Þennan einfalda og bragðgóða súkkulaðisjeik höfum við fjölskyldan gert í mörg herrans ár.
Þessi uppskrift er eins einföld og hún getur verið og geta kátir krakkar vel útbúið þennan drykk, dætrum mínum finnst í það minnsta mjög skemmtilegt að sjá um þennan hluta „kósýkvöldanna“ svo það er um að gera að leyfa börnunum að spreyta sig. Ekki skemmir fyrir að það tekur aðeins nokkrar mínútur að útbúa drykkinn.
Súkkulaðisjeik
1 líter vanilluís (okkur þykir best að nota Bónusísinn í þennan sjeik því hann er ekki eins rjómakenndur og margir)
1- 2 bollar nýmjólk (fer eftir þykkt, byrjið með 1 bolla og setjið svo meira ef þið viljið hann þynnri – líka í lagi að nota aðra mjólk eins og léttmjólk)
3/4 bolli Nesquick kakómalt (megið að sjálfsögðu setja meira/minna eftir því hversu bragðsterkan þið viljið hafa hann)
Skafið ísinn úr boxinu með skeið í nokkrum hlutum og setjið eins og 1/2 líter í hrærivélarskálina til að byrja með, bætið þá um helmingnum af mjólkinni saman við og hrærið rólega í stutta stund, bætið svo við restinni af ísnum og mjólkinni. Kakóduftið fer útí að lokum og hrærið þetta rólega þar til slétt og fínt, ekki hræra of hratt því þá kemur stundum of mikið „loft“ í ísinn, bara rólega og skafið niður á milli. Hér er líka allt í lagi að nota handþeytara, ef þið notið blandara getur hann orðið örlítið loftkenndari eins og ég talaði um hér að ofan.
Hellið í glös, setjið rör í og njótið 🙂
Góða helgi!
2 Replies to “Súkkulaðisjeik”