
Vefjur hitta alltaf í mark á þessu heimili. Það er hægt að setja allt milli himins og jarðar á vefjur og hér er svipuð samsetning sem ég hef sett áður í hamborgarabrauð og lítil bollubrauð. Það passaði ótrúlega vel að setja rifið svínakjöt í BBQ í þessa mjúku vefju og allir voru ánægðir með kvöldmatinn þetta föstudagskvöldið.

Svínakjötið er hægeldað upp úr bjór sem gerir það að verkum að það verður einstaklega safaríkt og mjúkt.

BBQ vefjur með rifnu svínakjöti
Uppskrift dugar í um 10 vefjur
- Hægeldað svínakjöt í BBQ (sjá uppskrift)
- Hrásalat (sjá uppskrift)
- Salat
- Rauðlaukur
- Kóríander
- Um 10 stk. Mission Wrap vefjur með grillrönd
- Sætkartöflu-franskar (meðlæti)
- Hitið vefjurnar á pönnu eða í álpappír í ofni.
- Raðið öllu saman í vefjuna eftir smekk og berið fram með sætkartöflu-frönskum.
Hægeldað svínakjöt
- Um 1,5 kg svínahnakki
- 1 msk. season all krydd/svínakjötskrydd
- 50 g púðursykur
- 1 msk. salt
- 1 tsk. hvítlauksduft
- ½ tsk. pipar
- 3 msk. ólífuolía
- 1 flaska Stella Artois bjór (330 ml)
- 250 ml vatn
- 1 msk. kjötkraftur
- ½ flaska Sweet BBQ sósa frá Heinz
- Hitið ofninn í 150°C.
- Nuddið season all kryddi/svínakjötskryddi á svínahnakkann og setjið í stóran pott með loki sem má fara í ofninn.
- Hrærið púðursykri, öðrum kryddum, ólífuolíu, bjór, vatni og kjötkrafti saman í skál og hellið yfir kjötið í pottinum.
- Setjið lokið á pottinn og inn í ofn í 5-6 klukkustundir, gott er að snúa kjötinu 2-3 x á meðan svo allar hliðar fái að liggja í vökvanum.
- Þegar kjötið er tilbúið má rífa það niður með göfflum, setja í skál, hella því sem eftir er af soðinu í pottinum yfir og bæta BBQ sósunni við. Hægt er að setja meira eða minna af BBQ sósunni eftir smekk.
Hrásalat
- Um 200 g hvítkál (skorið í þunna strimla)
- Um 70 g rauðkál (skorið í þunna strimla)
- Um 70 g gulrætur (skornar í þunna strimla)
- 100 g sýrður rjómi
- 80 g majónes
- 1 tsk. hvítvínsedik
- 1 msk. sykur
- Salt, pipar og hvítlauksduft eftir smekk
- Hrærið saman majónesi, sýrðum rjóma, ediki og sykri, kryddið eftir smekk.
- Hrærið síðan öllu saman í skál og geymið í kæli fram að notkun.

Vefjurnar frá Mission Wraps eru einstaklega mjúkar og þessar með grillröndinni henta afar vel fyrir vefjur sem þessar.

Mmmmm þetta er svo gott!

Vefjur, sætkartöflu-franskar og „einn kaldur“ er fullkomin þrenna.

Megið endilega fylgja Gotterí líka á INSTAGRAM