic saman við.
 3. Næst fara gulrætur og paprikur í pottinn, hér má bæta við olíu, salta og pipra og leyfa aðeins að mýkjast.
 4. Þá má hræra tómatpúrrunni saman við grænmetið og síðan bæta niðursoðnum tómötum, rjómaostum, rjóma, soði og vatni saman við. Það er fínt að setja ekki allan vökvann strax og leyfa rjómaostunum að bráðna alveg, bæta síðan smá og smá meiri vökva saman við.
 5. Hér má súpan malla ef þið hafið tíma og þið kryddið hana til eftir smekk, annars er allt í lagi að fara strax í skref 6, bara það sem hentar ykkur þá stundina. Grunninn mætti þessvegna líka útbúa kvöldinu áður, geyma í ísskáp og síðan hita upp áður en linguine og sjávarfang er sett í súpuna.
 6. Þegar súpugrunnurinn er klár, má auka hitann aftur og setja linguine saman við og leyft að malla nokkrar mínútur (misjafnt eftir tegundum).
 7. Gott er að skera hörpuskelina niður í 4-6 bita hverja (eftir stærð) og bæta henni ásamt soðnu risarækjunum saman við þegar um 5 mínútur eru eftir af eldunartímanum.
Sælkerafiskur, risarækjur og hörpuskel

Þessi uppskrift dugði akkúrat fyrir okkur tíu, 4 fullorðin, 2 unglinga, 2 semi-unglinga og 2 litla gorma en við vorum líka með snittubrauð með sem meðlæti.

Matarmikil haustsúpa með risarækjum, hörpuskel, linguine og grænmeti

Megið endilega líka fylgja Gotterí á INSTAGRAM

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

Flokkar

0
  0
  Karfan þín
  Karfan er tómNetverslun