
Á veitingastöðum er oft hægt að fá krispí kjúklingalundir með hunangs-sinnepssósu. Mig langaði að prófa að útbúa svona heima og skoðaði alls konar hugmyndir á netinu. Það er ýmist hægt að baka eða olíusteikja kjúklinginn og síðan eru flestar uppskriftir af hunangs-sinnepssósu frekar svipaðar.

Ég datt inn á ofurgirnilega uppskrift hjá Natashas Kitchen en ég elska að fylgjast með henni. Hún er með mjög girnilegar uppskriftir, gerir skemmtileg video og ég mæli með þið skoðið síðuna hennar. Það sem mér finnst áhugavert við þessa uppskrift er marineringin sem kjúklingurinn var látinn í áður en honum er velt upp úr raspi og ég er handviss að gerði hér gæfumuninn, þetta var svoooooo gott! Ég breytti einhverju örlitlu eins og gengur og gerist þegar maður er í eldhúsinu og hér fyrir neðan kemur uppskriftin eins og ég útfærði hana.

Krispí kjúklingalundir með hungangs-sinnepssósu
Kjúklingur
- 2 pakkar kjúklingalundir (um 1,2 kg eða rúmlega 20 stk.)
- 160 g Hellmann‘s majónes
- 50 g dijon sinnep
- 30 g sætt sinnep
- 3 rifnir hvítlauksgeirar
- Salt og pipar eftir smekk
- 200 g ljóst brauðrasp
- 100 g Panko rasp
- 2 tsk. kjúklingakrydd
- Hitið ofninn í 220°C.
- Blandið saman majónesi, báðum tegundum af sinnepi og hvítlauk í skál. Kryddið til með salti og pipar.
- Setjið kjúklingalundirnar saman við majónesblönduna og veltið saman við þar til allar hliðar eru hjúpaðar majónesblöndu.
- Setjið þá báðar tegundir af raspi í skál og hrærið kjúklingakryddi saman við.
- Leggið nokkrar kjúklingalundir í senn í skálina og veltið upp úr raspi og raðið á bökunarpappír í bökunarskúffu með smá bil á milli (ég notaði 2 skúffur).
- Bakið í 18-20 mínútur eða þar til lundirnar fara að gyllast og eru eldaðar í gegn.
- Berið fram með hunangs-sinnepssósu (sjá uppskrift).
Hunangs-sinnepssósa
- 190 g Hellmann‘s majónes
- 50 g hunang
- 1 msk. dijon sinnep
- 1 msk. sætt sinnep
- 1 tsk. sítrónusafi
- Hrærið öllu saman í skál með písk, geymið í kæli fram að notkun.

Það tekur ekki langan tíma að útbúa þessa dásemd og gæti þetta verið forréttur, smáréttur eða aðalréttur, allt eftir því hvað hentar hverju sinni.

Megið endilega fylgja Gotterí líka á INSTAGRAM