Bókaævintýrið mittNú eru um tveir mánuðir liðnir síðan elsku besta bókin mín, Saumaklúbburinn kom til landsins. Það má sannarlega segja að bókin hafi átt hug minn allan það sem af er 2020 og mun eflaust fylgja mér árið á enda. Þetta er búið að vera skrítið ár að mörgu leyti og það hefði sannarlega verið auðvelt að bakka út og hætta hreinlega við á vormánuðum þegar Covid læddist að okkur með öllu sem því fylgdi. Ég er hins vegar lítið fyrir það að gefast upp þegar ég hef tekið mér eitthvað fyrir hendur í lífinu og vildi fylgja þessari hugmynd allt til enda, sama hvað!

Mig langaði því til að setja hingað inn söguna af þessu bókaævintýri mínu til þess að þið getið skyggnst inn í slíkt ferli og vonandi haft gagn og gaman af. Ég hugsa að oftast komi töluvert fleiri aðilar að útgáfu einnar bókar en er í þessu tilfelli en þetta sýnir sannarlega fram á það, að allt er hægt ef viljinn er fyrir hendi!

Þarna er ég, alltaf með hausinn fullan af hugmyndum og aldrei friður, þannig er ég og hef alltaf verið! Vildi stundum alveg geta slökkt, eða bara aðeins ýtt á pásu en það virkar víst ekki alveg þannig.

Hugmyndin að Saumaklúbbnum var komin í kollinn á mér áður en ég náði að klára Veislubókina mína yndislegu í fyrra. Það er alls ekki vegna þess að það sé svona auðvelt að skrifa matreiðslubók með öllu því sem henni fylgir, langt því frá! Það er bara eitthvað ósýnilegt sem drífur mann áfram og löngunin til að miðla, koma hugmyndum sínum á prent, fá bókina sína í hendurnar, sjá hana í hillum á sölustöðum, sjá fólk nota hana og vera ánægt….og, og, og……sem fær mann til að halda áfram.

Þegar árið 2020 gekk í garð var ég því til í slaginn, skrifaði spennt niður drög af bók, uppskriftum, útliti, köflum og skipulagði þetta verkefni út í gegn, vitandi ekkert hvað 2020 ætti eftir að færa okkur. Það sem ég vissi hins vegar og vildi prófa var að sjá um ALLT sjálf. Ég var höfundur og ljósmyndari í síðustu bók, því ekki að spreyta sig við umbrot, hönnun og útgáfu þetta skiptið? Ég horfi að minnsta kosti á lífið sem skóla og að það sé aldrei of seint að læra og prófa eitthvað nýtt!

Ég sá að ég þyrfti að læra á umbrotsforrit og láta prenta bók, ég meina hvað gat verið svona flókið við það, hahaha! Ég skráði mig því í nám í grafískri hönnun hjá NTV og hafði samband við erlendar sem og innlendar prentsmiðjur í leit að tilboðum eftir að hafa fengið góð ráð hjá fólki með reynslu.

Auðveldasti parturinn af öllu ferlinu fannst mér að þróa, elda og mynda gómsætar uppskriftir því það er það sem ég kann vel. Það er þó gríðarlega tímafrek vinna og hvað þá fyrir 100+ uppskriftir svo ég ætla alls ekki að gera lítið úr þeim hluta! Það er bara þannig að allt sem maður kann að það er auðveldara en það sem maður kann ekki.

Uppskriftir í bók

Síðan þurfti ég að plata nokkrar vinkonur mínar til þess að taka þátt í þessu verkefni með mér þar sem mig langaði að hafa einn kafla í bókinni með fullbúnum saumaklúbbum í mismunandi umhverfi. Þær eru auðvitað algjörir demantar að hafa hoppað á vagninn með mér og er einn af sex köflum í bókinni tileinkaður þeim.

Saumaklúbbar matur

Svo kom COVID…………og öll plön og áætlanir fuku út um gluggann. Allt í einu þurfti ég að verða „framhaldsskóla- grunnskóla- og leikskólakennari“ og halda dætrum mínum uppteknum allan daginn með lærdómi, tómstundum, gönguferðum, heitapottsferðum og almennri gleði um leið og það mátti ekki hitta neinn, fá neina pössun né annað slíkt.

Það að þróa uppskriftir, elda og mynda var því ekki einu sinni lengur auðvelt. Hvað þá að mæta í skólann, í fjarnámi til þess að læra á alls konar ný forrit og gera verkefni.

Grafísk hönnun

Það var því ansi mikið um kvöld- og helgarvinnu þessa mánuði og mikið sem það var gott þegar það rofaði til að nýju! Loksins gat ég klárað allar uppskriftir og farið í heimsóknir til að taka upp restina af saumaklúbbunum!

Saumaklúbbar

Það var offramleiðsla af mat og sætindum á heimilinu undir lokin og nutu nágrannarnir góðs af því. Matarsendingar voru skildar eftir fyrir utan dyrnar til að gleðja á skrítnum tímum. Næst kláraði ég að vinna allar myndirnar fyrir bókina og gera allt tilbúið fyrir umbrot.

Matur, kökur, uppskriftir og alls konar

Forsíðumyndina átti ég hins vegar eftir að taka. Ég var búin að sjá hana fyrir mér á ákveðinn hátt og þurfti að bjóða nokkrum heim til þess að geta klárað hana eins og ég vildi. Því beið hún þar til í júní en á meðan var ég auðvitað á fullu að klára innihald bókarinnar.

Ostaveisla

Svona hafði ég séð þetta fyrir mér og ég tók alveg „nokkrar“ myndir þennan daginn get ég sagt ykkur! Þökk sé góðum vinum var komið upp risa stillans í miðri borðstofu hjá okkur til þess að ég gæti myndað fallegheitin eins og best yrði á kosið. Já, ég er ekki alltaf að finna auðveldustu leiðina að hlutunum en þetta var eitthvað sem ég sá að myndi virka fyrir mig þar sem ég er auðvitað bara ein, með tvær hendur!

Nokkrar vinkonur komu síðan í heimsókn til þess að vera handamódel og fengu að smakka þetta dásamlega ostahlaðborð. Uppskriftir og framsetning forsíðunnar laumaði sér síðan í Ostagóðgætiskaflann í bókinni svo nú ætti að vera leikur einn fyrir ykkur að útbúa svona góðgæti.

Saumaklúbburinn uppskriftir

Þegar forsíðumyndin var klár tók við lokaferlið fyrir prent. Steini, kennarinn minn í NTV er engum líkur og kenndi hann mér á allt sem uppá vantaði þegar á þurfti að halda. Bókin fór hins vegar í prent kortér í sumarfrí hjá okkur fjölskyldunni og mikið sem það var dásamleg tilfinning!

Við flökkuðum því um landið í tæpar tvær vikur og nutum þess að ferðast inn á milli „haustlægða“ um mitt sumar. Í miðju fríi sat ég þó inn á hóteli á Vestfjörðum með tölvuna í annarri hendi og Steina í símanum í hinni þegar upp komu hnökrar varðandi framsetningu forsíðunnar fyrir prent…….en það leystist nú sem betur fer og áfram hélt fríið, hihi!

Næst á dagskrá var að setja upp netverslun áður en bókin myndi mæta á svæðið. Ég veit ekki hvar ég væri án Heiðu mágkonu minnar en hún er tölvusnillingurinn á bakvið allar breytingar á heimasíðunni minni. Ég tók því myndir fyrir netverslun eftir að hafa ákveðið hvað skyldi selt með bókinni þegar sýnieintökin af henni voru komin til landsins. Í framhaldinu kenndi Heiða mér allt um það hvernig ég ætti að setja vörur þangað inn og aðra praktíska þætti sem netversluninni tengjast.

Saumaklúbburinn sölustaðir

Svo mættu bækurnar hingað í bílskúrinn í lok ágúst! En hvað átti síðan að gera við allar þessar bækur?

Verkefnastjórinn sjálfur þurfti nú að bretta aftur upp ermar eftir stutta pásu og hafa samband við söluaðila, verðleggja bókina, útbúa afhendingarseðla og allt sem bókaúgáfur sjá víst um. Hér tók því við næsti kafli í verkefninu og enn á ný var ýmislegt margt nýtt að læra.

Sölumál gengu vonum framar, allir sölustaðir voru dásamlegir við mig, tóku bókinni fagnandi, hún fékk víða frábæra framsetningu og allir voru tilbúnir að gera svo margt fallegt og skemmtilegt með mér. Mikið sem það var yndislegt og dýrmætt!

Næst tók síðan fjölmiðlafárið við! Umfjallanir birtust í hinum og þessum fjölmiðlum, ég fór í útvarpsviðtöl, alls konar blöð, tímarit, netmiðla og sjónvarp.

Stefnan var síðan alltaf að halda útgáfuhóf með haustinu en ég ákvað hins vegar að byrja á því að þakka vinkonum mínum fyrir að taka þátt í bókinni með mér og bauð þeim heim í smá þakkarveislu. Ég vissi ekki á þeim tíma að Covid myndi skella á aftur viku síðar og ekkert formlegt útgáfuhóf væri í kortunum lengur. Ég leyfi mér því að kalla þetta litla boð okkar útgáfuhóf og er ég þakklát fyrir þessa gleðistund!

Saumaklúbbur veitingar og bókaútgáfa

Nú geisar Covid á ný að fullum krafti og drottinn minn hvað ég vona heimurinn fari að ná tökum á þessum óboðna, hættulega og ósýnilega gesti!

Eina sem ég get verið sátt með er að hafa gert uppskriftarbók, með fjölbreyttum uppskriftum sem gagnast svo sannarlega vel á tímum sem þessum. Það er ómetanlegt en elda og baka ljúffengan mat með fólkinu sínu þegar lítið annað má gera. Það er því mín ósk að það kokkist upp úr þessu ástandi öllu saman gómsætar gæðastundir með þeim sem ykkur þykir vænt um!

Sögunni er að sjálfsögðu ekki alveg lokið! Við skulum sjá hvort það verði ekki einhverju við þessa færslu að bæta á næstu tveimur mánuðum þar sem bókaævintýrið heldur að sjálfsögðu áfram…..

Knús til ykkar allra sem lásuð þessa persónulegu færslu allt til enda og vonandi höfðuð þið gaman að!

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

Flokkar

0
    0
    Karfan þín
    Karfan er tómNetverslun