
„Mac & Cheese“ er eitthvað sem var til út um allt þegar við bjuggum í Bandaríkjunum. Ætli þessi réttur sé ekki pínu eins og grjónagrautur á Íslandi, eitthvað einfalt sem allir elska, hahaha!

Hér er ég búin að útbúa smá lúxus útgáfu af þessum rétti með því að setja beikon, brauðrasp og ost ofan á til þess að fá stökkt og bragðgott yfirborð. Þetta var frábærlega einfalt og gott og ekki skemmir fyrir að gæða sér á dýrindis mat úr fallegu eldföstu móti. Ég elska Le Creuset eldföstu mótin mín og nota þau við hvert tækifæri.
Þau eru akkúrat á nettilboði þessa dagana hjá Byggt & búið og mæli ég sko sannarlega með því að þið nýtið ykkur þetta dúndurgóða tilboð! Bæði þessi svörtu og rauðu eru á góðum afslætti og tilvalið að fjárfesta í fallegheitum fyrir heimilið eða klára jólagjafainnkaupin snemma!

Lúxus „Mac & Cheese“
- 500 g makkarónupasta
- 50 g smjör
- 50 g hveiti
- 700 ml nýmjólk
- 100 g rifinn cheddar ostur
- 50 g rifinn parmesan ostur
- 50 g rifinn gouda ostur
- 140 ml rjómi
- 300 g stökkt, mulið beikon
- 30 g brauðrasp
- 30 g Panko brauðrasp
- 30 g rifinn cheddar ostur
- 30 g rifinn gouda ostur
- Salt, pipar, hvítlauksduft og ferskt timian
- Sjóðið pastað samkvæmt leiðbeiningum á pakka og eldið beikonið þar til það er stökkt.
- Bræðið smjörið við meðalháan hita og hrærið þá hveitið saman við þar til úr verður „smjörbolla“.
- Hellið mjólkinni varlega saman við smjörbolluna og hrærið stanslaust í á meðan.
- Næst fara allar tegundir af ostum í pottinn og hrært er þar til hann er bráðinn, þá má bæta rjómanum saman við og krydda eftir smekk.
- Sósunni er þá hellt yfir pastað (sem búið er að sigta vatnið frá) og sett í eldfast mót.
- Næst má blanda saman muldu beikoni, brauðraspi og ostum og strá yfir pastað og baka í 180° heitum ofni í um 15 mínútur og stráið smá fersku timian yfir þegar það kemur úr ofninum.

Ef þið eruð á hraðferð má að sjálfsögðu sleppa beikon-brauðraspinu og skella bara smá osti yfir og inn í ofn, þá er þetta klassískt „Mac & Cheese“ eins og það gerist best.
Megið endilega fylgja Gotterí líka á INSTAGRAM